Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Hjá lítillátum er viska“

„Hjá lítillátum er viska“

„Hjá lítillátum er viska“

„Hvað heimtar [Jehóva] annað af þér en að . . . fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum?“ — MÍKA 6:8.

1, 2. Hvað er lítillæti og hvernig er það andstætt hroka?

ÞEKKTUR postuli vill ekki beina athyglinni að sjálfum sér. Hugrakkur dómari í Ísrael kallar sig lítilmótlegastan í sinni ætt. Mesta mikilmenni sögunnar viðurkennir að vald sitt sé takmarkað. Þessum þrem mönnum er það sameiginlegt að þeir eru lítillátir.

2 Lítillæti er andstæða hroka. Lítillátur maður er raunsær í mati sínu á eigin hæfileikum og manngildi og laus við mont og hégómaskap. Hann þekkir takmörk sín og er ekki dramblátur, grobbinn eða metnaðargjarn. Hann virðir tilfinningar og viðhorf annarra.

3. Á hvaða hátt er viska „hjá lítillátum“?

3 Það er ekki að ástæðulausu sem Biblían segir að ‚hjá lítillátum sé viska.‘ (Orðskviðirnir 11:2) Lítillátur maður er vitur af því að hann fylgir stefnu sem Guð hefur velþóknun á og forðast hroka sem leiðir til smánar. (Orðskviðirnir 8:13; 1. Pétursbréf 5:5) Fjöldi þjóna Guðs hefur staðfest með lífi sínu hve viturlegt það er að vera lítillátur. Lítum nánar á dæmin þrjú sem nefnd eru í byrjun greinarinnar.

Páll — ‚þjónn‘ og ‚ráðsmaður‘

4. Hvaða einstæðra sérréttinda naut Páll?

4 Páll var alkunnur í samfélagi frumkristinna manna sem vonlegt er. Hann ferðaðist þúsundir kílómetra um landveg og sjóveg og stofnaði marga söfnuði. Jehóva veitti honum vitranir og gaf honum þá gáfu að tala erlend tungumál. (1. Korintubréf 14:18; 2. Korintubréf 12:1-5) Hann innblés honum að skrifa 14 bréf sem eru núna hluti af kristnu Grísku ritningunum. Það má ýkjulaust segja að Páll hafi erfiðað meira en allir hinir postularnir. — 1. Korintubréf 15:10.

5. Hvernig sýndi Páll að hann var hógvær í mati á sjálfum sér?

5 Það hefði kannski mátt búast við því að Páll hefði baðað sig í sviðsljósinu og flaggað valdi sínu í ljósi þeirrar forystu sem hann fór með í kristna söfnuðinum. En Páll var lítillátur. Hann kallaði sig ‚sístan postulanna‘ og kvaðst ‚ekki þess verður að kallast postuli með því að hann ofsótti söfnuð Guðs.‘ (1. Korintubréf 15:9) Hann missti aldrei sjónar á því að það var náð Guðs að þakka að hann, fyrrverandi ofsóknari, gat átt samband við Guð, hvað þá að hafa sérstök þjónustusérréttindi. (Jóhannes 6:44; Efesusbréfið 2:8) Þess vegna fannst honum hann ekki vera öðrum fremri þótt þjónusta hans væri einstaklega árangursrík. — 1. Korintubréf 9:16.

6. Hvernig birtist lítillæti Páls í samskiptum við Korintumenn?

6 Lítillæti Páls kemur sérstaklega skýrt fram í samskiptum hans við Korintumenn. Sumir þeirra virðast hafa haft mikið dálæti á þekktum umsjónarmönnum eins og Apollósi, Kefasi og Páli. (1. Korintubréf 1:11-15) En Páll sóttist hvorki eftir lofi Korintumanna né notfærði sér aðdáun þeirra. Hann kom ekki til þeirra „með frábærri mælskusnilld eða speki“ heldur sagði að þeir ættu að líta á hann og félaga hans „sem þjóna Krists og ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs.“ * — 1. Korintubréf 2:1-5; 4:1.

7. Hvernig sýndi Páll lítillæti þegar hann veitti ráð og leiðbeiningar?

7 Páll sýndi jafnvel lítillæti er hann þurfti að veita strangar áminningar og leiðbeiningar. Hann hélt ekki postulavaldinu á loft heldur fór bónarveg að trúbræðrum sínum „vegna miskunnar Guðs“ og „vegna kærleika.“ (Rómverjabréfið 12:1, 2; Fílemonsbréfið 8, 9) Af hverju gerði hann það? Af því að hann leit á sig sem ‚samverkamann‘ bræðra sinna en ekki sem ‚drottnara yfir trú þeirra.‘ (2. Korintubréf 1:24) Lítillæti hans átti eflaust sinn þátt í því hve elskaður hann var í frumkristna söfnuðinum. — Postulasagan 20:36-38.

Lítillát þrátt fyrir sérréttindi

8, 9. (a) Af hverju ættum við að vera hógvær í mati á sjálfum okkur? (b) Hvernig geta þeir sem gegna einhverjum ábyrgðarstörfum verið lítillátir?

8 Páll er gott fordæmi fyrir kristna menn nú á dögum. Óháð ábyrgðarstörfum má enginn halda að hann sé öðrum meiri. „Sá sem þykist vera nokkuð, en er þó ekkert, dregur sjálfan sig á tálar,“ skrifaði Páll. (Galatabréfið 6:3) Af hverju? Af því að „allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð.“ (Rómverjabréfið 3:23; 5:12) Við megum aldrei missa sjónar á því að við höfum öll tekið synd og dauða í arf frá Adam. Sérréttindi breyta því ekki að við erum syndug. (Prédikarinn 9:2) Rétt eins og hjá Páli er það náð Guðs að þakka að menn geta átt samband við hann yfirleitt, hvað þá að hafa einhver sérréttindi í þjónustu hans. — Rómverjabréfið 3:12, 24.

9 Lítillátur maður veit þetta. Hann hlakkar hvorki yfir sérréttindum sínum né stærir sig af afrekum sínum. (1. Korintubréf 4:7) Þegar hann gefur ráð eða fyrirmæli gerir hann það sem samverkamaður en ekki yfirmaður. Það væri rangt af þeim sem skarar fram úr á einhverju sviði að falast eftir hrósi trúbræðra sinna eða notfæra sér aðdáun þeirra. (Orðskviðirnir 25:27; Matteus 6:2-4) Eina hrósið, sem er einhvers virði, er hrós annarra — og það ætti að koma án þess að um það sé beðið. Ef okkur er hrósað ættum við ekki að láta það koma okkur til að hugsa hærra um okkur en hugsa ber. — Orðskviðirnir 27:2; Rómverjabréfið 12:3.

10. Skýrðu hvernig þeir sem lítið ber á geta verið mjög „auðugir í trú.“

10 Ef lítillátum manni er trúað fyrir einhverju ábyrgðarstarfi gætir hann þess að halda ekki sjálfum sér á loft og láta sem söfnuðurinn dafni einungis vegna hæfni hans eða erfiðis. Segjum til dæmis að þú sért sérlega góður kennari. (Efesusbréfið 4:11, 12) Þú verður samt að viðurkenna að einhverjir mikilvægustu lærdómarnir í söfnuðinum eru ekki byggðir á því sem fram fer á ræðupallinum. Tökum dæmi: Finnst þér ekki hvetjandi að sjá einstæða móður koma reglulega í ríkissalinn með börnin sín? Er ekki uppörvandi að sjá niðurdreginn mann sækja samkomur dyggilega þrátt fyrir þráláta vanmetakennd? Og hvað um unglinginn sem tekur andlegum framförum jafnt og þétt þrátt fyrir spillandi áhrif í skóla og annars staðar? (Sálmur 84:11) Þetta fólk er ekki beinlínis í sviðsljósinu. Fæstir gera sér grein fyrir því hvernig ráðvendni þess er reynd dag frá degi. En þessir safnaðarmenn geta verið „auðugir í trú“ ekkert síður en þeir sem meira ber á. (Jakobsbréfið 2:5) Þegar allt kemur til alls er það trúfestin sem aflar mönnum velþóknunar Jehóva. — Matteus 10:22; 1. Korintubréf 4:2.

Gídeon „lítilmótlegastur“ í sinni ætt

11. Hvernig sýndi Gídeon lítillæti er hann talaði við engil Guðs?

11 Gídeon var hugrakkur ungur maður af ætt Manasse. Hann var uppi á ólgutíma í Ísrael og þegar hér var komið sögu hafði þjóðin verið kúguð af Midíanítum í sjö ár. En nú ætlaði Jehóva að frelsa hana. Þess vegna kom engill til Gídeons og sagði: „[Jehóva] er með þér, hrausta hetja!“ Gídeon var lítillátur maður. Hann greip ekki á lofti þetta óvænta hrós heldur spurði hæversklega: „Æ, herra minn, ef [Jehóva] er með oss, hví hefir þá allt þetta oss að hendi borið?“ Engillinn svaraði: „Þú munt frelsa Ísrael úr höndum Midíans.“ Hvernig brást Gídeon við? Þarna bauðst honum kjörið tækifæri til að gera sig að þjóðhetju, en í stað þess að grípa það feginshendi sagði hann: „Æ, herra, hvernig á ég að frelsa Ísrael? Sjá, minn ættleggur er aumasti ættleggurinn í Manasse, og ég er lítilmótlegastur í minni ætt.“ Hvílíkt lítillæti! — Dómarabókin 6:11-15.

12. Hvaða varfærni sýndi Gídeon?

12 Jehóva reyndi Gídeon áður en hann sendi hann út í orustu. Honum var sagt að brjóta niður Baalsaltari föður síns og höggva niður aséruna sem stóð hjá því. Þetta kallaði á hugrekki en Gídeon sýndi líka lítillæti og gætni. Í stað þess að vinna verkið fyrir opnum tjöldum vann hann það í skjóli nætur þegar minnstar líkur voru á að nokkur sæi til. Og til vonar og vara tók hann með sér tíu þjóna. Hugsanlega lét hann suma þeirra standa vörð meðan hinir hjálpuðu honum að eyðileggja altarið og aséruna. * Hann vann verk sitt með blessun Jehóva sem notaði hann síðar til að frelsa Ísrael af höndum Midíaníta. — Dómarabókin 6:25-27.

Lítillæti og nærgætni

13, 14. (a) Hvernig getum við sýnt lítillæti þegar okkur eru boðin þjónustusérréttindi? (b) Hvaða gott fordæmi sýndi A. H. Macmillan?

13 Það má læra margt af lítillæti Gídeons. Hver eru viðbrögð okkar, svo dæmi sé tekið, þegar okkur eru boðin þjónustusérréttindi? Hugsum við fyrst um framann og upphefðina sem við hljótum eða hugleiðum við hógværlega hvort við séum fær um að axla ábyrgðina? Bróðir A. H. Macmillan var gott fordæmi að þessu leyti en hann lauk jarðnesku lífsskeiði sínu árið 1966. C. T. Russell, fyrsti forseti Varðturnsfélagsins, spurði hann einu sinni hver honum fyndist geta tekið við starfi sínu þegar hann væri fjarverandi. Þeir ræddu málið en Macmillan stakk aldrei upp á sjálfum sér þótt hann hefði haft kjörið tækifæri til þess. Að lokum bað Russell hann að hugleiða hvort hann gæti ekki gert það sjálfur. „Ég stóð þarna hálfringlaður,“ skrifaði Macmillan löngu síðar. „Ég hugleiddi málið mjög alvarlega og gerði það að bænarefni um sinn áður en ég sagði honum að ég væri meira en fús til að gera allt sem ég gæti til að aðstoða hann.“

14 Bróðir Russell lést skömmu síðar þannig að forsetastaða Varðturnsfélagsins var laus. Macmillan hafði gegnt starfinu meðan Russell var á síðustu fyrirlestrarferð sinni þannig að bróðir nokkur sagði við hann: „Mac, það eru góðar líkur á að þú hreppir starfið sjálfur. Þú varst sérlegur fulltrúi bróður Russells meðan hann var fjarverandi og hann sagði okkur öllum að lúta boðum þínum. Hann fór að heiman en kom aldrei til baka. Það er ekki annað að sjá en að þú sért rétti maðurinn til að taka við af honum.“ En Macmillan svaraði: „Bróðir, ég er annarrar skoðunar. Þetta er verk Drottins og eina staðan, sem maður fær í skipulagi hans, er sú sem honum þóknast að gefa manni, og ég er sannfærður um að ég er ekki rétti maðurinn í starfið.“ Síðan mælti hann með öðrum manni. Hann var lítillátur eins og Gídeon og okkur væri hollt að fylgja dæmi hans.

15. Hvernig er hægt að sýna lítillæti og nærgætni í boðunarstarfinu?

15 Við ættum líka að vera lítillát í starfi. Gídeon var varfærinn og lagði sig fram um að reita andstæðinga sína ekki til reiði að þarflausu. Við ættum líka að vera lítillát í boðunarstarfinu og nærgætin í orðavali. Við eigum að vísu í andlegum hernaði og það er hlutverk okkar að brjóta niður „hugsmíðar“ og „vígi.“ (2. Korintubréf 10:4, 5) En við ættum ekki að vera yfirlætisleg eða gefa fólki ástæðu til að móðgast. Við ættum að virða sjónarmið annarra, draga fram sameiginleg viðhorf og beina síðan athyglinni að jákvæðum þáttum boðskaparins. — Postulasagan 22:1-3; 1. Korintubréf 9:22; Opinberunarbókin 21:4.

Jesús — besta fordæmið

16. Hvernig sýndi Jesús hógværð í mati á sjálfum sér?

16 Jesús Kristur er besta dæmið um lítillæti. * Þrátt fyrir hið nána samband við föður sinn hikaði hann ekki við að viðurkenna að sumt væri ekki á valdasviði sínu. (Jóhannes 1:14) Þegar móðir Jakobs og Jóhannesar beiddist þess að þeir tveir fengju að sitja honum við hlið í ríki hans svaraði hann: „Mitt er ekki að veita, hver situr mér til hægri handar eða vinstri.“ (Matteus 20:20-23) Við annað tækifæri viðurkenndi hann fúslega að hann ‚megnaði eigi að gjöra neitt af sjálfum sér því að hann leitaði ekki síns vilja heldur vilja þess sem sendi hann.‘ — Jóhannes 5:30; 14:28; Filippíbréfið 2:5, 6.

17. Hvernig sýndi Jesús lítillæti í samskiptum við aðra?

17 Jesús var fremri ófullkomnum mönnum á alla lund og fór með meira vald frá Jehóva en nokkur annar hefur fengið. En hann var lítillátur í samskiptum við fylgjendur sína. Hann gagntók þá ekki með því að flíka þekkingu sinni. Hann var brjóstgóður, nærgætinn og tók tillit til þarfa þeirra. (Matteus 15:32; 26:40, 41; Markús 6:31) Jesús var ekki haldinn fullkomnunaráráttu þótt hann væri fullkominn. Hann heimtaði aldrei meira af lærisveinunum en þeir gátu gert og lagði aldrei meira á þá en þeir gátu borið. (Jóhannes 16:12) Það er vel skiljanlegt að mörgum skuli hafa fundist návist hans upplífgandi. — Matteus 11:29.

Líktu eftir lítillæti Jesú

18, 19. Hvernig getum við líkt eftir lítillæti Jesú (a) í því hvernig við lítum á sjálfa okkur og (b) í framkomu við aðra?

18 Við ættum svo sannarlega að vera lítillát fyrst mesta mikilmenni sögunnar var það. Ófullkomnir menn eru oft tregir til að viðurkenna að þeir ráði ekki öllu. En kristnir menn kappkosta að vera lítillátir eins og Jesús. Þeir eru hvorki of stoltir til að fela þeim ábyrgð sem eru hæfir til að axla hana né of stærilátir til að fylgja fyrirmælum þeirra sem hafa umboð til að gefa þau. Þeir eru samvinnuþýðir og leggja sig fram um að láta allt fara „sómasamlega fram og með reglu“ í söfnuðinum. — 1. Korintubréf 14:40.

19 Lítillátur maður er nærgætinn og gerir sanngjarnar kröfur til annarra. (Filippíbréfið 4:5, NW) Við höfum kannski vissa hæfileika og styrkleika sem aðra skortir. En ef við erum lítillát ætlumst við ekki alltaf til þess að aðrir leysi allt af hendi eins og við viljum helst. Við vitum að allir hafa sín takmörk og tökum tillit til ófullkomleika annarra. „Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda,“ skrifaði Pétur. — 1. Pétursbréf 4:8.

20. Hvernig getum við sigrast á tilhneigingu til stærilætis?

20 Eins og sýnt hefur verið fram á er viska hjá lítillátum mönnum. En hvað er til ráða ef þú finnur að þú hefur tilhneigingu til stærilætis eða hroka? Misstu ekki kjarkinn heldur fylgdu fordæmi Davíðs sem bað Jehóva að forða þjóni sínum frá stærilæti og láta það ekki drottna yfir sér. (Sálmur 19:13, NW) Ef við líkjum eftir trú manna eins og Páls, Gídeons og — öllum öðrum fremur — Jesú Krists, þá kynnumst við af eigin raun sannleiksgildi orðanna: „Hjá lítillátum er viska.“ — Orðskviðirnir 11:2.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Gríska orðið, sem þýtt er ‚þjónn,‘ er stundum notað um þræla sem sátu í neðri áraröð á galeiðu. „Ráðsmenn“ fengu aftur á móti meiri ábyrgð, til dæmis umsjón með búi. En í augum flestra húsbænda var ráðsmaðurinn ánauðugur ekkert síður en galeiðuþræll.

^ gr. 12 Það má ekki rangtúlka varfærni Gídeons sem hugleysi. Hebreabréfið 11:32-38 staðfestir að hann hafi verið hugrakkur maður en þar er hann, ásamt fleirum, sagður hafa ‚orðið styrkur‘ og ‚gerst öflugur í stríði.‘

^ gr. 16 Þar eð lítillæti er meðal annars fólgið í meðvitund um takmörk sín er ekki hægt að kalla Jehóva lítillátan í þeim skilningi. Hann er hins vegar lítillátur í þeirri merkingu að hann er fús til að sinna ófullkomnum mönnum. — Sálmur 18:36.

Manstu?

• Hvað er lítillæti?

• Hvernig getum við líkt eftir lítillæti Páls?

• Hvað lærum við um lítillæti af fordæmi Gídeons?

• Hvernig var Jesús besta dæmið um lítillæti?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

Safnaðarmönnum þótti vænt um Pál sökum þess hve lítillátur hann var.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Gídeon var gætinn og skynsamur er hann vann verk Guðs.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Jesús, sonur Guðs, er lítillátur í öllu sem hann gerir.