Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Upprisuvonin er kröftug

Upprisuvonin er kröftug

Upprisuvonin er kröftug

„Hef ég misst allt [til þess að] þekkja Krist og kraft upprisu hans.“ — FILIPPÍBRÉFIÐ 3:8-10.

1, 2. (a) Hvernig lýsti prestur upprisunni fyrir tæpri öld? (b) Hvernig fer upprisan fram?

SNEMMA á síðasta áratug nítjándu aldar greindu fjölmiðlar frá allsérstæðri ræðu sem prestur nokkur flutti í Brooklyn í New York. Upprisan yrði með þeim hætti, sagði hann, að safnað yrði saman og blásið lífi í öll þau bein og allt hold sem einhvern tíma hefði myndað ákveðinn mannslíkama. Gilti þá einu hvort hann hefði tortímst í eldi eða af slysförum, orðið villidýrum að bráð eða breyst í áburð. Loftið átti að myrkvast þegar hendur, handleggir, fætur, fingur, bein, sinar og húð af milljörðum látinna manna svifu um loftið í leit að öðrum líkamshlutum sama manns. Átti þetta að gerast á einum og sama sólarhring, sagði presturinn. Sálir myndu síðan stíga ofan af himni eða neðan úr helvíti og taka sér bústað í hinum upprisnu líkömum.

2 Það er órökrétt að ímynda sér að upprisan verði með þeim hætti að hinar upprunalegu frumeindir safnist saman á nýjan leik. Og maðurinn hefur ekki ódauðlega sál. (Prédikarinn 9:5, 10; Esekíel 18:4) Jehóva, Guð upprisunnar, þarf ekki að safna saman frumeindum þess efnis sem ákveðinn mannslíkami var gerður úr í upphafi. Hann getur myndað nýja líkama handa hinum upprisnu. Hann hefur gefið syni sínum, Jesú Kristi, kraft til að reisa upp dána svo að þeir geti átt eilíft líf fyrir sér. (Jóhannes 5:26) Þess vegna sagði Jesús: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.“ (Jóhannes 11:25, 26) Þetta er hvetjandi loforð og það styrkir okkur svo að við getum staðist prófraunir og jafnvel horfst í augu við dauðann sem trúfastir vottar Jehóva.

3. Af hverju þurfti Páll að verja upprisuna?

3 Gríski heimspekingurinn Platón hélt því fram að maðurinn hefði ódauðlega sál en sú hugmynd samræmist ekki upprisunni. Páll postuli vitnaði fyrir nokkrum frammámönnum Grikkja á Areopagusarhæð í Aþenu. Sumir ‚gerðu gys að‘ þegar hann ‚nefndi upprisu dauðra‘ og vísaði óbeint til Jesú og sagði að Guð hefði reist hann upp frá dauðum. (Postulasagan 17:29-34) Margir voru enn á lífi sem höfðu séð Jesú Krist upprisinn, og þrátt fyrir spott annarra vottuðu þeir að hann hefði verið reistur upp frá dauðum. En falskennarar tengdir Korintusöfnuðinum afneituðu upprisunni. Þess vegna varði Páll þessa kristnu kenningu með sterkum rökum í 15. kafla 1. Korintubréfs. Við getum sannað fyrir sjálfum okkur hve örugg og kröftug upprisuvonin er með því að kynna okkur röksemdir hans.

Óyggjandi sannanir fyrir upprisu Jesú

4. Hvernig gat Páll vottað að Jesús væri upprisinn?

4 Tökum eftir hvernig Páll byrjar vörnina. (1. Korintubréf 15:1-11) Korintumenn munu halda sér fast við fagnaðarerindið hafi þeir ekki tekið trúna að tilefnislausu. Kristur dó fyrir syndir okkar, var grafinn og reistur upp. Eftir upprisuna birtist hann Kefasi (Pétri) og „síðan þeim tólf.“ (Jóhannes 20:19-23) Um 500 bræður sáu hann, hugsanlega þegar hann gaf fyrirmælin um að ‚gera allar þjóðir að lærisveinum.‘ (Matteus 28:19, 20) Jakob sá hann og allir postularnir sem trúfastir voru. (Postulasagan 1:6-11) Það var í grennd við Damaskus sem hann birtist Sál „eins og ótímaburði,“ það er að segja eins og Sál væri þá þegar risinn upp sem andavera. (Postulasagan 9:1-9) Korintumenn tóku við fagnaðarerindinu og trúðu vegna boðunar Páls.

5. Hvernig var rökfærsla Páls í 1. Korintubréfi 15:12-19?

5 Taktu eftir röksemdafærslu hans. (1. Korintubréf 15:12-19) Sjónarvottar prédika að Kristur sé upprisinn. Hvernig geta menn þá sagt að upprisa sé ekki til? Ef Kristur er ekki upprisinn frá dauðum, þá er trú okkar og prédikun ónýt og við erum ljúgvottar um Guð er við segjum að hann hafi reist hann upp. Ef dauðir rísa ekki upp ‚erum við enn í syndum okkar‘ og þeir sem dánir eru í trú á Krist eru glataðir. En „ef von vor til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum vér aumkunarverðastir allra manna.“

6. (a) Hvernig fullyrðir Páll að Jesús sé upprisinn frá dauðum? (b) Hver er „síðasti óvinurinn“ og hvernig verður honum útrýmt?

6 Páll fullyrðir að Jesús sé upprisinn frá dauðum. (1. Korintubréf 15:20-28) Kristur er „frumgróði“ þeirra sem sofa dauðasvefni svo að það áttu fleiri að rísa upp. Eins og dauðinn kom til vegna óhlýðni mannsins Adams, þannig kemur upprisan fyrir tilstuðlan manns — Jesú. Þeir sem tilheyra honum áttu að rísa upp á nærverutíma hans. Kristur gerir að engu „sérhverja tign, sérhvert veldi og kraft,“ sem stendur á móti drottinvaldi Jehóva Guðs, og ríkir uns Jehóva leggur alla fjendur undir fætur hans. „Síðasti óvinurinn“ er erfðadauðinn frá Adam sem fórn Jesú gerir að engu. Þá mun Jesús afhenda Guði sínum og föður ríkið og leggja sjálfan sig undir „þann, er lagði alla hluti undir hann, til þess að Guð sé allt í öllu.“

Að skírast fyrir hina dánu?

7. Hverjir ‚láta skírast í þeim tilgangi að vera dánir‘ og hvað þýðir það fyrir þá?

7 Andstæðingar upprisunnar eru spurðir: „Til hvers eru menn annars að láta skírast fyrir hina dánu [„í þeim tilgangi að vera dánir,“ NW]?“ (1. Korintubréf 15:29) Páll átti ekki við það að hinir lifandi eigi að láta skírast fyrir hina dánu því að lærisveinar Jesú þurfa sjálfir að læra, trúa og láta skírast. (Matteus 28:19, 20; Postulasagan 2:41) Smurðir kristnir menn ‚láta skírast í þeim tilgangi að vera dánir‘ með því að taka upp lífsstefnu sem leiðir til dauða og upprisu. Þessi skírn hefst þegar andi Guðs vekur með þeim himneska von og henni lýkur þegar þeir eru reistir upp frá dauðum sem ódauðlegar andaverur á himni. — Rómverjabréfið 6:3-5; 8:16, 17; 1. Korintubréf 6:14.

8. Hverju mega kristnir menn treysta jafnvel þótt Satan og þjónar hans drepi þá?

8 Páll bendir á að vegna upprisuvonarinnar geti kristnir menn stofnað sér í lífshættu og annan háska hvenær sem er í þágu boðunarstarfsins. (1. Korintubréf 15:30, 31) Þeir vita að Jehóva getur reist þá upp frá dauðum ef Satan og þjónum hans er leyft að drepa þá. Guð einn getur eytt sál þeirra, lífinu, í Gehenna sem táknar eilífa tortímingu. — Lúkas 12:5.

Árvekni er nauðsynleg

9. Hvað verðum við að forðast til að upprisuvonin styrki okkur?

9 Upprisuvonin styrkti Pál. Vera má að andstæðingar hans hafi varpað honum fyrir villidýr á leikvanginum í Efesus. (1. Korintubréf 15:32) Hafi það gerst var honum bjargað eins og Daníel frá ljónunum. (Daníel 6:16-22; Hebreabréfið 11:32, 33) Páll trúði á upprisu svo að hann hugsaði ekki eins og fráhvarfsmennirnir í Júda á dögum Jesaja. Þeir sögðu: „Etum og drekkum, því á morgun deyjum vér!“ (Jesaja 22:13) Til að upprisuvonin styrki okkur eins og Pál verðum við að forðast fólk með svona óheilbrigt hugarfar. „Villist ekki,“ sagði Páll í varnaðartón. „Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ (1. Korintubréf 15:33) Þessi meginregla gildir auðvitað á ýmsum sviðum lífsins.

10. Hvernig getum við haldið upprisuvoninni lifandi?

10 Páll sagði þeim sem efuðust um trúverðugleika upprisunnar: „Vaknið fyrir alvöru og syndgið ekki. Nokkrir hafa enga þekkingu á Guði. Yður til blygðunar segi ég það.“ (1. Korintubréf 15:34) Núna á ‚endalokatímanum‘ þurfum við að hegða okkur í samræmi við hina nákvæmu þekkingu á Guði og Kristi. (Daníel 12:4; Jóhannes 17:3) Þá höldum við upprisuvoninni lifandi.

Í hvaða líkama rísa menn upp?

11. Við hvað líkti Páll upprisu smurðra kristinna manna?

11 Páll fjallar nú um ýmsar spurningar. (1. Korintubréf 15:35-41) Kannski vildu menn draga upprisuna í efa er þeir spurðu: „Hvernig rísa dauðir upp? Hvaða líkama hafa þeir, þegar þeir koma?“ Páll minnir á að ungplanta vaxi af fræi, sem sáð er í jörð, svo að segja má að fræið deyi. Andagetinn maður verður líka að deyja. Hann rís upp í líkama sem er ólíkur holdi manna, líkt og jurt vex sem nýr líkami af fræi. Lífsmynstur hins upprisna er hið sama og fyrir dauðann en hann er reistur upp sem ný sköpunarvera í andalíkama sem getur búið á himnum. En þeir sem rísa upp á jörðinni verða auðvitað reistir upp í mannslíkama.

12. Hvað er átt við með ‚himneskum líkömum‘ og ‚jarðneskum líkömum‘?

12 Hold manna og dýra er ólíkt eins og Páll nefnir. Hold dýranna er jafnvel ólíkt eftir tegundum. (1. Mósebók 1:20-25) „Himneskir líkamir“ andaveranna og „jarðneskir líkamir“ af holdi eru ólíkir að vegsemd. Ljómi sólar, tungls og stjarna er líka mismunandi. En vegsemd hinna smurðu er miklu meiri eftir upprisu þeirra.

13. Hverju er sáð og hvað rís upp samkvæmt 1. Korintubréfi 15:42-44?

13 „Þannig er og um upprisu dauðra,“ segir Páll eftir að hafa lýst þessum mun. (1. Korintubréf 15:42-44) „Sáð er forgengilegu, en upp rís óforgengilegt,“ segir hann. Vera má að hann sé að tala um hina smurðu sem hóp. Þeim er sáð forgengilegum við dauðann en rísa upp óforgengilegir og syndlausir. Þeim er sýnd vansæmd í heiminum en eru reistir upp í vegsemd til að opinberast með Kristi á himnum. (Postulasagan 5:41; Kólossubréfið 3:4) Við dauðann er sáð „jarðneskum líkama“ en upp rís „andlegur líkami.“ Fyrst hinir andagetnu geta risið upp megum við treysta að hægt er að reisa upp aðra menn til að lifa hér á jörð.

14. Hvernig ber Páll saman Krist og Adam?

14 Páll ber saman Krist og Adam. (1. Korintubréf 15:45-49) Hinn fyrsti maður, Adam, „varð að lifandi sál“ en hinn síðari Adam, Jesús, að „lífgandi anda.“ (1. Mósebók 2:7) Hann gaf líf sitt sem lausnarfórn, fyrst í þágu smurðra fylgjenda sinna. (Markús 10:45) Sem menn ‚bera þeir mynd hins jarðneska‘ en upprisnir verða þeir eins og hinn síðari Adam. En allir hlýðnir menn njóta auðvitað góðs af fórn Jesú, einnig þeir sem reistir verða upp á jörðinni. — 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2.

15. Af hverju eru hinir smurðu ekki reistir upp í holdi og hvernig rísa þeir upp sem deyja á nærverutíma Jesú?

15 Smurðir kristnir menn eru ekki reistir upp í holdi þegar þeir deyja. (1. Korintubréf 15:50-53) Forgengilegur líkami af holdi og blóði getur ekki erft óforgengileikann og himnaríkið. Sumir hinna smurðu myndu ekki þurfa að sofa löngum dauðasvefni. Þeir myndu „umbreytast í einni svipan, á einu augabragði,“ þegar þeir lykju jarðlífi sínu trúfastir á nærverutíma Jesú. Þeir yrðu reistir upp tafarlaust sem óforgengilegir og dýrlegir andar. Að síðustu nær himnesk „brúður“ Krists tölunni 144.000. — Opinberunarbókin 14:1; 19:7-9; 21:9; 1. Þessaloníkubréf 4:15-17.

Sigur á dauðanum!

16. Hvað verður um erfðadauðann frá Adam að sögn Páls og fyrri spámanna?

16 Páll sagði sigri hrósandi að dauðinn yrði uppsvelgdur í sigur. (1. Korintubréf 15:54-57) Þegar hið forgengilega og dauðlega íklæðist óforgengileika og ódauðleika rætast orðin: „Dauðinn er uppsvelgdur í sigur. Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn?“ (Jesaja 25:8; Hósea 13:14) Syndin er broddur dauðans og afl syndarinnar var lögmálið sem dæmdi syndara til dauða. En fórn og upprisa Jesú gerir að verkum að erfðadauðinn frá Adam hættir að hrósa sigri. — Rómverjabréfið 5:12; 6:23.

17. Hvaða erindi eiga orðin í 1. Korintubréfi 15:58 til okkar núna?

17 „Þess vegna, mínir elskuðu bræður, verið staðfastir, óbifanlegir, síauðugir í verki Drottins,“ sagði Páll. „Þér vitið að erfiði yðar er ekki árangurslaust í Drottni.“ (1. Korintubréf 15:58) Þessi orð eiga erindi til hinna smurðu og til hinna ‚annarra sauða‘ Jesú, jafnvel þótt þeir deyi núna á síðustu dögum. (Jóhannes 10:16) Erfiði þeirra við boðun Guðsríkis er ekki árangurslaust því að þeir eiga upprisu í vændum. Við skulum því vera önnum kafin í starfi Drottins meðan við bíðum dagsins þegar við getum hrópað fagnandi: „Dauði, hvar er sigur þinn?“

Upprisuvonin rætist!

18. Hversu sterk var upprisuvon Páls?

18 Fimmtándi kafli 1. Korintubréfs ber glöggt vitni um kraft upprisuvonarinnar í lífi Páls. Hann var algerlega sannfærður um að Jesús hafði risið upp frá dauðum og að fleirum yrði sleppt úr sameiginlegri gröf mannkyns. Býrð þú yfir slíkri sannfæringu? Páll leit á eigingjarnan ávinning sem „sorp“ og ‚missti allt‘ til að mega „þekkja Krist og kraft upprisu hans.“ Hann var fús til að deyja sams konar dauða og Kristur í von um að „ná til upprisunnar.“ Þar átti hann við ‚fyrri upprisuna‘ sem er hlutskipti 144.000 smurðra fylgjenda Jesú. Þeir rísa upp sem himneskar andaverur en „aðrir dauðir“ fá upprisu á jörð. — Filippíbréfið 3:8-11; Opinberunarbókin 7:4; 20:5, 6.

19, 20. (a) Hvaða persónur biblíusögunnar fá jarðneska upprisu? (b) Hverja hlakkar þú til að sjá upprisna?

19 Upprisuvonin hefur ræst með dýrlegum hætti á hinum smurðu sem hafa verið trúfastir allt til dauða. (Rómverjabréfið 8:18; 1. Þessaloníkubréf 4:15-18; Opinberunarbókin 2:10) Þeir sem lifa af ‚þrenginguna miklu‘ sjá upprisuvonina rætast á jörðinni þegar ‚hafið skilar hinum dauðu sem í því eru, og dauðinn og Hel skila þeim dauðu sem í þeim eru.‘ (Opinberunarbókin 7:9, 13, 14; 20:13) Job er einn þeirra sem rís upp á jörðinni en hann missti sjö syni og þrjár dætur. Reyndu að ímynda þér gleði hans þegar hann tekur á móti þeim — og gleði þeirra að eiga sjö bræður og þrjár aðrar fallegar systur. — Jobsbók 1:1, 2, 18, 19; 42:12-15.

20 Hvílík blessun að sjá Abraham, Söru, Ísak og Rebekku rísa upp til lífs hér á jörð — ásamt mörgum fleiri, þeirra á meðal ‚öllum spámönnunum.‘ (Lúkas 13:28) Spámaðurinn Daníel verður í hópnum en honum var heitið upprisu undir stjórn Messíasar. Hann hefur hvílt í gröfinni í rúmlega 2500 ár en bráðlega mun hann ‚taka hlutskipti sitt‘ sem einn af ‚höfðingjunum um land allt.‘ (Daníel 12:13; Sálmur 45:17) Það verður unaðslegt að taka á móti trúmönnum fortíðar, en ekki síður að fagna föður, móður, syni, dóttur eða öðrum ástvinum sem óvinurinn dauðinn hefur hrifið til sín.

21. Af hverju ættum við ekki að draga það að gera öðrum gott?

21 Trúlega hafa sumir ættingjar okkar og ástvinir þjónað Guði um áratuga skeið og eru orðnir aldraðir. Ellin getur gert þeim erfitt um vik að takast á við þrautir lífsins. Það er mikið kærleiksverk að veita þeim alla þá hjálp sem við getum núna. Þá finnst okkur við ekki hafa brugðist þeim ef dauðinn knýr dyra hjá þeim. (Prédikarinn 9:11; 12:1-7; 1. Tímóteusarbréf 5:3, 8) Við megum treysta að Jehóva gleymir ekki góðverkum okkar í þágu annarra, hvað sem aldri þeirra eða aðstæðum líður. „Þess vegna skulum vér, meðan tími er til, gjöra öllum gott og einkum trúbræðrum vorum,“ skrifaði Páll. — Galatabréfið 6:10; Hebreabréfið 6:10.

22. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera uns upprisuvonin rætist?

22 Jehóva er „faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar.“ (2. Korintubréf 1:3, 4) Orð hans huggar og hjálpar okkur að hugga aðra með krafti upprisuvonarinnar. Þangað til við sjáum vonina rætast með upprisu dauðra hér á jörð skulum við líkja eftir Páli sem trúði á upprisuna. Megum við sérstaklega líkja eftir Jesú sem reis upp eins og Guð hafði heitið honum. Bráðlega munu þeir sem hvíla í minningargröfunum heyra rödd Krists og rísa upp. Megi það gleðja okkur og hughreysta. En umfram allt skulum við vera Jehóva þakklát sem sigrar dauðann fyrir milligöngu Drottins okkar Jesú Krists!

Hvert er svarið?

• Hverjir voru sjónarvottar að upprisu Jesú, að sögn Páls?

• Hver er „síðasti óvinurinn“ og hvernig verður hann að engu?

• Hverju er sáð og hvað rís upp hjá smurðum kristnum mönnum?

• Hvaða biblíupersónur langar þig til að hitta upprisnar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 24]

Páll postuli hélt uppi áhrifamikilli vörn fyrir upprisuvoninni.

[Myndir á blaðsíðu 28]

Upprisa Jobs, fjölskyldu hans og ótal annarra verður óendanlegt gleðiefni.