Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

‚Þér allir eru bræður‘

‚Þér allir eru bræður‘

‚Þér allir eru bræður‘

„Þér skuluð ekki láta kalla yður meistara, því einn er yðar meistari og þér allir bræður.“ — MATTEUS 23:8.

1. Hverju ætlum við að gefa gaum?

„HVOR verðskuldar meiri heiður, trúboði eða Betelíti? spurði austurlensk kona trúboða frá Ástralíu. Hún vildi vita hvorn ætti að virða meira, útlenskan trúboða eða starfsmann útibús Varðturnsfélagsins í heimalandi hennar. Þessi sakleysislega spurning kom trúboðanum í opna skjöldu enda bar hún vott um ríkjandi stéttarmeðvitund í þjóðfélaginu. Spurningin um hver sé meiri stafar hins vegar af löngun til að vita hvar menn standa í metorðastiganum.

2. Hvernig ættum við að líta á trúbræður?

2 Þetta er engin nýlunda. Jafnvel lærisveinar Jesú deildu í sífellu um hver væri mestur. (Matteus 20:20-24; Markús 9:33-37; Lúkas 22:24-27) Þeir tilheyrðu líka þjóðmenningu þar sem stéttvísi var allútbreidd — gyðingdómi fyrstu aldar. Með þetta í huga ráðlagði Jesús lærisveinunum: „Þér skuluð ekki láta kalla yður meistara, því einn er yðar meistari og þér allir bræður.“ (Matteus 23:8) Trúarlegur titill eins og „meistari“ eða „rabbí,“ sem merkir „kennari,“ „getur vakið upp dramb og yfirburðatilfinningu hjá þeim sem titilinn fá, en öfund og minnimáttarkennd hjá þeim sem fá hann ekki; og andinn og hugsunin á bak við titla stríðir gegn ‚látleysinu sem einkenndi Krist,‘“ segir biblíufræðingurinn Albert Barnes. Kristnir menn forðast að ávarpa umsjónarmenn sín á meðal með titlum á borð við „öldungur“ eða „herra.“ (Jobsbók 32:21, 22) En öldungar lifa í samræmi við ráðleggingar Jesú og virða aðra í söfnuðinum líkt og Jehóva virðir holla dýrkendur sína og Kristur holla fylgjendur.

Fordæmi Jehóva og Jesú

3. Hvernig virti Jehóva andaverur sínar?

3 Enda þótt Jehóva sé „Hinn hæsti“ hefur hann allt frá upphafi virt sköpunarverur sínar með því að leyfa þeim að taka þátt í verki sínu. (Sálmur 83:19) Hann leyfði eingetnum syni sínum að vera ‚verkstjóri‘ við sköpun fyrsta mannsins. (Orðskviðirnir 8:27-30; 1. Mósebók 1:26) Þegar Jehóva hafði einsett sér að eyða hinum illa Akab konungi bauð hann jafnvel englunum á himnum að koma með tillögur um hvernig ætti að gera það. — 1. Konungabók 22:19-23.

4, 5. Hvernig virðir Jehóva menn?

4 Jehóva ríkir sem alheimsdrottinn og þarf ekki að leita ráða hjá mönnum. (5. Mósebók 3:24) Samt lætur hann svo lítið að taka mark á þeim. Sálmaritari söng: „Hver er sem [Jehóva], Guð vor? Hann situr hátt og horfir djúpt á himni og á jörðu. Hann reisir lítilmagnann úr duftinu.“ — Sálmur 113:5-8.

5 Áður en Jehóva eyddi Sódómu og Gómorru hlustaði hann á spurningar Abrahams og svalaði réttlætisfýsn hans. (1. Mósebók 18:23-33) Þótt hann vissi útkomuna fyrir fram hlustaði hann þolinmóðlega á Abraham og röksemdir hans.

6. Hvernig fór þegar Jehóva virti málaleitan Habakkuks?

6 Jehóva hlustaði einnig á Habakkuk þegar hann sagði: „Hversu lengi hefi ég kallað, [Jehóva], og þú heyrir ekki!“ Leit Jehóva á þetta sem ögrun við vald sitt? Nei, hann taldi fyrirspurnir Habakkuks réttmætar og opinberaði þá fyrirætlun sína að reisa upp Kaldea til að fullnægja dómi. Hann fullvissaði spámanninn um að ‚hinn boðaði dómur myndi vissulega fram koma.‘ (Habakkuk 1:1, 2, 5, 6, 13, 14; 2:2, 3) Jehóva virti Habakkuk með því að taka mark á áhyggjum hans og sinna þeim. Fyrir vikið lifnaði yfir spámanninum og hann fagnaði yfir Guði hjálpræðis síns, fullur trúartrausts. Það má glöggt sjá í hinni innblásnu bók Habakkuks sem styrkir trú okkar á Jehóva. — Habakkuk 3:18, 19.

7. Fyrir hvaða sakir er hlutverk Péturs á hvítasunnunni árið 33 merkilegt?

7 Kristur Jesús er annað afbragðsdæmi um að sýna öðrum virðingu. Hann sagði lærisveinunum að „þeim sem afneitar mér fyrir mönnum, mun og ég afneita fyrir föður mínum á himnum.“ (Matteus 10:32, 33) En nóttina, sem hann var svikinn, yfirgáfu allir lærisveinarnir hann og Pétur postuli afneitaði honum þrívegis. (Matteus 26:34, 35, 69-75) Jesús leit ekki bara á útlitið heldur sá innstu tilfinningar Péturs — hina djúpu iðrun hans. (Lúkas 22:61, 62) Aðeins 51 degi síðar sýndi hann þessum iðrandi postula virðingu með því að gera hann að talsmanni lærisveinanna 120 á hvítasunnudeginum og leyfa honum að nota fyrsta ‚lykil himnaríkis.‘ (Matteus 16:19; Postulasagan 2:14-40) Pétri var veitt tækifæri til að ‚snúa við og styrkja bræður sína.‘ — Lúkas 22:31-33.

Gagnkvæm virðing í fjölskyldunni

8, 9. Hvernig getur eiginmaður líkt eftir Jehóva og Jesú þegar hann veitir konu sinni virðingu?

8 Eiginmenn og foreldrar ættu að líkja eftir Jehóva og Jesú Kristi þegar þeir beita yfirráðum sínum. Pétur segir: „Þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar sem veikari ker og veitið þeim virðingu.“ (1. Pétursbréf 3:7) Ímyndaðu þér að þú sért að meðhöndla fíngert postulínsker sem er vitanlega miklu brothættara en tréker. Færirðu ekki varlegar með það? Eiginmaður gerir það ef hann líkir eftir Jehóva og hlustar á skoðanir konu sinnar þegar ákvarðanir eru teknar í fjölskyldunni. Mundu að Jehóva gaf sér tíma til að rökræða við Abraham. Eiginmenn eru ófullkomnir og sjá kannski ekki allar hliðar málsins. Væri því ekki skynsamlegt að sýna konu sinni þá virðingu að taka tillit til skoðana hennar?

9 Í löndum þar sem húsbóndavald er sterkt þarf eiginmaður að hafa í huga að kona hans gæti átt mjög erfitt með að tjá innstu tilfinningar sínar. Líktu eftir framkomu Jesú Krists við lærisveinana meðan hann var á jörð en þeir voru hluti af tilvonandi brúðarhópi hans. Honum þótti innilega vænt um þá og tók tillit til líkamlegra og andlegra takmarka þeirra, jafnvel áður en þeir sögðu hvers þeir þörfnuðust. (Markús 6:31; Jóhannes 16:12, 13; Efesusbréfið 5:28-30) Og taktu þér tíma til að athuga hvað konan þín gerir fyrir þig og fjölskylduna og segðu henni og sýndu að þú kunnir að meta það. Bæði Jehóva og Jesús mátu að verðleikum, hrósuðu og blessuðu verðuga. (1. Konungabók 3:10-14; Jobsbók 42:12-15; Markús 12:41-44; Jóhannes 12:3-8) Kristin kona í Austurlöndum fjær sagði um mann sinn eftir að hann gerðist vottur Jehóva: „Maðurinn minn gekk alltaf þrem eða fjórum skrefum á undan mér og lét mig bera allt. Núna ber hann pokana og sýnir að hann kann að meta það sem ég geri á heimilinu!“ Einlægt hrós hefur heilmikið að segja til að eiginkona finni að hún er metin að verðleikum. — Orðskviðirnir 31:28.

10, 11. Hvaða lærdóm geta foreldrar dregið af því hvernig Jehóva tók á hinni uppreisnargjörnu Ísraelsþjóð?

10 Foreldrar þurfa sérstaklega að fylgja fordæmi Guðs í samskiptum við börn sín, einkum þegar þarf að ávíta þau. Jehóva „aðvaraði Ísrael og Júda“ og sagði þeim að snúa sér frá sínum vondu vegum, en þeir „þverskölluðust.“ (2. Konungabók 17:13-15) Ísraelsmenn reyndu jafnvel að ‚beita við hann fagurgala með munni sínum og ljúga að honum með tungum sínum.‘ Mörgum foreldrum gæti stundum fundist börn sín koma þannig fram. Ísraelsmenn ‚freistuðu Guðs,‘ móðguðu hann og særðu. En hann ‚var miskunnsamur, hann fyrirgaf misgjörðir og tortímdi eigi.‘ — Sálmur 78:36-41.

11 Jehóva bað jafnvel Ísraelsmenn: „Komið, eigumst lög við! . . . Þó að syndir yðar séu sem skarlat, skulu þær verða hvítar sem mjöll. Þó að þær séu rauðar sem purpuri, skulu þær verða sem ull.“ (Jesaja 1:18) Enda þótt Jehóva væri ekki sekur um neitt bauð hann hinni uppreisnargjörnu þjóð að koma og gera hreint fyrir sínum dyrum. Þessu gætu foreldrar líkt eftir í samskiptum við börnin. Þegar aðstæður kalla á það skuluð þið sýna þeim þá virðingu að hlusta á hvað þau hafa sér til málsbóta og rökræða við þau um hvers vegna breytinga sé þörf.

12. (a) Hvers vegna eigum við að forðast að meta börn okkar meir en Jehóva? (b) Hvers er þörf ef við eigum að virða sæmd barna okkar þegar við ávítum þau?

12 Börn þurfa auðvitað stundum að fá alvarlegar ávítur. Foreldrar vilja ógjarnan vera eins og Elí sem ‚mat sonu sína meira en Jehóva.‘ (1. Samúelsbók 2:29) En börn þurfa að sjá kærleikann að baki leiðréttingunni. Þau þurfa að skilja að foreldrarnir elska þau í raun. Páll hvetur feður: „Reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun [Jehóva].“ (Efesusbréfið 6:4) Þótt hann minnist á foreldravald bendir hann feðrum á að virða sæmd barnanna og egna þau ekki til reiði með óþarfri hörku. Það krefst tíma og viðleitni af hálfu foreldra að taka tillit til sæmdar barnanna en afraksturinn er erfiðisins virði.

13. Hvert er sjónarmið Biblíunnar til aldraðra í fjölskyldunni?

13 Að heiðra fjölskylduna felur í sér meira en að virða eiginkonu og börn. „Hlýddu börnum þínum þegar þú ert orðinn gamall,“ segir japanskur málsháttur. Með öðrum orðum, aldraðir foreldrar eiga ekki að fara út fyrir valdsvið sitt og þeir eiga að gefa því gaum sem uppkomin börn þeirra segja. Þótt það sé biblíulegt að virða börn sín með því að hlusta á þau eiga börnin ekki að sýna þeim sem eldri eru virðingarleysi. „Fyrirlít ekki móður þína, þótt hún sé orðin gömul,“ segja Orðskviðirnir 23:22. Salómon konungur lifði eftir þessu og sýndi Batsebu aldraðri móður sinni virðingu er hún bað hann bónar. Hann lét setja fram stól handa henni hægri megin við hásæti sitt og hlustaði á það sem hún hafði að segja honum. — 1. Konungabók 2:19, 20.

14. Hvernig getum við sýnt öldruðum safnaðarmönnum virðingu?

14 Við erum í góðri aðstöðu til að vera „fyrri til“ að veita öldruðum safnaðarmönnum í andlegri stórfjölskyldu okkar virðingu. (Rómverjabréfið 12:10) Þeir þurfa kannski að þola þá skapraun að geta ekki gert eins mikið og áður. (Prédikarinn 12:1-7) Þannig leið aldraðri systur sem lá rúmföst á sjúkrastofu, en hún var af hópi hinna smurðu. Hún sagði: „Ég hlakka til að deyja og komast aftur til starfa.“ Það getur gert öldruðum lífið léttbærara ef við viðurkennum þá og virðum. Ísraelsmönnum var fyrirskipað: „Þú skalt standa upp fyrir hinum gráhærða og heiðra gamalmennið.“ (3. Mósebók 19:32) Sýndu tillitssemi með því að láta aldraða finna að þeirra sé þörf og að þeir séu metnir að verðleikum. Að „standa upp“ getur falið í sér að setjast niður og hlusta á þá segja frá afrekum fyrri ára. Þannig virðum við reisn þeirra og það auðgar okkur andlega.

‚Verið fyrri til að veita öðrum virðing‘

15. Hvernig virða öldungar sæmd safnaðarmanna?

15 Safnaðarmenn dafna þegar öldungarnir eru þeim fordæmi til eftirbreytni. (1. Pétursbréf 5:2, 3) Þrátt fyrir annríki eiga umhyggjusamir öldungar frumkvæði að því að gefa sig á tal við börn og unglinga, einstæðar mæður, húsmæður og aldraða, hvort sem vandamál eru til staðar eða ekki. Þeir hlusta á það sem safnaðarmenn hafa að segja og hrósa þeim fyrir það sem þeir geta gert. Athugull öldungur, sem hrósar bróður eða systur, líkir eftir Jehóva sem metur jarðneskar sköpunarverur sínar að verðleikum.

16. Hvers vegna eiga öldungar virðingu skilið ásamt öðrum í söfnuðinum?

16 Með því að líkja eftir Jehóva sýna öldungarnir gott fordæmi í að fylgja hvatningu Páls: „Sýnið hver öðrum bróðurkærleika og ástúð, og verið hver yðar fyrri til að veita öðrum virðing.“ (Rómverjabréfið 12:10) Þetta getur reynst erfiðara í löndum þar sem stéttarvitund er almenn. Í einu Austurlandanna eru til dæmis tvö orð fyrir „bróður,“ annað virðingartitill og hitt hversdagsheiti. Þar til nýverið notuðu safnaðarmenn virðingartitilinn þegar þeir ávörpuðu öldunga og aldraða en hversdagsheitið um aðra. Þeir voru hins vegar hvattir til að nota alltaf hversdagsheitið vegna þess að ‚þeir allir eru bræður‘ líkt og Jesús sagði fylgjendum sínum. (Matteus 23:8) Þótt mismununin sé kannski ekki svona augljós í öðrum löndum þurfum við öll að vera á varðbergi gagnvart þeirri tilhneigingu manna að skipa í stéttir. — Jakobsbréfið 2:4.

17. (a) Hvers vegna eiga öldungar að vera viðmótsgóðir? (b) Hvernig geta öldungar líkt eftir Jehóva í samskiptum við safnaðarmenn?

17 Páll hvetur okkur vissulega til að hafa suma öldunga „í tvöföldum metum,“ en þeir eru engu að síður bræður. (1. Tímóteusarbréf 5:17) Ef við getum ‚gengið með djörfung að náðarhásæti‘ alheimsdrottins, ættum við þá ekki að geta leitað til öldunganna sem eiga að líkja eftir honum? (Hebreabréfið 4:16; Efesusbréfið 5:1) Umsjónarmenn geta metið hve viðmótsgóðir þeir eru með því að íhuga hve oft aðrir leita ráða hjá þeim eða koma með tillögur. Dragið lærdóm af því hvernig Jehóva felur öðrum verkefni. Hann sýnir öðrum virðingu með því að miðla þeim ábyrgð. Þótt uppástungur annarra votta virðast kannski óraunhæfar ættu öldungarnir að meta þá umhyggju sem að baki býr. Munið hvernig Jehóva meðhöndlaði fyrirspurnir Abrahams og grátbeiðni Habakkuks.

18. Hvernig geta öldungar líkt eftir Jehóva þegar þeir leiðrétta þá sem eru hjálparþurfi?

18 Sumir trúbræður þarfnast leiðréttingar en þeir eru samt dýrmætir í augum Jehóva og verðskulda að sæmd þeirra sé virt. (Galatabréfið 6:1) „Þegar sá sem gefur mér ráðleggingar sýnir mér virðingu finnst mér ég geta nálgast hann frjálslega,“ segir vottur. Flestir taka ráðleggingum vel þegar sæmd þeirra er virt. Þeir sem brotið hafa af sér eiga auðveldara með að þiggja nauðsynlegar ráðleggingar sé hlustað á þá. Það kostar bara meiri tíma. Minnist þess hvernig Jehóva rökræddi aftur og aftur við Ísraelsmenn, fullur meðaumkunnar. (2. Kroníkubók 36:15; Títusarbréfið 3:2) Ráðleggingar geta snert hjörtu þeirra sem eru hjálparþurfi ef hluttekning og samkennd ráða ferðinni. — Orðskviðirnir 17:17; Filippíbréfið 2:2, 3; 1. Pétursbréf 3:8.

19. Hvaða augum eigum við að líta þá sem eru annarrar trúar en við?

19 Virðing fyrir öðrum nær líka til væntanlegra trúbræðra okkar. Sumir eru kannski lengi að taka við boðskapnum en við þurfum engu að síður að sýna þeim þolinmæði og virða mannlega reisn þeirra. Jehóva „vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.“ (2. Pétursbréf 3:9) Ættum við ekki að hafa sama viðhorf? Við getum lagt grunn að góðum vitnisburði með því að sýna fólki alltaf náungakærleik. Við forðumst auðvitað félagsskap sem gæti haft andlegar hættur í för með sér. (1. Korintubréf 15:33) En við sýnum „mannúð“ og fyrirlítum ekki fólk sem er annarrar trúar. — Postulasagan 27:3.

20. Hvað ætti fordæmi Jehóva og Jesú Krists að koma okkur til að gera?

20 Jehóva og Jesús Kristur álíta hvert og eitt okkar verðskulda virðingu. Gleymum aldrei hvernig þeir koma fram og verum á sama hátt fyrri til að veita öðrum virðingu. Og höfum alltaf í huga orð Drottins okkar Jesú Krists: ‚Þér allir eru bræður.‘ — Matteus 23:8.

Hvert er svarið?

• Hvaða augum ættirðu að líta trúbræður?

• Hvernig fær fordæmi Jehóva og Jesú þig til að virða aðra?

• Hvernig geta eiginmenn og foreldrar sýnt öðrum virðingu?

• Hvernig koma öldungar fram þegar þeir líta á trúbræður sína sem bræður?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 26]

Virtu konu þína að verðleikum.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Virtu sæmd barna þinna með því að hlusta á þau.

[Mynd á blaðsíð 26]

Komdu vel fram við safnaðarmenn.