Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gefðu gaum að spádómsorði Guðs um okkar daga

Gefðu gaum að spádómsorði Guðs um okkar daga

Gefðu gaum að spádómsorði Guðs um okkar daga

„Gef gætur að, þú mannsson, því að sýnin á við tíð endalokanna.“ — DANÍEL 8:17.

1. Hvað vill Jehóva að allir menn viti um nútímann?

JEHÓVA liggur ekki á þekkingunni um ókomna atburði heldur opinberar leynda hluti. Reyndar vill hann að allt mannkyn viti að það er langt liðið á tíma endalokanna. Þetta eru mikilvæg tíðindi fyrir þá sex milljarða sem byggja jörðina.

2. Af hverju hefur fólk áhyggjur af framtíðinni?

2 Er það nokkur furða að þessi heimur skuli vera á enda kominn? Menn geta gengið á tunglinu en ekki rölt óttalaust um götur á jörðu niðri. Menn geta búið heimili sín alls konar tækjum en gengur æ verr að halda fjölskyldunni saman. Og maðurinn bjó til upplýsingaþjóðfélagið en hann getur ekki kennt fólki að búa saman í sátt og samlyndi. Þetta styður hin sterku biblíurök fyrir því að við lifum á endalokatímanum.

3. Hvenær voru orðin ‚tíð endalokanna‘ fyrst notuð?

3 Það var engillinn Gabríel sem fyrstur sagði þessi sláandi orð — ‚tími (eða tíð) endalokanna‘ — fyrir 2600 árum. Skelfdur spámaður Guðs heyrði engilinn segja: „Gef gætur að, þú mannsson, því að sýnin á við tíð endalokanna.“ — Daníel 8:17.

Þetta er „tíð endalokanna“

4. Hvað annað kallar Biblían endalokatímann?

4 Orðalagið „tíð endalokanna,“ „endalokin,“ „hinn ákveðni tími,“ „þegar að endalokunum líður“ og „endirinn“ kemur sex sinnum fyrir í Daníelsbók og vísar til hinna ‚síðustu daga‘ sem Páll postuli boðaði. (Daníel 8:17, 19; 11:35, 40; 12:4, 9; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Jesús Kristur talaði um sama tímabil og kallaði það ‚nærveru‘ sína sem krýndur konungur á himni. — Matteus 24:37-39.

5, 6. Hverjir hafa ‚rannsakað bókina‘ á endalokatímanum og með hvaða árangri?

5 „En þú, Daníel, halt þú þessum orðum leyndum og innsigla bókina, þar til er að endalokunum líður,“ segir í Daníel 12:4. „Margir munu rannsaka hana, og þekkingin mun vaxa.“ Margt af því sem Daníel skrifaði var leyndardómur og innsiglað skilningi manna um aldaraðir. En hvað um nútímann?

6 Núna á endalokatímanum hafa margir sannkristnir menn ‚rannsakað‘ orð Guðs, Biblíuna, og með blessun hans hefur þekkingin vaxið til muna. Til dæmis hafa smurðir vottar Jehóva skilið að Jesús Kristur varð konungur á himnum árið 1914. Smurðir þjónar Guðs og dyggir félagar þeirra ‚gefa gaum að spádómsorðinu‘ í samræmi við orð postulans í 2. Pétursbréfi 1:19-21 og eru algerlega sannfærðir um að tími endalokanna sé runninn upp.

7. Nefndu nokkrar af hinum einstæðu frásögum Daníelsbókar.

7 Daníelsbók er einstök fyrir margra hluta sakir. Hún segir frá konungi sem hótar að lífláta vitringa sína af því að þeir geta hvorki birt né ráðið torskilinn draum sem hann hefur dreymt, en spámaður Guðs leysir gátuna. Þrír ungir menn neita að tilbiðja himinhátt líkneski. Þeim er kastað í ofurheitan eldsofn en sviðna ekki einu sinni. Í miklum gleðskap sjá hundruð manna birtast hönd sem skrifar dularfull orð á hallarvegg. Illir samsærismenn láta kasta öldruðum manni í ljónagryfju en hann kemst þaðan heill á húfi. Fjögur dýr birtast í sýn. Spádómleg merking þeirra nær allt fram á tíma endalokanna.

8, 9. Hvaða gagn getum við haft af Daníelsbók, einkum núna á endalokatímanum?

8 Ljóst er að tveir mjög ólíkir þræðir liggja gegnum Daníelsbók. Annar er sögulegur, hinn spádómlegur en báðir eru trústyrkjandi. Sögukaflarnir sýna að Jehóva Guð blessar ráðvanda menn. Spádómskaflarnir styrkja trúna með því að sýna fram á að Jehóva þekkir gang sögunnar aldir eða jafnvel aldatugi fram í tímann.

9 Ýmsir spádómar Daníels beina athyglinni að Guðsríki. Með því að ígrunda uppfyllingu þeirra styrkjum við trú okkar og sannfæringu um að við lifum á endalokatímanum. En sumir ráðast harkalega á Daníelsbók og segja að spádómar hennar hafi í raun réttri verið ritaðir eftir atburðina sem virtust uppfylla þá. Ef ádeilurnar eiga við rök að styðjast vekur það óneitanlega alvarlegar efasemdir um það sem Daníelsbók boðar varðandi endalokatímann. Efunarmenn véfengja einnig söguþráð bókarinnar. Við skulum því líta nánar á málið.

Dregin fyrir rétt

10. Í hvaða skilningi er Daníelsbók fyrir rétti?

10 Ímyndaðu þér að þú sért staddur í réttarsal. Sækjandi sakar ákærða um fölsun. Daníelsbók heldur því fram að hún sé ósvikið verk hebresks spámanns á sjöundu og sjöttu öld f.o.t. Gagnrýnendur staðhæfa að bókin sé fölsuð. Byrjum á því að kanna hvort söguþráður bókarinnar kemur heim og saman við sögulegar staðreyndir.

11, 12. Hvernig fór fyrir þeirri ásökun að Belsasar væri skáldaður?

11 Við skulum skoða týnda einvaldinn sem svo mætti kalla. Fimmti kafli Daníelsbókar segir að Belsasar hafi verið konungur Babýlonar þegar borgin féll árið 539 f.o.t. Gagnrýnendur gripu það á lofti því að Biblían var eina heimildin um nafnið Belsasar. Fornir sagnaritarar sögðu Nabónídus hafa verið síðasta konung Babýlonar.

12 Árið 1854 fundust hins vegar nokkur lítil leirkefli í rústum forn-babýlonsku borgarinnar Úr þar sem nú er Suður-Írak. Á þessum fleygrúnakeflum er meðal annars bæn Nabónídusar konungs fyrir „Bel-sar-ussur, elsta syni mínum.“ Jafnvel gagnrýnismenn urðu að viðurkenna að þarna væri Belsasar Daníelsbókar fundinn. Týndi einvaldurinn var ekki týndur þegar allt kom til alls; hann hafði bara ekki verið kunnur í veraldlegum heimildum. Þetta er aðeins ein af mörgum sönnunum þess að bók Daníels sé ósvikin, og þær sýna að Daníelsbók tilheyrir svo sannarlega spádómsorði Guðs og verðskuldar gaumgæfilega athugun okkar núna á endalokatimanum.

13, 14. Hver var Nebúkadnesar og hvaða falsguð dýrkaði hann öðrum fremur?

13 Spádómum um göngu heimsveldanna og athafnir sumra valdhafa þeirra er fléttað inn í Daníelsbók. Einn þeirra gæti kallast herkonungur sem byggði upp heimsveldi. Hann er krónprins Babýlonar þegar hann og her hans gersigra her Nekós, faraós Egyptalands, við Karkemis. En boð að heiman valda því að hinn sigursæli prins lætur hershöfðingja sína um að fylgja sigrinum eftir. Hinum unga Nebúkadnesar berast þau tíðindi að Nabópólassar faðir hans sé dáinn, og hann tekur við konungdómi árið 624 f.o.t. Heimsveldið, sem hann byggir upp á 43 ára stjórnarferli, nær yfir svæði er áður tilheyrðu Assýríu, og hann leggur undir sig Sýrland og Palestínu allt suður að landamærum Egyptalands.

14 Trúrækni Nebúkadnesars beindist einkum að Mardúk, æðsta guði Babýlonar sem hann þakkar alla sigra sína. Hann reisti Mardúk og fleiri guðdómum fögur musteri í Babýlon. Vera má að gulllíkneskið, sem hann lét reisa í Dúradal, hafi verið helgað Mardúk. (Daníel 3:1, 2) Og Nebúkadnesar virðist hafa skipulagt hernaðaraðgerðir mjög eftir spásögnum.

15, 16. Hvaða framkvæmdum stóð Nebúkadnesar fyrir í Babýlon og hvað gerðist þegar hann gortaði af borginni?

15 Nebúkadnesar lauk við hina miklu, tvöföldu múra sem faðir hans hafði byrjað að reisa, og höfuðborgin virtist óvinnandi. Drottning hans var frá Medíu og saknaði hæðanna og skóganna heima fyrir. Sagt er að Nebúkadnesar hafi þá gert handa henni hengigarðana sem kallaðir voru eitt af sjö undrum veraldar að fornu. Hann gerði Babýlon að mestu, múrgirtu borg síns tíma. Og stoltur var hann af þessari falstrúarmiðstöð.

16 Dag einn sagði hann digurbarkalega: „Er þetta ekki sú hin mikla Babýlon, sem ég hefi reist?“ En að sögn Daníels 4:31-33 voru ‚þessi orð ekki liðin af vörum konungs‘ er hann missti vitið. Hann var ófær um að stjórna ríkinu í sjö ár og át gras eins og Daníel hafði spáð. Að þeim tíma liðnum tók hann aftur við völdum. Skilurðu spádómlega þýðingu þessa? Geturðu útskýrt hvernig aðaluppfylling þess nær allt til ‚tíma endalokanna‘?

Spádómlegu þræðirnir

17. Lýstu hinum spádómlega draumi sem Guð lét Nebúkadnesar dreyma á öðru stjórnarári sínu.

17 Lítum nú á nokkra spádómlega þræði Daníelsbókar. Annað árið, sem Nebúkadnesar var heimsstjórnandi samkvæmt biblíuspádómunum (606/605 f.o.t.), lét Guð hann dreyma draum sem skelfdi hann. Samkvæmt 2. kafla Daníelsbókar dreymdi hann risalíkneski með höfuð úr gulli, brjóst og armleggi úr silfri, kvið og lendar úr eiri, fótleggi úr járni og fætur úr leirblönduðu járni. Hvað táknuðu hinir mismunandi hlutar líkneskisins?

18. Hvað táknaði gullhöfuð líkneskisins, silfurbrjóstið og handleggirnir og eirkviðurinn og lendarnar?

18 Spámaðurinn sagði Nebúkadnesar: „Þú, konungur, . . . þú ert gullhöfuðið.“ (Daníel 2:37, 38) Nebúkadnesar var höfuð konungsættarinnar sem stjórnaði babýlonska heimsveldinu. Það féll fyrir Medíu-Persíu sem silfurbrjóst og armleggir líkneskisins táknuðu. Síðan kom gríska heimsveldið, táknað með kviði og lendum úr eiri. Hvernig varð þetta heimsveldi til?

19, 20. Hver var Alexander mikli og hvernig gerði hann Grikkland að heimsveldi?

19 Ungur maður á fjórðu öld gegndi mikilvægu hlutverki í uppfyllingu spádóms Daníels. Hann fæddist árið 356 f.o.t. og er nú kallaður Alexander mikli. Hann erfði hásæti Makedóníu tvítugur að aldri þegar Filippos faðir hans var ráðinn af dögum árið 336 f.o.t.

20 Alexander lagðist í landvinninga snemma í maí árið 334 f.o.t. Hann réð yfir 30.000 fótgönguliðum og 5000 riddaraliðsmönnum. Þetta var smár her en knár. Hann vann fyrsta sigurinn á Persum sama ár við ána Graníkos í norðvestanverðri Litlu-Asíu (þar sem nú er Tyrkland). Árið 326 f.o.t. var þessi vægðarlausi landvinningamaður búinn að sigra Persa og kominn allt austur til Indusar þar sem nú er Pakistan. En Alexander tapaði síðustu orustunni í Babýlon. Hinn 13. júní árið 323 f.o.t. laut hann í lægra haldi fyrir öflugasta óvininum, dauðanum. (1. Korintubréf 15:55) Hann var aðeins 32 ára og 8 mánaða. En með sigurvinningum sínum gerði hann Grikkland að heimsveldi eins og boðað var í spádómi Daníels.

21. Hvaða annað heimsveldi en Róm táknuðu járnfætur líkneskisins?

21 Járnfótleggir risalíkneskisins táknuðu Rómaveldi sem var hart eins og járn og molaði gríska heimsveldið. Það virti einskis Guðsríkið sem Jesús Kristur boðaði og tók hann af lífi á kvalastaur árið 33. Róm freistaði þess að berja niður sanna kristni og ofsótti lærisveina Jesú. En járnfætur líkneskisins í draumi Nebúkadnesars tákna ekki aðeins Rómaveldi heldur einnig pólitískan afkomanda þess, ensk-ameríska heimsveldið.

22. Hvernig sýnir líkneskið að langt er liðið á endalokatímann?

22 Nákvæm athugun sannar að langt er liðið á endalokatímann því að nú er komið að járn- og leirfótum líkneskisins. Sumar stjórnir okkar daga eru ráðríkar og járnharðar en aðrar eins og leir. Þó svo að leirinn, sem ‚niðjar mannkyns‘ eru gerðir úr, sé brotgjarn eru hinar járnhörðu stjórnir tilneyddar að leyfa almenningi að hafa einhver áhrif á þau stjórnvöld sem hann hefur yfir sér. (Daníel 2:43, NW; Jobsbók 10:9) En ráðrík stjórnvöld og almenningur tolla jafnilla saman og járn og leir. Ríki Guðs bindur bráðlega enda á þennan sundraða heim. — Daníel 2:44.

23. Lýstu sýnunum sem Daníel sá í draumi á fyrsta stjórnarári Belsasars.

23 Sjöundi kafli þessarar hrífandi spádómsbókar fjallar líka um endalokatímann. Kaflinn greinir frá atburðum sem áttu sér stað á fyrsta stjórnarári Belsasars konungs í Babýlon. Daníel er kominn á áttræðisaldur þegar hann dreymir ‚draum, og sýnir ber fyrir hann í rekkju hans.‘ Og sýnirnar skelfa hann. „Ég sá í sýn minni á næturþeli, hversu þeir fjórir vindar himinsins rótuðu upp hinu mikla hafi,“ segir hann. „Og fjögur stór dýr stigu upp af hafinu, hvert öðru ólíkt.“ (Daníel 7:1-8, 15) Þetta voru undarleg dýr. Hið fyrsta er vængjað ljón, annað líkist bjarndýri og síðan kemur pardusdýr með fjóra vængi og fjögur höfuð! Fjórða dýrið er óvenjusterkt og með stórar járntennur og tíu horn. Á milli hornanna tíu sprettur svo upp lítið horn með „augu eins og mannsaugu, og munn, sem talaði gífuryrði.“ Kynleg dýr þetta!

24. Hvað sér Daníel á himnum í 7. kafla og á hvað bendir sýnin?

24 Sjónarsviðið flyst nú til himna. (Daníel 7:9-14) „Hinn aldraði,“ sem er Jehóva, situr dýrlegur í hásæti sem dómari. ‚Þúsundir þúsunda þjóna honum og tíþúsundir tíþúsunda standa frammi fyrir honum.‘ Hann dæmir dýrin, sviptir þau völdum og eyðir því fjórða. ‚Einhverjum sem mannssyni líkist‘ er fengið varanlegt stjórnvald yfir ‚lýðum, þjóðum og tungum.‘ Þetta vísar til endalokatímans og krýningar Mannssonarins, Jesú Krists, árið 1914.

25, 26. Hvaða spurningar kunna að vakna við lestur Daníelsbókar og hvaða bók getur bent á svörin?

25 Ýmsar spurningar vakna við lestur Daníelsbókar. Hvað tákna dýrin fjögur í 7. kafla bókarinnar? Hver er skýringin á messíasarspádóminum um ‚vikurnar sjötíu‘ í Daníel 9:24-27? Hvað um 11. kafla bókarinnar og hin spádómlegu átök ‚konunganna norður frá og suður frá‘? Hvers megum við vænta af þessum konungum núna á endalokatímanum?

26 Jehóva hefur veitt smurðum þjónum sínum á jörðinni innsýn í þessi mál, en þeir eru í Daníel 7:18 kallaðir ‚heilagur lýður hins hæsta.‘ Og hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur gert ráðstafanir til að við getum fengið nánari innsýn í hina innblásnu bók spámannsins Daníels. (Matteus 24:45) Gefin hefur verið út bók sem nefnist Gefðu gaum að spádómi Daníelsbókar. Bókin er 320 blaðsíður, fallega myndskreytt og fer yfir Daníelsbók frá upphafi til enda. Hún fjallar um alla hina trústyrkjandi spádóma Daníelsbókar og hverja einustu frásögu sem spámaðurinn færði í letur.

Nútímaþýðing

27, 28. (a) Hvað er ljóst varðandi uppfyllingu spádómanna í Daníelsbók? (b) Á hvaða tímum erum við uppi og hvað ættum við að gera?

27 Eitt er mikilvægt að hafa hugfast: Allir spádómar Daníelsbókar hafa ræst ef frá eru talin nokkur atriði. Til dæmis blasir við það heimsástand sem fætur líkneskisins í draumnum tákna og sagt er frá í 2. kafla Daníelsbókar. Trjástofninn í 4. kafla bókarinnar var leystur úr fjötrum þegar Guðsríki var stofnsett á himnum árið 1914. Eins og spáð var í 7. kafla bókarinnar fékk hinn aldraði mannsyninum stjórnina í hendur á þeim tíma. — Daníel 7:13, 14; Matteus 16:27–17:9.

28 Hinir 2300 dagar í 8. kafla bókarinnar og dagarnir 1290 og 1335 í 12. kaflanum eru allir liðnir. Rannsókn á 11. kaflanum sýnir að átök konunganna norður frá og suður frá eru komin á lokastig. Allt eru þetta lóð á þær vogarskálar að langt sé liðið á ‚tíma endalokanna.‘ Við ættum að gefa nákvæman gaum að spádómsorði Jehóva Guðs í ljósi þess að við stöndum á einstæðum punkti í straumelfu tímans.

Hvert er svarið?

• Hvað vill Guð að allir viti um okkar daga?

• Hvernig getur Daníelsbók styrkt trú okkar?

• Lýstu líkneskinu sem Nebúkadnesar sá í draumnum. Hvað táknaði það?

• Hvað er eftirtektarvert í sambandi við uppfyllingu spádómanna í Daníelsbók?

[Spurningar]