Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Biblían — elskuð og bönnuð

Biblían — elskuð og bönnuð

Biblían — elskuð og bönnuð

„Ég vildi óska þess að bókin helga yrði þýdd á öll tungumál,“ skrifaði Desiderius Erasmus, virtur hollenskur fræðimaður á 16. öld.

ÞAÐ var von Erasmusar að allir fengju að lesa Biblíuna og skilja hana. En fjandmenn Biblíunnar börðust harkalega gegn því og reyndar var stórhættulegt í Evrópu á þeim tíma að láta í ljós minnsta áhuga á innihaldi hennar. Enska þingið setti meðal annars lög sem innihéldu þetta ákvæði: „Hver sá sem les Ritninguna á ensku fyrirgerir þar með landi, lausafé, lausamunum og lífi . . . og haldi hann því áfram eða taki hann upp á því að nýju eftir sakaruppgjöf skal fyrst hengja hann fyrir drottinsvik við konunginn og síðan brenna hann fyrir trúvillu gegn Guði.“

Kaþólski rannsóknarrétturinn á meginlandi Evrópu elti miskunnarlaust uppi alla „villutrúarhópa,“ þeirra á meðal valdensana í Frakklandi, og ofsótti þá grimmilega fyrir þá sök að þeir prédikuðu „með vísan í guðspjöllin og bréfin og aðrar helgar ritningar . . . því að leikmönnum [var] stranglega bannað að prédika og útlista Heilaga ritningu.“ Ótal karlar og konur máttu þola óbærilegar pyndingar og dauða sökum ástar sinnar á Biblíunni. Þau hættu á harkalegustu refsingu fyrir það eitt að fara með Faðirvorið eða boðorðin tíu og kenna börnum sínum þau.

Margir af pílagrímunum, sem sigldu til Norður-Ameríku og settust þar að, báru þessa ást til orðs Guðs í hjörtum sér. Bókin A History of Private Life — Passions of the Renaissance bendir á að í upphafi landnáms í Ameríku hafi „trúin verið svo nátengd lestri að hún skapaði menningu sem byggðist nær einvörðungu á biblíuþekkingu.“ Í prédikun, sem birt var í Boston árið 1767, sagði: „Vertu iðinn við að lesa Heilaga ritningu. Lestu biblíukafla bæði kvölds og morgna.“

Samkvæmt könnun Barna Research Group í Ventura í Kaliforníu eiga rösklega 90 prósent Bandaríkjamanna að meðaltali þrjár biblíur. Nýleg könnun leiddi hins vegar í ljós að þó svo að Biblían sé enn þá mikils metin þar í landi „heyrir sögunni til . . . að hún sé lesin, rannsökuð og eftir henni farið.“ Flestir hafa aðeins nasasjón af efni hennar. Dálkahöfundur sagði: „Það hvarflar sjaldan að fólki að [Biblían] kunni enn þann dag í dag að hafa mikið til málanna að leggja um vandamál og hugðarefni samtíðarinnar.“

Veraldleg hugsun sækir á

Það er útbreidd skoðun að við getum spjarað okkur ágætlega með hjálp rökhyggjunnar og samvinnu manna á meðal. Í augum fólks er Biblían bara ein bók af mörgum sem fjalla um trúarskoðanir og lífsreynslu fólks. Fáir álíta hana fara með staðreyndir og sannleika.

Hvernig takast menn þá á við sífellt snúnari og torleystari vandamál? Þorri manna býr í eins konar andlegu tómarúmi án þess að hafa ákveðin siðferðisgildi og trúarlegar viðmiðunarreglur sér til halds og trausts. Þeir eru eins og stýrislaus skip sem „hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi, tæld af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar.“ — Efesusbréfið 4:14.

Við spyrjum því hvort Biblían sé bara enn ein trúarbókin? Eða er hún orð Guðs með hagnýtum og nauðsynlegum upplýsingum okkur til leiðsagnar? (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Er Biblían skoðunar virði? Við ræðum um þessar spurningar í greininni á eftir.

[Mynd á blaðsíðu 3]

Desiderius Erasmus

[Mynd credit line]

Úr bókinni Deutsche Kulturgeschichte

[Mynd á blaðsíðu 4]

Valdensarnir voru ofsóttir af því að þeir prédikuðu með vísun í Ritninguna.

[Mynd credit line]

Stichting Atlas van Stolk, Rotterdam