Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eilíf hamingja — á himni eða jörð?

Eilíf hamingja — á himni eða jörð?

Eilíf hamingja — á himni eða jörð?

ER LÍFSHAMINGJA þín að miklu leyti háð því hvar þú býrð? Flestir fallast fúslega á það að hamingjan ráðist meira af heilbrigði, tilgangi í lífinu og góðu sambandi við aðra. Einn af orðskviðum Biblíunnar lýsir því þannig að ‚betri sé einn skammtur kálmetis með kærleika en alinn uxi með hatri.‘ — Orðskviðirnir 15:17.

Því miður á heimili okkar, jörðin, sér langa sögu haturs, ofbeldis og illsku. En hvað um himininn, andaheiminn þar sem margir vonast eftir bústað eftir dauðann? Hefur himinninn alltaf verið friðsamur sælustaður, laus við hvers kyns ókyrrð og ólgu eins og almennt er talið?

Biblían kennir að Guð búi á himnum ásamt milljónum engla sem eru einnig nefndir „guðssynir.“ (Matteus 18:10; Opinberunarbókin 5:11; Jobsbók 38:4, 7) Englarnir eru ekki viljalaus verkfæri heldur hafa frjálsan vilja líkt og mennirnir. Þess vegna geta þeir líka valið milli þess að gera rétt eða rangt. Getur hugsast að englar ákveði að gera það sem rangt er? Það kann að koma mörgum á óvart að töluverður fjöldi engla ákvað að syndga gegn Guði fyrir árþúsundum — þeir gerðu uppreisn. — Júdasarbréfið 6.

Uppreisn á himnum

Syndin kom fyrst fram í andaheiminum með uppreisn engils sem síðar var kallaður Satan (andstæðingur) og djöfull (rógberi). Hann hafði verið hlýðinn engill en ákvað sjálfur að gera það sem rangt var. Honum tókst síðan að spilla öðrum andaverum þannig að um þær mundir er Nóaflóðið skall á var mikill fjöldi þeirra genginn í lið með honum í uppreisn gegn Guði. — 1. Mósebók 6:2; 2. Pétursbréf 2:4.

Þessum föllnu englum var ekki úthýst af himnum þegar í stað heldur leyfður aðgangur um þúsundir ára, að vísu með vissum takmörkunum. * En þegar þeim tíma lauk var illvirkjunum „varpað“ niður af himnum og þeir bíða nú eyðingar. Þá sagði rödd á himni: „Fagnið því himnar og þér sem í þeim búið.“ (Opinberunarbókin 12:7-12) Það hefur örugglega orðið mikill fögnuður meðal trúfastra engla þegar þessum illskeyttu vandræðaseggjum var loksins úthýst af himnum.

Af þessu er ljóst að það getur aldrei ríkt sannur friður þegar viti bornar sköpunarverur Guðs hunsa lög hans og meginreglur. (Jesaja 57:20, 21; Jeremía 14:19, 20) Á hinn bóginn ríkir friður og ró ef allir hlýða lögum hans. (Sálmur 119:165; Jesaja 48:17, 18) Væri jörðin þá ekki unaðslegur bústaður ef allir menn hlýddu Guði og elskuðu hann og náungann? Biblían svarar því játandi.

En hvað um þá sem eru svo eigingjarnir að þeir neita að láta af illskunni? Fá þeir um alla eilífð að spilla friði þeirra sem vilja í fullri einlægni gera vilja Guðs? Nei, Guð tók hina illu engla á himnum föstum tökum og eins mun hann taka á óguðlegum mönnum hér á jörð.

Hreinsuð jörð

„Himinninn er hásæti mitt og jörðin er fótskör mín,“ segir Guð. (Jesaja 66:1) Guð er heilagur öllum öðrum fremur og leyfir ekki að „fótskör“ sín sé saurguð illsku um ókomna framtíð. (Jesaja 6:1-3; Opinberunarbókin 4:8) Hann hefur nú þegar hreinsað himininn af illum öndum og á eftir að hreinsa jörðina af öllum óguðlegum mönnum eins og eftirfarandi ritningarstaðir sýna:

„Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á [Jehóva], fá landið [það er að segja jörðina] til eignar.“ — Sálmur 37:9.

„Hinir hreinskilnu munu byggja landið, og hinir grandvöru verða eftir í því. En hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu, og hinum svikulu verða útrýmt þaðan.“ — Orðskviðirnir 2:21, 22.

„Guð er réttlátur, hann endurgeldur þeim þrengingu, sem að yður þrengja. En yður, sem þrengingu líðið, veitir hann hvíld ásamt oss, þegar Drottinn Jesús opinberast af himni með englum máttar síns. Hann kemur í logandi eldi og lætur hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú. Þeir munu sæta hegningu, eilífri glötun, fjarri augliti Drottins og fjarri dýrð hans og mætti.“ — 2. Þessaloníkubréf 1:6-9.

„Heimurinn [óguðlegir menn] fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:17.

Verður jörðin friðsæl að eilífu?

Biblían segir sem sagt greinilega að Guð umber ekki illskuna endalaust heldur upprætir hana. En hvernig getum við treyst því að hún spretti ekki upp aftur? Skaut hún ekki fljótt upp kollinum á nýjan leik eftir Nóaflóðið og varð svo mögnuð að Guð þurfti að rugla tungumál manna til að ónýta illskuáform þeirra? — 1. Mósebók 11:1-8.

Jörðin verður ekki undir stjórn manna eins og hún var skömmu eftir flóðið. Það er fyrst og fremst þess vegna sem við getum treyst því að illskan komi ekki fram á sjónarsviðið á nýjan leik. Stjórnin verður í höndum Guðsríkis á himnum sem verður eina stjórnin yfir jörðinni. (Daníel 2:44; 7:13, 14) Og hún mun bregðast snarlega við ef einhver reynir að koma illskunni inn á nýjan leik. (Jesaja 65:20) Þegar þar að kemur mun Guðsríki meira að segja eyða frumkvöðli illskunnar, Satan djöflinum. Og englunum sem fylgdu honum, illu öndunum, verður líka eytt. — Rómverjabréfið 16:20.

Mannkynið þarf þá ekki framar að hafa áhyggjur af fæði, klæði, húsnæði og atvinnu sem veldur því að sumir leiðast út í afbrot núna. Öll jörðin verður frjósöm paradís þar sem allir hafa meira en nóg að bíta og brenna. — Jesaja 65:21-23; Lúkas 23:43.

Það er ekki síður mikilvægt að Guðsríki mun kenna þegnum sínum að lifa í friði og jafnframt lyfta þeim upp á hátind mannlegs fullkomleika. (Jóhannes 17:3; Rómverjabréfið 8:21) Eftir það þarf mannkynið aldrei framar að berjast við veikleika og syndarhneigð, þannig að menn geta hlýtt Guði fullkomlega og haft unun af því eins og Jesús sem var fullkominn. (Jesaja 11:3) Hann var trúr Guði í miklum freistingum og pyndingum sem verða algerlega óþekktar í paradís. — Hebreabréfið 7:26.

Hvers vegna fara sumir til himna?

En margir biblíugrúskarar kannast við orð Jesú: „Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað?“ (Jóhannes 14:2, 3) Stangast þetta ekki á við hugmyndina um eilíft líf í paradís á jörð?

Nei, þetta stangast ekki á við hana heldur styður hana. Biblían segir að takmarkaður hópur trúfastra kristinna manna fái himneska upprisu — en aðeins 144.000. Jóhannes sá þá í sýn og sagði þá hafa ‚lifnað og ríkt með Kristi um þúsund ár.‘ (Opinberunarbókin 14:1, 3; 20:4-6) Í samanburði við milljarðana á jörðinni eru 144.000 manns ekki nema ‚lítil hjörð.‘ (Lúkas 12:32) En þeir þekkja vandamál manna af eigin raun og geta, líkt og Jesús, „séð aumur á veikleika vorum“ er þeir hafa umsjón með endurreisn mannkyns og jarðarinnar. — Hebreabréfið 4:15.

Jörðin — eilíft heimili mannkyns

Guð byrjaði að safna hinum 144.000 fyrir nærri 2000 árum í framhaldi af lausnarfórn Jesú Krists. Flest bendir til þess að samansöfnuninni sé lokið. (Postulasagan 2:1-4; Galatabréfið 4:4-7) En fórn Jesú er „líka fyrir syndir alls heimsins,“ ekki aðeins hinna 144.000. (1. Jóhannesarbréf 2:2) Þess vegna eiga allir sem iðka trú á Jesú eilíft líf í vændum. (Jóhannes 3:16) Þeir sem sofa dauðasvefni í gröfinni og Guð geymir í minni sér fá upprisu, ekki til himna heldur á hreinsaða jörð. (Prédikarinn 9:5; Jóhannes 11:11-13, 25; Postulasagan 24:15) Hvað bíður þeirra þar?

Opinberunarbókin 21:1-4 svarar: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna . . . Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ Hugsaðu þér! Menn verða leystir úr fjötrum dauðans, og kvöl og harmur heyra fortíðinni til. Upphaflegur tilgangur Jehóva með jörðina og mannkynið nær loks fram að ganga. — 1. Mósebók 1:27, 28.

Valkostirnir — líf eða dauði

Adam og Evu stóð aldrei til boða að fara til himna. Þau áttu um það að velja að hlýða Guði og lifa að eilífu í paradís á jörð eða óhlýðnast honum og deyja. Því miður kusu þau óhlýðnina og urðu aftur að „mold.“ (1. Mósebók 2:16, 17; 3:2-5, 19) Það var aldrei ætlun Guðs að mennirnir dæju til að fylla himininn. Hann skapaði aragrúa engla til að lifa á himnum, en þeir eru ekki upprisnir andar látinna manna. — Sálmur 104:1, 4; Daníel 7:10.

Hvað þurfum við að gera til að fá að lifa að eilífu í paradís á jörð? Fyrsta skrefið er það að kynna sér orð Guðs, Heilaga biblíu. Jesús sagði í bæn: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ — Jóhannes 17:3.

Næsta skrefið er að fara eftir því sem maður hefur lært. (Jakobsbréfið 1:22-24) Þeir sem lifa í samræmi við orð Guðs eiga í vændum að sjá með eigin augum hvernig margir af spádómum Biblíunnar rætast, þeirra á meðal spádómurinn í Jesaja 11:9: „Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Nánar er fjallað um það í bókinni Þekking sem leiðir til eilífs lífs, bls. 70-9, hvers vegna Guð hefur umborið illskuna á himni og jörð. Bókin er gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Mynd á blaðsíðu 7]

„Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ — Sálmur 37:29.