Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Biblíulestur gagnlegur og ánægjulegur

Biblíulestur gagnlegur og ánægjulegur

Biblíulestur gagnlegur og ánægjulegur

„Skalt þú [lesa] hana um daga og nætur.“ — JÓSÚABÓK 1:8.

1. Hvaða gagn er að lestri almennt og hvaða gagn er að biblíulestri?

GOTT lesefni er gagnlegt. Franski stjórnmálaheimspekingurinn Montesquieu (Charles-Louis de Secondat) skrifaði: „Nám hefur alltaf reynst mér besta lyfið gegn lífsþreytu. Ég hef aldrei þekkt neinar áhyggjur sem klukkustundarlestur hefur ekki bægt frá mér.“ Biblíulestur er betri en nokkur annar lestur. Sálmaritarinn sagði þessi innblásnu orð: „Lögmál [Jehóva] er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður [Jehóva] er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran. Fyrirmæli [Jehóva] eru rétt, gleðja hjartað.“ — Sálmur 19:8-9.

2. Af hverju hefur Jehóva varðveitt Biblíuna um aldaraðir og hvernig ætlast hann til að fólk sitt noti hana?

2 Jehóva Guð er höfundur Biblíunnar og hefur varðveitt hana þrátt fyrir aldalanga andstöðu hatrammra óvina, bæði trúarlegra og veraldlegra. Það er vilji hans að „allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“ svo að hann hefur séð til þess að allt mannkyn hafi aðgang að orði hans. (1. Tímóteusarbréf 2:4) Talið er að hægt sé að ná til um 80 prósent jarðarbúa með 100 tungumálum. Biblían í heild er fáanleg á 370 tungumálum og hlutar af henni á 1860 málum og mállýskum að auki. Jehóva vill að fólk lesi orð hans og hann blessar þjóna sína sem gefa gaum að því og lesa það daglega. — Sálmur 1:1, 2.

Umsjónarmenn eiga að lesa Biblíuna

3, 4. Hvers krafðist Jehóva af konungum Ísraels og af hverju er þess einnig krafist af kristnum öldungum nú á tímum?

3 Jehóva sagði fyrir fram um þann tíma er Ísraelsmenn myndu eiga sér mennskan konung: „Þegar hann nú er setstur í hásæti konungdóms síns, þá skal hann fá lögmál þetta hjá levítaprestunum og rita eftirrit af því handa sér í bók. Og hann skal hafa hana hjá sér og lesa í henni alla ævidaga sína, til þess að hann læri að óttast [Jehóva] Guð sinn og gæti þess að halda öll fyrirmæli þessa lögmáls og þessi ákvæði, að hann ofmetnist eigi í hjarta sínu yfir bræður sína og víki eigi frá boðorðunum, hvorki til hægri né vinstri.“ — 5. Mósebók 17:18-20.

4 Taktu eftir hvers vegna Jehóva krafðist þess að allir væntanlegir konungar Ísraels læsu lögbókina daglega: (1) „til þess að hann læri að óttast [Jehóva] Guð sinn og gæti þess að halda öll fyrirmæli þessa lögmáls og þessi ákvæði,“ (2) „að hann ofmetnist eigi í hjarta sínu yfir bræður sína“ og (3) „víki eigi frá boðorðunum, hvorki til hægri né vinstri.“ Þurfa ekki kristnir umsjónarmenn að óttast Jehóva, hlýða lögum hans, varast að upphefja sig yfir bræður sína og forðast að víkja frá boðum Jehóva? Daglegur biblíulestur er ekki síður mikilvægur fyrir þá en konunga Ísraels.

5. Hvað skrifaði hið stjórnandi ráð deildarnefndunum nýverið um biblíulestur og af hverju ættu allir kristnir öldungar að fara eftir þessum ráðum?

5 Kristnir öldungar hafa mikið að gera svo að það er ekki auðvelt fyrir þá að lesa daglega í Biblíunni. Þeir sem sitja í hinu stjórnandi ráði votta Jehóva og deildarnefndunum víða um lönd eru allir önnum kafnir. Engu að síður var í nýlegu bréfi frá hinu stjórnandi ráði til allra deildarnefnda lögð áhersla á góðar námsvenjur og daglegan biblíulestur. Fram kom í bréfinu að það styrki kærleikann til Jehóva og sannleikans og hjálpi okkur að „varðveita trúna, gleðina og þolgæðið allt til hinna dýrlegu endaloka.“ Allir öldungar í söfnuðum votta Jehóva finna fyrir þessari sömu þörf. Daglegur biblíulestur hjálpar þeim að „breyta viturlega.“ (Jósúabók 1:7, 8) Biblíulestur er sérstaklega nytsamur fyrir þá „til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:16.

Nauðsyn fyrir unga sem aldna

6. Af hverju lét Jósúa lesa öll orð lögmáls Jehóva fyrir söfnuði Ísraelsmanna og útlendingum?

6 Til forna áttu menn ekki einkaeintak af Ritningunni svo að lesturinn fór fram á fjöldasamkomum. Eftir að Jehóva hafði veitt Jósúa sigur yfir borginni Aí kallaði Jósúa ættkvíslir Ísraels saman við Ebalfjall og Garísímfjall. Síðan segir frásagan: „Eftir það las hann upp öll orð lögmálsins, blessunina og bannfæringuna, samkvæmt öllu því, sem skrifað er í lögmálsbókinni. Ekkert orð af því, er Móse hafði boðið, var úr fellt. Jósúa las það allt upp fyrir öllum söfnuði Ísraels, einnig fyrir konum og börnum og útlendingum þeim, er með þeim höfðu farið.“ (Jósúabók 8:34, 35) Ungir sem aldnir, innfæddir sem útlendingar þurftu að greypa í huga sér og hjarta hvaða hegðun veitti þeim blessun Jehóva og hvaða hegðun kallaði yfir þá vanþóknun hans. Reglulegur biblíulestur hjálpar okkur líka tvímælalaust til þess.

7, 8. (a) Hverjir eru eins og ‚útlendingarnir‘ og af hverju þurfa þeir að lesa daglega í Biblíunni? (b) Hvernig geta ‚börnin‘ meðal fólks Jehóva fylgt fordæmi Jesú?

7 Milljónir þjóna Jehóva eru í andlegum skilningi eins og þessir ‚útlendingar.‘ Þeir lifðu áður eftir lífsreglum heimsins en tóku stefnubreytingu. (Efesusbréfið 4:22-24; Kólossubréfið 3:7, 8) Þeir þurfa í sífellu að minna sig á staðla Jehóva um gott og illt. (Amos 5:14, 15) Daglegur lestur í orði Guðs hjálpar þeim til þess. — Hebreabréfið 4:12; Jakobsbréfið 1:25.

8 Það eru líka mörg ‚börn‘ meðal fólks Jehóva sem hafa lært staðla hans af foreldrum sínum en þurfa að sannfæra sig um að vilji hans sé réttur. (Rómverjabréfið 12:1, 2) Hvernig geta þau gert það? Prestum og öldungum Ísraels var fyrirskipað: „Skalt þú lesa lögmál þetta fyrir öllum Ísrael í heyranda hljóði. Safna þú saman lýðnum, bæði körlum, konum og börnum, og útlendingum þeim, sem hjá þér eru innan borgarhliða þinna, til þess að þeir hlýði á og til þess að þeir læri að óttast [Jehóva] Guð yðar og gæti þess að halda öll orð þessa lögmáls. Og börn þeirra, þau er enn ekki þekkja það, skulu hlýða á og læra að óttast [Jehóva] Guð.“ (5. Mósebók 31:11-13) Jesús ólst upp undir lögmálinu og 12 ára gamall sýndi hann brennandi áhuga á því að skilja lögmál föður síns. (Lúkas 2:41-49) Síðar meir hafði hann fyrir venju að taka þátt í ritningarlestri í samkundunni. (Lúkas 4:16; Postulasagan 15:21) Börn og unglingar eru hvött til að líkja eftir dæmi hans og lesa daglega í orði Guðs og sækja að staðaldri samkomur þar sem það er lesið og numið.

Biblíulestur er forgangsatriði

9. (a) Af hverju þurfum við að vera vandfýsin á það sem við lesum? (b) Hvað sagði stofnandi og fyrsti ritstjóri þessa tímarits um biblíunámsrit?

9 Spekingurinn Salómon skrifaði: „Þýðstu viðvaranir. Að taka saman margar bækur, á því er enginn endir, og mikil bókiðn þreytir líkamann.“ (Prédikarinn 12:12) Því má bæta við að margar af þeim bókum, sem nú eru gefnar út, eru ekki aðeins þreytandi fyrir líkamann heldur beinlínis hættulegar fyrir hugann. Það er því mikilvægt að vera vandfýsinn. Við þurfum að lesa Biblíuna sjálfa auk biblíunámsrita. Stofnandi og fyrsti ritstjóri þessa tímarits skrifaði lesendum: „Gleymum aldrei að Biblían er mælikvarði okkar og að hjálpargögn okkar eru ‚hjálpargögn‘ en koma ekki í stað Biblíunnar, þó svo að þau séu Guðs gjöf.“ * Við þurfum sem sagt að lesa Biblíuna sjálfa þó að við lesum líka ýmis biblíutengd rit.

10. Hvernig hefur hinn „trúi og hyggni þjónn“ lagt áherslu á biblíulestur?

10 Hinn „trúi og hyggni þjónn“ er vakandi fyrir þessari þörf og hefur um langt árabil sett biblíulestur í námsskrá Guðveldisskólans í hverjum söfnuði. (Matteus 24:45) Samkvæmt núverandi lestraráætlun er farið yfir alla Biblíuna á hér um bil sjö árum. Þessi lestraráætlun er öllum gagnleg en sérstaklega þó nýjum sem hafa aldrei lesið Biblíuna í heild. Betelítar og nemendur trúboðsskólans Gíleað og Þjónustuþjálfunarskólans eiga að lesa alla Biblíuna á einu ári. Óháð því hvernig lestraráætlunin er hjá þér sem einstaklingi eða ykkur sem fjölskyldu er nauðsynlegt að láta biblíulesturinn ganga fyrir öðru.

Hvað sýna lestrarvenjur þínar?

11. Hvers vegna og hvernig ættum við að næra okkur daglega á orðum Jehóva?

11 Ef þú átt í erfiðleikum með að fylgja þeirri biblíulestraráætlun, sem þú hefur sett þér, gætirðu kannski spurt þig hvaða áhrif sjónvarpið hafi á möguleika þína að lesa orð Jehóva. Mundu hvað Móse skrifaði og Jesús endurtók: „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.“ (Matteus 4:4; 5. Mósebók 8:3) Við þurfum að borða brauð eða jafngildi þess hvern dag sem við lifum til að næra líkamann, og við þurfum með sama hætti að drekka í okkur hugsanir Jehóva daglega til að viðhalda andlegu hugarfari okkar. Og við höfum aðgang að þeim alla daga með því að lesa í Ritningunni.

12, 13. (a) Hvernig lýsir Pétur postuli lönguninni sem við ættum að hafa í orð Guðs? (b) Hvaða munur er á líkingum Péturs og Páls um mjólkina?

12 Ef við lítum ekki á Biblíuna ‚sem manna orð, heldur sem Guðs orð — eins og það í sannleika er‘ —  þá sækjumst við eftir því eins og ungbarn eftir móðurmjólkinni. (1. Þessaloníkubréf 2:13) Pétur postuli líkti þessu tvennu saman og sagði: „Sækist eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ósviknu mjólk, til þess að þér af henni getið dafnað til hjálpræðis, enda ‚hafið þér smakkað, hvað Drottinn er góður.‘“ (1. Pétursbréf 2:2, 3) Ef við höfum sjálf smakkað að „Drottinn er góður“ sækjumst við eftir því að lesa Biblíuna.

13 Rétt er að taka það fram að Pétur notar mjólkina í annars konar samlíkingu en Páll postuli. Móðurmjólkin fullnægir öllum næringarþörfum ungbarns. Pétur sýnir fram á með líkingu sinni að orð Guðs inniheldur allt sem við þurfum svo að við getum „dafnað til hjálpræðis.“ Páll notar mjólkina hins vegar til að lýsa slæmum næringarvenjum sumra sem þykjast vera andlega fullorðnir. Hann skrifaði í bréfinu til kristinna Hebrea: „Þó að þér tímans vegna ættuð að vera kennarar, þá hafið þér þess enn á ný þörf, að einhver kenni yður undirstöðuatriði Guðs orða. Svo er komið fyrir yður, að þér hafið þörf á mjólk, en ekki fastri fæðu. En hver sem á mjólk nærist er barn og skilur ekki boðskap réttlætisins. Fasta fæðan er fyrir fullorðna, fyrir þá, sem jafnt og þétt hafa tamið skilningarvitin til að greina gott frá illu.“ (Hebreabréfið 5:12-14) Gaumgæfilegur biblíulestur getur átt drjúgan þátt í því að þroska skilningarvitin og örva löngunina í andlega fæðu.

Að lesa Biblíuna

14, 15. (a) Hvaða sérréttindi býður höfundur Biblíunnar okkur? (b) Hvernig getum við nýtt okkur visku Guðs? (Nefndu dæmi.)

14 Gagnlegast er að hefja biblíulestur með bæn en ekki lestri. Bænin er ómetanleg sérréttindi. Það er rétt eins og maður ætli sér að þaullesa bók um torskilið efni en byrji á því að hringja í höfundinn og biðja hann um hjálp til að skilja það sem maður er að fara að lesa. Það er mikill kostur að geta það. Jehóva, höfundur Biblíunnar, býður þér þessi sérréttindi. Einn úr hinu stjórnandi ráði fyrstu aldar skrifaði bræðrum sínum: „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast. En hann biðji í trú, án þess að efast.“ (Jakobsbréfið 1:5, 6) Hið stjórnandi ráð nútímans hvetur okkur í sífellu til að lesa Biblíuna í bænarhug.

15 Viska er sama og að hagnýta sér þekkingu. Áður en þú opnar Biblíuna skaltu biðja Jehóva að hjálpa þér að koma auga á þau atriði lesefnisins sem þú þarft að taka til þín. Tengdu ný atriði við það sem þú veist fyrir. Sjáðu hvernig þau falla að ‚heilnæmu orðunum‘ sem þú hefur kynnst. (2. Tímóteusarbréf 1:13) Ígrundaðu atvik úr lífi þjóna Jehóva forðum daga og spyrðu þig hvað þú hefðir gert undir sömu kringumstæðum. — 1. Mósebók 39:7-9; Daníel 3:3-6, 16-18; Postulasagan 4:18-20.

16. Hvernig geturðu haft meira gagn af biblíulestrinum?

16 Lestu ekki aðeins til að komast yfir ákveðinn blaðsíðufjölda. Taktu þér tíma. Hugsaðu vel um það sem þú lest. Þegar eitthvað vekur forvitni þína skaltu fletta upp á millivísunum ef einhverjar eru. Ef þú finnur ekki svör við spurningum þínum skaltu skrifa þær hjá þér og kanna málið nánar síðar. Merktu við ritningargreinar sem þú vilt leggja sérstaklega á minnið eða skrifaðu þær hjá þér. Þú getur líka skrifað eigin athugasemdir eða millivísanir á spássíuna. Ef þú rekst á ritningargreinar sem þú telur að þú þurfir að nota í boðunarstarfinu geturðu merkt við aðalorðið og skrifað það niður aftast í biblíuna þína. *

Njóttu biblíulestrarins

17. Af hverju ættum við að hafa yndi af biblíulestri?

17 Sálmaritarinn talar um sælan mann sem „hefir yndi af lögmáli [Jehóva] og hugleiðir [les lágum rómi] lögmál hans dag og nótt.“ (Sálmur 1:2) Daglegur biblíulestur ætti ekki að vera kvöð heldur yndi. Ein leiðin til þess er sú að vera sívakandi fyrir gildi hins lesna. Spekingurinn Salómon skrifaði: „Sæll er sá maður, sem öðlast hefir speki. . . . Vegir hennar eru yndislegir vegir og allar götur hennar velgengni. Hún er lífstré þeim, sem grípa hana, og sæll er hver sá, er heldur fast í hana.“ (Orðskviðirnir 3:13, 17, 18) Það er sannarlega þess virði að leggja töluvert á sig til að öðlast visku því að vegir hennar eru yndisleiki, friður, hamingja og að síðustu líf.

18. Hvað er nauðsynlegt auk biblíulestrar og hvað skoðum við í greininni á eftir?

18 Já, biblíulestur er bæði til gagns og gleði. En er það nóg? Sóknarbörn kristna heimsins hafa lesið Biblíuna um aldaraðir og „eru alltaf að reyna að læra, en geta aldrei komist til þekkingar á sannleikanum.“ (2. Tímóteusarbréf 3:7) Til að lesa Biblíuna sér til gagns þarf maður að ætla sér að nota þekkinguna í eigin lífi, boðun og kennslu. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Það kostar áreynslu og góðar námsaðferðir. En það getur líka verið ánægjulegt og umbunarríkt eins og fram kemur í greininni á eftir.

[Neðanmáls]

^ gr. 9 Sjá bókina Jehovah’s Witnesses — Proclaimers of God’s Kingdom, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc., bls. 241.

^ gr. 16 Sjá Varðturninn 1. október 1995, bls. 16-17, „Tillögur um áhrifaríkan biblíulestur.“

Upprifjunarspurningar

• Hvað var konungum Ísraels ráðlagt sem umsjónarmenn ættu að taka til sín, og hver er ástæðan?

• Hverjir eru eins og ‚útlendingarnir‘ og ‚börnin‘ og af hverju þurfa þeir að lesa daglega í Biblíunni?

• Hvernig hefur hinn „trúi og hyggni þjónn“ hjálpað okkur að lesa að staðaldri í Biblíunni?

• Hvernig getum við haft ósvikið gagn og gleði af biblíulestri?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 19]

Öldungar þurfa öðrum fremur að lesa daglega í Biblíunni.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Jesús hafði fyrir venju að taka þátt í biblíulestri í samkundunni.