Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Guðsríki — hin nýja stjórn jarðarinnar

Guðsríki — hin nýja stjórn jarðarinnar

Guðsríki — hin nýja stjórn jarðarinnar

„[Guðsríki] . . . mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.“ — DANÍEL 2:44.

1. Hvaða traust getum við borið til Biblíunnar?

BIBLÍAN er opinberun Guðs til mannanna. Páll postuli skrifaði: „Þegar þér veittuð viðtöku því orði Guðs, sem vér boðuðum, þá tókuð þér ekki við því sem manna orði, heldur sem Guðs orði, — eins og það í sannleika er.“ (1. Þessaloníkubréf 2:13) Í Biblíunni stendur það sem við þurfum að vita um Guð: um persónuleika og tilgang hans og hvers hann krefst af okkur. Þar er að finna bestu ráðleggingar um fjölskyldulífið og daglega breytni. Hún greinir nákvæmlega frá spádómum sem uppfylltust í fortíðinni og þeim sem eru að uppfyllast nú á tímum og eiga eftir að uppfyllast í framtíðinni. Já, „sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.

2. Hvernig lagði Jesús áherslu á stef Biblíunnar?

2 Stef Biblíunnar um að drottinvald Jehóva (réttur hans til að stjórna) verði réttlætt fyrir atbeina himnesks ríkis hans skiptir öllu máli. Það var kjarninn í boðunarstarfi Jesú. „Upp frá þessu tekur Jesús að prédika og segja: ‚Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd.‘“ (Matteus 4:17) Hann benti á hvaða sess það ætti að skipa í lífi okkar með hvatningarorðunum: „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis.“ (Matteus 6:33) Þegar hann kenndi fylgjendum sínum að biðja til Guðs: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni,“ var hann að benda á hve mikilvægt þetta er. — Matteus 6:10.

Hin nýja stjórn jarðarinnar

3. Hvers vegna er Guðsríki brýn nauðsyn fyrir okkur?

3 Hvers vegna er Guðsríki svo mikilvægt fyrir mannkynið? Vegna þess að það grípur brátt til aðgerða og breytir stjórnarháttum jarðarinnar um alla framtíð. Í spádómi Daníels 2:44 segir: „En á dögum þessara konunga [sem ríkja á jörðinni nú á tímum] mun Guð himnanna hefja ríki [himneska stjórn], sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki [jarðneskar stjórnir], en sjálft mun það standa að eilífu.“ Þegar himnesk stjórn Guðs fer að ríkja að fullu munu menn aldrei framar ráða yfir jörðinni. Sundurlyndar og ófullnægjandi stjórnir manna munu heyra fortíðinni til.

4, 5. (a) Hvers vegna er Jesús best fallinn til að vera konungur Guðsríkis? (b) Hvaða verkefni verður Jesú falið í náinni framtíð?

4 Aðalstjórnandi hins himneska Guðsríkis undir beinni stjórn Jehóva er Jesús Kristur en hann er best til þess fallinn. Áður en hann kom til jarðar átti hann sér fortilveru á himnum sem „verkstýra“ Guðs, en Jesús var fyrsta sköpunarverk hans. (Orðskviðirnir 8:22-31) „Hann er ímynd hins ósýnilega Guðs, frumburður allrar sköpunar. Enda var allt skapað í honum í himnunum og á jörðinni.“ (Kólossubréfið 1:15, 16) Þegar Guð sendi Jesú til jarðar fór hann að vilja Guðs í öllu. Hann mátti þola erfiðustu prófraunir og lét lífið trúfastur föður sínum. — Jóhannes 4:34; 15:10.

5 Jesús fékk umbun fyrir að vera Guði trúfastur allt til dauða. Guð reisti hann upp til himna og gaf honum rétt til að vera konungur í himneska ríkinu. (Postulasagan 2:32-36) Guð mun fá Jesú, konungi Guðsríkis, það mikilfenglega verkefni að vera í fylkingarbrjósti ótal voldugra andavera við að fjarlægja stjórnir manna af jörðinni og losa hana við alla illsku. (Orðskviðirnir 2:21, 22; 2. Þessaloníkubréf 1:6-9; Opinberunarbókin 19:11-21; 20:1-3) Þá verður himnesk stjórn Guðs, með Krist sem konung, hið nýja stjórnvald, eina stjórnin yfir allri jörðinni. — Opinberunarbókin 11:15.

6. Hvers konar stjórnar megum við vænta af konungi Guðsríkis?

6 Orð Guðs segir um nýjan stjórnanda jarðarinnar: „Honum var gefið vald, heiður og ríki, svo að honum skyldu þjóna allir lýðir, þjóðir og tungur.“ (Daníel 7:14) Mikill friður og hamingja mun ríkja undir stjórn Jesú af því að hann líkir eftir kærleika Guðs. (Matteus 5:5; Jóhannes 3:16; 1. Jóhannesarbréf 4:7-10) „Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka . . . hann mun . . . efla [ríkið] með réttvísi og réttlæti.“ (Jesaja 9:7) Því mun fylgja mikil blessun að hafa stjórnanda sem ríkir með kærleika, réttvísi og réttlæti! „En eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins [hins himneska ríkis Guðs] og nýrrar jarðar [nýs samfélags manna], þar sem réttlæti býr,“ segir í 2. Pétursbréfi 3:13.

7. Hvernig uppfyllist Matteus 24:14 nú á tímum?

7 Vitneskjan um Guðsríki er án efa bestu tíðindi sem hægt er að færa réttlætiselskandi mönnum. Jesús sagði fyrir um hluta táknsins sem verður „á síðustu dögum“ þessa illa heimskerfis: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Matteus 24:14) Þessi spádómur er að uppfyllast nú á tímum en um sex milljónir votta Jehóva í 234 löndum verja meira en milljarði klukkustunda á ári til að segja öðrum frá ríki Guðs. Það er því vel við hæfi að hinir 90.000 söfnuðir þeirra um heim allan skuli kalla tilbeiðslustaði sína ríkissali. Þangað kemur fólk til að læra um hina nýju stjórn sem koma skal.

Meðstjórnendur

8, 9. (a) Hvaðan koma meðstjórnendur Krists? (b) Hvaða traust getum við borið til stjórnar konungsins og meðstjórnenda hans?

8 Í ríki Guðs á himnum verða meðstjórnendur með Jesú Kristi. Í Opinberunarbókinni 14:1-4 er sagt fyrir að 144.000 manns verði „leystir út úr hóp mannanna“ og reistir upp til himnesks lífs. Það eru karlar og konur sem þjónuðu Guði og meðbræðrum sínum með auðmýkt í stað þess að láta þjóna sér. „Þeir [munu] vera prestar Guðs og Krists og þeir munu ríkja með honum um þúsund ár.“ (Opinberunarbókin 20:6) Þeir eru miklu færri en ‚múgurinn mikli, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum‘ sem mun lifa af endalok þessa heimskerfis. Einnig þeir „þjóna [Guði] dag og nótt“ en þeir hafa ekki himneska köllun. (Opinberunarbókin 7:9, 15) Þeir mynda kjarna nýju jarðarinnar undir himneskri stjórn Guðsríkis. — Sálmur 37:29; Jóhannes 10:16.

9 Jehóva valdi trúfasta menn, sem höfðu alhliða reynslu af vandamálum lífsins, til að ríkja með Kristi á himni. Það er nánast engin sú lífsreynsla til sem þessir prestkonungar hafa ekki orðið fyrir. Líf þeirra á jörðinni hefur því orðið til þess að þeir eru hæfari til að ríkja yfir mönnunum. Meira að segja „lærði [Jesús] hlýðni af því, sem hann leið.“ (Hebreabréfið 5:8) Páll ritaði um hann: „Ekki höfum vér þann æðsta prest, er eigi geti séð aumur á veikleika vorum, heldur þann, sem freistað var á allan hátt eins og vor, en án syndar.“ (Hebreabréfið 4:15) Það er huggun að vita að í réttlátum nýjum heimi Guðs verður mönnum stjórnað af kærleiksríkum, samúðarfullum konungum og prestum.

Var ríkið þáttur í tilgangi Guðs?

10. Hvers vegna var Guðsríki ekki hluti af upphaflegum tilgangi Guðs?

10 Var himneskt Guðsríki hluti af upphaflegum tilgangi Guðs þegar hann skapaði Adam og Evu? Í frásögn 1. Mósebókar af sköpuninni er ekki minnst á Guðsríki sem ætti að stjórna mannfólkinu. Jehóva var stjórnandi þeirra og svo framarlega sem þau hlýddu honum var ekki þörf á annarri stjórn. Í fyrsta kafla 1. Mósebókar kemur fram að Jehóva átti samskipti við Adam og Evu, sennilega fyrir milligöngu himnesks frumburðar síns. Í frásögunni kemur fyrir orðalag eins og: „Guð sagði við þau“ og: „Guð sagði.“ — 1. Mósebók 1:28, 29; Jóhannes 1:1.

11. Hvernig var fullkomið upphaf mannkynsins?

11 Í Biblíunni segir: „Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott.“ (1. Mósebók 1:31) Allt var fullkomið í Edengarðinum. Adam og Eva bjuggu í paradís. Hugur þeirra var fullkominn svo og líkaminn. Þau gátu átt gagnkvæm samskipti við skapara sinn. Og þau gátu eignast fullkomin börn með því að vera trúföst. Engin þörf hefði verið fyrir nýja himneska stjórn.

12, 13. Hvers vegna hefði Guð getað haft samband við fullkomið mannkyn þrátt fyrir fjölgun þess?

12 Hvernig gat Guð verið í sambandi við allt mannkynið þegar því fjölgaði? Hvernig er ekki með stjörnur himinsins? Þeim er raðað saman í eyjaklasa sem nefnast vetrarbrautir. Í sumum vetrarbrautum eru milljarðar stjarna, í öðrum um billjón. Vísindamenn áætla að það séu um 100 milljarðar vetrarbrauta í hinum sýnilega alheimi. En skaparinn segir: „Hefjið upp augu yðar til hæða og litist um: Hver hefir skapað stjörnurnar? Hann, sem leiðir út her þeirra með tölu og kallar þær allar með nafni. Sökum mikilleiks kraftar hans og af því að hann er voldugur að afli verður einskis þeirra vant.“ — Jesaja 40:26.

13 Þar sem Guð getur fylgst með öllum þessum himintunglum á hann vissulega í engum erfiðleikum með að fylgjast með mönnunum sem eru miklu færri. Þjónar hans í milljónatali snúa sér daglega í bæn til hans. Þessar bænir ná til Guðs á augabragði. Það hefði því verið vandalaust fyrir hann að eiga samskipti við alla menn. Hann hefði ekki þurft himneskt ríki til að fylgjast með þeim. Það er því stórkostleg ráðstöfun að hafa Jehóva sem stjórnanda, að hafa beinan aðgang að honum og eiga þá von að deyja aldrei en lifa að eilífu í paradís á jörð.

Það er ekki á valdi mannsins‘

14. Hvers vegna munu menn alltaf verða háðir stjórn Jehóva?

14 En mannkynið mun alltaf þurfa á stjórn Jehóva að halda, jafnvel þegar það verður fullkomið. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva skapaði ekki manninn með þeim hæfileika að geta verið óháður stjórn hans. Eins og Jeremía staðfesti gildir þetta lögmál um mennina: „Ég veit, [Jehóva], að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ (Jeremía 10:23, 24) Það væri heimska ef mennirnir álitu að þeir gætu stjórnað þjóðfélagi á heillavænlegan hátt án yfirstjórnar Jehóva. Það stríddi gegn eðlisgerð þeirra og leiddi örugglega til eigingirni, haturs, grimmdar, ofbeldis, ófriðar og dauða ef menn yrðu óháðir reglum Jehóva. „Einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ — Prédikarinn 8:9.

15. Hvaða afleiðingar hafði rangt val fyrstu foreldra okkar?

15 Til allrar óhamingju tóku fyrstu foreldrar okkar þá ákvörðun að hafna Guði sem stjórnanda og völdu að lifa óháð honum. Það varð til þess að Guð hætti að viðhalda fullkomleika þeirra. Nú voru þau eins og rafmagnstæki sem kippt hefur verið úr sambandi. Fyrr eða síðar drægi úr hraðanum þar til þau næmu staðar —  í andlátinu. Þau urðu eins og gallað snið og það ásigkomulag var það eina sem þau gátu látið ganga áfram til afkomendanna. (Rómverjabréfið 5:12) „Bjargið [Jehóva] — fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti. . . . Synir hans eru spilltir orðnir, blettur er á þeim, rangsnúin og rammspillt kynslóð.“ (5. Mósebók 32:4, 5) Að vísu voru Adam og Eva undir áhrifum uppreisnargjarnar andaveru sem síðar varð Satan en hugur þeirra var fullkominn og því hefðu þau getað vísað á bug rangri uppástungu hans. — 1. Mósebók 3:1-19; Jakobsbréfið 4:7.

16. Hvernig vitnar sagan um afleiðingar þess að vera óháður Guði?

16 Sagan vitnar óspart um afleiðingar þess að vera óháð Guði. Um þúsundir ára hafa þjóðirnar reynt alls konar stjórnarfar manna, hagkerfi og félagskerfi. Mannvonskan heldur engu að síður áfram að „magnast.“ (2. Tímóteusarbréf 3:13) Tuttugasta öldin færir sönnur á það. Henni fylgdi meira hatur og ofbeldi, ófriður, hungur, fátækt og þjáningar en nokkurn tíma áður í sögunni. Og fyrr eða síðar deyja allir menn hvað sem líður stöðugum framförum í læknisfræði. (Prédikarinn 9:5, 10) Menn hafa í svo ríkum mæli leyft sér að verða fórnardýr Satans og djöfla hans að Biblían kallar hann „guð þessarar aldar.“ — 2. Korintubréf 4:4.

Frjáls vilji

17. Hvernig átti að nota frjálsa viljann sem Guð gaf?

17 Af hverju leyfði Jehóva mönnunum að fara sínar eigin leiðir? Af því að hann skapaði þá með stórkostlegan eiginleika, frjálsan vilja, hæfileika til að velja. „Þar sem andi [Jehóva] er, þar er frelsi,“ sagði Páll postuli. (2. Korintubréf 3:17) Engan langar til að vera vélmenni, láta annan ákveða hvað hann eigi að segja og gera hverja sekúndu dagsins. En Jehóva krafðist að mennirnir notuðu hæfileikann til valfrelsis á ábyrgan hátt svo að þeir skildu viskuna í því að gera vilja hans og héldu áfram að vera þegnar hans. (Galatabréfið 5:13) Frelsið átti ekki að vera algert þar sem það leiddi til óstjórnar heldur átti að stýra því innan takmarka góðra meginreglna Guðs.

18. Hvað hefur Guð sýnt fram á með því að leyfa mönnum að nota frjálsan vilja?

18 Þegar Guð leyfði mönnunum að fara sínar eigin leiðir sýndi hann fram á í eitt skipti fyrir öll að við þörfnumst stjórnar hans. Stjórnarhættir hans, drottinvaldið, er eina rétta leiðin. Það leiðir til mestu hamingju, fullnægju og farsældar vegna þess að Jehóva gerði hugi okkar og líkama þannig úr garði að þeir störfuðu best þegar samræmis við lögmál hans er gætt. „Ég, [Jehóva] Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga.“ (Jesaja 48:17) Frjálst val innan marka lögmáls Guðs yrði ekki erfitt heldur leiddi til ánægjulegrar fjölbreytni í mat, heimilishaldi, listgreinum og tónlist. Ef rétt hefði verið farið með frjálsa viljann hefði lífið í paradís á jörð verið unaðslegt og síheillandi.

19. Hvað notar Guð til að koma á sáttum milli sín og mannanna?

19 En þar sem mennirnir tóku ranga ákvörðun, gerðust þeir fráhverfir Jehóva og urðu ófullkomnir, úrkynjaðir og dóu. Það þurfti því að endurleysa þá frá þessu dapurlega ástandi og veita þeim aftur sona- og dætraréttinn með viðeigandi sambandi við Guð. Guðsríki er verkfæri hans til að gera þetta og Jesús Kristur er endurlausnarinn. (Jóhannes 3:16) Þessi ráðstöfun verður til þess að iðrunarfullir menn, eins og glataði sonurinn í dæmisögu Jesú, verða teknir í sátt við Guð og viðurkenndir aftur sem börn hans. — Lúkas 15:11-24; Rómverjabréfið 8:21; 2. Korintubréf 6:18.

20. Hvernig uppfyllir Guðsríki tilgang Guðs?

20 Vilji Guðs nær örugglega fram að ganga á jörðinni. (Jesaja 14:24, 27; 55:11) Guð mun að fullu réttlæta (eða sanna) rétt sinn sem alvaldur okkar fyrir atbeina ríkis síns í höndum Krists. Guðsríki mun binda enda á stjórnir manna og djöfla á þessari jörð og stjórna frá himni í þúsund ár. (Rómverjabréfið 16:20; Opinberunarbókin 20:1-6) En hvernig verður sýnt fram á yfirburði stjórnarhátta Jehóva meðan á þeim tíma stendur? Og hvaða hlutverki gegnir Guðsríki eftir þúsund árin? Svörin við þessum spurningum fást í næstu grein.

Hvert er svarið?

• Hvert er stef Biblíunnar?

• Hverjir mynda hina nýju stjórn jarðar?

• Hvers vegna mun mönnum aldrei takast að stjórna farsællega óháðir Guði?

• Hvernig á að nota frjálsan vilja?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 23]

Í kennslu sinni lagði Jesús áherslu á stjórn Guðs fyrir atbeina Guðsríkis.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Vottar Jehóva leggja alls staðar megináherslu á Guðsríki í kennslu sinni.

[Mynd á blaðsíðu 27]

Sagan vitnar um slæmar afleiðingar þess að vera óháður Guði.

[Credit line]

Hermenn úr fyrri heimsstyrjöldinni: U.S. National Archives; fangabúðir: Oświęcim Museum; barn: UN PHOTO 186156/J. Isaac.