Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að auka gildi lífsins

Að auka gildi lífsins

Að auka gildi lífsins

„STREIST þú ekki við að verða ríkur, hættu að verja viti þínu til þess,“ segir ævafornt spakmæli. „Hvort skulu augu þín hvarfla til auðsins, sem er svo stopull? Því að sannlega gjörir hann sér vængi eins og örn, sem flýgur til himins.“ (Orðskviðirnir 23:4, 5) Það er með öðrum orðum ekki viturlegt að slíta sér út með því að reyna að verða ríkur því að peningarnir geta flogið burt eins og á arnarvængjum.

Efnislegur auður getur horfið á örskotsstundu eins og Biblían bendir á. Náttúruhamfarir, efnahagshrun eða aðrir ófyrirséðir atburðir geta gert hann að engu á einni nóttu. Og þeir sem auðgast vel eru oft vonsviknir. John er dæmi um það en hann hafði atvinnu af því að skemmta stjórnmálamönnum, íþróttamönnum og kóngafólki.

„Ég helgaði mig starfinu,“ segir hann. „Ég hagnaðist vel og bjó á lúxushótelum. Stundum fór ég jafnvel til vinnu með einkaþotu. Í fyrstu naut ég þess en smám saman varð ég leiður á því. Þeir sem ég þjónaði virtust svo yfirborðslegir. Líf mitt hafði ekkert gildi.“

Eins og John uppgötvaði er lífið lítils virði ef það hefur ekkert andlegt inntak. Jesús Kristur benti á í fjallræðunni hvernig hægt væri að njóta varanlegrar hamingju. Hann sagði: „Sælir eru þeir sem eru sér meðvita um andlega þörf sína því að himnaríkið tilheyrir þeim.“ (Matteus 5:3, NW) Það er greinilega viturlegt að skipa andlegu málunum í öndvegi í lífinu. En ýmislegt fleira getur aukið gildi lífsins.

Fjölskylda og vinir eru mikils virði

Myndirðu njóta tilverunnar ef þú hefðir ekkert samband við fjölskylduna og ættir enga nána vini? Auðvitað ekki. Skaparinn áskapaði okkur þá þörf að elska og vera elskuð. Það er ein ástæðan fyrir því að Jesús lagði áherslu á að ‚elska náungann eins og sjálfan sig.‘ (Matteus 22:39) Fjölskyldan er gjöf Guðs og kjörinn vettvangur til að sýna óeigingjarnan kærleika. — Efesusbréfið 3:14, 15.

Hvernig getur fjölskyldan aukið gildi lífsins? Það má líkja samhentri fjölskyldu við fallegan garð þar sem hægt er að leita skjóls fyrir erli og álagi lífsins. Innan fjölskyldunnar fáum við félagsskap sem hressir, og hlýju sem eyðir einmanakennd. Þetta gerist auðvitað ekki án fyrirhafnar, en við auðgum lífið og eflum tengslin með því að rækta fjölskylduböndin. Sá tími, athygli, ást og virðing, sem við sýnum maka okkar, er dagleg „fjárfesting“ og getur skilað góðum arði með tíð og tíma. — Efesusbréfið 5:33.

Ef við eigum börn ættum við að leggja okkur fram um að skapa þeim rétt vaxtarumhverfi. Það getur verið nokkuð krefjandi að taka sér tíma til að vera með þeim, halda tjáskiptaleiðinni opinni og fræða þau um andleg mál. En þeim tíma er vel varið. Farsælir foreldrar líta á börnin sem blessun og gjöf frá Guði sem þeim ber að annast vel. — Sálmur 127:3.

Góðir vinir eiga líka þátt í því að gera lífið ánægjulegt og innihaldsríkt. (Orðskviðirnir 27:9) Samkennd getur aflað manni margra vina. (1. Pétursbréf 3:8) Sannir vinir reisa mann á fætur þegar maður hrasar. (Prédikarinn 4:9, 10) „Vinur elskar ætíð og í nauðum er hann sem bróðir.“ — Orðskviðirnir 17:17.

Sannir vinir eru afskaplega verðmætir. Sólsetur er tilkomumeira, máltíð ljúffengari og tónlist ánægjulegri í samfylgd vinar. Samhent fjölskylda og traustir vinir eru tveir mikilvægir þættir lífsfyllingar. En hvað annað hefur Guð gert til að auðga líf okkar?

Að fullnægja andlegum þörfum sínum

Eins og áður er getið setti Jesús hamingju í samband við vitundina um andlegar þarfir. Okkur eru áskapaðir bæði andlegir og líkamlegir hæfileikar. Biblían talar um ‚hinn andlega mann‘ og ‚hinn hulda mann hjartans.‘ — 1. Korintubréf 2:15; 1. Pétursbréf 3:3, 4.

Orðabókin An Expository Dictionary of New Testament Words eftir W. E. Vine segir að hjartað tákni „allar huglægar og siðferðilegar athafnir mannsins, bæði skynsemis- og tilfinningaþættina.“ Vine bætir við til skýringar: „Hjartað er með öðrum orðum notað í táknrænni merkingu um hinar huldu uppsprettur hins innri manns.“ Hann segir jafnframt að „hjartað, sem liggur djúpt hið innra, geymi ‚hinn leynda mann,‘ . . . hinn sanna mann.“

Hvernig getum við fullnægt þörfum hins ‚andlega‘ eða ‚leynda manns,‘ það er að segja hins ‚hulda manns hjartans‘? Það er stórt skref í rétta átt að viðurkenna og meðtaka það sem sálmaritarinn sagði endur fyrir löngu, innblásinn af Guði: „Vitið, að [Jehóva] er Guð, hann hefir skapað oss, og hans erum vér, lýður hans og gæsluhjörð.“ (Sálmur 100:3) Ef við viðurkennum þetta leiðir af sjálfu sér að við þurfum að standa Guði reikningsskap af gerðum okkar. Ef við viljum vera „lýður hans og gæsluhjörð“ verðum við að hegða okkur í samræmi við orð hans, Biblíuna.

Er það svo slæmt? Nei, því að vitundin um að hegðun okkar skipti máli fyrir Guð gefur lífinu aukið gildi. Hún hvetur okkur til að vera betri menn, og það er verðugt markmið. „Sæll er sá maður, sem óttast [Jehóva] og hefir mikla unun af boðum hans,“ segir Sálmur 112:1. Lotningarfullur guðsótti og hugheil hlýðni við boð hans getur gefið lífinu aukið gildi.

Hvers vegna er okkur hugsvölun í því að hlýða Guði? Vegna þess að við höfum samvisku sem Guð hefur gefið öllum mönnum. Samviskan er siðferðisdómari sem lýsir vanþóknun eða velþóknun á því sem við höfum gert eða hyggjumst gera. Allir hafa fengið samviskubit einhvern tíma. (Rómverjabréfið 2:15) En samviskan getur líka umbunað okkur því að okkur líður vel þegar við sýnum óeigingirni gagnvart Guði og náunganum. Við uppgötvum að „sælla er að gefa en þiggja.“ (Postulasagan 20:35) Það er ástæða fyrir því.

Skaparinn gerði okkur þannig úr garði að langanir og þarfir náungans hafa áhrif á okkur. Það gleður okkur að geta hjálpað öðrum. Og Biblían fullvissar okkur um það að Guð lítur á það sem greiða við sig þegar við réttum þurfandi manni hjálparhönd. — Orðskviðirnir 19:17.

Getum við haft eitthvað annað gagn en innri gleði af því að sinna andlegum þörfum okkar? Raymond, kaupsýslumaður í Miðausturlöndum, er þeirrar skoðunar. „Ég hafði bara eitt markmið og það var að græða peninga,“ segir hann. „En ég er breyttur maður síðan ég viðurkenndi í hjarta mér að það er til Guð og að óskir hans koma fram í Biblíunni. Núna er brauðstritið í öðru sæti hjá mér. Með því að reyna að þóknast Guði hef ég hlíft mér við mannskemmandi hatri. Ég hef enga löngun til að hefna mín á sökudólgunum þó að faðir minn hafi fallið í átökum.“

Það er hægt að lækna djúp tilfinningasár með því að sinna þörfum ‚hins andlega manns‘ eins og Raymond komst að raun um. En lífsfyllingin verður ekki fullkomin nema við tökumst á við hin daglegu vandamál.

Við getum notið ‚friðar Guðs‘

Fáir dagar ganga algerlega snurðulaust fyrir sig í þessum erilsama heimi. Áætlanir misheppnast, það verða slys og fólk bregst vonum okkar. Þessi skakkaföll geta spillt hamingju okkar. En Biblían lofar að þeir sem þjóna Jehóva Guði njóti innri friðar sem er kallaður „friður Guðs.“ Hvernig er hægt að finna þennan frið?

Páll postuli skrifaði: „Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ (Filippíbréfið 4:6, 7) Við þurfum ekki að bera vandamálin ein heldur getum við beðið innilega til Guðs og lagt daglegar byrðar okkar á hann. (Sálmur 55:23) Um leið og við vöxum andlega og finnum fyrir hjálp Guðs vex trúin á að hann svari bænum okkar fyrir milligöngu Jesú Krists. — Jóhannes 14:6, 14; 2. Þessaloníkubréf 1:3.

Eftir að við höfum fengið traust á Jehóva Guði eigum við auðveldara með að standast prófraunir, svo sem langvinn veikindi, ellihrörnun eða ástvinamissi. Jehóva Guð „heyrir bænir.“ (Sálmur 65:3) En til að lífið sé virkilega innihaldsríkt er nauðsynlegt að huga að framtíðinni.

Fagnaðu í voninni

Biblían lofar ‚nýjum himni og nýrri jörð‘ sem er réttlát og umhyggjusöm stjórn á himni yfir hlýðnu mannkyni. (2. Pétursbréf 3:13) Í þessum nýja heimi Guðs kemur friður og réttlæti í stað styrjalda og ranglætis. Þetta er engin hverful tálvon heldur sannfæring sem getur styrkst dag frá degi. Þetta eru raunverulegar gleðifréttir sem ástæða er til að fagna. — Rómverjabréfið 12:12; Títusarbréfið 1:2.

Í byrjun greinarinnar var minnst á John. Honum finnst líf sitt hafa meira gildi nú en áður. „Ég var aldrei sérstaklega trúhneigður en trúði þó alltaf á Guð,“ segir hann. „En trúin hafði engin sérstök áhrif á mig fyrr en tveir vottar Jehóva bönkuðu upp á hjá mér. Ég lét rigna yfir þá spurningum: ‚Hver er tilgangur lífsins? Hvað ber framtíðin í skauti sér?‘ Þeir gáfu mér biblíuleg svör sem ég var ánægður með, og í fyrsta sinn á ævinni fannst mér lífið hafa tilgang. En það var bara upphafið því að mig fór að þyrsta í sannleika sem varð til þess að ég tileinkaði mér nýtt verðmætamat. Ég er ekki efnaður lengur en mér finnst ég vera andlegur milljónamæringur.“

Kannski hefurðu látið andlega þáttinn liggja í dvala í mörg ár eins og John. En þú getur lífgað hann ef þú öðlast „viturt hjarta.“ (Sálmur 90:12) Með einbeitni og viðleitni geturðu notið innri gleði, friðar og vonar. (Rómverjabréfið 15:13) Já, þú getur aukið gildi lífsins.

[Mynd á blaðsíðu 6]

Bænin getur veitt okkur ‚frið Guðs.‘

[Myndir á blaðsíðu 7]

Veistu hvernig hægt er að gera fjölskyldulífið hamingjuríkara?