Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Stund hans var enn ekki komin“

„Stund hans var enn ekki komin“

„Stund hans var enn ekki komin“

„Enginn lagði hendur á hann, því stund hans var enn ekki komin.“ — JÓHANNES 7:30.

1. Hvað tvennt stjórnaði lífsstefnu Jesú?

 „MANNSSONURINN er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga,“ sagði Jesús Kristur postulum sínum. (Matteus 20:28) Hann sagði rómverska landstjóranum Pontíusi Pílatusi: „Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni.“ (Jóhannes 18:37) Hann vissi nákvæmlega hvers vegna hann átti að deyja og hvað hann þyrfti að gera áður en hann dæi. Hann vissi líka hve langan tíma hann hafði til að ljúka ætlunarverki sínu. Messíasarþjónusta hans hér á jörð átti aðeins að standa í þrjú og hálft ár. Hún hófst þegar hann lét skírast í Jórdan (árið 29), en þá hófst sjötugasta táknræna vikan, og henni lauk með dauða hans á kvalastaur um miðja þá viku (árið 33). (Daníel 9:24-27; Matteus 3:16, 17; 20:17-19) Lífsstefna Jesú á jörðinni stjórnaðist því fyrst og fremst af tvennu: tilganginum með komu hans og næmu tímaskyni.

2. Hvernig er Jesú Kristi lýst í guðspjöllunum og hvernig sýndi hann að hann skildi ætlunarverk sitt?

2 Guðspjöllin lýsa Jesú Kristi sem atorkumanni. Hann fór um Palestínu þvera og endilanga, boðaði fagnaðarerindið um ríki Guðs og vann ótal máttarverk. Snemma á hinum viðburðaríka þjónustutíma hans var sagt um hann að ‚stund hans væri enn ekki komin.‘ Sjálfur sagði hann: „Minn tími er ekki enn kominn,“ og undir lok þjónustu sinnar hafði hann á orði að ‚stundin væri komin.‘ (Jóhannes 7:8, 30; 12:23) Vitund Jesú um tímann, sem hann hafði til að vinna ætlunarverk sitt og til að deyja fórnardauða, hlýtur að hafa haft áhrif á orð hans og athafnir. Ef við gerum okkur grein fyrir þessu veitir það okkur innsýn í persónuleika hans og hugsunarhátt og auðveldar okkur að „feta í hans fótspor.“ — 1. Pétursbréf 2:21.

Staðráðinn í að gera vilja Guðs

3, 4. (a) Hvað gerist í brúðkaupsveislu í Kana? (b) Af hverju andmælir sonur Guðs þegar María stingur upp á að hann geri eitthvað til að bæta úr vínskortinum, og hvaða lærdóm má draga af því?

3 Við erum stödd á árinu 29. Ekki eru liðnir nema fáeinir dagar síðan Jesús valdi fyrstu lærisveinana. Þeir eru nú allir komnir til þorpsins Kana í Galíleu til að sækja brúðkaupsveislu. María, móðir Jesú, er viðstödd veisluna. Þá gengur vínið til þurrðar. María stingur óbeint upp á að sonur hennar geri eitthvað í málinu og segir við hann: „Þeir hafa ekki vín.“ En Jesús svarar: „Hvað varðar það mig og þig, kona? Minn tími er ekki enn kominn.“ — Jóhannes 1:35-51; 2:1-4.

4 Svar Jesú: „Hvað varðar það mig og þig, kona?“ er fornt spurnarform sem gefur til kynna andmæli gegn uppástungu. Af hverju er Jesús mótfallinn því sem María leggur til? Hann er orðinn þrítugur. Hann lét skírast fyrir fáeinum vikum og var þá smurður heilögum anda, og Jóhannes skírari kynnti hann sem „Guðs lamb, sem ber synd heimsins.“ (Jóhannes 1:29-34; Lúkas 3:21-23) Nú hlýtur hann að lúta forystu hins hæsta sem sendi hann. (1. Korintubréf 11:3) Enginn, ekki einu sinni náinn ættingi, mátti trufla hann í því starfi sem hann var sendur til að vinna á jörð. Svar hans ber vott um einbeitni í því að gera vilja föðurins. Við ættum að vera staðráðin í að rækja skyldur okkar við Guð í einu og öllu, líkt og Jesús. — Prédikarinn 12:13.

5. Hvaða kraftaverk vinnur Jesús Kristur í Kana og hvaða áhrif hefur það á aðra?

5 María skilur hvað sonur hennar er að fara, dregur sig tafarlaust í hlé og segir þjónunum: „Gjörið það, sem hann kann að segja yður.“ Og Jesús leysir vandann. Hann lætur þjónana fylla kerin vatni og breytir því svo í eðalvín. Þetta er fyrsta merki um kraftaverkamátt Jesú og tákn þess að andi Guðs sé yfir honum. Það styrkir trú nýju lærisveinanna að sjá þetta kraftaverk. — Jóhannes 2:5-11.

Vandlæti vegna húss Jehóva

6. Af hverju reiðist Jesús því sem hann sér í musterinu í Jerúsalem og hvað gerir hann?

6 Vorið 30 rennur upp og Jesús er á leið til Jerúsalem ásamt félögum sínum til að halda páska. Þar sjá lærisveinarnir ákveðna hlið á leiðtoga sínum sem þeir hafa kannski aldrei séð áður. Ágjarnir kaupmenn selja fugla og dýr til fórna inni í musterinu og taka okurverð af trúum Gyðingum sem koma þangað í tilbeiðsluskyni. Jesús reiðist þessu mjög og lætur málið til sín taka. Hann gerir sér svipu úr reipum og rekur kaupmennina burt. Hann steypir niður peningum víxlaranna og hrindir um borðum þeirra. „Burt með þetta héðan,“ skipar hann dúfnasölunum. Þegar lærisveinarnir sjá hann í þessum ham rifjast upp fyrir þeim spádómur um son Guðs: „Vandlæting vegna húss þíns mun tæra mig upp.“ (Jóhannes 2:13-17; Sálmur 69:10) Við verðum líka að gæta þess vendilega að veraldlegar tilhneigingar spilli ekki tilbeiðslu okkar.

7. (a) Hvað fær Nikódemus til að heimsækja Messías? (b) Hvað má læra af vitnisburði Jesú fyrir samverskri konu?

7 Jesús gerir merkileg tákn í Jerúsalem og margir taka að trúa á hann. Æðstaráðsmaðurinn Nikódemus hrífst meira að segja af honum og kemur til hans að næturlagi til að fræðast. Jesús og lærisveinar hans dvelja í ‚Júdeuhéraði‘ um átta mánaða skeið, boða fagnaðarerindið og gera menn að lærisveinum. En eftir að Jóhannes skírari er handtekinn yfirgefa þeir Júdeu og halda til Galíleu. Þeir fara um Samaríu þar sem Jesús grípur tækifærið og vitnar rækilega fyrir samverskri konu. Það stuðlar að því að margir Samverjar taka trú. Við skulum líka vera vakandi fyrir tækifærum til að tala um ríki Guðs. — Jóhannes 2:23; 3:1-22; 4:1-42; Markús 1:14.

Víðtæk kennsla í Galíleu

8. Hverju hrindir Jesús af stað í Galíleu?

8 Jesús á margt ógert í þjónustu föður síns á himnum áður en „stund“ hans rennur upp til að deyja. Hann leggur út í enn umfangsmeiri boðun í Galíleu en hann hafði stundað í Júdeu og Jerúsalem. Hann fór „um alla Galíleu, kenndi í samkundum þeirra, prédikaði fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi meðal lýðsins.“ (Matteus 4:23) Hvetjandi orð hans óma um allt héraðið: „Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd.“ (Matteus 4:17) Fáeinum mánuðum síðar koma tveir lærisveinar Jóhannesar skírara til Jesú til að fá milliliðalausar upplýsingar um hann, og hann segir þeim: „Farið og kunngjörið Jóhannesi það, sem þið hafið séð og heyrt: Blindir fá sýn, haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi. Og sæll er sá, sem hneykslast ekki á mér.“ — Lúkas 7:22, 23.

9. Af hverju þyrpast menn til Krists Jesú og hvað má læra af því?

9 ‚Fregnir af Jesú bárust um allt nágrennið‘ og fólk þyrpist til hans hópum saman — frá Galíleu, Dekapólis, Jerúsalem, Júdeu og landinu handan Jórdanar. (Lúkas 4:14, 15; Matteus 4:24, 25) Menn eru ekki aðeins að sækjast eftir kraftaverkalækningu heldur líka að heyra hann kenna, því að boðskapur hans er aðlaðandi og hvetjandi. (Matteus 5:1–7:27) Orð hans eru hugnæm. (Lúkas 4:22) Mannfjöldinn ‚undrast mjög kenningu hans‘ því að hann talar mynduglega með vísan í Ritninguna. (Matteus 7:28, 29; Lúkas 4:32) Hver laðast ekki að slíkum manni? Við skulum líka þroska með okkur kennslulistina svo að hjartahreinir menn laðist að sannleikanum.

10. Af hverju reyna Nasaretbúar að drepa Jesú og af hverju tekst þeim það ekki?

10 En það taka ekki allir við því sem Jesús kennir. Það er jafnvel reynt að drepa hann snemma á þjónustuskeiði hans er hann kennir í samkunduhúsinu í heimabæ sínum, Nasaret. Bæjarbúar undrast ‚hugnæm orð‘ hans en vilja sjá kraftaverk. En Jesús vinnur engin kraftaverk þar heldur afhjúpar eigingirni þeirra og trúleysi. Samkundugestir reiðast heiftarlega, grípa Jesú og hraða sér með hann fram á fjallsbrún þar sem þeir hyggjast hrinda honum ofan af kletti. En hann losnar úr greipum þeirra og kemst óhultur undan. „Stund“ hans til að deyja var enn ekki komin. — Lúkas 4:16-30.

11. (a) Af hverju koma trúarleiðtogar til að hlusta á Jesú? (b) Hvers vegna er Jesús sakaður um að brjóta hvíldardagshelgina?

11 Trúarleiðtogar — fræðimenn, farísear, saddúkear og fleiri — eru oft nærstaddir þar sem Jesús prédikar. Margir þeirra koma ekki til að fræðast heldur til að finna að og reyna að veiða hann í gildru. (Matteus 12:38; 16:1; Lúkas 5:17; 6:1, 2) Þegar Jesús kemur til Jerúsalem til að halda páska árið 31 læknar hann til dæmis mann sem hafði verið veikur í 38 ár. Trúarleiðtogarnir saka þá Jesú um að brjóta hvíldardagshelgina. „Faðir minn starfar til þessarar stundar, og ég starfa einnig,“ svarar hann. Þá saka Gyðingar hann um guðlast af því að hann kallar Guð föður sinn og segist þar með vera sonur Guðs. Þeir leita færis að drepa hann en hann yfirgefur Jerúsalem ásamt lærisveinunum og heldur til Galíleu. Það er líka skynsamlegt af okkur að forðast óþarfa árekstra við andstæðinga og helga krafta okkar því að boða Guðsríki og gera menn að lærisveinum — Jóhannes 5:1-18; 6:1.

12. Hversu rækilega starfar Jesús í Galíleu?

12 Jesús starfar aðallega í Galíleu næsta eitt og hálft árið og fer aðeins til Jerúsalem til að halda hinar þrjár árlegu hátíðir Gyðinga. Þegar allt er talið hefur hann farið þrjár boðunarferðir um Galíleu: fyrst með 4 nýjum lærisveinum, síðan með postulunum 12 og loks umfangsmikla boðunarferð þar sem hann er búinn að þjálfa postulana og sendir þá á undan sér. Það er borið rækilega vitni um sannleikann í Galíleu. — Matteus 4:18-25; Lúkas 8:1-3; 9:1-6.

Hugrökk boðun í Júdeu og Pereu

13, 14. (a) Hvenær reyna Gyðingar að klófesta Jesú? (b) Af hverju tekst þeim ekki að handtaka Jesú?

13 Haustið 32 er runnið upp en „stund“ Jesú er enn ekki komin. Laufskálahátíðin nálgast. Hálfbræður Jesú hvetja hann til að ‚flytja sig frá Galíleu og fara til Júdeu.‘ Þeir vilja að hann sýni öllum hátíðargestunum í Jerúsalem undramátt sinn. En Jesús er sér meðvita um hættuna og segir bræðrum sínum: „Ég fer ekki til þessarar hátíðar, því minn tími er ekki enn kominn.“ — Jóhannes 7:1-8.

14 Hann er um kyrrt í Galíleu enn um sinn en heldur svo til Jerúsalem, „ekki svo menn vissu, heldur nánast á laun.“ Gyðingar leita hans á hátíðinni og spyrja hvar hann sé. Hátíðin er hálfnuð þegar Jesús gengur hugrakkur inn í musterið og tekur að kenna. Þeir reyna að grípa hann, annaðhvort til að hneppa hann í fangelsi eða drepa hann, en geta ekki því að „stund hans var enn ekki komin.“ Margir taka að trúa á hann. Jafnvel mennirnir, sem farísearnir senda til að handtaka hann, snúa tómhentir til baka og segja: „Aldrei hefur nokkur maður talað þannig.“ — Jóhannes 7:9-14, 30-46.

15. Af hverju ætla Gyðingar að grýta Jesú og hvaða boðunarherferð hleypir hann af stokkunum?

15 Árekstrarnir milli Jesú og andstæðinga hans halda áfram á hátíðinni er hann fræðir fólk um föður sinn í musterinu. Gyðingar reiðast stórlega orðum hans á síðasta degi hátíðarinnar er hann minnist á fortilveru sína, og þeir reyna að grýta hann. En hann felur sig fyrir þeim og kemst ómeiddur undan. (Jóhannes 8:12-59) Hann dvelst utan Jerúsalem og hefur kröftuga boðunarherferð í Júdeu. Hann velur 70 lærisveina, leiðbeinir þeim og sendir þá svo tvo og tvo saman út á svæðið. Þeir fara á undan honum á hvern þann stað þangað sem hann ætlar að koma ásamt postulunum. — Lúkas 10:1-24.

16. Hvaða hættu lendir Jesús í á vígsluhátíðinni og að hverju snýr hann sér af fullum krafti?

16 „Stund“ Jesú nálgast veturinn 32. Hann kemur til Jerúsalem til að halda vígsluhátíðina. Gyðingar leita enn þá færis að drepa hann. Þeir umkringja hann þar sem hann er á gangi í súlnagöngum musterisins, saka hann um guðlast og taka upp steina til að grýta hann. En hann kemst undan eins og áður. Innan skamms er hann aftur á faraldsfæti í Pereu, gegnt Júda handan Jórdanar, og kennir þar borg úr borg og þorp úr þorpi. Margir taka trú á hann. En þá berast honum boð varðandi Lasarus vin sinn sem valda því að hann snýr aftur til Júdeu. — Lúkas 13:33; Jóhannes 10:20-42.

17. (a) Hvaða áríðandi boð fær Jesús í Pereu? (b) Hvað sýnir að Jesús er vakandi fyrir tímanum og markmiði þess sem hann þarf að gera?

17 Þessi áríðandi boð eru frá Mörtu og Maríu, systrum Lasarusar, sem búa í Betaníu í Júdeu og eru á þessa leið: „Herra, sá sem þú elskar, er sjúkur.“ „Þessi sótt er ekki banvæn, heldur Guði til dýrðar, að Guðs sonur vegsamist hennar vegna,“ svarar Jesús og er um kyrrt í tvo daga svo að þetta markmið náist. Síðan segir hann lærisveinunum: „Förum aftur til Júdeu.“ Þeir spyrja vantrúaðir: „Rabbí, nýlega voru Gyðingar að því komnir að grýta þig, og þú ætlar þangað aftur?“ En Jesús veit að ‚stundum dagsins‘ fækkar og tíminn, sem Guð hefur úthlutað honum til að þjóna á jörð, er orðinn stuttur. Hann veit nákvæmlega hvað hann þarf að gera og hvernig. — Jóhannes 11:1-10.

Kraftaverk sem enginn gat hunsað

18. Hver er staðan í Betaníu þegar Jesús kemur þangað og hvað gerist eftir komu hans?

18 Marta kemur fyrst manna til fundar við Jesú í Betaníu og segir: „Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn.“ María og aðrir, sem hjá þeim eru, fylgja á eftir. Allir eru grátandi. „Hvar hafið þér lagt hann?“ spyr Jesús. „Herra, kom þú og sjá,“ svara þau. Þegar að gröfinni kemur skipar Jesús að steinninn fyrir grafhellinum skuli tekinn frá. Marta skilur ekki hvað Jesús ætlast fyrir og andmælir: „Herra, það er komin nálykt af honum, það er komið á fjórða dag.“ En Jesús spyr: „Sagði ég þér ekki: ‚Ef þú trúir, munt þú sjá dýrð Guðs‘?“— Jóhannes 11:17-40.

19. Af hverju biður Jesús upphátt áður en hann reisir Lasarus upp frá dauðum?

19 Steinninn er tekinn frá grafarmunnanum og Jesús biðst upphátt fyrir, til að menn átti sig á því að það er máttur Guðs sem kemur því til leiðar sem hann ætlar að fara að gera. Síðan hrópar hann hárri röddu: „Lasarus, kom út!“ Og Lasarus kemur út vafinn líkblæjum á höndum og fótum og með dúk fyrir andlitinu. „Leysið hann og látið hann fara,“ segir Jesús. — Jóhannes 11:41-44.

20. Hvernig bregðast menn við upprisu Lasarusar?

20 Margir af Gyðingunum, sem komnir eru til að hugga Mörtu og Maríu, trúa á Jesú er þeir sjá þetta kraftaverk. Nokkrir fara til faríseanna og segja þeim hvað gerst hafi. Þeir og yfirprestarnir kalla æðstaráðið saman þegar í stað til neyðarfundar. Þeir segja í öngum sínum: „Hvað eigum vér að gjöra? Þessi maður gjörir mörg tákn. Ef vér leyfum honum að halda svo áfram, munu allir trúa á hann, og þá koma Rómverjar og taka bæði helgidóm vorn og þjóð.“ En Kaífas æðstiprestur segir: „Þér vitið ekkert og hugsið ekkert um það, að yður er betra, að einn maður deyi fyrir lýðinn, en að öll þjóðin tortímist.“ Þeir taka því saman ráð sín um að ráða Jesú af dögum. — Jóhannes 11:45-53.

21. Undanfari hvers er upprisa Lasarusar?

21 Með því að seinka komu sinni til Betaníu getur Jesús unnið kraftaverk sem enginn getur hunsað. Í krafti Guðs reisir hann upp mann sem hafði verið látinn í fjóra daga. Hið virta æðstaráð neyðist jafnvel til að gefa málinu gaum og fella dauðadóm yfir þessum kraftaverkamanni. Kraftaverkið er þannig undanfari mikilvægra tímamóta í þjónustu Jesú — tímans er „stund hans var enn ekki komin“ og tímans er ‚stund hans var komin.‘

Hvert er svarið?

• Hvernig sýndi Jesús að honum var kunnugt um það verkefni sem Guð ætlaði honum?

• Af hverju andmælir Jesús uppástungu móður sinnar varðandi vínið?

• Hvað má læra af algengum viðbrögðum Jesú við árásum andstæðinga sinna?

• Af hverju tefur Jesús áður en hann sinnir veikindum Lasarusar?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 10]

Jesús helgaði krafta sína því verki sem Guð fól honum.