Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er siðferði Biblíunnar best?

Er siðferði Biblíunnar best?

Er siðferði Biblíunnar best?

„ÞJÓÐFÉLAGIÐ þarf að hafa ákveðin grundvallargildi sem veita þegnunum öryggi og leiðsögn.“ Þannig komst reyndur þýskur rithöfundur og fréttaskýrandi að orði. Vissulega er margt til í þessu. Til að þjóðfélag sé traust og dafni þarf fólkið að hafa sameiginlegan grundvallarmælikvarða á hvað sé rétt og rangt og hvað sé gott og illt. En spurningin er: Hvaða mælikvarði er bestur, bæði fyrir þjóðfélagið og þegnana?

Leggi fólk siðferðismælikvarða Biblíunnar til grundvallar ætti hann að stuðla að öryggi og hamingju. Ef heilt þjóðfélag fylgir honum verður það hamingjusamara og öruggara en ella. Er raunin sú? Könnum hvað Biblían segir um tvö mikilvæg málefni: tryggð í hjónabandi og heiðarlegt líf.

Sýndu maka þínum tryggð

Skaparinn skapaði Adam og gerði síðan Evu sem félaga hans. Hjúskapur þeirra var fyrsta hjónaband sögunnar og átti að vera varanlegt. Guð sagði: „Þess vegna yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína.“ Um 4000 árum seinna endurtók Jesús Kristur þessa hjónabandsreglu fyrir alla fylgjendur sína. Hann fordæmdi enn fremur kynmök utan hjónabands — 1. Mósebók 1:27, 28; 2:24; Matteus 5:27-30; 19:5.

Samkvæmt Biblíunni stuðla tveir mikilvægir þættir að hamingju í hjónabandi: gagnkvæm ást og virðing. Eiginmaðurinn, höfuð fjölskyldunnar, á að sýna óeigingjarnan kærleika er hann gætir hagsmuna eiginkonu sinnar. Hann á að ‚búa með skynsemi‘ með henni og á ekki að ‚vera beiskur við hana.‘ Eiginkonan á að sýna manni sýnum djúpa virðingu. Þegar hjón fylgja þessum lífsreglum komast þau hjá flestum hjónabandserfiðleikum eða geta sigrast á þeim. Eiginmaðurinn kýs að sýna eiginkonu sinni tryggð og eiginkonan eiginmanni sínum. — 1. Pétursbréf 3:1-7; Kólossubréfið 3:18, 19; Efesusbréfið 5:22-33.

Stuðlar krafa Biblíunnar um að sýna maka sínum tryggð að hamingju í hjónabandi? Líttu á niðurstöðu þýskrar könnunar. Fólk var spurt að því hvað stuðlaði að góðu hjónabandi. Gagnkvæm tryggð var efst á blaði. Ertu ekki sammála því að gift fólk sé mun hamingjusamara þegar það veit að makinn er trúr?

Ef vandamál koma upp

En hvað er til ráða ef hjón búa við alvarlegt ósætti eða ef ástin hefur dofnað? Er þá ekki best að binda enda á hjónabandið? Eða er biblíureglan um að sýna maka sínum tryggð enn í fullu gildi?

Biblíuriturunum var ljóst að öll hjón myndu eiga við vandamál að stríða sökum mannlegs ófullkomleika. (1. Korintubréf 7:28) En hjón, sem fara eftir siðferðiskröfum Biblíunnar, reyna í sameiningu að leysa vandamál sín og fyrirgefa. Vissulega eru til aðstæður, svo sem framhjáhald og heimilisofbeldi, sem leyfa kristnum maka að íhuga hjúskaparslit eða lögskilnað. (Matteus 5:32; 19:9) En að slíta hjónabandi í skyndingu og taka sér nýjan maka án alvarlegs tilefnis er merki um eigingirni og skeytingarleysi gagnvart öðrum. Slíkt veitir lífinu síður en svo öryggi eða hamingju. Tökum dæmi:

Peter fannst neistinn vera horfinn úr hjónabandi sínu. * Hann yfirgaf því eiginkonuna og fór að búa með Moniku en hún hafði farið frá eiginmanni sínum. Og hvernig vegnaði þeim svo? Peter játaði fáeinum mánuðum síðar: „Það er ekki alveg eins auðvelt að búa með Moniku og ég hélt.“ Hvernig stóð á því? Mannlegur breyskleiki var til staðar í nýja sambandinu alveg eins og í því gamla. Og það sem verra var, þessi eigingjarna skyndiákvörðun hafði komið honum í alvarleg fjárhagsvandræði. Auk þess voru börn Moniku orðin tilfinningalega bæld vegna breytinganna á heimilishögunum.

Eins og þetta dæmi sýnir er það sjaldan lausn að yfirgefa skipið. Siðferðiskröfur orðs Guðs, Biblíunnar, geta einmitt lægt öldurnar í stormasömu hjónabandi og stýrt því í lygnan sjó. Sú var raunin hjá Thomasi og Doris.

Thomas og Doris höfðu verið gift í rúm 30 ár þegar Thomas fór að drekka í óhófi. Doris sökk niður í þunglyndi og þau fóru að ræða um skilnað. Doris trúði síðan votti Jehóva fyrir þessu. Votturinn sýndi Doris hvað Biblían segir um hjónabandið og hvatti hana til að ana ekki út í skilnað heldur reyna að finna lausn á vandanum ásamt eiginmanni sínum, sem og Doris gerði. Nokkrum mánuðum seinna var skilnaður ekki lengur til umræðu. Thomas og Doris unnu saman að lausn vandamála sinna. Það styrkti hjónaband þeirra að þau fylgdu ráðum Biblíunnar og gaf þeim tíma til að leysa málin.

Heiðarleiki á öllum sviðum

Að vera maka sínum trúr ber vott um festu og tryggð við góðar lífsreglur. Þessa sömu eiginleika þarf til að vera heiðarlegur í óheiðarlegum heimi. Biblían hefur margt að segja um heiðarleika. Páll postuli skrifaði kristnum mönnum í Júdeu á fyrstu öld: „Vér . . . viljum í öllum greinum breyta vel [„heiðarlega,“ NW].“ (Hebreabréfið 13:18) Hvað merkir það? 

Heiðarlegur maður er sannsögull og falslaus. Hann er sanngjarn við aðra — hreinskiptinn, heiðvirður og svíkur hvorki né blekkir. Heiðarlegur maður er ráðvandur og svíkur ekki náunga sinn. Heiðarlegt fólk stuðlar að trúnaði og trausti sem ýtir undir heilbrigð viðhorf og eflir góð samskipti.

Er heiðarlegt fólk hamingjusamt? Það hefur vissulega tilefni til þess. Þrátt fyrir útbreidda spillingu og svik — eða kannski einmitt þess vegna — nýtur heiðarlegt fólk almennrar aðdáunar. Skoðanakönnun meðal ungs fólks leiddi í ljós að 70 af hundraði svarenda álitu heiðarleika mikilvæga dyggð. Óháð aldri þá finnst okkur heiðarleiki vera mikilvæg forsenda vináttu.

Christine var kennt að stela frá tólf ára aldri. Með árunum varð hún leikinn vasaþjófur. „Suma daga bar ég úr býtum allt að 5.000 mörk í peningum [185.000 IKR],“ segir hún. En Christine var handtekin nokkrum sinnum og lifði í stöðugum ótta við að vera sett í fangelsi. Þegar vottar Jehóva sögðu henni hvað Biblían segir um heiðarleika heillaðist hún af siðferiskröfum Biblíunnar. Hún lærði að fara eftir áminningunni: „Hinn stelvísi hætti að stela.“ — Efesusbréfið 4:28

Christine var ekki lengur þjófur þegar hún lét skírast sem vottur Jehóva. Hún leitaðist við að vera heiðarleg í öllum greinum því að vottarnir leggja mikla áherslu á heiðarleika og aðra kristilega eiginleika. Dagblaðið Lausitzer Rundschau greinir svo frá: „Trú vottanna hefur í hávegum siðferðileg hugtök eins og heiðarleika, hófsemi og náungakærleika.“ Hvað finnst Christine um breytingarnar á lífi sínu? „Ég er miklu ánægðari eftir að ég hætti að stela. Mér finnst ég vera heiðvirður þjóðfélagsþegn.“

Þjóðfélagið í heild nýtur góðs af

Fólk, sem sýnir maka sínum tryggð og er heiðarlegt, er ekki bara sjálft ánægðara heldur nýtur þjóðfélagið í heild góðs af. Vinnuveitendur kjósa fremur starfsfólk sem er ekki sviksamt. Öll viljum við eiga áreiðanlega nágranna og versla hjá heiðarlegum kaupmönnum. Og virðum við ekki stjórnmálamenn, lögregluþjóna og dómara sem forðast spillingu? Þjóðfélagið nýtur góðs af þegar heiðarleiki er alltaf lífsregla þegnanna en ekki einungis þegar þeim hentar.

Tryggir makar eru undirstaða traustrar fjölskyldu. Flestir myndu taka undir orð evrópsks stjórnmálamanns sem sagði: „[Hefðbundið] fjölskyldulíf er enn þann dag í dag mikilvægasta athvarf öryggis og lífsfyllingar.“ Friðsamlegt fjölskyldulíf veitir börnum sem fullorðnum tilfinningalegt öryggi. Þeir sem sýna tryggð í hjónabandi stuðla þar með að traustu þjóðfélagi.

Ímyndaðu þér hvað það væri gott fyrir alla ef yfirgefnir makar, hjónaskilnaðir og forræðisdeilur heyrðu sögunni til. Og meira að segja ef engir vasaþjófar, búðarþjófar, fjársvikarar, spilltir embættismenn eða óheiðarlegir vísindamenn væru til. Er þetta einungis fjarlægur draumur? Ekki í hugum þeirra sem hafa einlægan áhuga á Biblíunni og því sem hún hefur að segja um framtíðina. Orð Guðs lofar að messíasarríki Jehóva muni bráðum taka í sínar hendur stjórn alls mannfélagsins á jörð. Sú stjórn mun kenna öllum þegnunum að lifa samkvæmt siðferðiskröfum Biblíunnar. Þá munu „hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ — Sálmur 37:29.

Siðferði Biblíunnar er best

Milljónir manna hafa kynnt sér Heilaga ritningu og komist að raun um að ráðleggingar hennar eru byggðar á visku frá Guði sem er æðri mannlegum skilningi. Þeim finnst Biblían vera áreiðanleg og raunhæf í heimi nútímans. Og þeir vita að það er þeim fyrir bestu að fara eftir ráðleggingunum í orði Guðs.

Þetta fólk tekur til sín ráðlegginguna: „Treystu [Jehóva] af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ (Orðskviðirnir 3:5, 6) Þannig bætir það líf sitt til muna og þeir sem umgangast það njóta líka góðs af. Trúartraust þess eflist á ‚hið komanda líf‘ þegar allir fara eftir siðferðiskröfum Biblíunnar. — 1. Tímóteusarbréf 4:8.

[Neðanmáls]

^ gr. 11 Nöfnum hefur verið breytt í þessari grein.

[Rammi á blaðsíðu 5]

Siðferðiskröfur Biblíunnar geta einmitt lægt öldurnar í stormasömu hjónabandi og stýrt því í lygnan sjó.

[Rammi á blaðsíðu 6]

Þrátt fyrir útbreidda spillingu — eða kannski einmitt þess vegna — nýtur heiðarlegt fólk almennrar aðdáunar.