Þú getur verið siðferðilega hreinn
Þú getur verið siðferðilega hreinn
„Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð.“ — 1. JÓHANNESARBRÉF 5:3.
1. Hvaða andstæður sjáum við meðal fólks nú á tímum?
SPÁMANNINUM Malakí var endur fyrir löngu innblásið að boða þann mikla mismun sem verða myndi á hegðun þeirra sem þjónuðu Guði og þeirra sem gerðu það ekki. Hann skrifaði: „Þá munuð þér aftur sjá þann mismun, sem er á milli réttláts manns og óguðlegs, á milli þess, sem Guði þjónar, og hins, sem ekki þjónar honum.“ (Malakí 3:18) Þessi spádómur er að rætast núna. Það er bæði viturlegt og rétt að halda boðorð Guðs, þar á meðal þau sem kveða á um hreinleika í siðferðismálum. En það er ekki alltaf auðvelt svo að það var ekki af tilefnislausu sem Jesús sagði að kristnir menn yrðu að kosta kapps um að hljóta hjálpræði. — Lúkas 13:23, 24.
2. Hvaða utanaðkomandi þrýstingur gerir fólki erfitt að halda sér siðferðilega hreinum ?
2 Af hverju er erfitt að vera siðferðilega hreinn? Utanaðkomandi þrýstingur er ein ástæðan. Skemmtanaiðnaðurinn sér um það að sveipa óleyfilegt kynlíf töfraljóma. Það á að vera skemmtilegt og bera vott um þroska, en það er alger undantekning að minnast á neikvæðu afleiðingarnar. (Efesusbréfið 4:17-19) Og það er sjaldgæft að lýst sé kynferðissamböndum hjóna. Í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum eru kynmök oft sprottin af skyndikynnum. Hlýju og gagnkvæmri virðingu er sjaldan haldið á loft. Margir hafa setið undir slíkum áróðri frá barnæsku. Og oft sætir fólk miklum hópþrýstingi til að fylgja frjálslyndum siðferðishugmyndum samtíðarinnar og þeir sem gera það ekki eru stundum hafðir að háði eða lasti. — 1. Pétursbréf 4:4.
3. Nefndu ástæður fyrir því að margir í heiminum leiðast út í siðleysi.
3 Það er líka erfitt að vera hreinlífur sökum þrýstings innan frá. Jehóva áskapaði manninum kynhvöt og hún getur verið sterk. Langanir og þrár stjórnast að miklu leyti af hugsuninni, og siðleysi er nátengt hugsun sem stingur í stúf við huga Jehóva. (Jakobsbréfið 1:14, 15) Tímaritið British Medical Journal birti nýverið niðurstöður könnunar þar sem fram kom að margir höfðu kynmök í fyrsta sinn aðeins til að forvitnast um hvernig kynlíf væri. Sumir héldu að flestir jafnaldrar sínir stunduðu kynlíf og vildu vera eins og hinir. Og sumir sögðust hafa látið tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur eða hafa verið „dálítið ölvaðir“ þegar það gerðist. Ef við viljum þóknast Guði verðum við að hugsa öðruvísi. Hvers konar hugsunarháttur hjálpar okkur að halda okkur siðferðilega hreinum?
Byggðu upp sterka sannfæringu
4. Hvað þurfum við að gera til að vera siðferðilega hreinlíf?
4 Til að vera siðferðilega hreinlíf verðum við að viðurkenna að það sé þess virði. Þetta er í samræmi við orð Páls postula í bréfi til kristinna manna í Róm: „Fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“ (Rómverjabréfið 12:2) Það er ekki nóg að vita að orð Guðs fordæmir siðleysi til að viðurkenna að það sé þess virði að vera hreinlífur, heldur er nauðsynlegt að skilja af hverju siðleysi er fordæmt og hvaða gagn við höfum af því að forðast það. Rætt var um sumt af því í greininni á undan.
5. Af hverju ættu kristnir menn öðru fremur að halda sér siðferðilega hreinum?
5 En sterkustu ástæðurnar fyrir því að forðast siðleysi tengjast sambandi okkar við Guð. Við höfum komist að raun um að hann veit hvað er okkur fyrir bestu. Að elska hann er hjálp til að hata hið illa. (Sálmur 97:10) Guð gefur ‚sérhverja góða gjöf og sérhverja fullkomna gáfu.‘ (Jakobsbréfið 1:17) Hann elskar okkur. Með því að hlýða honum sýnum við að við elskum hann og kunnum að meta allt sem hann hefur gert fyrir okkur. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Aldrei viljum við valda honum vonbrigðum og sársauka með því að brjóta réttlát boð hans. (Sálmur 78:41) Við viljum ekki hegða okkur þannig að heilög og réttlát tilbeiðsla hans verði fyrir lasti. (Títusarbréfið 2:5; 2. Pétursbréf 2:2) Við gleðjum hinn hæsta með því að halda okkur siðferðilega hreinum. — Orðskviðirnir 27:11.
6. Hvaða hjálp er í því að segja öðrum frá afstöðu þinni í siðferðismálum?
6 Eftir að við höfum afráðið að vera siðsöm er það vernd að láta aðra vita af ásetningi okkar. Segðu fólki að þú sért þjónn Jehóva Guðs og sért staðráðinn í því að halda háleitar Sálmur 64:11) Þú ættir aldrei að skammast þín fyrir að ræða við aðra um afstöðu þína í siðferðismálum. Með því að vera opinskár geturðu styrkt sjálfan þig, verndað þig og hvatt aðra til að fara að dæmi þínu. — 1. Tímóteusarbréf 4:12.
siðferðisreglur hans. Þetta er þitt líf, þinn líkami og þín ákvörðun. Það er hvorki meira né minna en hið dýrmæta samband við föður þinn á himnum sem er í húfi. Láttu því skýrt í ljós að afstaða þín í siðferðismálum sé ófrávíkjanleg. Vertu stoltur af því að vera fulltrúi Guðs og halda meginreglum hans á loft. (7. Hvernig getum við staðið við þann ásetning að vera siðsöm?
7 Eftir að hafa ákveðið að stunda gott siðferði og gert afstöðu þína heyrinkunna þarftu að gera ráðstafanir til að standa við hana. Ein leiðin er sú að vanda vinaval þitt. „Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur,“ segir Biblían. Veldu að félögum þá sem hafa sömu afstöðu og þú í siðferðismálum; það styrkir þig. Versið heldur áfram: „En illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja.“ (Orðskviðirnir 13:20) Að því marki sem þú getur skaltu forðast fólk sem hætta er á að veiki ásetning þinn. — 1. Korintubréf 15:33.
8. (a) Af hverju ættum við að næra hugann á því sem er heilnæmt? (b) Hvað eigum við að forðast?
8 Jafnframt þurfum við að næra hugann á því sem er satt, göfugt, rétt, heint, elskuvert, gott afspurnar, dyggð og lofsvert. (Filippíbréfið 4:8) Þetta gerum við með því að vera vandfýsin á sjónvarpsefni, kvikmyndir, lesefni og tónlist. Að halda því fram að siðlaust lesefni sé ekki spillandi er ámóta og að segja að lesefni með góðum siðferðisboðskap hafi engin jákvæð áhrif. Munum að ófullkomnir menn geta auðveldlega orðið siðleysi að bráð. Bækur, tímarit, kvikmyndir og tónlist, sem örva kynhvötina, kveikja rangar langanir og geta fyrr eða síðar leitt til syndar. Við þurfum að fylla hugann af visku Guðs til að halda okkur siðferðilega hreinum. — Jakobsbréfið 3:17.
Leiðin út í siðleysi
9-11. Hvernig lýsir Salómon skrefum ungs manns út í siðleysi?
9 Oft er hægt að rekja leiðina út í siðleysi skref fyrir skref. Við hvert skref, sem stigið er, verður erfiðara að snúa við. Sjáðu hvernig þessu er lýst í Orðskviðunum 7:6-23. Salómon sér ungan mann sem er „vitstola“ af því að hvatir hans eru ekki réttar. Ungi maðurinn „gekk á strætinu nálægt horni einu og fetaði leiðina að húsi [vændiskonu], í rökkrinu, að kveldi dags.“ Þetta eru fyrstu mistökin. Hjartað hefur leitt hann á ákveðinn stað í ákveðinni götu þar sem hann veit að það er yfirleitt hægt að ganga að vændiskonu vísri.
10 Því næst lesum við: „Gekk þá kona í móti honum, búin sem portkona og undirförul í hjarta.“ Nú kemur hann auga á hana. Hann gæti snúið við og farið heim en það er erfiðara en áður, einkum þar eð hann er ekki sterkur á svellinu í siðferðismálum. Hún þrífur í hann og kyssir hann. Eftir að hafa þegið kossinn hlustar hann á tælandi fortölur hennar: „Ég átti að greiða heillafórn,“ segir hún, „í dag hefi ég goldið heit mitt.“ Heillafórnin var fórn með kjöti, mjöli, olíu og víni. (3. Mósebók 19:5, 6; 22:21; 4. Mósebók 15:8-10) Með því að nefna fórnina var hún kannski að ýja að því að hún væri ekki andlega dauð og jafnframt að láta hann vita að hún ætti nóg af góðum mat og drykk heima. „Kom þú,“ biður hún, „við skulum drekka okkur ástdrukkin fram á morgun, gamna okkur með blíðuhótum.“
11 Það er ekki erfitt að geta sér til um framhaldið. „Hún ginnti hann með kjassmælum sínum.“ Hann eltir hana „eins og naut gengur fram á blóðvöllinn“ og „eins og fuglinn hraðar sér í snöruna.“ Salómon lýkur lýsingu sinni með þessum alvarlegu orðum: „[Hann] veit ekki, að líf hans er í veði.“ Já, líf hans er í húfi af því að „hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.“ (Hebreabréfið 13:4) Þetta er sterk viðvörun bæði til karla og kvenna. Við ættum að forðast fyrsta skrefið út á þá braut sem leiðir til vanþóknunar Guðs.
12. (a) Hvað er átt við með orðinu „vitstola“? (b) Hvernig getum við byggt upp siðferðisþrek?
12 Við tökum eftir að ungi maðurinn er sagður „vitstola“ sem merkir að hugsanir hans, langanir, markmið og tilfinningar hafi ekki verið í samræmi við afstöðu Guðs. Veiklyndi hans í siðferðismálum hafði átakanlegar afleiðingar. Það kostar talsverða áreynslu núna á „síðustu dögum“ til að byggja upp siðferðisþrek. (2. Tímóteusarbréf 3:1) En okkur er hjálpað til þess. Guð sér okkur fyrir safnaðarsamkomum til að hvetja okkur til að ganga rétta braut og koma okkur í samband við aðra með sömu markmið. (Hebreabréfið 10:24, 25) Í söfnuðinum eru öldungar sem gæta okkar og kenna okkur að ganga veg réttlætisins. (Efesusbréfið 4:11, 12) Við höfum orð Guðs, Biblíuna, til að leiða okkur og leiðbeina. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Og við getum beðið um anda Guðs til hjálpar hvenær sem er. — Matteus 26:41.
Lærum af syndum Davíðs
13, 14. Hvernig gerðist Davíð sekur um stórkostlega synd?
13 Því miður hafa jafnvel úrvalsþjónar Guðs gert sig seka um siðleysi. Einn þeirra var Davíð konungur sem hafði þjónað Jehóva trúfastur um áratuga skeið. Það leikur enginn vafi á því að hann elskaði Guð innilega, en engu að síður féll hann í gildru syndarinnar. Synd Davíðs átti sér vissan aðdraganda eins og hjá unga manninum sem Salómon lýsti, og hafði viss eftirköst.
14 Davíð var á miðjum aldri þegar þetta gerðist, kannski rúmlega fimmtugur. Ofan af hallarþakinu sá hann hina fögru Batsebu baða sig. Hann spurðist fyrir um hana og fékk að vita deili á henni. Hann uppgötvaði að Úría, eiginmaður hennar, var í hernum sem sat um Ammónítaborgina Rabba. Davíð lét færa hana í höll sína og átti kynmök við hana. En þá vandaðist málið — hún varð barnshafandi. Davíð kallaði Úría úr stríðinu í von um að hann myndi eyða nótt með konu sinni. Þá hefði litið svo út sem Úría ætti barnið er Batseba gekk með. En Úría fór ekki heim til sín. Í örvæntingu sendi Davíð hann aftur til Rabba með bréf til hershöfðingjans þar sem honum var fyrirskipað að sjá til þess að Úría félli í bardaga. Þannig vonaðist Davíð til að geta breitt yfir syndina. Úría féll og Davíð giftist ekkjunni áður en það komst í hámæli að hún væri með barni. — 2. Samúelsbók 11:1-27.
15. (a) Hvernig var synd Davíðs afhjúpuð? (b) Hvernig brást Davíð við ávítum Natans?
15 Það leit út fyrir að Davíð hefði heppnast að breiða yfir synd sína. Mánuðir liðu og Batseba ól son. Ef Davíð var með það í huga er hann orti Sálm 32 er ljóst að samviskan kvaldi hann. (Sálmur 32:3-5) En syndin lá ekki falin fyrir Guði. Biblían segir að ‚Jehóva hafi mislíkað það sem Davíð gerði.‘ (2. Samúelsbók 11:27) Jehóva sendi Natan spámann til hans og hann fletti snilldarlega ofan af syndinni. Davíð játaði synd sína þegar í stað og sárbændi Jehóva um fyrirgefningu. Jehóva fyrirgaf honum sökum þess að iðrun hans var einlæg. (2. Samúelsbók 12:1-13) Davíð fyrtist ekki við ofanígjöfina heldur sýndi það hugarfar sem lýst er í Sálmi 141:5: „Sá ráðvandi slái mig, það er elska; hann straffi mig, það er mér viðsmjör á höfði; mitt höfuð skal ei undan færast, þó hann slái aptur.“ — Biblían 1859.
16. Hvaða viðvörun og heilræði gaf Salómon í sambandi við syndir?
16 Salómon, sem var annar sonur Davíðs og Batsebu, kann að hafa ígrundað þennan dapurlega ævikafla föður síns. Hann skrifaði: „Sá sem dylur yfirsjónir sínar, verður ekki lángefinn, en sá sem játar þær og lætur af þeim, mun miskunn hljóta.“ (Orðskviðirnir 28:13) Ef við drýgjum alvarlega synd ættum við að hlýða þessum innblásnu leiðbeiningum sem eru bæði viðvörun og heilræði í senn. Við ættum að játa syndir okkar fyrir Jehóva og leita hjálpar safnaðaröldunganna. Það er eitt af mikilvægum ábyrgðarstörfum öldunga að leiðrétta þá sem gerast sekir um ranga breytni. — Jakobsbréfið 5:14, 15.
Að taka afleiðingunum
17. Við hverju hlífir Jehóva okkur ekki þótt hann fyrirgefi syndir?
17 Jehóva fyrirgaf Davíð vegna þess að Davíð var ráðvandur maður, miskunnsamur við aðra og iðraðist einlæglega. En honum var ekki hlíft við hrikalegum afleiðingum syndarinnar. (2. Samúelsbók 12:9-14) Eins er það núna. Þó svo að Jehóva sendi iðrandi mönnum enga bölvun hlífir hann þeim ekki við eðlilegum afleiðingum rangra verka þeirra. (Galatabréfið 6:7) Og afleiðingar siðleysis geta verið hjónaskilnaður, óæskileg þungun, samræðissjúkdómur og missir trausts og virðingar.
18. (a) Hvernig átti Korintusöfnuðurinn að taka á grófu siðleysi? (b) Hvernig sýnir Jehóva syndurum kærleika og miskunn?
18 Ef okkur verður alvarlega á er eðlilegt að vera kvíðinn og vondaufur meðan við erum að taka út afleiðingar mistaka okkar. En látum ekkert hindra okkur í að iðrast og sættast við Guð. Páll skrifaði Korintumönnum á fyrstu öld að þeir ættu að víkja manni úr söfnuðinum sem stundaði sifjaspell. (1. Korintubréf 5:1, 13) Eftir að maðurinn iðraðist einlæglega sagði Páll söfnuðinum að „fyrirgefa honum og hugga hann.“ (2. Korintubréf 2:5-8) Þessar innblásnu leiðbeiningar bera vott um kærleika og miskunn Jehóva gagnvart iðrandi syndurum. Englarnir á himnum gleðjast þegar syndari iðrast. — Lúkas 15:10.
19. Hvaða áhrif getur hryggð vegna hins ranga haft?
19 Einlæg eftirsjá getur orðið til þess að við ‚gætum okkar að snúa okkur ekki að ranglæti‘ á nýjan leik. (Jobsbók 36:21) Beiskar afleiðingar syndarinnar ættu að aftra okkur frá því að endurtaka hið ranga. Davíð benti á bitra reynslu sína af syndinni öðrum til varnaðar. Hann talaði um að ‚kenna afbrotamönnum vegu Guðs og að syndarar mættu hverfa aftur til hans.‘ — Sálmur 51:15.
Það er gleðigjafi að þjóna Jehóva
20. Hvað er fengið með því að hlýða réttlátum kröfum Guðs?
20 „Sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það,“ sagði Jesús. (Lúkas 11:28) Það er sælu- og gleðigjafi nú og um alla framtíð að hlýða réttlátum kröfum Guðs. Ef við höfum haldið okkur siðferðilega hreinum skulum við halda því áfram og nýta okkur allt sem Jehóva hefur gert okkur til aðstoðar. Ef við höfum gerst sek um siðleysi skulum við herða upp hugann af því að Jehóva er fús til að fyrirgefa þeim sem iðrast í sannleika, og við skulum vera staðráðin í að láta syndina aldrei endurtaka sig. — Jesaja 55:7.
21. Hvaða hvatning Péturs postula getur hjálpað til að halda okkur siðferðilega hreinum?
21 Bráðlega hverfur þessi óréttláti heimur og siðlaus verk hans og viðhorf með honum. Við njótum góðs af því nú og um eilífð að halda okkur siðferðilega hreinum. Pétur postuli skrifaði: „Með því að þér nú, þér elskuðu, væntið slíkra hluta, þá kappkostið að vera flekklausir og lýtalausir frammi fyrir honum í friði. Með því að þér vitið þetta fyrirfram . . . þá hafið gát á yður, að þér látið eigi dragast með af villu þverbrotinna manna og fallið frá staðfestu yðar.“ —Geturðu svarað?
• Af hverju getur verið erfitt að vera siðferðilega hreinn?
• Nefndu leiðir til að styrkja þann ásetning að vera siðsamur.
• Hvað má læra af syndum unga mannsins sem Salómon lýsir?
• Hvað lærum við um iðrun af fordæmi Davíðs?
[Spurningar]
[Mynd á blaðsíðu 13]
Það er vernd að láta aðra vita um afstöðu þína í siðferðismálum.
[Myndir á blaðsíðu 16, 17]
Jehóva fyrirgaf Davíð af því að hann iðraðist í einlægni.