Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að lækna styrjaldarsárin

Að lækna styrjaldarsárin

Að lækna styrjaldarsárin

ABRAHAM barðist með skæruliðaher í 20 ár. * En hann er hættur að berjast og ætlar aldrei framar að fara í stríð. Sumir af fyrrverandi óvinum hans eru meira að segja bestu vinir hans núna. Hvað breytti honum? Það var Biblían. Hún veitti honum von og skilning þannig að hann gat séð mannleg málefni frá sjónarhóli Guðs. Biblían eyddi baráttulöngun hans og læknaði hann smám saman af sorg, harmi, hatri og beiskju. Hann komst að raun um að Biblían hefur sterk, græðandi áhrif á hjartað.

Hvernig getur Biblían hjálpað manni að lækna tilfinningasárin? Hún gat ekki breytt því sem Abraham hafði orðið fyrir, en með því að lesa hana og hugleiða gat hann lagað hugsunarhátt sinn að hugsunarhætti skaparans. Núna á hann sér framtíðarvon og nýjar áherslur í lífinu. Það sem skiptir máli í augum Guðs skiptir máli fyrir hann. Jafnhliða þessum breytingum tóku sárin í hjarta hans að gróa. Þannig gat hann breytt sér.

Borgarastríð

Abraham fæddist í Afríku á fjórða áratugnum. Eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar var heimaland hans undir yfirráðum voldugrar grannþjóðar en margir af samlöndum hans þráðu sjálfstæði. Árið 1961 gekk hann til liðs við frelsishreyfingu sem háði skæruhernað gegn hinum volduga nágranna.

„Þetta voru óvinir okkar. Þeir ætluðu að drepa okkur svo að við hugsuðum okkur að drepa þá,“ segir hann.

Hann var oft í lífshættu svo að hann flúði að lokum til Evrópu árið 1982, eftir 20 ára hernaðarátök. Hann var langt kominn á fimmtugsaldur. Nú hafði hann allt í einu nægan tíma til að staldra við og athuga sinn gang. Hvað var orðið um drauma hans og vonir? Hvað bar framtíðin í skauti sínu? Hann kynntist nokkrum vottum Jehóva og fór að sækja samkomur hjá þeim. Það rifjaðist upp fyrir honum að nokkrum árum áður hafði hann lesið smárit sem vottur í Afríku gaf honum. Smáritið talaði um jarðneska paradís og himneska stjórn sem ætti að ríkja yfir mannkyni. Gat þetta verið rétt?

„Lestur Biblíunnar sýndi mér fram á að öll bardagaárin höfðu verið til einskis,“ segir hann. „Guðsríki er eina stjórnin sem mun tryggja öllum réttlæti.“

Skömmu eftir að Abraham lét skírast sem vottur Jehóva kom afrískur flóttamaður er Robert hét til borgarinnar þar sem hann bjó. Robert og Abraham höfðu barist í sama stríði hvor sínum megin víglínunnar. Robert hafði oft velt fyrir sér hver væri raunverulegur tilgangur lífsins. Hann var trúaður maður, hafði lesið Biblíuna að hluta og vissi að Guð heitir Jehóva. Hann þáði fúslega boðið þegar vottar frá söfnuði Abrahams buðu honum hjálp til að kynna sér Biblíuna betur.

„Ég hreifst af því strax frá upphafi hvernig vottarnir notuðu nöfnin Jehóva og Jesús og viðurkenndu að þeir væru aðskildar persónur,“ segir Robert. „Þetta var í samræmi við það sem ég hafði þegar lesið í Biblíunni. Vottarnir eru snyrtilega klæddir og vingjarnlegir í viðmóti, óháð þjóðerni. Það hafði djúpstæð áhrif á mig.“

Óvinir verða vinir

Þessir fyrrverandi óvinir, þeir Robert og Abraham, eru nánir vinir núna. Báðir eru boðberar í fullu starfi í sama söfnuði votta Jehóva. „Ég hugleiddi það oft meðan stríðið stóð yfir hvernig staðið gæti á því að grannþjóðir skuli hata hver aðra — jafnvel fólk sem er sömu trúar,“ segir Abraham. „Við Robert tilheyrðum sömu kirkjudeild en áttum samt í stríði hvor við annan. Núna erum við báðir vottar Jehóva og trúin hefur sameinað okkur.“

„Í þessu liggur munurinn,“ segir Robert. „Núna tilheyrum við trúfélagi þar sem ríkir ósvikið bræðralag. Við tökum okkur aldrei framar stríðsvopn í hönd.“ Biblían hefur haft sterk áhrif á hjörtu þessara fyrrverandi óvina. Hatur og beiskja hefur smám saman vikið fyrir trausti og vináttu.

Um sama leyti og þeir Abraham og Robert áttu í stríði voru tveir aðrir ungir menn þátttakendur í stríðsátökum tveggja grannríkja. Biblían hafði líka öflug, græðandi áhrif á hjörtu þeirra. Hvernig þá?

Drepa og deyja píslarvættisdauða

Gabriel ólst upp í trúaðri fjölskyldu. Honum var kennt að þjóð hans ætti í heilögu stríði. Nítján ára gamall bauð hann sig fram til herþjónustu og bað um að verða sendur á vígstöðvarnar. Í 13 mánuði tók hann þátt í hörðum bardögum, og stundum var ekki nema einn og hálfur kílómetri milli hans og óvinanna. „Ég man sérstaklega eftir einu atviki,“ segir hann. „Liðsforinginn sagði okkur að óvinurinn myndi gera árás þá nótt. Við vorum svo upptrekktir að við skutum úr sprengjuvörpunum alla nóttina.“ Hann leit á íbúa grannríkisins sem óvini sína og taldi þá verðskulda dauða. „Ég hugsaði mér að drepa eins marga og ég gæti. Síðan vildi ég deyja píslarvættisdauða. Margir af vinum mínum voru sama sinnis.“

En með tímanum opnuðust augu Gabriels og vonsvikinn flúði hann til fjalla. Þar tókst honum að komast yfir landamærin inn í hlutlaust ríki og hélt síðan til Evrópu. Hann spurði Guð í sífellu af hverju lífið væri svona erfitt og hvort vandamálin væru refsing frá honum. Hann komst í samband við votta Jehóva sem sýndu honum hvað Biblían segir um orsakir allra vandamála nútímans. — Matteus 24:3-14; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.

Þegar Gabriel kynntist Biblíunni rann smám saman upp fyrir honum að hún er bók sannleikans. „Ég komst að raun um að við getum fengið að lifa að eilífu í paradís á jörð. Svo undarlegt sem það er hafði ég alltaf þráð það sem barn.“ Biblían hughreysti hann og sefaði ólguna í hjarta hans. Hin djúpu tilfinningasár tóku að gróa. Þegar Gabriel hitti Daniel, fyrrverandi óvin sinn, var hann hættur að hata. En hvað kom Daniel til að flytjast til Evrópu?

„Hjálpaðu mér ef þú ert til!“

Daniel var alinn upp í kaþólskri trú og var kallaður í herinn 18 ára gamall. Hann var sendur til að berjast í sama stríði og Gabriel en hinum megin víglínunnar. Hann var í skriðdreka nálægt víglínunni þegar skriðdrekinn varð fyrir árás. Vinir hans létust en sjálfur særðist hann alvarlega og var tekinn til fanga. Hann var marga mánuði á spítala og í fangabúðum áður en hann var fluttur til hlutlauss ríkis. Hann var þar einn og allslaus og það hvarflaði að honum að svipta sig lífi. Hann bað til Guðs: „Hjálpaðu mér ef þú ert til!“ Strax næsta dag komu vottar Jehóva í heimsókn og gátu svarað mörgum af spurningum hans. Loks fluttist hann til Evrópu sem flóttamaður. Þar komst hann aftur í samband við vottana og hóf biblíunám, og það sem hann lærði losaði hann smám saman við kvíðann og beiskjuna.

Gabriel og Daniel eru góðir vinir núna, sameinaðir andlegum bræðraböndum sem skírðir vottar Jehóva. „Kærleikur til Jehóva og þekking á Biblíunni hefur hjálpað mér að sjá hlutina sömu augum og hann. Daniel er ekki óvinur minn lengur. Fyrir nokkrum árum hefði ég drepið hann með ánægju. En Biblían hefur kennt mér hið gagnstæða — að vera fús til að deyja fyrir hann,“ segir Gabriel.

„Ég horfði upp á fólk af ólíkri trú og þjóðerni myrða hvert annað,“ segir Daniel. „Og fólk sömu trúar í gagnstæðum fylkingum stríðsins sem drap hvert annað. Þegar ég sá þetta fannst mér það vera Guði að kenna. Núna veit ég að það er Satan sem er á bak við öll stríð. Við Gabriel erum trúbræður núna. Við berjumst aldrei framar!“

„Orð Guðs er lifandi og kröftugt“

Hvað olli því að þeir Abraham, Robert, Gabriel og Daniel eru gerbreyttir menn? Hvernig gátu þeir upprætt djúpstætt hatur og harm úr hjarta sér?

Þeir lásu, hugleiddu og lærðu ‚lifandi og kröftugan‘ sannleika Biblíunnar. (Hebreabréfið 4:12) Höfundur Biblíunnar er skapari mannkyns og hann veit hvernig á að hafa góð áhrif á hjarta manns sem er fús til að hlusta og læra. „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti.“ Sá sem les í Biblíunni og leyfir henni að leiðbeina sér tileinkar sér nýtt verðmætamat og ný gildi. Hann kynnist því hvaða augum Jehóva lítur á málin. Þetta hefur margt jákvætt í för með sér, meðal annars það að græða styrjaldarsárin. — 2. Tímóteusarbréf 3:16.

Orð Guðs bendir á að engin þjóð, kynþáttur eða þjóðarbrot sé betra eða verra en annað. „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ Sá sem les þetta og viðurkennir það sigrast smám saman á þjóðernis- eða kynþáttahatri. — Postulasagan 10:34, 35.

Biblíuspádómarnir gefa til kynna að messíasarríkið komi bráðlega í staðinn fyrir núverandi stjórnkerfi manna. Guð „stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar“ fyrir atbeina þessa ríkis. Stjórnir og stofnanir, sem stuðla að stríði og hvetja fólk til að berjast með sér, munu hverfa af sjónarsviðinu. Fórnarlömb styrjalda verða reist upp frá dauðum og fá tækifæri til að lifa í paradís á jörð. Enginn þarf framar að flýja árásarher eða kúgara. — Sálmur 46:10; Daníel 2:44; Postulasagan 24:15.

Biblían segir um þálifandi menn: „Þeir munu reisa hús og búa í þeim, og þeir munu planta víngarða og eta ávöxtu þeirra. Eigi munu þeir reisa og aðrir í búa, . . . eigi munu þeir erfiða til ónýtis og eigi börn geta til skammlífis.“ Allt tjón og allur skaði verður bættur. Sá sem trúir á slíka von eyðir smám saman harminum og sorginni úr hjarta sér. — Jesaja 65:21-23.

Biblían er svo sannarlega öflugt læknislyf fyrir hjartað. Kenningar hennar eru nú þegar farnar að græða styrjaldarsárin. Fyrrverandi óvinir eru sameinaðir í alþjóðlegu bræðrafélagi. Þessi lækning heldur áfram í nýjum heimi Guðs uns hatur, beiskja, harmur og sorg verður horfin úr hjörtum manna. Skaparinn lofar því að ‚hins fyrra skuli ekki minnst verða og það skuli engum í hug koma.‘ — Jesaja 65:17.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Sumum nöfnum í greininni er breytt.

[Innskot á blaðsíðu 4]

„Lestur Biblíunnar sýndi mér fram á að öll bardagaárin höfðu verið til einskis.“

[Innskot á blaðsíðu 5]

Biblían getur haft sterk áhrif á hjörtu manna sem voru óvinir áður.

[Innskot á blaðsíðu 6]

Hatur og beiskja vék smám saman fyrir trausti og vináttu.

[Innskot á blaðsíðu 6]

Sá sem les í Biblíunni og leyfir henni að leiðbeina sér tileinkar sér nýtt verðmætamat og ný gildi.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Fyrrverandi óvinir eru sameinaðir í alþjóðlegu bræðrafélagi.

[Mynd credit line á blaðsíðu 4]

Flóttamannabúðir: UN PHOTO 186811/J. Isaac