Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Láttu ekki ‚hjálpræðisvonina‘ dofna!

Láttu ekki ‚hjálpræðisvonina‘ dofna!

Láttu ekki ‚hjálpræðisvonina‘ dofna!

„Klæddir . . . von hjálpræðis sem hjálmi.“ — 1. ÞESSALONÍKUBRÉF 5:8.

1. Hvernig gerir ‚hjálpræðisvonin‘ mönnum kleift að halda út?

BJÖRGUNARVONIN getur hjálpað manni að þrauka við erfiðustu aðstæður. Skipbrotsmaður í gúmbjörgunarbáti heldur út miklu lengur ef hann veit að hjálpin er á næsta leiti. Í árþúsundir hefur vonin um ‚hjálpræði Jehóva‘ haldið uppi körlum og konum trúarinnar á erfiðleikatímum og aldrei valdið vonbrigðum. (2. Mósebók 14:13; Sálmur 3:9; Rómverjabréfið 5:5; 9:33) Páll postuli líkti ‚hjálpræðisvoninni‘ við ‚hjálm‘ sem er hluti af andlegum herklæðum kristins manns. (1. Þessaloníkubréf 5:8; Efesusbréfið 6:17) Já, sannfæring um björgunarmátt Guðs verndar hugann og hjálpar okkur að sýna skynsemi þrátt fyrir mótlæti, ofsókn og freistingu.

2. Á hvaða vegu er ‚hjálpræðisvonin‘ undirstaða sannrar tilbeiðslu?

2 „Framtíðarvon var óþekkt í hinum heiðna heimi,“ þeim heimi er frumkristnir menn bjuggu í, að sögn biblíualfræðibókarinnar The International Standard Bible Encyclopedia. (Efesusbréfið 2:12; 1. Þessaloníkubréf 4:13) ‚Hjálpræðisvonin‘ er hins vegar ein af grunnstoðum sannrar tilbeiðslu. Hvernig þá? Í fyrsta lagi er hjálpræði þjóna Jehóva nátengt nafni hans. Sálmaritarinn Asaf bað: „Hjálpa þú oss, Guð hjálpræðis vors, sakir dýrðar nafns þíns, frelsa oss.“ (Sálmur 79:9; Esekíel 20:9) Og forsenda þess að eiga gott samband við Jehóva er að treysta því að hann veiti þá blessun sem hann hefur heitið. Páll orðar það svo: „Án trúar er ógerlegt að þóknast honum, því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.“ (Hebreabréfið 11:6) Páll bendir enn fremur á að ein meginástæða komu Jesú til jarðar hafi tengst hjálpræði iðrunarfullra manna: „Það orð er satt, og í alla staði þess vert, að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn.“ (1. Tímóteusarbréf 1:15) Og Pétur postuli segir að hjálpræði sé ‚takmark trúar okkar.‘ (1. Pétursbréf 1:9) Það er því viðeigandi að vonast eftir hjálpræði. En hvað er hjálpræði í raun og veru og hvers er krafist til að öðlast það?

Hvað er hjálpræði?

3. Hvers konar hjálpræði veittist þjónum Jehóva til forna?

3 Í Hebresku ritningunum merkir „hjálpræði“ yfirleitt björgun eða frelsun frá kúgun eða voveiflegum og ótímabærum dauða. Davíð kallar til dæmis Jehóva ‚þann sem hjálpar honum,‘ og bætir við: „Guð minn er hellubjarg mitt . . . og hæli, frelsari minn, sem frelsar mig frá ofbeldi. Lofaður sé [Jehóva], hrópa ég, og ég frelsast frá óvinum mínum.“ (2. Samúelsbók 22:2-4) Hann vissi að Jehóva hlustar þegar trúfastir þjónar hans hrópa á hjálp. — Sálmur 31:23, 24; 145:19.

4. Hvaða framtíðarvon höfðu fortíðarþjónar Jehóva?

4 Fortíðarþjónar Jehóva vonuðust líka eftir lífi í framtíðinni. (Jobsbók 14:13-15; Jesaja 25:8; Daníel 12:13) Mörg frelsunarfyrirheit í Hebresku ritningunum voru reyndar spádómar um enn meira hjálpræði — eilíft líf. (Jesaja 49:6, 8; Postulasagan 13:47; 2. Korintubréf 6:2) Margir Gyðingar á dögum Jesú neituðu að viðurkenna að hann væri lykillinn að því eilífa lífi sem þeir vonuðust eftir. Jesús sagði við trúarleiðtoga síns tíma: „Þér rannsakið ritningarnar, því í þeim hyggist þér eiga eilíft líf. Og það eru þær, sem vitna um mig.“ — Jóhannes 5:39.

5. Hvað felur hjálpræði endanlega í sér?

5 Fyrir milligöngu Jesú opinberaði Guð allt það sem hjálpræðið felur í sér, meðal annars frelsun úr fjötrum falstrúarbragða og lausn undan oki syndar, áhrifum heims Satans, ótta við menn og jafnvel ótta við dauðann. (Jóhannes 17:16; Rómverjabréfið 8:2; Kólossubréfið 1:13; Opinberunarbókin 18:2, 4) Hjálpræði Guðs merkir ekki einasta að trúfastir þjónar hans verði frelsaðir frá kúgun og böli heldur einnig að þeir geti að lokum öðlast eilíft líf. (Jóhannes 6:40; 17:3) Jesús kenndi að hjálpræði ‚lítillar hjarðar‘ manna fæli í sér upprisu til lífs á himnum til að ríkja með honum í Guðsríki. (Lúkas 12:32) Fyrir alla aðra menn felur hjálpræði í sér að öðlast fullkomið líf og eignast samband við Guð eins og Adam og Eva höfðu í Edengarðinum áður en þau syndguðu. (Postulasagan 3:21; Efesusbréfið 1:10) Eilíft líf við slíkar paradísaraðstæður var upprunalegur tilgangur Guðs með mannkynið. (1. Mósebók 1:28; Markús 10:30) En hvernig er unnt að koma á slíkum aðstæðum á ný?

Lausnarfórnin — undirstaða hjálpræðis

6, 7. Hvaða hlutverki gegnir Jesús í hjálpræði okkar?

6 Eilíft hjálpræði er einungis mögulegt vegna lausnarfórnar Krists. Hvers vegna? Biblían segir að Adam hafi ‚selt‘ sjálfan sig og alla ófædda afkomendur sína undir synd þegar hann syndgaði og því hafi þurft að leggja fram lausnargjald til að mannkynið ætti sér viðreisnar von. (Rómverjabréfið 5:14, 15; 7:14) Dýrafórnir Móselögmálsins voru til merkis um að Guð ætlaði að sjá öllu mannkyni fyrir lausnarfórn. (Hebreabréfið 10:1-10; 1. Jóhannesarbréf 2:2) Þessar spádómlegu táknmyndir uppfylltust í fórn Jesú. Engill Jehóva lýsti yfir við fæðingu Jesú: „Hann mun frelsa lýð sinn frá syndum þeirra.“ — Matteus 1:21; Hebreabréfið 2:10.

7 Jesús fæddist af Maríu mey vegna kraftaverks en fékk ekki Adamsdauðann í arf þar eð hann var sonur Guðs. Vegna þessa og fullkominnar ráðvendni sinnar var lífsblóð hans nógu verðmætt til að kaupa mannkynið undan synd og dauða. (Jóhannes 8:36; 1. Korintubréf 15:22) Jesús var ekki dæmdur til að deyja vegna syndarinnar eins og allir aðrir menn. Hann kom til jarðar sérstaklega með það fyrir augum að „gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“ (Matteus 20:28) Hinn upprisni og krýndi Jesús hefur síðan verið í aðstöðu til að veita öllum hjálpræði sem uppfylla kröfur Guðs. — Opinberunarbókin 12:10.

Hvers er krafist til að öðlast hjálpræði?

8, 9. (a) Hvernig svaraði Jesús spurningu ríka unga höfðingjans um hjálpræði? (b) Hvernig notaði Jesús tækifærið til að kenna lærisveinunum?

8 Ríkur ungur höfðingi spurði Jesú: „Hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?“ (Markús 10:17) Spurning hans kann að hafa endurspeglað ríkjandi hugsanagang Gyðinga á þeim tíma — að Guð krefðist ákveðinna góðverka og með því að gera þau væri hægt að ávinna sér hjálpræði. En þessi formlega trúrækni gat sprottið af eigingjörnum hvötum. Slík góðverk gátu ekki veitt örugga hjálpræðisvon af því að enginn ófullkominn maður gat fylgt stöðlum Guðs til fullnustu.

9 Í svari sínu minnti Jesús manninn á að hlýða boðorðum Guðs. Ungi höfðinginn fullvissaði hann strax um að hann hefði haldið þau frá bernsku. Það fékk Jesú til að fara að þykja vænt um manninn svo að hann sagði: „Eins er þér vant; far þú og sel allar eigur þínar og gef fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himni; kom síðan og fylg mér.“ En ungi maðurinn fór burt hryggur „því að hann átti miklar eignir.“ Jesús lagði þá ríkt á við lærisveinana að óhófleg ást á veraldlegum munum gæti verið þrándur í götu hjálpræðis, og bætti við að enginn gæti öðlast hjálpræði af eigin rammleik. Síðan fullvissaði hann þá: „Fyrir mönnum er það ómögulegt, en ekki fyrir Guði; því að alt er mögulegt fyrir Guði.“ (Markús 10:18-27, Biblían 1912; Lúkas 18:18-23) Hvernig er hjálpræði mögulegt?

10. Hvaða skilyrði þurfum við að uppfylla til að öðlast hjálpræði?

10 Hjálpræði er gjöf frá Guði en veitist ekki sjálfkrafa. (Rómverjabréfið 6:23) Sérhver maður þarf að uppfylla ákveðin grundvallarskilyrði fyrir henni. Jesús sagði: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ Og Jóhannes postuli bætti við. „Sá sem trúir á soninn, hefur eilíft líf, en sá sem óhlýðnast syninum, mun ekki sjá líf.“ (Jóhannes 3:16, 36) Guð krefst greinilega trúar og hlýðni af sérhverjum manni sem vonast eftir eilífu hjálpræði og að hann viðurkenni lausnargjaldið og feti í fótspor Jesú.

11. Hvernig getur ófullkominn maður öðlast velþóknun Jehóva?

11 Þar eð við erum öll ófullkomin er okkur ekki tamt að hlýða og við getum ómögulega gert það fullkomlega. Þess vegna hefur Jehóva séð fyrir lausnargjaldi til að breiða yfir syndir okkar. Við verðum samt sem áður að kappkosta að lifa samkvæmt vegi Guðs. Við verðum að halda boðorð hans líkt og Jesús sagði ríka unga höfðingjanum. Það hefur bæði velþóknun Guðs í för með sér og mikla gleði því að „boðorð hans eru ekki þung“ heldur „hressandi.“ (1. Jóhannesarbréf 5:3, Orðskviðirnir 3:1, 8) En það er samt ekki auðvelt að halda í hjálpræðisvonina.

‚Berstu fyrir trúnni‘

12. Hvernig styrkir hjálpræðisvonin kristinn mann til að standast freistingar til siðleysis?

12 Lærisveinninn Júdas vildi skrifa frumkristnum mönnum um „sameiginlegt hjálpræði“ þeirra. En siðspillingin í þjóðfélaginu knúði hann til að ráðleggja þeim að ‚berjast fyrir trúnni.‘ Til að hljóta hjálpræði nægir ekki að hafa trú, halda sér við sanna kristni og hlýða þegar allt leikur í lyndi. Hollustan við Jehóva þarf að vera það sterk að við getum staðist freistingar og siðlaus áhrif. En siðspilling og taumleysi, virðingarleysi fyrir yfirvaldi, sundrung og efi hafði gengið nærri söfnuðinum á fyrstu öld. Júdas hvatti trúbræður sína til að berjast gegn þessum hneigðum með því að hafa markmiðið skýrt í huga: „Þér, elskaðir, byggið yður sjálfa upp í yðar helgustu trú. Biðjið í heilögum anda. Varðveitið sjálfa yður í kærleika Guðs, og bíðið eftir náð Drottins vors Jesú Krists til eilífs lífs.“ (Júdasarbréfið 3, 4, 8, 19-21) Hjálpræðisvonin gat styrkt þá í þeirri baráttu að halda sér siðferðilega hreinum.

13. Hvernig sýnum við að við höfum ekki látið náð Guðs verða til einskis?

13 Jehóva Guð væntir þess að þeir sem hann ætlar að veita hjálpræði séu til fyrirmyndar siðferðilega. (1. Korintubréf 6:9, 10) Þótt við fylgjum siðferðisreglum hans megum við ekki vera dómhörð gagnvart öðrum. Það er ekki okkar að ráða eilífum örlögum annarra. Það gerir Guð eins og Páll sagði Grikkjum í Aþenu: „Hann hefur sett dag, er hann mun láta mann [Jesú Krist], sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi.“ (Postulasagan 17:31; Jóhannes 5:22) Ef við lifum í trú á lausnarfórn Jesú þurfum við ekki að óttast komandi dómsdag. (Hebreabréfið 10:38, 39) Mikilvægast er að ‚láta aldrei náð Guðs, sem við höfum þegið, verða til einskis‘ með því að freistast til að hugsa og hegða okkur ósæmilega. (2. Korintubréf 6:1) Við sýnum einnig að við látum ekki náð Guðs verða til einskis með því að hjálpa öðrum að öðlast hjálpræði. Hvernig gerum við það?

Segðu öðrum frá hjálpræðisvoninni

14, 15. Hverjum fól Jesús að kunngera hjálpræðisboðskapinn?

14 Páll vitnar í Jóel spámann og segir: „Hver sem ákallar nafn [Jehóva], mun hólpinn verða,“ og bætir svo við: „En hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki?“ Nokkrum versum síðar bendir hann á að trúin komi ekki af sjálfri sér heldur „af boðuninni“ sem byggist á „orði Krists.“ — Rómverjabréfið 10:13, 14, 17; Jóel 3:5.

15 Hverjir áttu að færa þjóðunum ‚orð Krists‘? Jesús fól lærisveinum sínum að gera það, þeim sem höfðu fengið kennslu í ‚orðinu.‘ (Matteus 24:14; 28:19, 20; Jóhannes 17:20) Þegar við tökum þátt í að prédika Guðsríki og gera menn að lærisveinum erum við að gera það sem Páll postuli skrifaði er hann vitnaði í orð Jesaja: „Hversu fagurt er fótatak þeirra, sem færa fagnaðarboðin góðu.“ Jafnvel þótt margir hafni fagnaðarerindinu, sem við færum, er fótatak okkar samt sem áður „fagurt“ í eyrum Jehóva. — Rómverjabréfið 10:15; Jesaja 52:7.

16, 17. Hvaða tvenns konar tilgangi þjónar prédikunarstarf okkar?

16 Prédikunarstarfið þjónar tvenns konar mikilvægum tilgangi. Í fyrsta lagi þarf að boða fagnaðarerindið svo að nafn Guðs verði miklað og þeir sem vilja öðlast hjálpræði viti hvert þeir eigi að snúa sér. Páll gerði sér grein fyrir þessu og sagði: „Því að svo hefur [Jehóva] boðið oss: Ég hef sett þig til að vera ljós heiðinna þjóða, að þú sért hjálpræði allt til endimarka jarðar.“ Allir lærisveinar Krists verða að flytja fólki hjálpræðisboðskapinn. — Postulasagan 13:47; Jesaja 49:6.

17 Í öðru lagi leggur boðun fagnaðarerindisins grunninn að réttlátum dómi Guðs. Jesús segir um þennan dóm: „Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum.“ Enda þótt dómurinn og aðgreiningin fari fram þegar „Mannssonurinn kemur í dýrð sinni“ gerir prédikunarstarfið fólki kleift að bera kennsl á andlega bræður Krists, styðja þá og vinna þar með að eilífu hjálpræði sínu. — Matteus 25:31-46.

Láttu ‚von þína fullkomnast‘

18. Hvernig getum við forðast að láta ‚hjálpræðisvonina‘ dofna?

18 Virk þátttaka í prédikunarstarfinu kemur líka í veg fyrir að von okkar dofni. Páll segir: „Vér óskum, að sérhver yðar sýni sömu ástundan allt til enda, þar til von yðar fullkomnast.“ (Hebreabréfið 6:11) Íklæðumst því „von hjálpræðis sem hjálmi“ og munum að „Guð hefur ekki ætlað oss til að verða reiðinni að bráð, heldur til að öðlast sáluhjálp fyrir Drottin vorn Jesú Krist.“ (1. Þessaloníkubréf 5:8, 9) Tökum sömuleiðis til okkar hvatningarorð Péturs: „Gjörið því hugi yðar viðbúna og vakið. Setjið alla von yðar til þeirrar náðar, sem yður mun veitast.“ (1. Pétursbréf 1:13) Allir sem gera það fá að sjá ‚hjálpræðisvon‘ sína verða að veruleika.

19. Hvað verður athugað í næstu grein?

19 Hvaða augum ættum við að líta tímann sem eftir er af þessu heimskerfi? Hvernig getum við notað hann til að vinna að hjálpræði okkar og annarra? Þessum spurningum verður svarað í næstu grein.

Geturðu útskýrt?

• Hvers vegna megum við ekki láta ‚hjálpræðisvonina‘ dofna?

• Hvað felur hjálpræði í sér?

• Hvað þurfum við að gera til að öðlast hjálpræði?

• Hverju kemur prédikunarstarfið til leiðar í samræmi við tilgang Guðs?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 9]

Hjálpræði felur meira í sér en aðeins björgun frá tortímingu.