Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er jörðin aðeins reynslustaður?

Er jörðin aðeins reynslustaður?

Er jörðin aðeins reynslustaður?

HVÍLÍKUR léttir! Hún náði prófi. Hún var búin að þreyta erfið próf síðasta hálfan mánuðinn og niðurstaðan lá fyrir. Nú gat hún snúið sér að starfinu sem hún hafði alltaf þráð.

Margir hugsa ósköp svipað um jarðlífið. Þeir líta á það sem eins konar próf sem allir þurfi að þreyta. Þeir sem „ná prófi“ hljóti að launum eitthvað betra „hinum megin.“ Það væri reyndar dapurlegt ef hið núverandi líf væri það besta sem menn mættu búast við — því að margir gera vart meira en að draga fram lífið. Biblían segir frá manninum Job sem hafði á orði að ‚maðurinn lifði stutta stund og mettaðist órósemi‘ en var þó efnaður og hraustur mestan hluta ævinnar. — Jobsbók 14:1.

Alfræðibókin New Catholic Encyclopedia lýsir afstöðu margra er hún segir: „Guð hefur búið manninum himneska dýrð. . . . Það má líta svo á að hamingja mannsins sé fólgin í hinni himnesku alsælu sem hann á í vændum.“ Bandarísk kirkjudeild stóð fyrir könnun nýverið þar sem í ljós kom að 87 af hundraði svarenda sögðust trúa því að þeir færu sennilega til himna eftir dauðann.

Margir ókristnir menn vonast líka eftir betri dvalarstað að loknu jarðlífi. Múslímar búast við himneskri paradís þegar jarðlífinu sleppir. Áhangendur búddhískra sértrúarflokka í Kína og Japan trúa að þeir geti endurfæðst í hinu Hreina landi eða Paradís vestursins og fái að búa þar við æðstu hamingju. Til þess þurfa þeir að þylja endalaust „Amida“ sem er nafn Búddha hins ótakmarkaða ljóss.

Biblían hefur verið þýdd á fleiri tungumál en nokkur önnur helgibók veraldar og er þeirra útbreiddust. Það er athyglisvert að hún nefnir hvergi að menn þurfi að sleppa frá jörðinni eða að jarðlífið sé einhvers konar áfangi að öðru. Hún segir til dæmis að ‚hinir réttlátu fái landið til eignar og búi í því um aldur.‘ (Sálmur 37:29) Hin frægu orð Jesú: „Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa,“ standa líka í Biblíunni. — Matteus 5:5.

Sú almenna skoðun að jarðvistin sé aðeins stundleg gefur óbeint í skyn að dauðinn sé eins og dyr að sæluríku framhaldslífi. Ef það er rétt er dauðinn hrein blessun. En líta menn yfirleitt á dauðann sem blessun eða reyna þeir að halda sem lengst í lífið? Reynslan sýnir að fólk vill ekki deyja meðan það býr við þokkalega heilsu og öryggi.

En þar sem jarðlífið er fullt af illsku og þjáningum halda margir að himinninn hljóti að vera eini staðurinn þar sem hægt sé að finna sannan frið og hamingju. Er himinninn staður friðar og alsælu, laus við illsku og sundrung? Og er engin framtíðartilvera annars staðar en á himnum? Vera má að svör Biblíunnar komi þér á óvart. Lestu næstu grein.