Hnignandi siðferði
Hnignandi siðferði
„SVONA lagað kom aldrei fyrir,“ sagði Helmut Schmidt, fyrrverandi kanslari Vestur-Þýskalands. Hann harmaði fádæma óheiðarleika opinberra embættismanna sem fjallað var um í fréttum og bætti við: „Siðgæði hefur látið í minni pokann fyrir græðgi.“
Margir eru honum sammála. Menn hafa varpað fyrir borð siðferðisgildum Biblíunnar sem hafa löngum verið leiðarljós manna um hvað sé rétt og hvað rangt. Þetta hefur meira að segja átt sér stað í svokölluðum kristnum löndum.
Hefur siðferði Biblíunnar eitthvað að segja?
Siðferði, sem grundvallast á kenningum Biblíunnar, felur í sér heiðarleika og ráðvendni. Samt sem áður er mikið um svik, spillingu og þjófnað. Að sögn Lundúnablaðsins The Times er talið að sumir leynilögreglumenn „hafi stungið á sig allt að 100.000 sterlingspundum fyrir að koma eiturlyfjum aftur í umferð eða fyrir að týna gögnum í málum mikilvægra manna í glæpaheiminum.“ Sagt er að í Austurríki sé tryggingasvindl stundað í ríkum mæli. Vísindaheimurinn í Þýskalandi varð þrumu lostinn þegar vísindamenn komu upp um „alvarlegasta svikamál í sögu þýskra vísinda.“ Prófessor í erfðafræði, „stjarna
meðal þýskra erfðafræðinga,“ var sakaður um að falsa og skálda gögn í stórum stíl.Siðferði Biblíunnar nær einnig til tryggðar í hjónabandi sem á að vera varanlegur hjúskapur. En samt enda æ fleiri hjónabönd með skilnaði. Kaþólska vikublaðið Christ in der Gegenwart segir: „Meira að segja í Sviss, þar sem ‚íhaldssemin‘ er í hávegum höfð, fara stöðugt fleiri hjónabönd út um þúfur.“ Í Hollandi enda 33 af hundraði hjónabanda með skilnaði. Kona nokkur vakti athygli á þjóðfélagsbreytingunum í Þýskalandi undanfarin ár og lýsti áhyggjum sínum svo: „Hjónabandið þykir nú vera gamaldags og úrelt. Fólk gengur ekki lengur í hjónaband til lífstíðar.“
Milljónir manna álíta hins vegar siðferði Biblíunnar áreiðanlegt og raunhæft í heimi nútímans. Hjón, sem búa við landamæri Sviss og Þýskalands, komust að raun um að þau urðu hamingjusamari eftir að þau tileinkuðu sér siðferði Biblíunnar. Í þeirra augum er „aðeins einn leiðarvísir sem nær til allra þátta lífsins. Sá leiðarvísir er Biblían.“
Hvað finnst þér? Getur Biblían verið gagnlegur leiðarvísir? Er siðferði Biblíunnar raunhæft fyrir nútímamenn?