Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað þýðir hin dýrmæta arfleifð fyrir þig?

Hvað þýðir hin dýrmæta arfleifð fyrir þig?

Hvað þýðir hin dýrmæta arfleifð fyrir þig?

„Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.“ — MATTEUS 25:34.

1. Hvers konar arfleifð hefur fólk fengið?

ALLIR menn hafa tekið eitthvað að erfð. Sumir hafa erft efnisleg þægindi en aðrir fátækt. Sumir hafa tekið sterkt þjóðernishatur í arf frá fyrri kynslóðum, sprottið af gamalli sögu eða biturri reynslu. En eitt er okkur öllum sameiginlegt. Við höfum öll tekið syndina í arf frá fyrsta manninum Adam, og þessi arfur dregur alla menn til dauða fyrr eða síðar. — Prédikarinn 9:2, 10; Rómverjabréfið 5:12.

2, 3. Hvaða arfleifð bauð Jehóva afkomendum Adams og Evu upp á en hvað olli því að þeir fengu hana ekki?

2 Jehóva, hinn kærleiksríki faðir á himnum, bauð mannkyninu allt aðra arfleifð í upphafi. Þessi arfleifð var fullkomleiki og eilíft líf í paradís. Adam og Eva, foreldrar mannkyns, voru upphaflega syndlaus og Jehóva Guð gaf mannkyni reikistjörnuna Jörð fyrir heimili. (Sálmur 115:16) Hann gaf þeim Edengarðinn sem sýnishorn af því hvernig allur hnötturinn ætti að verða, og fékk þeim skemmtilegt og krefjandi verkefni að vinna. Þau áttu að eignast börn, annast jörðina, jurtaríkið og dýraríkið og stækka paradísina uns hún næði um allan hnöttinn. (1. Mósebók 1:28; 2:8, 9, 15) Afkomendur þeirra áttu að taka þátt í þessu. Þetta var enginn smáarfur handa þeim!

3 En til að njóta alls þessa urðu Adam, Eva og afkomendur þeirra að eiga gott samband við Guð. Þau skulduðu honum ást og hlýðni en kunnu ekki að meta það sem hann hafði gefið þeim og óhlýðnuðust fyrirmælum hans. Þau misstu paradísarheimili sitt og glötuðu hinni dýrlegu framtíð sem Guð bauð þeim. Þess vegna gátu þau ekki gefið afkomendum sínum neitt af þessu í arf. — 1. Mósebók 2:16, 17; 3:1-24.

4. Hvernig getum við eignast þá arfleifð sem Adam fyrirgerði?

4 Í miskunn sinni gerði Jehóva ráðstafanir til þess að afkomendur þeirra gætu erft það sem Adam glataði. Hvernig þá? Sonur Guðs, Jesús Kristur, lagði fullkomið mannslíf sitt í sölurnar fyrir þá og keypti þá alla á tilsettum tíma. En þeir hljóta ekki arfinn sjálfkrafa heldur þurfa að afla sér velþóknunar Guðs með því að iðka trú á friðþægingarfórn Jesú og sýna þessa trú með því að hlýða. (Jóhannes 3:16, 36; 1. Tímóteusarbréf 2:5, 6; Hebreabréfið 2:9; 5:9) Sýnir lífsstefna þín að þú kunnir að meta þessa ráðstöfun?

Arfleifð í ættlegg Abrahams

5. Hvernig sýndi Abraham að hann mat samband sitt við Jehóva mikils?

5 Jehóva átti sérstök samskipti við Abraham í sambandi við tilgang sinn með jörðina. Hann sagði þessum trúfasta manni að yfirgefa heimaland sitt og flytjast til lands sem hann ætlaði sjálfur að vísa honum á. Abraham hlýddi fúslega. Eftir að hann kom þangað sagði Jehóva að hann myndi ekki sjálfur erfa landið heldur afkomendur hans. (1. Mósebók 12:1, 2, 7) Hvernig brást Abraham við? Hann var fús til að þjóna Jehóva hvar og hvernig sem honum var sagt að gera það, svo að afkomendur hans fengju arfleifð sína. Abraham þjónaði Jehóva í 100 ár allt til dauðadags í framandi landi án þess að fá það til eignar. (1. Mósebók 12:4; 25:8-10) Hefðir þú gert það? Jehóva kallaði Abraham ‚ástvin sinn.‘ — Jesaja 41:8.

6. (a) Hvað sýndi Abraham með því að vera reiðubúinn að fórna syni sínum? (b) Hvaða dýrmæta arfleifð gat Abraham gefið afkomendum sínum?

6 Abraham hafði beðið eftir því í mörg ár að eignast soninn Ísak sem var honum afar kær. Drengurinn var líklega orðinn fullvaxta þegar Jehóva sagði Abraham að fara með hann og færa hann að fórn. Abraham vissi ekki að hann væri í þann mund að sýna hvernig Guð ætlaði sjálfur að færa son sinn að lausnarfórn. En hann hlýddi og var rétt í þann veginn að fórna Ísak þegar engill Guðs stöðvaði hann. (1. Mósebók 22:9-14) Jehóva Guð var búinn að segja að fyrirheit sitt við Abraham myndi rætast í ættlegg Ísaks, svo að Abraham trúði greinilega að Guð gæti vakið drenginn upp frá dauðum ef þörf krefði, þó svo að slíkt hefði aldrei gerst áður. (1. Mósebók 17:15-18; Hebreabréfið 11:17-19) Fyrst Abraham var jafnvel fús til að fórna syni sínum sagði Jehóva: „Af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta.“ (1. Mósebók 22:15-18) Þetta gaf til kynna að sæðið, sem nefnt er í 1. Mósebók 3:15, frelsarinn Messías, myndi fæðast í ætt Abrahams. Þetta var dýrmætur arfur til að gefa afkomendunum.

7. Hvernig sýndu Abraham, Ísak og Jakob að þeir kunnu að meta arfleifð sína?

7 Abraham skildi ekki þýðingu þess sem Jehóva var að gera á þeim tíma og hið sama má segja um soninn Ísak og sonarsoninn Jakob sem „voru samerfingjar með honum að hinu sama fyrirheiti.“ En þeir treystu allir á Jehóva. Þeir gengu ekki til liðs við neitt af borgríkjum landsins af því að þeir væntu einhvers betra — „þeirrar borgar, sem hefur traustan grunn, þeirrar, sem Guð er smiður að og byggingarmeistari.“ (Hebreabréfið 11:8-10, 13-16) En það kunnu ekki allir afkomendur Abrahams að meta þessa dýrmætu arfleifð sem bauðst fyrir milligöngu hans.

Sumir fyrirlitu arfleifðina

8. Hvernig sýndi Esaú að hann kunni ekki að meta arfleifð sína?

8 Esaú, eldri sonur Ísaks, kunni ekki að meta frumburðarrétt sinn. Hann kunni ekki að meta það sem heilagt var. Hann var sársvangur dag einn og seldi þá Jakob bróður sínum frumburðarréttinn. Söluverðið var brauð og baunakássa — ein máltíð! (1. Mósebók 25:29-34; Hebreabréfið 12:14-17) Þjóðin, sem átti að uppfylla blessunarfyrirheit Guðs við Abraham, skyldi koma af Jakob en Guð breytti nafni hans í Ísrael. Hvaða tækifæri bauð þessi sérstaka arfleifð upp á?

9. Hvernig frelsaði Jehóva afkomendur Jakobs vegna hinnar andlegu arfleifðar sem þeir áttu?

9 Jakob og fjölskylda hans fluttust til Egyptalands þegar hungursneyð skall á. Afkomendum hans fjölgaði mjög en voru jafnframt hnepptir í þrælkun. En Jehóva gleymdi ekki sáttmálanum við Abraham. Á tilsettum tíma frelsaði hann Ísraelsmenn úr ánauðinni og sagði þeim að hann ætlaði að leiða þá inn í ‚land sem flyti í mjólk og hunangi‘ en það var landið sem hann hafði heitið Abraham. — 2. Mósebók 3:7, 8; 1. Mósebók 15:18-21.

10. Hvað gerðist við Sínaífjall í sambandi við arfleifð Ísraelsmanna?

10 Þegar Ísraelsmenn voru á leið til fyrirheitna landsins safnaði Jehóva þeim saman við Sínaífjall og sagði þeim: „Ef þér hlýðið minni röddu grandgæfilega og haldið minn sáttmála, þá skuluð þér vera mín eiginleg eign umfram allar þjóðir, því að öll jörðin er mín. Og þér skuluð vera mér prestaríki og heilagur lýður.“ (2. Mósebók 19:5, 6) Eftir að þjóðin hafði fúslega samþykkt þetta einum rómi gaf Jehóva henni lögmál sitt og það hafði hann ekki gert fyrir neina aðra þjóð. — Sálmur 147:19, 20.

11. Hvað var meðal annars fólgið í andlegri arfleifð Ísraelsmanna?

11 Þessi nýja þjóð átti sér mikla andlega arfleifð. Hún tilbað hinn eina sanna Guð sem hafði frelsað hana frá Egyptalandi, og hún hafði verið sjónarvottur að tilkomumiklum atburðum þegar henni var gefið lögmálið við Sínaífjall. Það auðgaði svo arfleifð hennar að henni var „trúað fyrir orðum Guðs“ sem spámennirnir miðluðu. (Rómverjabréfið 3:1, 2) Ísraelsmenn voru útvaldir af Jehóva sem vottar hans. (Jesaja 43:10-12) Sæðið Messías átti að koma af þessari þjóð. Lögmálið átti að benda á hann og staðfesta hver hann væri, og það átti að auðvelda þeim að skynja að þeir þörfnuðust hans. (Galatabréfið 3:19, 24) Og þjóðin átti að fá tækifæri til að þjóna með Messíasi sem prestaríki og heilagur lýður. — Rómverjabréfið 9:4, 5.

12. Hvað fengu Ísraelsmenn ekki þó að þeir fengju að ganga inn í fyrirheitna landið? Hver var ástæðan?

12 Jehóva efndi loforð sitt og leiddi Ísraelsmenn til fyrirheitna landsins. En eins og Páll postuli útskýrði síðar fengu þeir ekki raunverulega ‚hvíld‘ í landinu af því að þá skorti trú. Sem þjóð komust þeir ekki inn til „hvíldar Guðs“ af því að þeir hvorki skildu né unnu í samræmi við tilganginn með hvíldardegi hans sem hófst eftir sköpun Adams og Evu. — Hebreabréfið 4:3-10.

13. Hverju fyrirgerðu Ísraelsmenn sem þjóð af því að þeir kunnu ekki að meta andlega arfleifð sína?

13 Ísrael að holdinu var prestaríki og heilagur lýður og hefði getað lagt til alla sem áttu að ríkja með Messíasi á himnum. En þeir kunnu ekki að meta hina dýrmætu andlegu arfleifð sína. Aðeins leifar Ísraelsmanna að holdinu tóku við Messíasi þegar hann kom. Þar af leiðandi var aðeins lítill hluti þeirra með í hinu boðaða prestaríki. Ríkið var tekið frá Ísrael að holdinu og ‚gefið þeirri þjóð sem bar ávexti þess.‘ (Matteus 21:43) Hvaða þjóð var það?

Arfleifð á himnum

14, 15. (a) Hvernig byrjuðu þjóðirnar að afla sér blessunar vegna ‚afkvæmis‘ Abrahams? (b) Hvaða arfleifð hljóta þeir sem tilheyra „Ísrael Guðs“?

14 Ríkið var gefið „Ísrael Guðs,“ andlegu Ísraelsþjóðinni en hana mynda 144.000 andagetnir fylgjendur Jesú Krists. (Galatabréfið 6:16; Opinberunarbókin 5:9, 10; 14:1-3) Sumir þeirra voru Gyðingar að ætt og uppruna en flestir af öðru þjóðerni. Þannig byrjaði Jehóva að uppfylla fyrirheit sitt við Abraham þess efnis að allar þjóðir hlytu blessun vegna ‚afkvæmis‘ hans. (Postulasagan 3:25, 26; Galatabréfið 3:8, 9) Karlar og konur af þjóðunum voru smurð heilögum anda og Jehóva Guð ættleiddi þau sem andlega syni og þeir urðu bræður Jesú Krists. Þannig urðu þeir líka viðbót við þetta sæði eða afkvæmi. — Galatabréfið 3:28, 29.

15 Áður en Jesús dó gerði hann nýja sáttmálann við Gyðinga sem áttu að tilheyra nýju þjóðinni, og þessi sáttmáli yrði síðan fullgiltur með blóði hans. Þeir sem fengju aðild að sáttmálanum yrðu ‚fullkomnaðir um aldur‘ vegna trúar sinnar á fullgildingarfórnina. (Hebreabréfið 10:14-18) Þeir yrðu „réttlættir“ og syndir þeirra fyrirgefnar. (1. Korintubréf 6:11) Í þeim skilningi eru þeir eins og Adam var áður en hann syndgaði. En þeir eiga ekki að búa í paradís á jörð heldur sagðist Jesús ætla að búa þeim stað á himnum. (Jóhannes 14:2, 3) Þeir afsala sér jarðlífi til að hljóta ‚arfleifð sem þeim er geymd á himnum.‘ (1. Pétursbréf 1:4) Hvað eiga þeir að gera þar? Jesús sagðist ‚fá þeim ríki í hendur.‘ — Lúkas 22:29.

16. Hvaða þjónustuverkefni eiga smurðir kristnir menn fyrir höndum?

16 Af himni ofan geta meðstjórnendur Krists meðal annars unnið að því að uppræta af jörðinni allar menjar um uppreisnina gegn drottinvaldi Jehóva. (Opinberunarbókin 2:26, 27) Sem andlegt viðbótarsæði Abrahams eiga þeir þátt í að veita fólki af öllum þjóðum blessun fullkomins lífs. (Rómverjabréfið 8:17-21) Þetta er mjög dýrmæt arfleifð. — Efesusbréfið 1:16-18.

17. Hvernig njóta hinir smurðu arfleifðar sinnar að hluta meðan þeir eru á jörðinni?

17 En arfleifð smurðra fylgjenda Jesú er ekki öll bundin framtíðinni. Jesús var í einstakri aðstöðu til að hjálpa fylgjendum sínum að kynnast Jehóva, hinum eina sanna Guði. (Matteus 11:27; Jóhannes 17:3, 26) Í orði og verki kenndi hann þeim hvað það merkir að ‚treysta á Jehóva‘ og hvað það merkir að hlýða honum. (Hebreabréfið 2:13; 5:7-9) Jesús trúði þeim fyrir þekkingunni á tilgangi Guðs og fullvissaði þá um að heilagur andi myndi fullkomna skilning þeirra á honum. (Jóhannes 14:24-26) Hann innprentaði þeim hve mikilvægt Guðsríki væri. (Matteus 6:10, 33) Og hann fól þeim það verkefni að vitna og gera menn að lærisveinum í Jerúsalem, Júdeu, Samaríu og til endimarka jarðar. — Matteus 24:14; 28:19, 20; Postulasagan 1:8.

Dýrmæt arfleifð múgsins mikla

18. Hvernig er loforð Jehóva um blessun handa öllum þjóðum að rætast núna?

18 Að öllum líkindum er búið að velja hinn andlega Ísrael allan með tölu, hina ‚litlu hjörð‘ ríkisarfanna. (Lúkas 12:32) Um áratuga skeið hefur Jehóva látið safna miklum múgi annarra manna af öllum þjóðum. Þannig rætist í stórum stíl fyrirheit hans um blessun handa öllum þjóðum vegna afkvæmis Abrahams. Þetta fólk þjónar Jehóva fagnandi og játar að það eigi hjálpræði sitt að þakka Guðslambinu, Jesú Kristi. (Opinberunarbókin 7:9, 10) Hefur þú þegið vinsamlegt boð Jehóva um að tilheyra þessum glaða hópi?

19. Hvaða arfleifð bíður þeirra sem eru ekki af litlu hjörðinni?

19 Hvaða dýrmæta arfleifð býður Jehóva þeim sem tilheyra ekki litlu hjörðinni? Þetta er ekki himnesk arfleifð heldur arfleifðin sem Adam hefði getað gefið afkomendum sínum. Þetta er vonin um eilíft líf og fullkomleika í paradís sem smám saman teygir sig um allan hnöttinn. Þá verður hvorki til ‚dauði, harmur, vein né kvöl.‘ (Opinberunarbókin 21:4) Innblásið orð Guðs er því að ávarpa þig er það segir: „Treyst [Jehóva] og gjör gott, bú þú í landinu og iðka ráðvendni, þá munt þú gleðjast yfir [Jehóva], og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist. Innan stundar eru engir guðlausir til framar . . . En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu. Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ — Sálmur 37:3, 4, 10, 11, 29.

20. Hvernig njóta hinir ‚aðrir sauðir‘ góðs af arfleifð hinna smurðu?

20 ‚Aðrir sauðir‘ Jesú eiga sér arfleifð á jarðneskum vettvangi himnaríkis. (Jóhannes 10:16a) Þó svo að þeir fari ekki til himna njóta þeir góðs af andlegri arfleifð hinna smurðu. Það er fyrir tilstilli hinna smurðu í heild, ‚hins trúa og hyggna þjóns,‘ sem hinir aðrir sauðir fá skilning á fyrirheitum Biblíunnar. (Matteus 24:45-47; 25:34) Hinir smurðu og hinir aðrir sauðir þekkja hinn eina sanna Guð, Jehóva, og tilbiðja hann saman. (Jóhannes 17:20, 21) Í sameiningu þakka þeir honum friðþægingarfórn Jesú. Þeir þjóna saman sem ein hjörð undir umsjón eins hirðis sem er Jesús Kristur. (Jóhannes 10:16b) Allir mynda þeir eitt, kærleiksríkt heimsbræðralag. Þeir njóta þeirra sameiginlegu sérréttinda að vera vottar Jehóva og vitna um ríki hans. Ef þú ert vígður og skírður þjónn Jehóva átt þú þessa miklu andlegu arfleifð.

21, 22. Hvernig getum við öll sýnt að við látum okkur annt um hina andlegu arfleifð?

21 Hve dýrmæt þykir þér þessi andlega arfleifð? Meturðu hana nægilega mikils til að láta vilja Guðs ganga fyrir öllu öðru í lífinu? Sýnirðu það með því að gera eins og orð hans og skipulag hvetur til og sækja allar safnaðarsamkomur að staðaldri? (Hebreabréfið 10:24, 25) Er þessi andlega arfleifð þér svo mikils virði að þú heldur áfram að þjóna Guði þrátt fyrir erfiðleika? Meturðu hana nógu mikils til þess að þú getir staðist sérhverja freistingu til að gera nokkuð sem myndi valda því að þú glataðir henni?

22 Metum öll mikils hina andlegu arfleifð sem Guð hefur gefið okkur. Horfum einbeitt til paradísarinnar framundan og njótum til fulls þeirra andlegu sérréttinda sem hann veitir okkur núna. Með því að gera sambandið við Jehóva að þungamiðju lífsins sýnum við svo ekki verður um villst hve dýrmæt arfleifð það er sem hann hefur gefið okkur. Megum við taka undir með þeim sem segja: „Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur, og prísa nafn þitt um aldur og ævi.“ — Sálmur 145:1.

Hvert er svarið?

• Hvaða arfleifð hefði Adam gefið okkur ef hann hefði verið Guði trúr?

• Hvernig fóru afkomendur Abrahams með arfleifðina sem þeim stóð til boða?

• Hvað er fólgið í arfleifð smurðra fylgjenda Krists?

• Hver er arfleifð múgsins mikla og hvernig getur hann sýnt að hann kann virkilega að meta hana?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 29]

Afkomendur Abrahams fengu loforð um dýrmæta arfleifð.

[Mynd á blaðsíðu 32]

Kanntu að meta andlega arfleifð þína?