Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sáum sæði sannleikans um Guðsríki

Sáum sæði sannleikans um Guðsríki

Sáum sæði sannleikans um Guðsríki

„Sá sæði þínu að morgni og lát hendur þínar eigi hvílast að kveldi.“ — PRÉDIKARINN 11:6.

1. Í hvaða skilningi stunda kristnir menn sáningu núna?

LANDBÚNAÐUR gegndi þýðingarmiklu hlutverki í hebresku samfélagi fornaldar. Jesús eyddi allri mannsævi sinni í fyrirheitna landinu og sótti líkingar sínar oft í landbúnað og akuryrkju. Til dæmis líkti hann boðun fagnaðarerindisins um ríki Guðs við sáningu. (Matteus 13:1-9, 18-23; Lúkas 8:5-15) Enn þann dag í dag er sáning andlegs sæðis mikilvægasta starf kristinna manna hvort sem þeir búa í landbúnaðarsamfélagi eða ekki.

2. Hversu mikilvægt er boðunarstarfið og hvað er meðal annars gert í tengslum við það?

2 Það eru mikil sérréttindi að sá biblíusannindum núna á endalokatímanum. Rómverjabréfið 10:14, 15 lýsir ágætlega mikilvægi þess: „Hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki? Og hver getur prédikað, nema hann sé sendur? Svo er og ritað: ‚Hversu fagurt er fótatak þeirra, sem færa fagnaðarboðin góðu.‘“ Það hefur aldrei verið þýðingarmeira en nú að rækja þetta verkefni frá Guði með jákvæðu hugarfari. Það er ástæðan fyrir því að vottar Jehóva eru uppteknir af því að framleiða biblíur og biblíutengd rit á 340 tungumálum og dreifa meðal almennings. Meira en 18.000 sjálfboðaliðar starfa að útgáfu þessara rita við aðalstöðvar þeirra og útibú víða um lönd. Og næstum sex milljónir votta taka þátt í dreifingu ritanna um heim allan.

3. Hverju áorkar sáning sannleikans um Guðsríki?

3 Ávöxturinn af þessu erfiði er sá að margir taka við sannleikanum líkt og gerðist í árdaga kristninnar. (Postulasagan 2:41, 46, 47) En þó að nýir boðberar Guðsríkis láti skírast í stórum hópum er þó mikilvægara að þessi mikli vitnisburður stuðlar að því að nafn Jehóva helgast og að hann er réttlættur sem hinn eini sanni Guð. (Matteus 6:9) Og þekking á orði Guðs bætir líf margra og getur orðið þeim til hjálpræðis. — Postulasagan 13:47.

4. Hve mikla umhyggju báru postularnir fyrir þeim sem þeir boðuðu trúna?

4 Postulunum var fullkunnugt um að fagnaðarerindið lífgaði fólk og þeir létu sér mjög annt um þá sem þeir boðuðu trúna. Það má sjá af orðum Páls postula þegar hann skrifaði: „Slíkt kærleiksþel bárum vér til yðar, að vér vildum glaðir gefa yður ekki einungis fagnaðarerindi Guðs, heldur og vort eigið líf því að þér voruð orðnir oss ástfólgnir.“ (1. Þessaloníkubréf 2:8) Með einlægri umhyggju sinni fyrir öðrum líktu Páll og hinir postularnir eftir Jesú og englunum á himni sem taka mjög ríkan þátt í þessu björgunarstarfi. Við skulum rifja upp hið þýðingarmikla hlutverk þessara himnesku þjóna Guðs í því að sá sannleika Guðsríkis, og við skulum kanna hvernig fordæmi þeirra hvetur okkur til að rækja skyldur okkar.

Jesús sáði sannleikanum um Guðsríki

5. Hverju var Jesús fyrst og fremst upptekinn af þegar hann var á jörðinni?

5 Jesús var fullkominn maður og hafði mátt til að gera margt gott fyrir fólk á þeim tíma. Hann hefði til dæmis getað leiðrétt margar af ranghugmyndum samtíðarinnar í heilbrigðismálum eða flýtt fyrir skilningi manna í öðrum vísindum. En hann tók það skýrt fram mjög snemma á þjónustuferli sínum að verkefni hans væri það að boða fagnaðarerindið. (Lúkas 4:17-21) Og undir lokin sagði hann: „Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni.“ (Jóhannes 18:37) Þess vegna var hann upptekinn af því að sá sæði Guðsríkis. Það var þýðingarmeira fyrir hann að fræða samtíðarmenn sína um Guð og tilgang hans en um nokkuð annað. — Rómverjabréfið 11:33-36.

6, 7. (a) Hvaða athyglisverða skuldbindingu gerði Jesús áður en hann steig upp til himna og hvernig efnir hann hana? (b) Hvaða áhrif hefur afstaða Jesú til boðunarstarfsins á þig persónulega?

6 Jesús talaði óbeint um sig sem sáðmann sannleikans um Guðsríki. (Jóhannes 4:35-38) Hann notaði öll tækifæri til að útbreiða fagnaðarerindið. Meira að segja boðaði hann gleðitíðindi um jarðneska paradís þegar hann var deyjandi á kvalastaurnum. (Lúkas 23:43) En brennandi áhugi hans á boðun fagnaðarerindisins slokknaði ekki þegar hann dó á kvalastaurnum. Áður en hann steig upp til himna sagði hann postulunum að halda áfram að sá sæði Guðsríkis og gera menn að lærisveinum. Síðan gaf hann þeim athyglisvert loforð: „Sjá,“ sagði hann, „ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ — Matteus 28:19, 20.

7 Jesús skuldbatt sig með þessum orðum til að styðja, leiðbeina og vernda boðun fagnaðarerindisins „alla daga allt til enda veraldar.“ Allt fram á okkar dag hefur Jesús sýnt persónulegan áhuga á boðun fagnaðarerindisins. Hann er leiðtogi okkar og stjórnar sáningu sannleikans um ríkið. (Matteus 23:10) Hann er höfuð kristna safnaðarins og er ábyrgur gagnvart Jehóva fyrir boðunarstarfinu um heim allan. — Efesusbréfið 1:22, 23; Kólossubréfið 1:18.

Englar boða fagnaðarboðskap

8, 9. (a) Hvernig hafa englarnir sýnt einlægan áhuga á því sem gerist á jörðinni? (b) Í hvaða skilningi má segja að við séum englunum til sýnis?

8 Englarnir ‚sungu gleðisöng allir saman og fögnuðu‘ þegar Jehóva skapaði jörðina. (Jobsbók 38:4-7) Þeir hafa æ síðan sýnt vakandi áhuga á því sem gerist á jörðinni. Jehóva hefur notað þá til að flytja mönnum boð sín, sérstaklega í sambandi við boðun fagnaðarerindisins á okkar tímum. (Sálmur 103:20) Jóhannesi postula var gefin opinberun þar sem hann sá engil „fljúga um háhvolf himins.“ Engillinn „hélt á eilífum fagnaðarboðskap, til að boða þeim, sem á jörðunni búa, og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð, og sagði hárri röddu: ‚Óttist Guð og gefið honum dýrð, því að komin er stund dóms hans.‘“ — Opinberunarbókin 14:6, 7.

9 Biblían segir að englar séu „þjónustubundnir andar, útsendir í þeirra þarfir, sem hjálpræðið eiga að erfa.“ (Hebreabréfið 1:14) Englarnir rækja skyldur sínar dyggilega og geta jafnhliða því fylgst með okkur að störfum. Það er eins og við vinnum verk okkar á mjög áberandi leiksviði fyrir hópi himneskra áhorfenda. (1. Korintubréf 4:9) Það er hrífandi til þess að hugsa að við skulum ekki starfa ein að því að sá sannindum Guðsríkis!

Við rækjum skyldur okkar af kappi

10. Hvernig má heimfæra ráðin í Prédikaranum 11:6 á boðunarstarfið?

10 Af hverju sýna Jesús og englarnir svona mikinn áhuga á starfi okkar? Jesús tiltók eina ástæðu er hann sagði: „Ég segi yður: Þannig verður fögnuður með englum Guðs yfir einum syndara, sem gjörir iðrun.“ (Lúkas 15:10) Við höfum sama einlæga áhugann á fólki. Þess vegna gerum við okkar besta til að sá sæði Guðsríkis alls staðar. Það má heimfæra orðin í Prédikaranum 11:6 á starf okkar. Þar erum við hvött: „Sá sæði þínu að morgni og lát hendur þínar eigi hvílast að kveldi, því að þú veist ekki, hvað muni heppnast, þetta eða hitt, eða hvort tveggja verði gott.“ Auðvitað má búast við því að hundruð eða jafnvel þúsundir manna hafni boðskapnum á móti hverjum einum sem tekur við honum. En líkt og englarnir fögnum við jafnvel „einum syndara“ sem tekur við hjálpræðisboðskapnum.

11. Hvaða áhrif geta biblíutengd rit haft?

11 Boðun fagnaðarerindisins er margþætt. Einn þátturinn í því er hið biblíutengda prentmál votta Jehóva. Að sumu leyti eru þessi rit líka eins og sáðkorn sem dreift er út um allt. Við vitum ekki hvar þau skila árangri. Stundum skiptir rit um eigendur áður en það er lesið. Jesús og englarnir geta jafnvel látið eitthvað þvílíkt gerast til góðs fyrir hjartahreina menn. Eftirfarandi dæmi sýna hvernig Jehóva getur komið óvæntu til leiðar með hjálp rita sem fólk fær í hendur.

Verk hins sanna Guðs

12. Hvernig átti gamalt blað þátt í því að fjölskylda kynntist Jehóva?

12 Árið 1953 fluttust Robert og Lila með börnum sínum úr stórborg og settust að í gömlu og niðurníddu sveitahúsi í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Skömmu eftir að þau fluttu ákvað Robert að innrétta baðherbergi í afþiljuðu rými undir stiga. Eftir að hann hafði fjarlægt nokkur borð fann hann rusl eftir mýs, meðal annars pappírssnifsi og valhnetuhýði. Innan um ruslið lá eintak af tímaritinu The Golden Age (Gullöldinni). Robert fékk sérstaklega áhuga á grein um barnauppeldi og varð svo hrifinn af skýrum, biblíutengdum leiðbeiningum blaðsins að hann sagði Lilu að þau skyldu ganga í „trúflokkinn sem gæfi út tímaritið.“ Fáeinum vikum síðar bönkuðu vottar Jehóva upp á en Robert sagði þeim að fjölskyldan hefði ekki áhuga á öðru en „trúfélaginu sem gæfi út Gullöldina.“ Vottarnir sögðu honum að tímaritið væri búið að fá nýtt nafn og héti nú Vaknið! Robert og Lila hófu þá reglulegt biblíunám með hjálp vottanna og létu svo skírast. Þau sáðu síðan frækornum sannleikans í hjörtu barna sinna og uppskáru ríkulega. Núna eru rösklega 20 manns í fjölskyldunni skírðir vottar Jehóva Guðs, þeirra á meðal börn þeirra sjö.

13. Hvað vakti áhuga hjóna á Púertóríkó á Biblíunni?

13 Hjónin William og Ada á Púertóríkó höfðu engan áhuga á biblíunámi fyrir 40 árum og þóttust ekki vera heima þegar vottar Jehóva bönkuðu hjá þeim. Dag einn fór William til skransala að kaupa eitthvað sem hann vantaði til að gera við húsið. Hann var á förum þegar hann rak augun í skærgræna bók í stórum ruslagámi. Þetta var bókin Religion sem vottar Jehóva gáfu út árið 1940. William tók bókina með sér heim og var stórhrifinn af því sem hann las um muninn á falskri trú og sannri. Næst þegar vottar Jehóva komu í heimsókn hlustuðu William og Ada fúslega á erindi þeirra og hófu biblíunám með hjálp þeirra. Þau létu skírast nokkrum mánuðum síðar á alþjóðamótinu Vilji Guðs árið 1958. Þau hafa hjálpað rösklega 50 manns inn í hið kristna bræðrafélag.

14. Hvaða kraftur býr í biblíutengdum ritum eins og frásaga sýnir?

14 Karl var ekki nema 11 ára og svolítið hrekkvís. Honum fannst hann alltaf vera að koma sér í klandur. Faðir hans, þýskur meþódistaprestur, hafði kennt honum að vondir menn færu í logandi helvíti eftir dauðann svo að Karl var dauðhræddur við vítisvist. Dag einn árið 1917 sá hann pappírsmiða á götunni og tók hann upp. Hann las textann og rak augun í spurninguna: „Hvað er helvíti?“ Þetta var boðsmiði á opinberan fyrirlestur um helvíti sem haldinn var á vegum Biblíunemendanna eins og vottar Jehóva hétu í þá daga. Karl lét skírast ári síðar eftir nokkrar biblíunámsstundir og varð þá einn af Biblíunemendunum. Árið 1925 var honum boðið að starfa við aðalstöðvar votta Jehóva — og starfar þar enn. Átta áratuga þjónusta í kristnu starfi hófst með pappírsmiða á götunni.

15. Hvað getur Jehóva gert að vild?

15 Menn geta ekki dæmt um það hvort og þá hvaða hlutverki englar gegndu í þessum atvikum en við ættum aldrei að efast um að Jesús og englarnir gegni virku hlutverki í boðunarstarfinu og að Jehóva geti stýrt málum að vild. Þessar frásögur og margar aðrar í svipuðum dúr sýna fram á hin góðu áhrif sem ritin okkar geta haft eftir að þau komast í hendur annarra.

Okkur er trúað fyrir fjársjóði

16. Hvað má læra af orðunum í 2. Korintubréfi 4:7?

16 Páll postuli talaði um ‚fjársjóð í leirkerum.“ Þessi fjársjóður er boðunarumboðið frá Jehóva Guði og leirkerin eru mennirnir sem hann hefur trúað fyrir fjársjóðnum. Þessir menn eru ófullkomnir og takmarkaðir svo að Páll bendir á að þetta umboð hafi í för með sér að „ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss.“ (2. Korintubréf 4:7) Já, við getum treyst að Jehóva veitir okkur þann kraft sem þarf til að áorka því sem fyrir liggur.

17. Hvað mætir okkur þegar við sáum sæði Guðsríkis og af hverju ættum við eftir sem áður að vera jákvæð?

17 Oft þurfum við að færa fórnir. Sums staðar getur verið erfitt eða óþægilegt að starfa. Sums staðar virðast kannski flestir vera algerlega áhugalausir eða jafnvel fjandsamlegir. Við leggjum mikið á okkur án sýnilegs árangurs. En svo mikið er í húfi að það er erfiðisins virði. Munum að sæðið, sem maður sáir, getur verið fólki hamingjugjafi núna og veitt því eilíft líf í framtíðinni. Orðin í Sálmi 126:6 hafa margsannast: „Grátandi fara menn og bera sæðið til sáningar, með gleðisöng koma þeir aftur og bera kornbindin heim.“

18. Hvernig getum við gefið stöðugan gaum að þjónustu okkar og af hverju ættum við að gera það?

18 Grípum því sérhvert tækifæri til að sá sæði sannleikans um Guðsríki örlátlega. Gleymum aldrei að það er Jehóva sem gefur vöxtinn þó að við sáum, gróðursetjum og vökvum. (1. Korintubréf 3:6, 7) En Jehóva ætlast til þess að við gerum þjónustu okkar full skil, líkt og Jesús og englarnir vinna sinn hluta verksins. (2. Tímóteusarbréf 4:5) Gefum stöðuglega gaum að kennslu okkar, viðhorfum og starfsáhuga. Af hverju? „Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína,“ svarar Páll. — 1. Tímóteusarbréf 4:16.

Hvað lærðum við?

• Hvaða góðum árangri skilar sáningarstarfið?

• Hvaða hlutdeild eiga Jesús Kristur og englarnir í boðunarstarfinu núna?

• Af hverju ættum við að sá sannleika Guðsríkis örlátlega?

• Af hverju ættum við að halda ótrauð áfram þegar við mætum sinnuleysi eða fjandskap í boðunarstarfinu?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

Kristnir menn sá sannleika Guðsríkis örlátlega líkt og bændur sáðu í akra sína forðum daga.

[Mynd á blaðsíðu 16, 17]

Vottar Jehóva gefa út biblíutengd rit á 340 tungumálum og dreifa meðal almennings.