Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Boðaðu fagnaðarerindið af kappi

Boðaðu fagnaðarerindið af kappi

Boðaðu fagnaðarerindið af kappi

„Verið brennandi í andanum. Þjónið [Jehóva].“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 12:11.

1, 2. Hvaða afstöðu reyna kristnir menn að hafa til boðunarstarfsins?

UNGUR maður er spenntur að hefja störf á nýjum vinnustað. Hann mætir til vinnu í fyrsta sinn og bíður óþreyjufullur eftir fyrirmælum vinnuveitandans. Hann hlakkar til fyrsta verkefnisins og tekur það mjög alvarlega. Honum er mikið í mun að gera sitt besta.

2 Við sem erum kristin þurfum líka að líta á okkur sem nýja starfsmenn. Við ölum í brjósti þá von að lifa að eilífu svo að segja má að við höfum nýhafið störf hjá Jehóva. Skapari okkar er örugglega með ótal verkefni á takteinum sem halda okkur uppteknum að eilífu. En allra fyrsta verkefnið er það að boða fagnaðarerindið um ríki hans. (1. Þessaloníkubréf 2:4) Hvernig hugsum við um þetta verkefni frá Guði? Líkt og ungi maðurinn á nýja vinnustaðnum viljum við gera okkar besta, kappsöm, glöð og brennandi af áhuga.

3. Hvað þarf til að vera dugandi boðberi fagnaðarerindisins?

3 En það er hægara sagt en gert að vera jákvæður um langan tíma. Við höfum margar skyldur aðrar en boðunarstarfið og sumar eru lýjandi, bæði líkamlega og tilfinningalega. Yfirleitt tekst okkur að rækja þær samhliða hæfilegri þátttöku í boðunarstarfinu. En oft kostar það stöðuga baráttu. (Markús 8:34) Jesús lagði áherslu á að við þyrftum að leggja okkur kappsamlega fram til að vera farsæl í kristnu lífi. — Lúkas 13:24.

4. Hvernig geta daglegar áhyggjur haft áhrif á andleg viðhorf okkar?

4 Það er hægur vandi að finnast maður stundum vera að bugast eða kafna í öllu annríkinu. „Áhyggjur þessa lífs“ geta kæft kostgæfni okkar og mætur á guðræðislegu starfi. (Lúkas 21:34, 35; Markús 4:18, 19) Við gætum farið að ‚afrækja okkar fyrri kærleika‘ vegna ófullkomleikans. (Opinberunarbókin 2:1-4) Vissir þættir þjónustunnar við Jehóva gætu orðið hálfgert vanaverk. Hvernig veitir Biblían þá hvatningu sem við þurfum að fá til að viðhalda kostgæfninni í boðunarstarfinu?

Eins og „eldur“ í hjörtum okkar

5, 6. Hvernig leit Páll postuli á þau sérréttindi að boða fagnaðarerindið?

5 Jehóva hefur falið okkur þjónustu sem er miklu dýrmætari en svo að hún megi verða að hversdagslegu vanaverki. Páll postuli leit á boðun fagnaðarerindisins sem afar mikil sérréttindi, og hann taldi sjálfan sig óverðugan þeirra. „Mér, sem minnstur er allra heilagra,“ sagði hann, „var veitt sú náð að boða heiðingjunum fagnaðarerindið um hinn órannsakanlega ríkdóm Krists og að upplýsa alla um það, hvernig Guð hefur ráðstafað þessum leyndardómi. Hann hefur frá eilífð verið hulinn í Guði, sem allt hefur skapað.“ — Efesusbréfið 3:8, 9.

6 Jákvæðni Páls gagnvart boðunarstarfinu er gott fordæmi fyrir okkur. „Svo er ég og fyrir mitt leyti fús til að boða fagnaðarerindið,“ sagði hann í Rómverjabréfinu. Hann skammaðist sín ekki fyrir fagnaðarerindið. (Rómverjabréfið 1:15, 16) Viðhorf hans voru rétt og hann var óðfús að rækja þjónustu sína.

7. Við hverju varaði Páll í Rómverjabréfinu?

7 Páli var ljóst að hann þurfti að vera kostgæfinn svo að hann hvatti kristna menn í Róm: „Verið ekki hálfvolgir í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið [Jehóva].“ (Rómverjabréfið 12:11) Hugsunin í gríska orðinu, sem þýtt er ‚hálfvolgur,‘ er „silalegur, latur.“ Þó svo að við séum ekki hálfvolg í boðunarstarfinu þurfum við öll að vera vakandi fyrir fyrstu einkennum andlegrar leti og leiðrétta viðhorf okkar ef við komum auga á þess konar einkenni. — Orðskviðirnir 22:3.

8. (a) Hvað varð eins og „eldur“ í hjarta Jeremía og hvers vegna? (b) Hvaða lærdóm getum við dregið af Jeremía?

8 Andi Guðs getur líka hjálpað okkur þegar við erum kjarklítil. Spámaðurinn Jeremía var einu sinni niðurdreginn og það hvarflaði að honum að hætta spámennskunni. Hann sagði jafnvel um Jehóva: „Ég skal ekki minnast hans og eigi framar tala í hans nafni.“ Var þetta merki um andlegan galla á alvarlegu stigi? Nei, Jeremía var andlega sterkur, kostgæfinn gagnvart sannleikanum og elskaði Jehóva, og það gaf honum kraft til að halda áfram að spá. „[Orð Jehóva] var sem eldur . . . í hjarta mínu, er byrgður væri inni í beinum mínum,“ segir hann. „Ég reyndi að þola það, en ég gat það ekki.“ (Jeremía 20:9) Það er ekkert óeðlilegt að trúir þjónar Guðs missi kjarkinn af og til. En þegar þeir biðja Jehóva um hjálp les hann hjarta þeirra og veitir þeim fúslega heilagan anda sinn, svo framarlega sem orð hans býr í hjörtum þeirra eins og var hjá Jeremía. — Lúkas 11:9-13; Postulasagan 15:8.

„Slökkvið ekki andann“

9. Hvað gæti tálmað starfsemi heilags anda í okkar þágu?

9 Páll postuli hvatti Þessaloníkumenn til að ‚slökkva ekki andann.‘ (1. Þessaloníkubréf 5:19) Verk og viðhorf geta tálmað starfsemi heilags anda í okkar þágu, ef þau ganga í berhögg við meginreglur Guðs. (Efesusbréfið 4:30) Boðun fagnaðarerindisins er verkefni kristinna manna nú á tímum. Við virðum þessi sérréttindi mikils. Það kemur ekki á óvart að þeir sem þekkja ekki Guði skuli fyrirlíta boðunarstarf okkar. En þegar kristinn maður vanrækir þjónustu sína af ásetningi gæti það slökkt hinn örvandi anda Guðs.

10. (a) Hvaða áhrif getur afstaða utansafnaðarmanna haft á okkur? (b) Hvaða göfug afstaða til boðunarstarfsins kemur fram í 2. Korintubréfi 2:17?

10 Sumir utansafnaðarmenn halda eflaust að starf okkar sé einungis fólgið í því að dreifa ritum. Sumir halda kannski ranglega að við göngum í hús í þeim tilgangi að safna framlögum. Það gæti dregið úr árangri okkar í boðunarstarfinu ef við látum neikvæð viðhorf af þessu tagi hafa áhrif á okkur. Við ættum ekki að láta það gerast heldur hafa sömu afstöðu og Jehóva og Jesús til þjónustunnar. Páll postuli lýsti þessu göfuga viðhorfi er hann sagði: „Ekki erum vér eins og hinir mörgu, er pranga með Guðs orð, heldur flytjum vér það af hreinum huga frá Guði frammi fyrir augliti Guðs, með því að vér erum í Kristi.“ — 2. Korintubréf 2:17.

11. Hvernig gátu frumkristnir menn verið kappsamir þegar þeir voru ofsóttir og hvað getum við lært af þeim?

11 Skömmu eftir dauða Jesú gekk ofsóknaralda yfir lærisveina hans í Jerúsalem. Þeim var hótað hörðu og skipað að hætta að prédika. En Biblían segir að þeir hafi ‚fyllst heilögum anda og talað orð Guðs af djörfung.“ (Postulasagan 4:17, 21, 31) Í bréfi Páls til Tímóteusar mörgum árum síðar kemur fram hið jákvæða viðhorf sem kristnir menn ættu að varðveita. Þar sagði Páll: „Ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar. Fyrirverð þig því ekki fyrir vitnisburðinn um Drottin vorn, né fyrir mig, bandingja hans, heldur skalt þú með mér illt þola vegna fagnaðarerindisins, svo sem Guð gefur máttinn til.“ — 2. Tímóteusarbréf 1:7, 8.

Hvað skuldum við náunganum?

12. Hver er aðalástæðan fyrir því að við boðum fagnaðarerindið?

12 Rétt afstaða til boðunarstarfsins byggist á réttu tilefni. Af hverju erum við að prédika? Aðalástæðan kemur fram í orðum sálmaritarans: „Dýrkendur þínir prísa þig [Jehóva]. Þeir tala um dýrð konungdóms þíns, segja frá veldi þínu. Þeir kunngjöra mönnum veldi þitt, hina dýrlegu tign konungdóms þíns.“ (Sálmur 145:10-12) Við prédikum til að lofa Jehóva meðal almennings og helga nafn hans frammi fyrir öllu mannkyni. Jafnvel þó að fáir hlusti á okkur lofum við Jehóva með því að boða hjálpræðisboðskapinn með tryggð og trúfesti.

13. Hvað fær okkur til að segja öðrum frá hjálpræðisvoninni?

13 Við boðum trúna líka vegna mannkærleika og til að forðast blóðskuld. (Esekíel 33:8; Markús 6:34) Hér á við það sem Páll sagði um fólk utan kristna safnaðarins. Hann kvaðst vera „í skuld bæði við Grikki og útlendinga, vitra og fávísa.“ (Rómverjabréfið 1:14) Honum fannst hann skulda fólki það að boða því fagnaðarerindið vegna þess að það er vilji Guðs að „allir menn verði hólpnir.“ (1. Tímóteusarbréf 2:4) Við finnum fyrir sömu skyldukvöð og náungakærleika. Kærleikur Jehóva til mannkynsins fékk hann til að senda son sinn til jarðar til að deyja fyrir það. (Jóhannes 3:16) Það var mikil fórn. Við líkjum eftir kærleika Jehóva þegar við verjum tíma okkar og kröftum til að færa öðrum gleðifréttirnar um hjálpræðið sem byggt er á fórn Jesú.

14. Hvernig lýsir Biblían heiminum utan kristna safnaðarins?

14 Vottar Jehóva líta á aðra menn sem tilvonandi bræður í trúnni. Við verðum að prédika djarfmannlega án þess að vera herská. Staðreynd er að Biblían talar tæpitungulaust um heiminn í heild. Páll notar orðið „heimur“ í neikvæðri merkingu þegar hann talar um „speki þessa heims“ og ‚veraldlegar girndir.‘ (1. Korintubréf 3:19; Títusarbréfið 2:12) Hann minnti kristna menn í Efesus á það að þeir væru andlega „dauðir“ þegar þeir lifðu „samkvæmt aldarhætti þessa heims.“ (Efesusbréfið 2:1-3) Þessi ummæli og önnur í svipuðum dúr koma heim og saman við orð Jóhannesar postula: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ — 1. Jóhannesarbréf 5:19.

15. Hvað ættum við ekki að gera gagnvart þeim sem standa utan kristna safnaðarins og hvers vegna?

15 En höfum hugfast að ummæli sem þessi eru ekki viðhöfð um einstaklinga heldur um heiminn í heild sem er fjarlægur Guði. Kristnir menn dirfast ekki að dæma um það hvernig einstakir menn bregðast við boðun fagnaðarerindisins. Þeir hafa engar forsendur fyrir því að kalla einstaka menn hafra. Það er ekki okkar að segja hver niðurstaðan verður þegar Jesús kemur til að skilja ‚sauðina‘ frá „höfrunum.“ (Matteus 25:31-46) Við erum ekki útnefnd í dómarahlutverk heldur Jesús. Og reynslan hefur sýnt að menn hafa tekið við boðskap Biblíunnar, breytt sér og orðið hreinlífir kristnir menn, þó svo að þeir hafi verið viðriðnir hegðun af versta tagi. Þess vegna erum við órög við að tala við alla um guðsríkisvonina eftir því sem tækifæri gefst, þó svo að við sækjumst ekki eftir félagsskap við hvern sem er. Biblían talar um fólk sem ‚hneigðist til eilífs lífs‘ og tók að lokum trú. (Postulasagan 13:48, NW) Við vitum aldrei hver hneigist til eilífs lífs fyrr en við höfum vitnað fyrir honum — kannski margsinnis. Þess vegna erum við „hógvær“ gagnvart þeim sem hafa ekki enn tekið við hjálpræðisboðskapnum og sýnum þeim „virðingu“ í von um að einhver þeirra eigi eftir að gera það. — 2. Tímóteusarbréf 2:25; 1. Pétursbréf 3:15.

16. Nefndu eina ástæðu fyrir því að ná góðum tökum á fræðslulistinni.

16 Færni í boðun fagnaðarerindisins eykur okkur kapp og ákefð. Lýsum þessu með dæmi: Það er lítið gaman að leik eða íþrótt ef maður kann hana ekki. En góðum leikmanni þykir hún skemmtileg. Kristinn maður hefur meiri ánægju en ella af boðunarstarfinu ef hann nær góðum tökum á fræðslulistinni. (2. Tímóteusarbréf 4:2; Títusarbréfið 1:9) Páll ráðlagði Tímóteusi: „Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans.“ (2. Tímóteusarbréf 2:15) Hvernig getum við þjálfað okkur í kennslutækninni?

17. Hvernig getum við glætt með okkur löngun í biblíuþekkingu og hvernig gagnast þessi þekking í boðunarstarfinu?

17 Ein aðferðin er fólgin í því að auka þekkingu sína jafnt og þétt. Pétur postuli hvetur: „Sækist eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ósviknu mjólk, til þess að þér af henni getið dafnað til hjálpræðis.“ (1. Pétursbréf 2:2) Heilbrigt ungbarn sækist eftir mjólk af eðlisávísun. En kristinn maður getur þurft að glæða með sér löngunina í biblíuþekkingu. Það má gera með því að temja sér góðar náms- og lestrarvenjur. (Orðskviðirnir 2:1-6) Það kostar áreynslu og sjálfsaga að verða fær biblíukennari en það er erfiðisins virði. Ánægjan, sem fylgir því að rannsaka orð Guðs, gerir okkur brennandi í andanum og óðfús að segja öðrum frá því sem við höfum lært.

18. Hvernig geta safnaðarsamkomur gert okkur fær um að fara rétt með orð sannleikans?

18 Kristnar samkomur eru líka mikilvægur þáttur í því að við förum fagmannlega með orð Guðs. Það er gott að fylgjast með í Biblíunni þegar ritningargreinar eru lesnar í opinberum fyrirlestri og annarri biblíulegri umræðu. Það er viturlegt að fylgjast vel með á samkomum, þar á meðal þeim dagskrárliðum sem fjalla sérstaklega um boðunarstarfið. Við ættum aldrei að vanmeta gildi sviðsettra kynninga á samkomum. Við ættum ekki að leyfa huganum að reika heldur einbeita okkur og aga. (1. Tímóteusarbréf 4:16) Kristnar samkomur byggja upp trúna, glæða með okkur löngun í orð Guðs og þjálfa okkur í því að boða fagnaðarerindið af kappi.

Við getum treyst á stuðning Jehóva

19. Af hverju er nauðsynlegt að taka reglulega þátt í boðunarstarfinu?

19 Kristinn maður reynir að boða fagnaðarerindið reglulega. Hann er áhugasamur um það og „brennandi í andanum.“ (Efesusbréfið 5:15, 16) Aðstæður eru auðvitað breytilegar og það geta ekki allir tekið jafnmikinn þátt í þessu björgunarstarfi. (Galatabréfið 6:4, 5) En það er kannski mikilvægara að tala oft við aðra um vonina heldur en að einblína á tímann sem við notum til þess. (2. Tímóteusarbréf 4:1, 2) Því meira sem við boðum trúna, þeim mun ljósari verður okkur nauðsyn þess. (Rómverjabréfið 10:14, 15) Umhyggja okkar og samkennd vex við það að vera að staðaldri í tengslum við einlægt fólk sem andvarpar og kveinar og er án vonar. — Esekíel 9:4; Rómverjabréfið 8:22.

20, 21. (a) Hvaða verkefni er enn framundan? (b) Hvernig styður Jehóva okkur í starfi?

20 Jehóva hefur trúað okkur fyrir fagnaðarerindinu. Þetta er fyrsta verkefni okkar sem „samverkamenn“ hans. (1. Korintubréf 3:6-9) Okkur er mikið í mun að rækja þær skyldur sem hann hefur lagt okkur á herðar, og við viljum rækja þær sem best við getum, af allri sálu. (Markús 12:30; Rómverjabréfið 12:1) Það er enn margt réttsinnað fólk í heiminum sem hungrar eftir sannleikanum. Enn er mikið starf óunnið en við getum reitt okkur á stuðning Jehóva þegar við leitumst við að fullna þjónustu okkar. — 2. Tímóteusarbréf 4:5.

21 Jehóva býður okkur anda sinn og leggur okkur í hendur ‚sverð andans‘ sem er orð hans. Með hjálp hans getum við opnað munninn og ‚kunngert með djörfung leyndardóm fagnaðarerindisins.‘ (Efesusbréfið 6:17-20) Vonandi verður hægt að segja hið sama um okkur og Páll postuli skrifaði kristnum mönnum í Þessaloníku: „Fagnaðarerindi vort kom eigi til yðar í orðum einum, heldur einnig í krafti og í heilögum anda og með fullkominni sannfæringu.“ (1. Þessaloníkubréf 1:5) Já, boðum fagnaðarerindið af kappi!

Stutt upprifjun

• Hvaða áhrif geta áhyggjur lífsins haft á kostgæfni okkar í boðunarstarfinu?

• Hvernig ætti löngunin til að boða fagnaðarerindið að vera eins og „eldur“ í hjörtum okkar?

• Hvaða neikvæða afstöðu til boðunarstarfsins ber að forðast?

• Hvernig ættum við almennt að líta á þá sem eru ekki sömu trúar og við?

• Hvernig hjálpar Jehóva okkur að vera kappsamir boðberar?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 9]

Kristnir menn líkja eftir kostgæfni Páls og Jeremía.

[Myndir á blaðsiðu 10]

Kappsemi okkar í boðunarstarfinu er sprottin af kærleika til Guðs og náungans.