Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Styrjaldarsárin

Styrjaldarsárin

Styrjaldarsárin

„ÞAÐ er enginn sigurvegari í stríði,“ sagði fyrrverandi hermaður sem barðist í síðari heimsstyrjöldinni. „Það tapa allir.“ Margir geta tekið undir það. Herkostnaðurinn er hrikalegur og jafnt sigurvegarar sem hinir sigruðu þurfa að greiða ógurlegt gjald. Styrjaldarsárin standa gapandi eftir að vopnaskakinu linnir og milljónir manna halda áfram að þjást eftir stríð.

Og hvers eðlis eru þessi styrjaldarsár? Stríð geta höggvið stór skörð í raðir þjóða. Eftir sitja ótal ekkjur og munaðarleysingjar. Margir hinna eftirlifandi eru örkumla á sál og líkama. Milljónir manna eru bjargarlausar og oft landflótta. Getum við gert okkur í hugarlund hatrið og harminn sem hlýtur að sitja eftir í hjörtum þeirra sem eftir lifa?

Sár sem gróa ekki

Sárin, sem stríð skilur eftir sig í hjörtum fólks, gróa ekki þó að samið sé um vopnahlé, byssurnar þagni og hermenn haldi til síns heima. Djúpstæð beiskja getur setið í næstu kynslóðum þannig að sárin, sem ein styrjöld skilur eftir sig, eru stundum kveikja þeirrar næstu.

Tökum dæmi: Versalasamningurinn var undirritaður árið 1919 til að binda formlega enda á fyrri heimsstyrjöldina. En í samningnum voru ströng ákvæði um Þýskaland sem þýskum borgurum þóttu bera vott um harðneskju og hefnigirni. Alfræðibókin The Encyclopædia Britannica segir að Þjóðverjum hafi gramist mjög ákvæði samningsins og þau hafi „hvatt þá til að koma fram hefndum.“ Óánægja Þjóðverja með friðarsamninginn „var stökkpallur fyrir Hitler“ og ein af orsökum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Síðari heimsstyrjöldin hófst í Vestur-Evrópu og breiddist síðan út til Balkanskaga. Þau sár, sem þjóðernishópar þar á svæðinu veittu hver öðrum á fimmta áratugnum, áttu drjúgan þátt í stríðinu á Balkanskaga á þeim tíunda. „Vítahringur haturs og hefndar hefur ekki rofnað fram á okkar dag,“ sagði í þýska dagblaðinu Die Zeit.

Ef mannkynið á að geta búið saman í sátt og samlyndi þarf að græða styrjaldarsárin. Er einhver leið til þess? Hvað er hægt að gera til að eyða hatri og harmi? Hver getur grætt styrjaldarsárin?

[Mynd credit line á blaðsíðu 3]

U.S. Coast Guard photo; UN PHOTO 158297/J. Isaac