Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Trúðu á spádómsorð Guðs

Trúðu á spádómsorð Guðs

Trúðu á spádómsorð Guðs

„Enn þá áreiðanlegra er oss því nú hið spámannlega orð.“ — 2. PÉTURSBRÉF 1:19.

1, 2. Hver er fyrsti skrásetti spádómurinn og hvaða spurningu vakti hann meðal annars?

JEHÓVA GUÐ er höfundur fyrsta spádómsins sem skrásettur var. Hann sagði höggorminum eftir að Adam og Eva syndguðu: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ (1. Mósebók 3:1-7, 14, 15) Aldir liðu áður en menn skildu þessi spádómsorð til fullnustu.

2 Þessi fyrsti spádómur veitti syndugu mannkyni von. Síðar benti Ritningin á að ‚hinn gamli höggormur‘ væri Satan djöfullinn. (Opinberunarbókin 12:9) En hvert yrði hið fyrirheitna sæði Guðs?

Leitin að sæðinu

3. Hvernig sýndi Abel trú á fyrsta spádóminn?

3 Abel var guðhræddur og sýndi trú á fyrsta spádóminn, ólíkt föður sínum. Honum var greinilega ljóst að það þurfti að úthella blóði til að breiða yfir syndir svo að hann sýndi trú og færði dýrafórn sem Guð hafði velþóknun á. (1. Mósebók 4:2-5) En leynd hvíldi yfir því hvert fyrirheitna sæðið væri.

4. Hverju lofaði Guð Abraham og hvað gaf það til kynna um hið fyrirheitna sæði?

4 Um 2000 árum eftir daga Abels gaf Jehóva ættföðurnum Abraham þetta spádómlega loforð: „Ég [skal] ríkulega blessa þig og stórum margfalda kyn þitt, sem stjörnur á himni . . . Og af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta.“ (1. Mósebók 22:17, 18) Þessi orð tengdu Abraham við uppfyllingu fyrsta spádómsins. Sæðið, sem myndi ónýta verk djöfulsins, átti að koma í hans ætt. (1. Jóhannesarbréf 3:8) „Um fyrirheit Guðs efaðist [Abraham] ekki með vantrú“ og sama er að segja um votta Jehóva á forkristnum tíma. (Rómverjabréfið 4:20, 21) Þeir ‚hlutu eigi fyrirheitið‘ en varðveittu trúna á spádómsorð Guðs. — Hebreabréfið 11:39.

5. Á hverjum rættist loforð Guðs um hið fyrirheitna sæði og af hverju segirðu það?

5 Páll postuli bar kennsl á hið fyrirheitna sæði Guðs er hann skrifaði: „Nú voru fyrirheitin gefin Abraham og afkvæmi hans, — þar stendur ekki ‚og afkvæmum‘, eins og margir ættu í hlut, heldur ‚og afkvæmi þínu‘, eins og þegar um einn er að ræða, og það er Kristur.“ (Galatabréfið 3:16) Ekki tilheyrðu allir afkomendur Abrahams þessu afkvæmi eða sæði sem átti að verða öllum þjóðum til blessunar. Afkomendur Ísmaels og Ketúru voru ekki notaðir til að blessa mannkynið. Sæði blessunarinnar var af ætt sonarins Ísaks og sonarsonarins Jakobs. (1. Mósebók 21:12; 25:23, 31-34; 27:18-29, 37; 28:14) Jakob benti á að „þjóðirnar“ myndu ganga þeim á hönd sem hefði valdið í Júdaætt og síðar kom fram að sæðið skyldi vera af ætt Davíðs. (1. Mósebók 49:10; 2. Samúelsbók 7:12-16) Gyðingar fyrstu aldar bjuggust við að einhver einn maður kæmi fram sem Messías eða Kristur. (Jóhannes 7:41, 42) Og spádómur Guðs um sæðið rættist á syni hans, Jesú Kristi.

Messías birtist

6. (a) Hvernig ber að skilja spádóminn um vikurnar 70? (b) Hvenær og hvernig ‚gerði Jesús út af við syndina‘?

6 Spámaðurinn Daníel skrásetti merkan messíasarspádóm. Á fyrsta stjórnarári Daríusar frá Medíu gerði hann sér ljóst að 70 ára auðn Jerúsalem væri næstum á enda. (Jeremía 29:10; Daníel 9:1-4) Gabríel engill kom til hans þar sem hann baðst fyrir og opinberaði honum að ‚sjötíu vikur væru ákveðnar til að gera út af við syndina.‘ Messías yrði afmáður á miðri 70. vikunni. Áravikurnar sjötíu hófust árið 455 f.o.t. þegar Artaxerxes 1. konungur gaf út „orðið um endurreisn Jerúsalem.“ (Daníel 9:20-27, NW; Nehemíabók 2:1-8) Messías myndi koma eftir 7 vikur að viðbættum 62, eða eftir 483 ár. Þau stóðu frá 455 f.o.t. til 29 e.o.t. þegar Jesús lét skírast og Guð smurði hann sem Messías eða Krist. (Lúkas 3:21, 22) Jesús ‚gerði út af við syndina‘ með því að gefa líf sitt sem lausnargjald árið 33. (Markús 10:45) Þetta eru sterkar ástæður til að trúa á spádómsorð Guðs. *

7. Notaðu Biblíuna til að sýna fram á hvernig Jesús uppfyllti marga messíasarspádóma.

7 Við getum borið kennsl á Messías af því að við trúum á spádómsorð Guðs. Ritarar kristnu Grísku ritninganna heimfærðu marga af messíasarspádómum Hebresku ritninganna beint á Jesú. Lítum á dæmi: Jesús var fæddur af mey í Betlehem. (Jesaja 7:14; Míka 5:2; Matteus 1:18-23; Lúkas 2:4-11) Hann var kallaður frá Egyptalandi og börn voru drepin eftir fæðingu hans. (Jeremía 31:15; Hósea 11:1; Matteus 2:13-18) Hann bar sjúkdóma okkar. (Jesaja 53:4; Matteus 8:16, 17) Hann reið inn í Jerúsalem á ösnufola eins og spáð var. (Sakaría 9:9; Jóhannes 12:12-15) Orð sálmaritarans rættust eftir að hann var staurfestur og hermenn skiptu með sér klæðum hans og vörpuðu hlutkesti um kyrtil hans. (Sálmur 22:19; Jóhannes 19:23, 24) Það uppfyllti einnig spádóm að Jesús var stunginn en bein hans ekki brotin. (Sálmur 34:21; Sakaría 12:10; Jóhannes 19:33-37) Þetta eru aðeins örfá dæmi um messíasarspádóma sem guðinnblásnir biblíuritarar heimfærðu á Jesú. *

Hyllið messíasarkonunginn

8. Hver er hinn aldraði og hvernig rættist spádómurinn í Daníel 7:9-14?

8 Jehóva veitti Daníel spámanni draum og merkilegar sýnir á fyrsta stjórnarári Belsasars konungs í Babýlon. Fyrst sá hann fjögur risavaxin dýr. Engill Guðs kallaði þau ‚fjóra konunga‘ þannig að þau táknuðu fjögur heimsveldi hvert á fætur öðru. (Daníel 7:1-8, 17) Þessu næst sá Daníel Jehóva, ‚hinn aldraða,‘ í dýrlegu hásæti. Hann dæmir dýrin, tekur af þeim stjórnvaldið og eyðir því fjórða. Síðan er ‚einhverjum sem mannssyni líktist‘ fengin varanleg yfirráð yfir ‚lýðum, þjóðum og tungum.‘ (Daníel 7:9-14) Þetta er fagur spádómur um það er ‚Mannssonurinn‘ var settur í hásæti á himnum árið 1914. — Matteus 16:13.

9, 10. (a) Hvað merktu hinir ýmsu hlutar líkneskisins í draumnum? (b) Útskýrðu uppfyllingu Daníels 2:44.

9 Daníel vissi að Guð „rekur konunga frá völdum og hann setur konunga til valda.“ (Daníel 2:21) Hann treysti á Jehóva, „sem opinberar leynda hluti,“ og upplýsti Nebúkadnesar Babýloníukonung um merkingu risalíkneskis sem konung dreymdi. Líkneskið táknaði uppgang og fall heimsvelda svo sem Babýlonar, Medíu-Persíu, Grikklands og Rómaveldis. Og Guð lét Daníel lýsa heimsatburðunum fram til okkar tíma í stórum dráttum og einnig ýmsu sem enn er ókomið. — Daníel 2:24-30.

10 „Á dögum þessara konunga mun Guð himnanna hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga,“ segir spádómurinn, „og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.“ (Daníel 2:44) Guð stofnsetti ríkið á himnum í höndum Krists þegar „tímar heiðingjanna“ tóku enda árið 1914. (Lúkas 21:24; Opinberunarbókin 12:1-5) Máttur Guðs losaði síðan ‚stein‘ úr „fjallinu“ sem táknar drottinvald hans yfir alheimi. ‚Steinninn‘ er messíasarríkið og hann lendir á líkneskinu og molar það í duft í Harmagedónstríðinu. Messíasarríkið stendur að eilífu eins og fjall sem tekur yfir „alla jörðina.“ — Daníel 2:35, 45; Opinberunarbókin 16:14, 16. *

11. Að hverju var ummyndun Jesú forsmekkur og hvaða áhrif hafði sýnin á Pétur?

11 Jesús var með ríki sitt í huga er hann sagði lærisveinunum: „Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Mannssoninn koma í ríki sínu.“ (Matteus 16:28) Sex dögum síðar fór hann með þá Pétur, Jakob og Jóhannes upp á hátt fjall þar sem hann ummyndaðist frammi fyrir þeim. Bjart ský skyggði yfir postulana og Guð sagði: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ (Matteus 17:1-9; Markús 9:1-9) Þetta var forsmekkur að dýrð Krists í ríki hans. Það er skiljanlegt að Pétur skyldi segja um þau áhrif sem þessi ægibjarta sýn hafði á hann: „Enn þá áreiðanlegra er oss því nú hið spámannlega orð.“ — 2. Pétursbréf 1:16-19. *

12. Af hverju er sérstök ástæða núna til að treysta spádómsorði Guðs?

12 „Hið spámannlega orð“ er greinilega ekki aðeins spádómar Hebresku ritninganna um Messías heldur einnig þau orð Jesú að hann komi „með mætti og mikilli dýrð.“ (Matteus 24:30) Ummyndunin staðfesti spádómsorðið um komu Krists sem konungur Guðsríkis. Dýrleg opinberun hans stendur fyrir dyrum og hefur í för með sér tortímingu fyrir þá sem ekki trúa en blessun fyrir trúaða. (2. Þessaloníkubréf 1:6-10) Uppfylling biblíuspádómanna sannar að hinir ‚síðustu dagar‘ standa yfir. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 16, 17; Matteus 24:3-14) Míkael, sem er Jesús Kristur, er reiðubúinn að fullnægja dómi Jehóva og binda enda á þetta illa heimskerfi í ‚þrengingunni miklu.‘ (Matteus 24:21; Daníel 12:1) Það er því rétti tíminn núna til að sýna að við trúum á spádómsorð Guðs.

Varðveittu trú á spádómsorð Guðs

13. Hvað getur hjálpað okkur að varðveita kærleikann til Guðs og trúna á orð hans?

13 Við vorum áreiðanlega himinlifandi þegar við fræddumst fyrst um það hvernig spádómsorð Guðs hefur uppfyllst. En hefur trúin dvínað og kærleikurinn kólnað? Látum aldrei fara fyrir okkur eins og kristnum mönnum í Efesus sem ‚afræktu sinn fyrri kærleika.‘ (Opinberunarbókin 2:1-4) Þetta getur gerst ef við ‚leitum ekki fyrst ríkis Guðs og réttlætis‘ og söfnum okkur fjársjóðum á himnum, og gildir þá einu hve lengi við höfum þjónað Jehóva. (Matteus 6:19-21, 31-33) Ástundun við biblíunám, regluleg þátttaka í safnaðarsamkomum og kappsemi í boðunarstarfinu hjálpar okkur að viðhalda kærleikanum til Jehóva, sonar hans og Ritningarinnar. (Sálmur 119:105; Markús 13:10; Hebreabréfið 10:24, 25) Það heldur svo trúnni á orð Guðs lifandi. — Sálmur 106:12.

14. Hvernig er smurðum kristnum mönnum umbunuð trúin á spádómsorð Jehóva?

14 Spádómsorð Guðs hefur ræst fram að þessu svo að við getum treyst því sem það segir um framtíðina. Til dæmis er Kristur nærverandi sem dýrlegur konungur núna og hið spádómlega fyrirheit hefur ræst á smurðum kristnum mönnum sem voru trúfastir allt til dauða: „Þeim er sigrar, honum mun ég gefa að eta af lífsins tré, sem er í Paradís Guðs.“ (Opinberunarbókin 2:7, 10; 1. Þessaloníkubréf 4:14-17) Þessir menn hafa sigrað og Jesús veitir þeim þau sérréttindi að „eta af lífsins tré“ í himneskri „Paradís Guðs.“ Jehóva er ‚konungur eilífðar, ódauðlegur, ósýnilegur og einn Guð,‘ og hann veitir þeim ódauðleika og óforgengileika með fulltingi Jesú Krists er hann reisir þá upp. (1. Tímóteusarbréf 1:17; 1. Korintubréf 15:50-54; 2. Tímóteusarbréf 1:10) Þetta er mikil umbun fyrir óbilandi kærleika til Guðs og óhagganlega trú á spádómsorð hans.

15. Með hverjum var lagður grunnur að ‚nýju jörðinni‘ og hverjir eru félagar þeirra?

15 Leifar andlegra Ísraelsmanna á jörð voru frelsaðar úr ánauð ‚Babýlonar hinnar miklu,‘ heimsveldis falstrúarbragðanna, skömmu eftir að hinir smurðu, sem dóu trúfastir, voru reistir upp í himneska „Paradís Guðs.“ (Opinberunarbókin 14:8; Galatabréfið 6:16) Með þeim var lagður grunnur að hinni ‚nýju jörð.‘ (Opinberunarbókin 21:1) Þannig varð til „land“ og þar var byggð andleg paradís sem blómgast um alla jörðina núna. (Jesaja 66:8) Þangað streymir mikill fjöldi sauðumlíkra manna sem eru félagar andlegra Ísraelsmanna núna „á hinum síðustu dögum.“ — Jesaja 2:2-4; Sakaría 8:23; Jóhannes 10:16; Opinberunarbókin 7:9.

Framtíð mannkyns sögð fyrir í spádómsorði Guðs

16. Hvað eiga dyggir stuðningsmenn hinna smurðu í vændum?

16 Hvað eiga dyggir stuðningsmenn hinna smurðu í vændum? Þeir trúa líka á spádómsorð Guðs og eiga þá von að fá að ganga inn í jarðneska paradís. (Lúkas 23:39-43) Þar munu þeir teyga lífgandi vatn úr „móðu lífsvatnsins“ og fá lækningu af ‚blöðum trjánna‘ sem vaxa á bökkum hennar. (Opinberunarbókin 22:1, 2) Ef þú átt slíka von skaltu halda áfram að sýna djúpan kærleika til Jehóva og trú á spádómsorð hans. Megir þú njóta þeirrar takmarkalausu gleði að hljóta eilíft líf í paradís á jörð.

17. Hvaða blessun fylgir lífinu í hinni jarðnesku paradís?

17 Ófullkomna menn brestur orð til að lýsa því hvernig það verður að lifa í paradís á jörð en spádómsorð Guðs gefur okkur nokkra innsýn í þá blessun sem bíður hlýðinna manna. Þegar ríki Guðs stjórnar án mótstöðu og vilji hans er gerður á jörð eins og á himni munu hvorki menn né dýr „illt fremja eða skaða gjöra.“ (Jesaja 11:9; Matteus 6:9, 10) Hinir hógværu munu byggja jörðina og „gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ (Sálmur 37:11) Þá verða „gnóttir korns . . . í landinu, á fjallatindunum,“ svo að sveltandi milljónir heyra sögunni til. (Sálmur 72:16) Engin sorgartár falla framar. Sjúkdómar verða liðin tíð og dauðinn ekki framar til. (Jesaja 33:24; Opinberunarbókin 21:4) Hugsaðu þér — engir læknar, engin lyf, engin sjúkrahús eða geðveikrahæli og engar jarðarfarir. Hvílíkar framtíðarhorfur!

18. (a) Hverju var Daníel lofað? (b) Hvert verður „hlutskipti“ Daníels?

18 Sameiginleg gröf mannkyns tæmist þegar dauðir rísa upp. Hinn réttláti Job bar þá von í brjósti, svo og spámaðurinn Daníel því að engill Jehóva sagði honum: „En þú, gakk áfram til endalokanna, og þú munt hvílast og upp rísa til að taka þitt hlutskipti við endi daganna.“ (Daníel 12:13; Jobsbók 14:14, 15) Daníel þjónaði Guði trúfastur allt til dauðadags. Hann sefur dauðasvefni núna en vaknar svo „í upprisu réttlátra“ í þúsundáraríki Krists. (Lúkas 14:14) Hvert verður „hlutskipti“ hans? Spádómur Esekíels gefur til kynna að öllum þjónum Jehóva verði búinn staður í paradís og landi deilt niður skipulega og réttlátlega. (Esekíel 47:13–48:35) Daníel er því búinn staður í paradís en hlutskipti hans verður meira en landskiki því að hann gegnir ákveðnu hlutverki í tilgangi Jehóva.

19. Hvað þarf til að fá að lifa í paradís á jörð?

19 Hvað um þig og hlutskipti þitt? Ef þú trúir á orð Guðs, Biblíuna, þráirðu eflaust að lifa í paradís á jörð. Kannski geturðu séð sjálfan þig fyrir þér annast jörðina, fagna hinum upprisnu og njóta paradísar. Maðurinn á heima í paradís því að Guð skapaði fyrstu mannhjónin til að búa þar. (1. Mósebók 2:7-9) Og hann vill að hlýðnir menn búi í paradís að eilífu. Ætlar þú að lifa í samræmi við Ritninguna svo að þú getir verið einn af þeim milljörðum sem eiga eftir að búa í paradís á jörð? Þú átt eftir að gera það ef þú elskar Jehóva, föður okkar á himnum, og treystir spádómsorði hans í hvívetna.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Sjá 11. kafla bókarinnar Gefðu gaum að spádómi Daníelsbókar og greinina „Seventy Weeks“ (sjötíu vikur) í Insight on the Scriptures, gefnar út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

^ gr. 7 Sjá bókina „All Scripture Is Inspired of God and Beneficial,“ bls. 343-4, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

^ gr. 10 Sjá 4. og 9. kafla bókarinnar Gefðu gaum að spádómi Daníelsbókar.

^ gr. 11 Sjá greinina „Gefðu gaum að spádómsorði Guðs“ í Varðturninum 1. apríl 2000.

Hvert er svarið?

• Hver var fyrsti spádómurinn og hver var hið fyrirheitna sæði?

• Nefndu nokkra messíasarspádóma sem rættust á Jesú.

• Hvernig uppfyllist Daníel 2:44, 45?

• Hvaða framtíð á hlýðið mannkyn í vændum samkvæmt spádómsorði Guðs?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 26]

Vonastu til að fá að lifa í paradís á jörð?