Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Upprisuvonin er örugg!

Upprisuvonin er örugg!

Upprisuvonin er örugg!

„Þá von hef ég til Guðs, . . . að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ — POSTULASAGAN 24:15.

1. Af hverju getum við trúað á upprisuna?

JEHÓVA hefur gefið okkur ærna ástæðu til að trúa á upprisu. Við höfum orð hans fyrir því að dauðir muni rísa upp og lifna á ný. Og það er öruggt að fyrirætlun hans með þá sem sofa dauðasvefni nær fram að ganga. (Jesaja 55:11; Lúkas 18:27) Reyndar hefur hann nú þegar sýnt mátt sinn til að reisa menn upp frá dauðum.

2. Hvernig getur upprisuvonin gert okkur gagn?

2 Á álagstímum getur trúin á upprisuráðstöfun Guðs fyrir atbeina sonarins Jesú Krists haldið okkur uppi. Hún getur hjálpað okkur að vera himneskum föður okkar trú jafnvel til dauða. Líklegt er að upprisufrásagnir Biblíunnar styrki von okkar. Og það var máttur frá alvöldum Drottni Jehóva sem kom þessum kraftaverkum til leiðar.

Þær heimtu aftur sína framliðnu upprisna

3. Hvaða kraft fékk Elía þegar ekkja í Sarefta missti son sinn?

3 Páll postuli sagði í hrífandi yfirliti yfir trú forkristinna votta Jehóva: „Konur heimtu aftur sína framliðnu upprisna.“ (Hebreabréfið 11:35; 12:1) Ein þessara kvenna var fátæk ekkja í borginni Sarefta í Fönikíu. Hún var gestrisin við spámanninn Elía svo að séð var til þess með undraverðum hætti að hana skorti ekki mjöl og olíu í hungursneyð sem hefði annars kostað hana og son hennar lífið. Síðar veiktist drengurinn og dó. Elía lagði hann í rekkju, baðst fyrir, teygði sig þrisvar yfir hann og bað: „[Jehóva], Guð minn, lát sál þessa sveins aftur til hans hverfa!“ Og Guð lét sál drengsins, það er að segja lífið, hverfa aftur til hans. (1. Konungabók 17:8-24) Reyndu að ímynda þér gleði ekkjunnar yfir því að henni skyldi vera umbunuð trú sín með fyrstu upprisunni sem sögur fara af — upprisu sonarins sem var henni svo kær.

4. Hvaða kraftaverk vann Elísa í Súnem?

4 Í borginni Súnem bjó önnur kona sem endurheimti son sinn upprisinn. Hún sýndi Elísa spámanni og þjóni hans mikla góðvild og var umbunað fyrir með því að eignast son með öldruðum eiginmanni sínum. En drengurinn dó nokkrum árum síðar og kallaði hún þá spámanninn á sinn fund. Elísa baðst fyrir og lagðist yfir drenginn og „hitnaði þá líkami sveinsins.“ Hann „hnerraði . . . sjö sinnum. Því næst lauk hann upp augunum.“ Þessi upprisa hefur örugglega glatt bæði móður og son. (2. Konungabók 4:8-37; 8:1-6) En gleði þeirra verður enn meiri þegar þau verða reist upp í „betri upprisu“ hér á jörð og eiga möguleika á því að þurfa ekki að deyja framar. Það er ástæða til að vera Jehóva þakklát, hinum kærleiksríka Guði upprisunnar. — Hebreabréfið 11:35.

5. Hvaða kraftaverk átti sér stað eftir dauða Elísa?

5 Guð lét mátt heilags anda fylgja beinum Elísa jafnvel eftir að hann var dáinn og grafinn. Við lesum: „Svo bar við, er verið var að grafa mann nokkurn, að menn komu allt í einu auga á ræningjaflokk [Móabíta]. Fleygðu þeir þá manninum í gröf Elísa og höfðu sig á brott. En er maðurinn snart bein Elísa, þá lifnaði hann og reis á fætur.“ (2. Konungabók 13:20, 21) Hann hlýtur að hafa verið bæði undrandi og glaður. Hugsaðu þér gleðina þegar ástvinir okkar verða reistir upp í samræmi við óbrigðulan tilgang Jehóva Guðs.

Sonur Guðs reisti upp dána

6. Hvaða kraftaverk vann Jesús í grennd við Nain og hvaða áhrif getur það haft á okkur?

6 Jesús Kristur, sonur Guðs, sýndi fram á að hægt er að reisa menn upp frá dauðum og veita þeim eilíft líf. Í grennd við borgina Nain átti sér stað atvik sem sýnir fram á að það er hægt að gera það með krafti frá Guði. Jesús gekk þar fram á syrgjendur sem voru að bera lík ungs manns út úr borginni til greftrunar. Móðirin var ekkja og þetta var einkabarn hennar. „Grát þú eigi!“ sagði Jesús. Síðan snerti hann líkbörurnar og sagði: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“ Og ungi maðurinn settist upp og tók að tala. (Lúkas 7:11-15) Þetta kraftaverk hlýtur að styrkja þá sannfæringu okkar að upprisuvonin sé örugg.

7. Hvað gerðist í sambandi við dóttur Jaírusar?

7 Þá er að nefna Jaírus samkundustjóra í Kapernaum. Tólf ára dóttir hans lá fyrir dauðanum og hann bað Jesú að koma og liðsinna henni. En þá bárust þau boð að stúlkan væri látin. Jesús hvatti hinn harmþrungna föður til að sýna trú og fylgdi honum heim til hans þar sem hópur manna grét og harmaði. En það var hlegið að Jesú þegar hann sagði: „Barnið er ekki dáið, það sefur.“ Stúlkan var vissulega dáin en Jesús var í þann mund að sýna að það er hægt að reisa fólk upp frá dauðum alveg eins og hægt er að vekja mann af djúpum svefni. Hann tók í hönd stúlkunnar og sagði: „Stúlka, rís upp!“ Hún reis upp þegar í stað og „foreldrar hennar urðu frá sér numdir.“ (Markús 5:35-43; Lúkas 8:49-56) Fólk verður eflaust ‚frá sér numið‘ þegar látnir ástvinir þess verða reistir upp frá dauðum í paradís á jörð.

8. Hvað gerði Jesús hjá gröf Lasarusar?

8 Lasarus hafði verið dáinn í fjóra daga þegar Jesús kom að gröf hans og lét taka steininn frá grafarmunnanum. Hann baðst fyrir upphátt til að fólk mætti sjá að hann reiddi sig á kraft Guðs. Síðan hrópaði hann hárri röddu: „Lasarus, kom út!“ Og hinn látni kom út með hendur og fætur vafðar líkblæjum og dúk bundinn um andlitið. „Leysið hann og látið hann fara,“ sagði Jesús. Margir voru þar til að hughreysta systur Lasarusar, þær Mörtu og Maríu, og tóku trú á Jesú þegar þeir sáu kraftaverkið. (Jóhannes 11:1-45) Vekur ekki þessi frásaga von hjá þér um að látnir ástvinir þínir verði reistir upp í nýjum heimi Guðs?

9. Af hverju megum við vera viss um að Jesús getur reist upp dána núna?

9 Jesús sendi Jóhannesi skírara uppörvandi boð í fangelsið: „Blindir fá sýn og . . . dauðir rísa upp.“ (Matteus 11:4-6) Fyrst Jesús gat reist upp dána þegar hann var á jörðinni hlýtur hann að geta gert það með krafti Guðs sem voldug andavera. Jesús er „upprisan og lífið“ og það er hughreystandi til að vita að í náinni framtíð muni „allir þeir, sem í gröfunum eru, . . . heyra raust hans og ganga fram.“ — Jóhannes 5:28, 29; 11:25.

Aðrar upprisufrásögur styrkja vonina

10. Lýstu fyrsta dæminu þar sem vitað er til að postuli hafi reist mann upp frá dauðum.

10 Þegar Jesús sendi postulana út að boða Guðsríki sagði hann þeim að ‚vekja upp dauða.‘ (Matteus 10:5-8) Þeir urðu auðvitað að reiða sig á kraft Guðs. Dorkas (Tabíþa) var guðhrædd og góðgerðasöm kona í Joppe. Hún hafði meðal annars saumað föt handa fátækum ekkjum og var þeim mikill harmdauði er hún lést árið 36. Lærisveinarnir bjuggu hana til greftrunar og sendu eftir Pétri postula, kannski til hughreystingar. (Postulasagan 9:32-38) Hann lét alla yfirgefa loftstofuna, baðst fyrir og sagði svo: „Tabíþa, rís upp.“ Hún opnaði augun, settist upp, tók í hönd honum og hann reisti hana á fætur. Þetta er í fyrsta sinn sem postuli reisti mann upp frá dauðum svo vitað sé, og margir snerust til trúar er þeir fréttu af því. (Postulasagan 9:39-42) Og það rennir styrkari stoðum undir upprisuvon okkar.

11. Lýstu síðustu upprisunni sem Biblían segir frá.

11 Síðasta upprisan, sem Biblían greinir frá, átti sér stað í Tróas. Páll kom við þar á þriðju trúboðsferð sinni og ræða hans teygðist fram til miðnættis. Ungur maður er Evtýkus hét sofnaði og féll út um glugga á þriðju hæð. Sennilega var hann úrvinda af þreytu og syfjaði kannski í mannþrönginni og hitanum af öllum lömpunum. Hann var „liðinn,“ ekki aðeins meðvitundarlaus, er hann var tekinn upp. Páll kastaði sér yfir hann, tók utan um hann og sagði viðstöddum: „Verið stilltir, það er líf með honum,“ og átti þá við að ungi maðurinn hefði verið lífgaður. Viðstaddir „hugguðust mikillega.“ (Postulasagan 20:8-12) Þjónum Guðs nú á dögum er mikil huggun í þeirri vitneskju að upprisuvonin eigi eftir að rætast á fyrrverandi félögum þeirra í þjónustu hans.

Upprisan — langstæð von

12. Hvaða sannfæringu lét Páll í ljós frammi fyrir rómverska landstjóranum Felix?

12 Páll bar vitni fyrir rómverska landstjóranum Felix: „Ég . . . trúi öllu því, sem skrifað stendur í lögmálinu og spámönnunum. Og þá von hef ég til Guðs . . . að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ (Postulasagan 24:14, 15) Hvernig er upprisa dauðra boðuð annars staðar í orði Guðs, til dæmis í „lögmálinu“?

13. Hvernig má segja að Guð hafi ýjað að upprisu í fyrsta spádóminum?

13 Guð ýjaði sjálfur að upprisunni í fyrsta spádóminum í Eden. Hann sagði í dómi sínum yfir „hinum gamla höggormi,“ Satan djöflinum: „Fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.“ (Opinberunarbókin 12:9; 1. Mósebók 3:14, 15) Að merja hælinn á sæði konunnar merkti að Jesús Kristur yrði drepinn. Til að sæðið gæti marið höfuð höggormsins eftir það þurfti að reisa það upp frá dauðum.

14. Hvað merkir það að Jehóva sé ‚ekki Guð dauðra heldur lifenda‘?

14 Jesús sagði: „Að dauðir rísi upp, það hefur jafnvel Móse sýnt í sögunni um þyrnirunninn, er hann kallar ‚[Jehóva] Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.‘ Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda, því að honum lifa allir.“ (Lúkas 20:27, 37, 38; 2. Mósebók 3:6) Abraham, Ísak og Jakob voru dánir en sú ætlun Guðs að reisa þá upp frá dauðum var svo örugg að það mátti segja að þeir væru lifandi.

15. Hvaða tilefni hafði Abraham til að trúa á upprisu?

15 Abraham hafði ástæðu til að trúa á upprisu því að Guð endurvakti getnaðarmátt hans og Söru þegar þau voru orðin háöldruð og dauð í þeim skilningi að geta barn. Það var eins og upprisa. (1. Mósebók 18:9-11; 21:1-3; Hebreabréfið 11:11, 12) Þegar sonurinn Ísak var um 25 ára sagði Guð Abraham að fórna honum. Abraham var í þann mund að deyða drenginn þegar engill Guðs stöðvaði hann. En Abraham „hugði, að Guð væri þess jafnvel megnugur að vekja [Ísak] upp frá dauðum. Þess vegna má svo að orði kveða, að hann heimti hann aftur úr helju.“ — Hebreabréfið 11:17-19; 1. Mósebók 22:1-18.

16. Eftir hverju bíður Abraham núna?

16 Abraham trúði á upprisu undir stjórn Messíasar, hins fyrirheitna sæðis. Sonur Guðs tók eftir trú Abrahams af himneskum sjónarhóli sínum. Þess vegna gat hann sagt Gyðingunum þegar hann var orðinn maðurinn Jesús Kristur: „Abraham faðir yðar vænti þess með fögnuði að sjá dag minn.“ (Jóhannes 8:56- 58; Orðskviðirnir 8:30, 31) Abraham sefur nú dauðasvefni og bíður upprisu á jörð eftir að messíasarríki Guðs hefur tekið völd. — Hebreabréfið 11:8-10, 13.

Vitnisburður lögmálsins og spámannanna

17. Hvernig vísaði ‚lögmálið‘ til upprisu Jesú Krists?

17 Upprisuvon Páls var í samræmi við það sem ‚stóð í lögmálinu.‘ Guð sagði Ísraelsmönnum: „Skuluð þér færa presti fyrsta kornbundinið af uppskeru yðar. Og hann skal [hinn 16. nísan] veifa kornbundininu frammi fyrir [Jehóva], svo að það afli yður velþóknunar.“ (3. Mósebók 23:9-14) Vera má að Páll hafi haft þetta lagaákvæði í huga er hann skrifaði: „Nú er Kristur upprisinn frá dauðum sem frumgróði þeirra, sem sofnaðir eru.“ Jesús var reistur upp sem „frumgróði“ 16. nísan árið 33. Andasmurðir fylgjendur hans yrðu reistir upp sem ‚eftirgróði‘ á nærverutíma hans síðar meir. — 1. Korintubréf 15:20-23; 2. Korintubréf 1:21; 1. Jóhannesarbréf 2:20, 27.

18. Hvernig benti Pétur á að upprisa Jesú væri sögð fyrir í Sálmunum?

18 Sálmarnir styðja líka upprisuhugmyndina. Á hvítasunnudeginum árið 33 vitnaði Pétur postuli í Sálm 16:8-11 og sagði: „Davíð segir um [Krist]: Ávallt hafði ég [Jehóva] fyrir augum mér, því að hann er mér til hægri hliðar, til þess að ég bifist ekki. Fyrir því gladdist hjarta mitt, og tunga mín fagnaði. Meira að segja mun líkami minn hvílast í von. Því að ekki munt þú skilja sálu mína eftir í helju og eigi láta þinn heilaga verða rotnun að bráð.“ Síðan sagði hann: „[Davíð] sá . . . fyrir upprisu Krists og sagði: Ekki varð hann eftir skilinn í helju, og ekki varð líkami hans rotnun að bráð. Þennan Jesú reisti Guð upp.“ — Postulasagan 2:25-32.

19, 20. Hvenær vitnaði Pétur í Sálm 118:22 og hvernig tengdist það dauða Jesú og upprisu?

19 Nokkrum dögum síðar stóð Pétur frammi fyrir æðstaráðinu og vitnaði þar aftur í Sálmana. Aðspurður hvernig hann hefði læknað lamaðan betlara svaraði hann: „Yður [sé] öllum kunnugt og öllum Ísraelslýð, að í nafni Jesú Krists frá Nasaret, þess er þér krossfestuð, en Guð uppvakti frá dauðum, í hans nafni stendur þessi maður heilbrigður fyrir augum yðar. Jesús er steinninn, sem þér, húsasmiðirnir, virtuð einskis, hann er orðinn hyrningarsteinn. Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss.“ — Postulasagan 4:10-12.

20 Pétur vitnaði hér í Sálm 118:22 og heimfærði hann á dauða Jesú og upprisu. Gyðingar höfðu hafnað Jesú að áeggjan trúarleiðtoganna. (Jóhannes 19:14-18; Postulasagan 3:14, 15) Með því að hafna steininum urðu „húsasmiðirnir“ þess valdandi að Kristur dó, en með upprisu til dýrðar á himnum varð hann að ‚hyrningarsteini.‘ Eins og sálmaritarinn boðaði varð þetta ‚að tilhlutun Jehóva.‘ (Sálmur 118:23) Að gera ‚steininn‘ að hyrningarsteini fól í sér að upphefja hann sem væntanlegan konung. — Efesusbréfið 1:19, 20.

Upprisuvonin heldur okkur uppi

21, 22. Hvaða von lét Job í ljós, samanber Jobsbók 14:13-15, og hvernig geta syrgjendur leitað huggunar í því?

21 Við höfum aldrei séð mann reistan upp frá dauðum. Hins vegar höfum við skoðað nokkrar frásagnir í Biblíunni sem fullvissa okkur um að upprisuvonin er örugg. Við getum þess vegna átt sömu von og hinn ráðvandi Job lét í ljós. Sárþjáður bað hann til Guðs: „Ó að þú [Jehóva] vildir geyma mig í dánarheimum, . . . setja mér tímatakmark og síðan minnast mín! Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur? . . . Þú mundir kalla, og ég — ég mundi svara þér, þú mundir þrá verk handa þinna.“ (Jobsbók 14:13-15) Guð mun ‚þrá verk handa sinna‘ og langa til að reisa Job upp frá dauðum. Vekur þetta ekki hjá okkur von?

22 Guðhræddur ættingi getur veikst alvarlega eins og Job og jafnvel lotið í lægra haldi fyrir óvininum dauðanum. Syrgjendurnir gráta líkt og Jesús grét Lasarus. (Jóhannes 11:35) En það er mikil huggun að vita að Guð muni kalla og að þeir sem hann minnist muni svara. Það er eins og þeir komi heim úr ferðalagi, hvorki veikir né slasaðir heldur alheilbrigðir.

23. Hvernig hafa sumir lýst upprisuvon sinni?

23 Þegar vottur einn missti móður sína fékk hann eftirfarandi kveðju frá trúbræðrum: „Við sendum þér innilegar samúðarkveðjur. Við sjáum móður þína bráðlega aftur upprisna — fagra og þróttmikla!“ Hjón sögðu eftir að þau misstu son sinn: „Við hlökkum til þess dags þegar Jason rís upp. Hann lítur í kringum sig og sér paradísina sem hann þráði svo heitt. . . . Þetta er sterk hvatning fyrir okkur, sem elskuðum hann, til að vera þar líka.“ Já, við getum verið þakklát fyrir það að upprisuvonin skuli vera örugg!

Hvert er svarið?

• Hvers vegna er það gott fyrir okkur að trúa á upprisuráðstöfun Guðs?

• Frá hvaða atvikum segir Biblían sem gefa okkur tilefni til að trúa á upprisu?

• Af hverju er hægt að segja að upprisuvonin eigi sér langa sögu?

• Hvaða von getum við haft í sambandi við þá sem dánir eru og hvernig getur hún verið okkur hvati?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 19]

Með krafti Jehóva vakti Elía ungan ekkjuson upp frá dauðum.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Jaírus og kona hans voru frá sér numin af gleði þegar Jesús reisti dóttur þeirra upp.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Pétur postuli bar djarflega vitni um það á hvítasunnudeginum árið 33 að Jesús hefði verið reistur upp frá dauðum.