Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hvernig líta vottar Jehóva á læknisaðferðir þar sem eigið blóð sjúklings er notað, miðað við fyrirmæli Biblíunnar um rétta meðferð blóðs?

Kristinn maður þarf að hugleiða leiðbeiningar Biblíunnar alvarlega en ekki láta eigin smekk eða ráðleggingar læknis ráða ferðinni eingöngu. Þetta er mál sem hann þarf að gera upp milli sín og Jehóva.

Jehóva, lífgjafi okkar, gaf þau fyrirmæli að ekki mætti neyta blóðs. (1. Mósebók 9:3, 4) Blóðið táknar lífið og notkun þess var þar af leiðandi takmörkuð í lögmálinu sem Guð setti Forn-Ísrael. Tilskipun hans var þessi: „Líf líkamans er í blóðinu, og ég hefi gefið yður það á altarið, til þess að með því sé friðþægt fyrir yður, því að blóðið friðþægir með lífinu.“ Ef maður veiddi dýr til matar skyldi hann „hella niður blóðinu og hylja það moldu.“ * (3. Mósebók 17:11, 13) Jehóva endurtók þessi fyrirmæli nokkrum sinnum. (5. Mósebók 12:16, 24; 15:23) Hið gyðinglega rit Soncino Chumash segir: „Ekki má geyma blóðið heldur skal gera það óhæft til neyslu með því að hella því niður á jörðina.“ Enginn Ísraelsmaður mátti eigna sér, geyma eða nota blóð annarrar lífveru því að líf hennar tilheyrði Guði.

Sú kvöð að halda Móselögin féll úr gildi með dauða Messíasar. En afstaða Guðs til heilagleika blóðsins er óbreytt. Undir handleiðslu heilags anda gáfu postularnir kristnum mönnum þau fyrirmæli að ,halda sig frá blóði.‘ Þessi fyrirmæli bar að taka háalvarlega. Þau voru jafnmikilvæg í siðferðilegu tilliti og fyrirmælin um að forðast siðleysi og skurðgoðadýrkun. (Postulasagan 15:28, 29; 21:25) Þegar söfnun blóðs og blóðgjafir urðu algengar á 20. öldinni skildu vottar Jehóva að þær stönguðust á við orð Guðs. *

Það kemur fyrir að læknir hvetur sjúkling til að láta draga sér blóð nokkrum vikum fyrir aðgerð og geyma það þannig að hægt sé að gefa honum það aftur í aðgerð ef þörf krefur. En slík blóðtaka, geymsla og endurgjöf gengur í berhögg við það sem fram kemur í 3. og 5. Mósebók. Það á ekki að geyma blóð heldur hella því niður — skila því til Guðs ef svo má að orði komast. Móselögin eru auðvitað fallin úr gildi en vottar Jehóva virða meginreglur Guðs, sem koma fram þar, og eru staðráðnir í að ,halda sér frá blóði.‘ Þess vegna gefum við ekki blóð og látum ekki heldur gefa okkur blóð sem á að „hella niður.“ Það stríðir gegn lögum Guðs.

Það stangast hins vegar ekki beinlíns á við meginreglur Guðs að taka blóðsýni til rannsóknar, og hið sama er að segja um ýmsa aðra meðferð á blóði. Kristnir menn leyfa til dæmis yfirleitt að tekin séu blóðsýni til rannsóka og mælinga, enda er sýnunum hent að rannsókn lokinni. Og læknar mæla stundum með ýmsum flóknum aðferðum sem fela í sér ákveðna meðferð á blóði sjúklings.

Stundum er til dæmis beitt blóðvökvaukningu í aðgerð, en þá er blóði veitt í hjárás og það sem eftir er í blóðrás líkamans er útþynnt. Síðar er blóðinu, sem dregið var, veitt aftur inn í líkamann svo að blóðkornastyrkur sjúklings verður næstum eðlilegur á ný. Einnig er hægt að soga upp blóð, sem blæðir úr skurðsári, sía það og skila rauðkornunum aftur inn í blóðrás sjúklings. Þetta er stundum kallað endurvinnsla blóðs. Þá er blóði stundum veitt gegnum vél sem tekur um stundar sakir við starfsemi ákveðinna líffæra (svo sem hjarta, lungna og nýrna), og síðan veitt aftur inn í blóðrás sjúklings. Enn ein aðferðin er fólgin í því að veita blóðinu gegnum skilvindu sem skilur frá skaðlega eða gallaða blóðhluta. Þeirri aðferð er einnig beitt til að einangra ákveðna efnisþætti blóðsins og beita þeim annars staðar á líkamann. Og til eru ákveðnar prófanir eða rannsóknir þar sem sjúklingi er dregið talsvert blóð til að merkja það eða blanda það lyfi og síðan er því veitt aftur inn í líkamann.

Aðferðirnar eru breytilegar, og nýjar aðferðir, meðferðir og prófanir eiga örugglega eftir að bætast við. Það er ekki hlutverk okkar að brjóta til mergjar hvert tilbrigði og fella úrskurð um það. Kristinn maður þarf að ákveða sjálfur hvernig hann leyfir að farið sé með blóð sitt í skurðaðgerð, rannsókn eða yfirstandandi meðferð. Hann ætti að afla sér upplýsinga fyrir fram hjá lækni eða tæknimanni um það hvað gert sé við blóðið meðan á meðferðinni stendur. Síðan þarf hann að ákveða hvað samviska hans leyfir. (Sjá rammagrein.)

Kristnir menn ættu að hafa hugfast að þeir eru vígðir Guði og þeim ber að ,elska hann af öllu hjarta, allri sálu, öllum mætti og öllum huga.‘ (Lúkas 10:27) Ólíkt flestum öðrum er vottum Jehóva ákaflega annt um samband sitt við Guð. Lífgjafinn hvetur alla til að treysta á úthellt blóð Jesú. Við lesum: „Í honum [Jesú Kristi], fyrir hans blóð eigum vér endurlausnina og fyrirgefningu afbrota vorra.“ — Efesusbréfið 1:7.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Frank H. Gorman, prófessor, skrifar: „Úthelling blóðsins verður best skilin sem lotningartákn er vitnar um virðingu fyrir lífi dýrsins og þar með virðingu fyrir Guði sem skapaði þetta líf og heldur áfram að annast það.“

^ gr. 5 Varðturninn (ensk útgáfa) 1. júlí 1951 fjallaði um helstu spurningarnar varðandi þetta mál og sýndi fram á hvers vegna blóðgjafir væru ekki við hæfi.

[Rammi á blaðsíðu 31]

SPURNINGAR SEM ÞÚ ÆTTIR AÐ SPYRJA ÞIG

Ef einhverju af blóði mínu er veitt út úr líkamanum og blóðflæðið er jafnvel stöðvað um tíma, leyfir samviskan mér þá að líta svo á að blóðið sé enn þá hluti af mér þannig að það þurfi ekki að ,hella því niður‘?

Myndi það ónáða biblíufrædda samvisku mína ef mér væri, í tengslum við rannsókn eða meðferð, dregið blóð sem væri síðan breytt á einhvern hátt og veitt aftur inn í líkama minn (eða lagt við hann)?