Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hreint siðferði sjónarmið Guðs

Hreint siðferði sjónarmið Guðs

Hreint siðferði sjónarmið Guðs

„Ég, [Jehóva] Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga.“ — JESAJA 48:17.

1, 2. (a) Hvernig lítur fólk almennt á kynferðismál? (b) Hvernig líta kristnir menn á kynferðismál?

VÍÐA um lönd er siðferði álitið einkamál hvers og eins. Kynmök utan hjónabands eru álitin eðlileg og sjálfsögð. Menn telja sig geta ákveðið sjálfir hvernig þeir megi hegða sér, svo framarlega sem aðrir bíði ekki tjón af. Og þeim finnst ekki eiga að dæma um siðferði fólks, sérstaklega ekki í kynferðismálum.

2 Þeir sem kynnast Jehóva hugsa öðruvísi. Þeir fylgja ákvæðum Biblíunnar fúslega af því að þeir elska hann og vilja þóknast honum. Þeim er ljóst að Jehóva elskar þá og að leiðbeiningar hans eru þeim til góðs og stuðla að hamingju þeirra. (Jesaja 48:17) Þar eð Guð er uppspretta lífsins er eðlilegt að leita leiðsagnar hans um það hvernig maður eigi að nota líkama sinn, ekki síst í þessu máli sem er svo nátengt lífgjöf.

Gjöf frá ástríkum skapara

3. Hvað hefur verið kennt sums staðar í kristna heiminum um kynmök og samræmist það Biblíunni?

3 Ólíkt almennum viðhorfum nútímans hefur því stundum verið haldið fram í kristna heiminum að kynmök séu skammarleg og syndsamleg, að hin „upphaflega synd“ í Eden hafi falist í því að Adam og Eva hafi verið tæld til að hafa kynmök. En það gengur í berhögg við innblásin orð Ritningarinnar þar sem fyrstu hjónin eru kölluð „maðurinn og kona hans.“ (1. Mósebók 2:25) Guð sagði þeim að eignast börn: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina.“ (1. Mósebók 1:28) Það hefði verið út í hött fyrir Guð að segja Adam og Evu að eignast börn og refsa þeim svo fyrir að fylgja fyrirmælum hans. — Sálmur 19:9.

4. Af hverju gaf Guð mönnum getnaðarmáttinn?

4 Fyrirmælin, sem foreldrar mannkyns fengu, voru endurtekin við Nóa og syni hans, og af þeim sést að megintilgangur kynmaka var sá að geta af sér börn. (1. Mósebók 9:1) En orð Guðs bendir á að kynmök hjóna þurfi ekki að takmarkast við barneignir heldur geti þau fullnægt réttmætum líkams- og tilfinningaþörfum og verið hjónum til unaðar og yndis. Kynmök eru þeim leið til að tjá hvort öðru innilega ástúð sína. — 1. Mósebók 26:8, 9; Orðskviðirnir 5:18, 19; 1. Korintubréf 7:3-5.

Hömlur Guðs

5. Hvaða hömlur hefur Guð sett á kynlíf?

5 Þó svo að kynhvötin sé gjöf Guðs þarf að hafa taumhald á henni, meira að segja innan hjónabands. (Efesusbréfið 5:28-30; 1. Pétursbréf 3:1, 7) Utan hjónabands eru kynmök bönnuð. Biblían er afdráttarlaus hvað þetta varðar. „Þú skalt ekki drýgja hór,“ stóð í lögmálinu sem Guð gaf Ísrael. (2. Mósebók 20:14) Jesús nefndi ‚saurlifnað‘ og ‚hórdóm‘ sem dæmi um ‚illar hugsanir‘ hjartans er saurguðu manninn. (Markús 7:21, 22) Páli postula var innblásið að hvetja kristna menn í Korintu til að ‚flýja saurlifnaðinn.‘ (1. Korintubréf 6:18) Og í Hebreabréfinu sagði hann: „Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð, því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.“ — Hebreabréfið 13:4.

6. Hvað er fólgið í orðinu ‚saurlifnaður‘ eins og það er notað í Biblíunni?

6 Hvað er átt við með orðinu ‚saurlifnaður‘? Það er þýðing gríska orðsins porneiʹa sem er stundum notað um kynmök milli ógiftra einstaklinga. (1. Korintubréf 6:9) Annars staðar, svo sem í Matteusi 5:32 og Matteusi 19:9, er merkingin víðtækari og nær einnig yfir hjúskaparbrot, sifjaspell og samræði við dýr. Aðrar kynferðislegar athafnir ógiftra einstaklinga geta einnig flokkast undir porneiʹa, þar á meðal munn- og endaþarmsmök og það að handfjatla kynfæri annarrar manneskju. Allt slíkt er beint eða óbeint fordæmt í orði Guðs. — 3. Mósebók 20:10, 13, 15, 16; Rómverjabréfið 1:24, 26, 27, 32. *

Gagnið af siðferðislögum Guðs

7. Hvaða gagn höfum við af því að halda okkur siðferðilega hreinum?

7 Það getur reynt töluvert á ófullkomna menn að hlýða fyrirmælum Jehóva í siðferðismálum. Hinn kunni gyðingaheimspekingur Maimonides skrifaði á 12. öld: „Ekkert bannákvæði Tórunnar [Móselaganna] er jafnerfitt að halda og ákvæðin um forboðin sambönd og óleyfileg kynmök.“ En það er mjög gagnlegt fyrir okkur að hlýða fyrirmælum Guðs. (Jesaja 48:18) Þau eru til dæmis vernd gegn samræðissjúkdómum sem eru sumir ólæknandi og jafnvel banvænir. * Okkur er hlíft við þungunum utan hjónabands. Að fara eftir visku Guðs stuðlar líka að hreinni samvisku. Það styrkir sjálfsvirðingu manns og aflar manni virðingar annarra, þeirra á meðal ættingja, maka, barna og kristinna bræðra og systra. Það skapar einnig heilnæma afstöðu til kynlífs sem stuðlar að hamingjuríku hjónabandi. Kristin kona skrifar: „Sannleikurinn í orði Guðs er besta verndin sem völ er á. Ég bíð eftir að geta gifst og þegar þar að kemur verð ég stolt af því að geta sagt kristna manninum, sem ég giftist, að ég hafi verið hreinlíf.“

8. Hvernig getur hreint líferni okkar verið sannri tilbeiðslu til framdráttar?

8 Með hreinu líferni getum við unnið gegn ranghugmyndum um sanna tilbeiðslu og laðað fólk að þeim Guði sem við dýrkum. Pétur postuli skrifaði: „Hegðið yður vel meðal heiðingjanna, til þess að þeir, er nú hallmæla yður sem illgjörðamönnum, sjái góðverk yðar og vegsami Guð á tíma vitjunarinnar.“ (1. Pétursbréf 2:12) Og jafnvel þótt þeim sem þjóna ekki Jehóva líki illa við hreint líferni okkar megum við vera viss um að faðir okkar á himnum sér hvað við gerum til að fylgja handleiðslu hans, hefur velþóknun á því og gleðst jafnvel yfir því. — Orðskviðirnir 27:11; Hebreabréfið 4:13.

9. Af hverju ættum við að treysta handleiðslu Guðs þó svo að við skiljum ekki ástæðuna? Lýstu því með dæmi.

9 Að trúa á Guð er meðal annars fólgið í því að treysta að hann viti hvað er okkur fyrir bestu, jafnvel þó að við skiljum ekki alltaf til fulls hvers vegna hann leiðir okkur eins og raun ber vitni. Tökum dæmi úr Móselögunum. Í ákvæðum um herbúðir Ísraelsmanna var þess krafist að saur væri grafinn utan herbúðanna. (5. Mósebók 23:13, 14) Ísraelsmönnum hefur kannski verið spurn af hverju og sumir talið það óþarfa. En nú er vitað að þetta lagaákvæði kom í veg fyrir að vatnsból spilltust og veitti vernd gegn alls konar sjúkdómum sem skordýr bera með sér. Það eru líka ýmsar andlegar, félagslegar, tilfinningalegar, líkamlegar og sálrænar ástæður fyrir því að Guð hefur takmarkað kynmök við hjónasængina. Við skulum nú líta á fáein dæmi úr Biblíunni um fólk sem var siðferðilega hreinlíft.

Jósef hlaut blessun fyrir hreint líferni

10. Hver reyndi að táldraga Jósef og hvernig brást hann við?

10 Trúlega þekkirðu söguna af Jósef, syni Jakobs. Sautján ára gamall var hann þræll Pótífars, lífvarðarforingja faraós í Egyptalandi. Jehóva blessaði Jósef svo að hann var settur yfir allt hús Pótífars. Rúmlega tvítugum er honum lýst svo að hann hafi verið „vel vaxinn og fríður sýnum.“ Eiginkona Pótífars fékk augastað á honum og reyndi að draga hann á tálar en Jósef lét afstöðu sína skýrt í ljós og útskýrði að ef hann féllist á þetta væri hann bæði að svíkja húsbónda sinn og „syndga á móti Guði.“ Af hverju hugsaði hann þannig? — 1. Mósebók 39:1-9.

11, 12. Af hverju hlýtur Jósef að hafa hugsað eins og hann gerði þó að Guð hefði ekki enn sett skriflegt bann við hórdómi og saurlifnaði?

11 Augljóst er að ákvörðun Jósefs byggðist ekki á því að hann væri hræddur um að menn kæmust á snoðir um athæfi hans. Fjölskylda hans var víðs fjarri og faðir hans hélt hann vera dáinn. Þó að hann gerðist sekur um siðleysi myndi fjölskyldan aldrei frétta af því. Sennilega hefði líka verið hægt að fela syndina fyrir Pótífar og heimilismönnum hans því að þeir voru ekki alltaf í húsinu. (1. Mósebók 39:11) En Jósef vissi að hann gat ekki falið slíkt hátterni fyrir Guði.

12 Jósef hlýtur að hafa tekið mið af því sem hann vissi um Jehóva. Eflaust vissi hann að Jehóva hafði sagt í Edengarðinum: „Þess vegna yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína, svo að þau verði eitt hold.“ (1. Mósebók 2:24) Og líklega vissi hann hvað Jehóva hafði sagt Filistakonunginum sem ætlaði sér að táldraga Söru, langömmu hans. „Sjá, þú skalt deyja vegna konu þeirrar, sem þú hefir tekið,“ sagði Jehóva, „því að hún er gift kona. . . . Ég hefi einnig varðveitt þig frá að syndga gegn mér. Fyrir því leyfði ég þér ekki að snerta hana.“ (1. Mósebók 20:3, 6) Þó svo að Jehóva hefði ekki enn þá sett skrifleg lög var afstaða hans til hjónabands ljós. Siðferðiskennd Jósefs og löngun hans til að þóknast Jehóva fékk hann til að hafna siðleysinu.

13. Hvers vegna hefur Jósef líklega ekki getað forðast konu Pótífars?

13 En kona Pótífars gafst ekki upp og nauðaði í honum „dag eftir dag“ að eiga samfarir við sig. Af hverju forðaðist Jósef hana ekki? Hann var þræll og hafði ýmsum skyldum að gegna og gat engu breytt um aðstæður sínar. Fornleifarannsóknir benda til þess að hús Egypta hafi verið þannig gerð að fara þurfti gegnum aðalvistarverurnar til að komast í geymslurnar. Hugsanlegt er að Jósef hafi hreinlega ekki átt nokkurn möguleika á að forðast konuna. — 1. Mósebók 39:10.

14. (a) Hvað varð um Jósef eftir að hann flúði frá konu Pótífars? (b) Hvernig blessaði Jehóva Jósef fyrir trúfesti hans?

14 Þá rann upp sá dagur að þau voru ein í húsinu. Kona Pótífars greip í Jósef og hrópaði: „Leggstu með mér!“ Hann flúði. Henni sveið höfnun hans og sakaði hann um að hafa reynt að nauðga sér. Hvaða afleiðingar hafði það? Launaði Jehóva honum ráðvendnina þegar í stað? Nei, Jósef var varpað í fangelsi og hlekkjaður. (1. Mósebók 39:12-20; Sálmur 105:18) Jehóva horfði upp á ranglætið og sá til þess síðar að Jósef væri sleppt úr fangelsinu og hann skipaður í háa stöðu. Hann varð annar valdamesti maður Egyptalands og eignaðist konu og börn. (1. Mósebók 41:14, 15, 39-45, 50-52) Og frásagan af ráðvendni Jósefs var skráð fyrir 3500 árum og hefur alla tíð verið þjónum Jehóva hugstæð. Hann hlaut mikla blessun fyrir að halda réttlát lög Guðs. Verið getur að við sjáum ekki alltaf tafarlaust að það sé gagnlegt fyrir okkur að vera ráðvönd í siðferðismálum en við getum treyst því að Jehóva sér hvað við gerum og blessar okkur þótt síðar verði. — 2. Kroníkubók 16:9.

‚Sáttmáli Jobs við augu sín‘

15. Hvað var fólgið í ‚sáttmála Jobs við augu sín‘?

15 Job var annar ráðvandur maður. Í prófraununum, sem djöfullinn leiddi yfir hann, rifjaði hann upp ævi sína og lýsti sig fúsan til að taka út harða refsingu ef hann hefði meðal annars brotið meginreglur Jehóva í siðferðismálum. Hann sagði: „Ég hafði gjört sáttmála við augu mín; hvernig hefði ég þá átt að líta til yngismeyjar?“ (Jobsbók 31:1) Job átti við það að hann væri svo staðráðinn í að vera Guði ráðvandur að hann hefði einsett sér að horfa ekki einu sinni löngunaraugum á konu. Auðvitað sá hann konur í dagsins önn og hjálpaði þeim líklega ef þær voru hjálparþurfi. En hann leyfði sér ekki að líta til kvenna í þeim tilgangi að leita ásta. Áður en prófraunirnar hófust hafði hann verið auðugur maður, „meiri öllum austurbyggjum.“ (Jobsbók 1:3) En hann notaði ekki vald auðsins til að laða til sín margar konur. Ljóst er að hann gældi aldrei við þá hugmynd að eiga óleyfileg kynmök við yngri konur.

16. (a) Af hverju er Job gott fordæmi fyrir gifta þjóna Guðs? (b) Hvernig var hegðun manna á dögum Malakís gerólík hegðun Jobs, og hvernig er staðan núna?

16 Job sýndi af sér ráðvendni í siðferðismálum bæði í meðlæti og mótlæti. Jehóva sá það og blessaði hann ríkulega. (Jobsbók 1:10; 42:12) Job er prýðisfordæmi fyrir gifta þjóna Guðs, bæði karla og konur. Það er engin furða að Jehóva skuli hafa þótt svona vænt um hann. En hátterni margra nútímamanna er líkara því sem gerðist á dögum Malakís. Spámaðurinn harmaði það hvernig eiginmenn yfirgáfu eiginkonur sínar, oft til að giftast yngri konum. Altari Jehóva var hulið tárum yfirgefinna eiginkvenna og Guð fordæmdi þá sem ‚brugðu trúnaði‘ við maka sinn. — Malakí 2:13-16.

Hreinlíf ung kona

17. Hvernig var stúlkan frá Súlem eins og „lokaður garður“?

17 Þriðja ráðvanda manneskjan, sem við nefnum, var stúlka frá Súlem. Hún var ung og fögur og ávann sér bæði ást fjárhirðis og hins auðuga Salómons Ísraelskonungs. Í hinni fögru sögu Ljóðaljóðanna segir frá því hvernig stúlkan varðveitir hreinleika sinn og ávinnur sér virðingu annarra. Salómon var innblásið að rita sögu hennar þó svo að hún hafnaði honum. Fjárhirðirinn, sem hún unni, virti einnig hreinlífi hennar. Einhverju sinni hugsaði hann með sér að hún væri eins og „lokaður garður.“ (Ljóðaljóðin 4:12) Í Ísrael fortíðar voru fagrir garðar með angandi blómum, tígulegum trjám og fjölbreyttu úrvali matjurta. Algengt var að garðarnir væru umluktir þyrnigerði eða múr og eina leiðin inn í þá var um læst hlið. (Jesaja 5:5) Yndisþokki og siðferðilegur hreinleiki stúlkunnar frá Súlem var eins og unaðsfagur garður. Hún var fullkomlega hreinlíf. Enginn fengi notið ástúðar hennar nema eiginmaðurinn þegar þar að kæmi.

18. Á hvað minna frásögurnar af Jósef, Job og stúlkunni frá Súlem?

18 Siðferðileg ráðvendni stúlkunnar frá Súlem er afbragðsfyrirmynd fyrir kristnar konur nú á tímum. Jehóva mat dyggð hennar og blessaði hana eins og þá Jósef og Job. Orð Guðs segir frá ráðvendni þeirra okkur til leiðsagnar. Þó svo að ráðvönd breytni nútímamanna sé ekki skráð í Biblíuna á Jehóva „minnisbók“ um þá sem leitast við að gera vilja hans. Gleymum aldrei að Jehóva ‚gefur gætur‘ og fagnar hollustu okkar og viðleitni til að halda okkur siðferðilega hreinum. — Malakí 3:16.

19. (a) Hvernig ættum við að líta á siðferðilegan hreinleika? (b) Hvað er fjallað um í greininni á eftir?

19 Við gleðjumst yfir því að geta hlýtt ástríkum skapara okkar, þó svo að trúlausir menn geri gys að. Við höfum háleitara siðferði en þeir, siðferði Guðs. Við getum verið stolt af því og ættum að meta það sem fjársjóð. Með því að vera siðferðilega hrein getum við glaðst yfir blessun Guðs og varðveitt sterka von um óendanlega blessun í framtíðinni. En hvað getum við gert til að halda okkur siðferðilega hreinum? Fjallað er um þessa mikilvægu spurningu í næstu grein.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Sjá Varðturninn (enska útgáfu) 15. mars 1983, bls. 29-31.

^ gr. 7 Því miður getur það gerst að kristinn einstaklingur smitist af samræðissjúkdómi af vantrúuðum maka sem fylgir ekki leiðbeiningum Guðs.

Geturðu svarað?

• Hvað kennir Biblían um kynlíf?

• Í hvaða merkingu notar Biblían orðið „saurlifnaður“?

• Hvernig gerum við sjálfum okkur gott með því að vera siðferðilega hreinlíf?

• Af hverju eru Jósef, Job og stúlkan frá Súlem góðar fyrirmyndir fyrir kristna menn nú á tímum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 9]

Jósef hafnaði siðleysi og flúði.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Stúlkan frá Súlem var eins og „lokaður garður.“

[Mynd á blaðsíðu 11]

Job ‚gerði sáttmála við augu sín.‘