Gerðu þér raunhæfar væntingar
Gerðu þér raunhæfar væntingar
OKKUR líður vel þegar vonir og væntingar rætast. En margir af draumum okkar og væntingum fara því miður á annan veg en við vildum. Stöðug vonbrigði geta gert okkur óþolinmóð og ergileg út í sjálf okkur og aðra. Vitur maður hitti naglann á höfuðið er hann sagði að ‚langdregin eftirvænting gerði hjartað sjúkt.‘ — Orðskviðirnir 13:12.
Hvað getur gert okkur vonsvikin? Hvernig getum við lagt okkur fram um að stilla væntingum í hóf? Og af hverju er það okkur til góðs?
Væntingar og vonbrigði
Í öllum hraðanum, sem er á lífinu núna, er engu líkara en að við drögumst sífellt meira aftur úr, þrátt fyrir góða viðleitni. Gerðar eru látlausar kröfur til tíma okkar og athygli, og þegar okkur tekst ekki að gera það sem við ætlum okkur höfum við tilhneigingu til að dæma okkur hart. Okkur getur jafnvel fundist við vera að bregðast öðrum. Cynthia þekkir mætavel álagið sem fylgir því að vera eiginkona og móðir. „Mér finnst það mjög ergilegt þegar ég er ekki sjálfri mér samkvæm í því hvernig ég leiðrétti börnin og finnst ég ekki ala þau nógu vel upp,“ segir hún. Stephanie er á táningsaldri og segist verða óþolinmóð þegar hún hefur ekki tíma til að gera allt sem hún vildi gera í námi sínu.
Óhóflegar væntingar geta hæglega breyst í fullkomnunaráráttu og hún er ávísun á vonbrigði. „Þegar ég lít um öxl sé ég alltaf hvernig hegðun mín, hugsanir og tilfinningar hefðu getað verið betri,“ segir Ben sem er ungur eiginmaður. „Ég er sífellt að leita að fullkomnun og það leiðir af sér óþolinmæði, gremju og vonbrigði.“ „Fullkomnunarárátta leyfir engin mistök,“ segir Gail. „Við viljum vera ofurmömmur og ofureiginkonur. Við þurfum að vera afkastamiklar til að vera ánægðar, svo að það ergir okkur óskaplega ef viðleitni okkar fer í súginn.“
Heilsubrestur og elli getur einnig valdið okkur vonbrigðum. Minnkandi hreyfigeta og dvínandi kraftar minna óþyrmilega á takmörk okkar og eru til skapraunar. Elísabet segist hafa verið ergileg út í sjálfa sig þegar hún gat ekki lengur gert það sem hún átti auðvelt með og þótti eðlilegt áður en hún veiktist.
Hér á undan eru tínd til ýmis dæmi um það sem getur valdið vonbrigðum. Ef ekkert er að gert getur þessi tilfinning haft þau áhrif að við höldum að aðrir meti okkur einskis. Hvað er þá hægt að gera til að takast á við vonbrigði og gera sér raunhæfar væntingar?
Leiðir til að gera sér raunhæfar væntingar
Í fyrsta lagi þurfum við að hafa hugfast að Jehóva er sanngjarn og skilningsríkur. Sálmur 103:14 minnir á að ‚hann þekki eðli okkar og minnist þess að við erum mold.‘ Þar eða hann þekkir getu okkar og takmörk ætlast hann ekki til meira en við getum látið í té. Og eitt af því sem Guð ætlast til af okkur er að ‚fram ganga í lítillæti fyrir sér.‘ — Míka 6:8.
Rómverjabréfið 12:12; 1. Þessaloníkubréf 5:17) Hvaða gagn höfum við af því? Bænin kemur jafnvægi á hugsanirnar. Innileg bæn er viðurkenning á því að við þörfnumst hjálpar og ber vott um lítillæti og auðmýkt. Jehóva er meira en fús til að svara bænum okkar með því að gefa okkur heilagan anda sinn, og ávöxtur hans er meðal annars kærleikur, gæska, góðvild og sjálfstjórn. (Lúkas 11:13; Galatabréfið 5:22, 23) Bænin dregur líka úr kvíða og vonbrigðum. Elísabet segir að bænin veiti sér hughreystingu sem sé hvergi annars staðar að fá. Kevin tekur í sama streng: „Ég bið til að róa hjartað og skýra hugsunina svo að ég geti tekist á við vandann. Jehóva bregst mér aldrei.“ Páll postuli þekkti gildi bænarinnar. Þess vegna ráðlagði hann: „Gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði . . . Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ (Filippíbréfið 4:6, 7) Bænasamband við Jehóva hjálpar okkur að gera raunhæfar væntingar til sjálfra okkar og annarra.
Jehóva hvetur okkur til að leita til sín í bæn. (En stundum þurfum við að heyra hughreystandi orð án tafar. Orð í tíma töluð eru mikils virði. Með því að tala við traustan og þroskaðan vin getum við oft séð frá nýju sjónarhorni það sem veldur okkur vonbrigðum eða kvíða. (Orðskviðirnir 15:23; 17:17; 27:9) Unglingar komast að raun um að ráðleggingar foreldranna hjálpa þeim að halda jafnvægi í glímunni við vonbrigðin. Kandi segir þakklát að ástrík handleiðsla foreldranna hafi gert sig sanngjarnari og skemmtilegri í umgengni. Já, áminning Orðskviðanna 1:8, 9 er mjög tímabær: „Hlýð þú, son minn, á áminning föður þíns og hafna eigi viðvörun móður þinnar, því að þær eru yndislegur sveigur á höfði þér og men um háls þinn.“
Afleiðingum fullkomnunaráráttunnar er vel lýst með fleygum orðum: „Það er ávísun á vonbrigði að ætlast til að lífið sé sniðið eftir þörfum manns.“ Til að forðast það er nauðsynlegt að leiðrétta hugsun sína. Sá sem er hógvær, lítillátur og viðurkennir takmörk sín gerir sér yfirleitt raunhæfar væntingar. Rómverjabréfið 12:3 bendir mönnum á að „hugsa ekki hærra um sig en hugsa ber.“ Og Filippíbréfið 2:3 hvetur okkur til þess að vera lítillát og meta aðra meira en sjálf okkur.
Elísabet, sem áður er getið, var ergileg út í sjálfa sig vegna veikinda sinna. Hún þurfti nokkurn tíma til að tileinka sér sjónarmið Jehóva og sækja hughreystingu í þá vitneskju að hann gleymi ekki þjónustu okkar. Colin er lamaður af völdum sjúkdóms. Í fyrstu fannst honum boðunarstarf sitt næstum einskis virði í samanburði við það sem hann gerði meðan hann var við góða heilsu. En hann hugleiddi ritningarstaði eins og 2. Korintubréf 8:12 og tókst að hrinda þessum hugsunum frá sér. Versið segir: „Ef viljinn er góður, þá er hver þóknanlegur með það, sem hann á til, og ekki farið fram á það, sem hann á ekki til.“ „Þó að ég geti gefið miklu minna nú en áður, þá get ég samt gefið og Jehóva er ánægður með það,“ segir Colin. Hebreabréfið 6:10 minnir á það að ‚Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki okkar og kærleikanum sem við auðsýndum nafni hans.‘
Hvernig getum við þá gengið úr skugga um það hvort væntingar okkar séu raunhæfar? Spyrðu þig hvort væntingar þínar samræmist væntingum Guðs. Galatabréfið 6:4 segir: „Sérhver rannsaki breytni sjálfs sín og þá mun hann hafa hrósunarefni í samanburði við sjálfan sig, en ekki miðað við aðra.“ Mundu að Jesús sagði að ‚ok sitt væri ljúft og byrði sín létt.‘ Kristnir menn þurfa að bera ákveðið ok en það er „ljúft“ og „létt“ og Jesús lofaði því að við fengjum hvíld ef við lærðum að bera það á réttan hátt. — Matteus 11:28-30.
Umbunin
Gagnið af því að hlýða ráðleggingum Biblíunnar um raunhæfar væntingar er varanlegt og tafarlaust. Áhrifin eru meðal annars líkamleg. Jennifer hefur notfært sér áminningar Jehóva og hún segist hafa „meira þrek og lífsþrótt“ en áður. Orðskviðirnir 4:21, 22 hvetja okkur til að gefa gaum að orðum Jehóva „því að þau eru líf þeirra, er öðlast þau, og lækning fyrir allan líkama þeirra.“
Hugarfarsleg og tilfinningaleg vellíðan er önnur umbun. Theresa segist vera „glaðari og ánægðari“ þegar hún opni huga og hjarta fyrir orði Guðs. Auðvitað verðum við eftir sem áður fyrir ýmsum vonbrigðum í lífinu, en það verður auðveldara að taka þeim. „Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður,“ segir Jakobsbréfið 4:8. Jehóva lofar að styrkja okkur andspænis þrautum lífsins og blessa okkur með friði. — Sálmur 29:11.
Raunhæfar væntingar auðvelda okkur að vera andlega staðföst og það er líka blessun. Við getum þá haft skýrt í sjónmáli það sem mestu máli skiptir í lífinu. (Filippíbréfið 1:10) Markmið okkar verða þá skynsamleg og við getum náð þeim, og það er gleðigjafi. Þá erum við fúsari en ella til að treysta Jehóva fyrir málum okkar því að við vitum að hann lætur allt fara á besta veg. „Auðmýkið yður því undir Guðs voldugu hönd, til þess að hann á sínum tíma upphefji yður,“ segir Pétur. (1. Pétursbréf 5:6) Er ekki heiður frá Jehóva mesta umbun sem hægt er að hljóta í lífinu?
[Myndir á blaðsíðu 31]
Raunhæfar væntingar eru hjálp til að takast á við vonbrigði.