Getur lífið haft meira gildi?
Getur lífið haft meira gildi?
VERÐGILDI hluta er ekki alltaf sem sýnist. Í Bandaríkjunum var gefinn út peningaseðill að verðmæti 10.000 dollarar (um 750.000 íslenskar krónur). Pappírinn, sem hann var prentaður á, var aðeins nokkurra króna virði.
Hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér hvort verðlitlir pappírsmiðar geti gefið lífinu raunverulegt gildi? Margir halda það. Milljónir manna leggja nótt við dag til að þéna sem mest. Sumir fórna heilsunni, vinunum og jafnvel fjölskyldunni fyrir peninga. Til hvers? Geta peningar — eða það sem fæst fyrir peninga — veitt okkur sanna og varanlega lífsfyllingu?
Rannsakendur segja að því meira sem við reynum að sækja lífsfyllingu í efnislegar eigur, þeim mun ólíklegra sé að við finnum hana. Blaðamaðurinn Alfie Kohn ályktar að „lífsfylling sé hreinlega ekki til sölu. . . . Þeir sem leggja mest upp úr allsnægtum eru að jafnaði kvíðnari og
daprari en fjöldinn og líður yfirleitt verr þegar á heildina er litið.“ — International Herald Tribune.En margir halda að peningar gefi lífinu gildi þó svo að rannsakendur viti betur. Það kemur naumast á óvart því að Vesturlandabúar mega búast við því að daglega dynji á þeim einar 3000 auglýsingar. Hvort sem verið er að auglýsa bíla eða brjóstsykur er boðskapurinn þessi: ‚Þér líður betur ef þú kaupir þetta.‘
Þessi linnulausa áhersla á efnisleg gildi hefur þau áhrif að hin andlegu sitja oft á hakanum. Í grein í tímaritinu Newsweek var haft eftir erkibiskupinum í Köln að ‚Guð sé ekki lengur til umræðu í þessu þjóðfélagi.‘
Kannski hefurðu eytt nálega öllum kröftum í það að sjá fyrir þér og þínum. Kannski finnst þér þú hafa lítinn tíma aflögu til nokkurs annars. En finnst þér ekki stundum að inntak lífsins hljóti að vera meira en endalaust strit uns heilsan bilar eða ellin tekur völdin?
Er hægt að auka lífsánægju sína með því að gefa meiri gaum að andlegum hugðarefnum? Hvernig geturðu aukið gildi lífsins?