Biblían handbók fyrir lífið
Biblían handbók fyrir lífið
„ORÐ Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og . . . dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.“ (Hebreabréfið 4:12) Þessi lýsing á áhrifamætti Biblíunnar segir okkur að hún sé annað og meira en aðeins merkileg bók.
„Boðskapur hennar er okkur jafnmikilvægur og næsti andardráttur,“ eins og það var svo ágætlega orðað í dagblaði. „Ef maður tekur mið af löngunum sínum og þörf fyrir heilbrigði þegar maður les Biblíuna, þá er árangurinn undraverður.“ Biblían er eins og lampi sem varpar ljósi á hin mörgu og flóknu vandamál sem við er að glíma nú á dögum. — Sálmur 119:105.
Viska Biblíunnar getur haft sterk áhrif á hugsunina, hjálpað okkur að leysa vandamál, aukið lífsgæðin og kennt okkur að takast á við það sem við fáum ekki breytt. En mestu skiptir að Biblían gerir okkur kleift að kynnast Guði og kennir okkur að elska hann.
Bók sem gefur lífinu tilgang
Höfundur Biblíunnar, Jehóva Guð, ‚gjörþekkir alla vegu okkar.‘ Hann þekkir líkamlegar, tilfinningalegar og andlegar þarfir okkar betur en við sjálf. (Sálmur 139:1-3) Af hugulsemi við okkur setur hann mönnum skýr takmörk. (Míka 6:8) Það er skynsamlegt að leggja sig fram um að skilja þessi takmörk og læra að lifa í samræmi við þau. Sálmaritarinn segir að sá maður sé sæll sem ‚hefur yndi af lögmáli Jehóva,‘ og fullyrðir að ‚honum lánist allt sem hann gerir.‘ (Sálmur 1:1-3) Þetta gerir Biblíuna vissulega athugunar virði.
Maurice er kennari á eftirlaunum. Hann segist alltaf hafa trúað því að Biblían væri merkileg söguheimild og bókmenntaverk. En hann efaðist um að hún væri innblásin af Guði. Eftir að hafa hlustað á skýringu á því hvers vegna Guð gaf mönnunum ritað orð sitt tók hann að kynna sér ýmsa biblíuspádóma. Sem ungur maður hafði hann lesið fornaldarsögu, bókmenntir, vísindi og landafræði. Hann viðurkennir að hann hafi verið einum of klár að eigin mati til að geta komið auga á hin fjölmörgu dæmi um áreiðanleika Biblíunnar. „Ég var í endalausum eltingaleik
eftir þægindum, peningum og nautnum lífsins. Því miður hafði ég enga hugmynd um fegurð og sannsögli mestu bókar sem skrifuð hefur verið.“Maurice er kominn á áttræðisaldur. Þakklætið leynir sér ekki er hann vísar til frásögunnar af því er Jesús birtist Tómasi: „Hönd mín hefur verið látin snerta hið ‚blæðandi sár‘ svo að það hvarfli aldrei framar að mér að Biblían sé nokkuð annað en sannleikurinn.“ Eins og Páll postuli sagði réttilega afhjúpar Biblían hugrenningar hjartans og gefur lífinu gildi. Hún er svo sannarlega handbók fyrir lífið.
Kjölfesta í lífinu
Biblían gefur góð ráð um það hvernig hægt sé að losa sig við ýmsa ósiði. Daníel tókst að hætta reykingum, misnotkun áfengis og taumlausu skemmtanalífi. (Rómverjabréfið 13:13; 2. Korintubréf 7:1; Galatabréfið 5:19-21) En það kostar töluvert átak að uppræta slíka ósiði og íklæðast „hinum nýja manni.“ (Efesusbréfið 4:22-24) „Það var hægara sagt en gert af því að við erum svo ófullkomin,“ segir Daníel. En honum tókst það. Núna les hann daglega í Biblíunni og það hjálpar honum að eiga náin tengsl við Jehóva Guð.
Daníel hafði alltaf borið djúpa virðingu fyrir Biblíunni á uppvaxtarárunum, þó svo að hann læsi hana aldrei, og hann bað til Guðs á hverju kvöldi. En hann fann að eitthvað vantaði í líf hans. Hann var ekki hamingjusamur. En það urðu straumhvörf í lífi hans þegar hann sá nafn Guðs í Biblíunni í fyrsta sinn. (2. Mósebók 6:3; Sálmur 83:19) Þaðan í frá notaði hann nafnið Jehóva þegar hann baðst fyrir og bænirnar urðu persónulegri en áður. „Ég eignaðist mjög náið samband við Jehóva og hann er enn nánasti vinur minn.“
Daníel var ekki bjartsýnn á framtíðina áður en hann kynntist Biblíunni. „Það þarf engar sérstakar gáfur til að sjá hvað er að gerast í heiminum,“ segir hann. „Það skelfdi mig og ég reyndi að útiloka tilhugsunina um það með því að vera nógu upptekinn.“ En þá uppgötvaði hann að Guð ætlar að hreinsa jörðina og skapa þar eilífan frið, hamingju og réttlæti handa hlýðnum mönnum. (Sálmur 37:10, 11; Daníel 2:44; Opinberunarbókin 21:3, 4) Núna á Daníel sér óbrigðula von. Hann getur haft jákvæða afstöðu til lífsins af því að Biblían hefur veitt honum kjölfestuna sem hann vantaði.
Hjálp til að sigrast á tilfinningalegum vandamálum
Georg var sjö ára þegar hann missti móður sína. Hann kveið fyrir því að sofna á kvöldin af því að hann óttaðist að hann myndi ekki vakna næsta dag. Þá las hann orð Jesú um dauðann og upprisuna: „Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust [Jesú] og ganga fram.“ Hann var líka snortinn af orðum Jesú er hann sagði: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.“ (Jóhannes 5:28, 29; 11:25) Honum fannst þetta skynsamlegt, rökrétt og hughreystandi. „Sannleikurinn höfðar ekki bara til hugans heldur snertir líka hjartað,“ segir hann.
Daníel, sem áður er getið, hræddist líka ýmislegt. Móðir hans var ekki fær um að ala hann upp einsömul svo að hann eyddi uppvaxtarárunum á ýmsum fósturheimilum. Honum fannst hann alltaf vera utangarðs og þráði öryggi ástríkrar fjölskyldu. Loksins fann hann það sem hann var að leita að þegar hann kynnti sér Biblíuna. Hann kynntist söfnuði votta Jehóva, eignaðist þar andlega fjölskyldu
og fann fyrir því hvernig það er að vera viðurkenndur og elskaður af öðrum. Já, Biblían gefur raunhæfar leiðbeiningar og fullnægir tilfinningalegum þörfum manna.Munum að Jehóva sér hvað býr í hjörtum okkar og veit hverju við erum að leita að. Hann „vegur hjörtun“ og ‚geldur sérhverjum eftir breytni hans.‘ — Orðskviðirnir 21:2; Jeremía 17:10.
Raunhæfar leiðbeiningar um fjölskyldulíf
Biblían gefur raunhæfar leiðbeiningar um mannleg samskipti. „Persónuleikaárekstrar og misskilningur eru einhverjir mestu streituvaldar í lífinu,“ segir Georg. Hvernig bregst hann við slíku? „Ef mér finnst einhver hafa eitthvað á móti mér fer ég eftir skýrum leiðbeiningum Matteusar 5:23, 24: ‚Sæstu við bróður þinn.‘ Það eitt að ég get talað um ágreininginn skilar árangri. Ég finn fyrir friði Guðs sem Biblían talar um. Ráðleggingar hennar hrífa. Þær eru raunhæfar.“ — Filippíbréfið 4:6, 7.
Ef hjón eru ósátt þurfa þau bæði að ‚vera fljót til að heyra, sein til að tala og sein til reiði.‘ (Jakobsbréfið 1:19) Það stuðlar að góðum tjáskiptum. Georg heldur áfram: „Þegar ég fer eftir þeirri ráðleggingu að koma fram við konuna mína og elska hana eins og sjálfan mig skilar það sér á augabragði. Það auðveldar henni að bera virðingu fyrir mér.“ (Efesusbréfið 5:28-33) Já, Biblían kennir okkur að viðurkenna eigin ófullkomleika og umbera galla annarra.
Ráð sem standast tímans tönn
Spekingurinn Salómon sagði: „Treystu [Jehóva] af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ (Orðskviðirnir 3:5, 6) Þetta eru einföld orð en merkingin djúpstæð.
Biblían er sterkt afl til góðs. Með hjálp hennar geta þeir sem elska Guð lagað líf sitt að vilja hans og notið þess að „fram ganga í lögmáli“ hans. (Sálmur 119:1) Óháð aðstæðum okkar finnum við þau ráð, sem við þörfnumst, í Biblíunni. (Jesaja 48:17, 18) Lestu daglega í henni, hugleiddu það sem þú lest og farðu síðan eftir því. Þá heldurðu huganum hreinum og einbeitir þér að því sem er hreint og heilnæmt. (Filippíbréfið 4:8, 9) Þá lærirðu ekki aðeins að lifa og njóta þess heldur einnig að elska skapara lífsins.
Ef þú gerir þetta kemstu að raun um að Biblían er meira en aðeins merkileg bók. Hún er handbók fyrir lífið!
[Mynd á blaðsíðu 6]
Biblían getur styrkt ásetning manns að sigrast á skaðlegum ósiðum.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Biblían kennir hvernig hægt er að eignast náið samband við Guð.