Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Uppbyggist í kærleika

Uppbyggist í kærleika

Uppbyggist í kærleika

„Elska skalt þú [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“ — MATTEUS 22:37.

1. (a) Hvað þarf kristinn maður að tileinka sér? (b) Hvaða eiginleiki er mikilvægastur og hvers vegna?

KRISTINN maður tileinkar sér margt til að vera dugandi þjónn orðsins. Orðskviðirnir leggja mikla áherslu á þekkingu, skilning og visku. (Orðskviðirnir 2:1-10) Páll postuli ræddi um nauðsyn sterkrar trúar og öruggrar vonar. (Rómverjabréfið 1:16, 17; Kólossubréfið 1:5; Hebreabréfið 10:39) Þolgæði og sjálfstjórn er líka mikils virði. (Postulasagan 24:25; Hebreabréfið 10:36) En eitt má ekki vanta því að það dregur úr gildi alls hins og getur jafnvel gert það einskis virði. Þetta er kærleikurinn. — 1. Korintubréf 13:1-3, 13.

2. Hvernig benti Jesús á mikilvægi kærleikans og hvaða spurningar vekur það?

2 Jesús benti á mikilvægi kærleikans og sagði: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Fyrst kærleikur er aðalsmerki sannkristins manns þurfum við að spyrja nokkurra spurninga. Hvað er kærleikur? Af hverju er hann svo mikilvægur að Jesús sagði hann einkenna lærisveina sína öðru fremur? Hvernig getum við þroskað með okkur kærleika? Að hverjum ættum við að beina honum? Við skulum leita svara við þessum spurningum.

Hvað er kærleikur?

3. Hvernig má lýsa kærleika og af hverju á bæði hugurinn og hjartað hlut að máli?

3 Kærleikur hefur verið skilgreindur sem ‚persónuleg væntumþykja eða djúp ástúð, sterk hrifning eða dálæti á öðrum.‘ Hann fær fólk til að gera öðrum gott og stundum að kosta miklu til. Kærleikur, eins og Biblían lýsir honum, er tengdur bæði huga og hjarta. Hugurinn eða vitsmunirnir eiga hlut að máli af því að maður er raunsær í kærleikanum. Hann horfist í augu við það að bæði hann og þeir sem hann elskar eru ekki aðeins aðlaðandi heldur einnig veikleikum háðir. Hugurinn segir kristnum manni að sýna fólki kærleika — stundum gagnstætt eðli sínu — af því að biblíulestur hefur kennt honum að Guð vill að hann geri það. (Matteus 5:44; 1. Korintubréf 16:14) En kærleikur á þó fyrst og fremst rætur í hjartanu. Sannur kærleikur, eins og Biblían lýsir honum, er aldrei byggður aðeins á rökhugsun og þekkingu. Hann er einlægur og ábyrgur. — 1. Pétursbréf 1:22.

4. Lýstu styrk kærleikans.

4 Eigingjörn manneskja getur sjaldan átt raunverulegt kærleikssamband við aðra manneskju af því að sá sem elskar er reiðubúinn að láta hagsmuni hins ganga fyrir sínum eigin. (Filippíbréfið 2:2-4) Sérstaklega er ‚sælla að gefa en þiggja‘ ef gjöfin er sprottin af kærleika. (Postulasagan 20:35) Kærleikur er sterkt band, sterkara en vinátta þó að þetta tvennt haldist oft í hendur. (Kólossubréfið 3:14) Ástarsamband hjóna er stundum kallað kærleikur en kærleikurinn, sem Biblían hvetur til að við þroskum með okkur, er endingarbetri en líkamlegt aðdráttarafl. Hjón, sem elska hvort annað, halda saman þó svo að líkamlegu sambandi sé ekki lengur til að dreifa sökum elli eða fötlunar.

Hinn ómissandi kærleikur

5. Af hverju þarf kristinn maður að sýna kærleika?

5 Af hverju þarf kristinn maður að sýna kærleika? Í fyrsta lagi af því að Jesús sagði fylgjendum sínum að elska hver annan. „Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður,“ sagði hann. „Þetta býð ég yður, að þér elskið hver annan.“ (Jóhannes 15:14, 17) Í öðru lagi er Jehóva persónugervingur kærleikans og dýrkendur hans eiga að líkja eftir honum. (Efesusbréfið 5:1; 1. Jóhannesarbréf 4:16) Biblían segir að þekking á Jehóva og Jesú sé forsenda eilífs lífs. Varla getum við sagst þekkja Guð ef við reynum ekki að líkjast honum. Jóhannes postuli sagði: „Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur.“ — 1. Jóhannesarbréf 4:8.

6. Hvernig getur kærleikurinn hjálpað okkur að halda jafnvægi?

6 Það er enn ein ástæða fyrir því að kærleikur er mikilvægur: Hann hjálpar okkur að finna jafnvægið milli hinna ólíku skyldna og gefur okkur viðeigandi hvöt til þess sem við gerum. Það er til dæmis mikilvægt að afla sér biblíuþekkingar jafnt og þétt. Hún er kristnum manni eins og matur. Hún hjálpar honum að ná þroska og hegða sér í samræmi við vilja Guðs. (Sálmur 119:105; Matteus 4:4; 2. Tímóteusarbréf 3:15, 16) En Páll sagði í viðvörunartón að ‚þekking blési menn upp en kærleikurinn byggði upp.‘ (1. Korintubréf 8:1) Það er ekkert að því að búa yfir nákvæmri þekkingu en vandinn er sá að við erum ófullkomin. (1. Mósebók 8:21) Þekking gæti blásið mann upp ef temprandi áhrif kærleikans væru ekki fyrir hendi, og komið honum til að halda að hann sé betri en aðrir. Það gerist ekki ef hann lætur stjórnast af kærleika. „Kærleikurinn . . . er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.“ (1. Korintubréf 13:4) Ef kristinn maður lætur kærleikann ráða ferðinni getur hann aflað sér mikillar þekkingar án þess að verða hrokafullur. Kærleikurinn gerir hann auðmjúkan og kemur í veg fyrir að hann langi til að láta á sér bera. — Sálmur 138:6; Jakobsbréfið 4:6.

7, 8. Hvernig er kærleikurinn hjálp til að einbeita sér að því sem máli skiptir?

7 Páll skrifaði Filippímönnum: „Þetta bið ég um, að elska yðar aukist enn þá meir og meir að þekkingu og allri dómgreind, svo að þér getið metið þá hluti rétt, sem máli skipta.“ (Filippíbréfið 1:9, 10) Kristinn kærleikur hjálpar okkur að hlýða þessari hvatningu og meta rétt það sem máli skiptir. Við skulum taka dæmi af orðum Páls til Tímóteusar: „Sækist einhver eftir [umsjónarstarfi], þá girnist hann fagurt hlutverk.“ (1. Tímóteusarbréf 3:1) Á þjónustuárinu 2000 fjölgaði söfnuðunum í heiminum um 1502 og urðu alls 91.487. Þess vegna er brýn þörf fyrir fleiri öldunga og þeir sem sækjast eftir slíkum sérréttindum eiga hrós skilið.

8 En þeir sem sækjast eftir umsjónarstarfi halda góðu jafnvægi ef þeir hafa hugfast hver tilgangurinn er. Aðalatriðið er ekki það að láta á sér bera eða fara með eitthvert vald. Safnaðaröldungar láta stjórnast af kærleika til Jehóva og bræðra sinna. Þeir sækjast ekki eftir frama eða áhrifum. Pétur postuli ráðlagði öldungum að varðveita rétt viðhorf og lagði svo áherslu á ‚lítillæti.‘ Hann hvatti alla í söfnuðinum til að ‚auðmýkja sig undir Guðs voldugu hönd.‘ (1. Pétursbréf 5:1-6) Sá sem sækist eftir umsjónarstarfi ætti að taka sér til fyrirmyndar ótal iðjusama og auðmjúka öldunga víða um heim sem eru söfnuðum sínum til blessunar. — Hebreabréfið 13:7.

Réttar hvatir hjálpa okkur að halda út

9. Af hverju hafa kristnir menn hugann við hina fyrirheitnu blessun Jehóva?

9 Það er önnur hlið á mikilvægi þess að láta stjórnast af kærleika. Biblían lofar að þeir sem ástunda guðrækni af kærleika uppskeri mikla blessun núna og enn meiri í framtíðinni. (1 Tímóteusarbréf 4:8) Þeir sem trúa þessum fyrirheitum og eru sannfærðir um að Jehóva „umbuni þeim, er hans leita,“ fá hjálp til að vera staðfastur í trúnni. (Hebreabréfið 11:6) Við þráum flestöll að sjá fyrirheit Guðs rætast og tökum undir orð Jóhannesar postula: „Amen. Kom þú, Drottinn Jesús!“ (Opinberunarbókin 22:20) Já, að hugleiða þá blessun, sem við eigum í vændum ef við erum trúföst, hjálpar okkur að vera þolgóð, á sama hátt og gleðin, sem beið Jesú, hjálpaði honum að vera þolgóður. — Hebreabréfið 12:1, 2.

10, 11. Hvernig getur kærleikur gert okkur þolgóð?

10 En hvað nú ef löngunin til að lifa í nýja heiminum er eina hvötin fyrir því að þjóna Jehóva? Þá getum við hæglega orðið óþolinmóð eða óánægð þegar róðurinn þyngist eða væntingar bregðast. Og þá erum við í verulegri hættu að berast afleiðis. (Hebreabréfið 2:1; 3:12) Páll minnist á Demas, fyrrverandi félaga sem yfirgaf hann „vegna þess að hann elskaði þennan heim.“ (2. Tímóteusarbréf 4:10) Þeir sem þjóna Guði af eigingjörnum hvötum eru í sömu hættu. Þeir gætu hrifist af ýmsum skynditækifærum, sem bjóðast í heiminum, og hætt að vilja færa fórnir núna í von um blessun síðar.

11 Það er eðlilegt að vilja sjá vonir rætast og þrengingar taka enda, en kærleikurinn byggir upp jákvætt mat á því sem á að skipta mestu máli í lífinu. Það er vilji Jehóva en ekki okkar sem er aðalatriðið. (Lúkas 22:41, 42) Já, kærleikurinn byggir upp. Hann gerir okkur þolinmóð svo að við erum ánægð með hverja þá blessun sem Guð veitir, og bíðum hans í trausti þess að hann gefi okkur í fyllingu tímans allt sem hann hefur lofað — og meira til. (Sálmur 145:16; 2. Korintubréf 12:8, 9) En þangað til það gerist hjálpar kærleikurinn okkur að þjóna Jehóva í óeigingirni af því að „kærleikurinn . . . leitar ekki síns eigin.“ — 1. Korintubréf 13:4, 5.

Hverja eiga kristnir menn að elska?

12. Hverja eigum við að elska að sögn Jesú?

12 Jesús setti fram almenna reglu um það hverja kristnir menn eiga að elska. Hann vitnaði í tvo staði í lögmálinu og sagði: „Elska skalt þú [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum,“ og: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ — Matteus 22:37-39.

13. Hvernig getum við lært að elska Jehóva þótt við sjáum hann ekki?

13 Orð Jesú bera með sér að við eigum fyrst og fremst að elska Jehóva. En við fæðumst ekki með fullþroska kærleika til hans heldur þurfum við að rækta hann. Við hrifumst af Jehóva þegar okkur var fyrst sagt frá honum. Smám saman fræddumst við um það hvernig hann bjó jörðina undir ábúð manna. (1. Mósebók 2:5-23) Við kynntumst því hvernig hann kom fram við mannkynið og hvernig hann yfirgaf það ekki þegar syndin hélt innreið sína heldur gerði ráðstafanir til að endurleysa okkur. (1. Mósebók 3:1-5, 15) Hann var góðviljaður við trúfasta menn og gaf að síðustu einkason sinn til að hægt væri að fyrirgefa syndir okkar. (Jóhannes 3:16, 36) Með vaxandi þekkingu fengum við meiri mætur á Jehóva. (Jesaja 25:1) Davíð konungur sagðist elska Jehóva fyrir ást hans og umhyggju. (Sálmur 116:1-9) Jehóva annast okkur, leiðbeinir, styrkir og hvetur. Því meira sem við lærum um hann, þeim mun vænna þykir okkur um hann. — Sálmur 31:24; Sefanía 3:17; Rómverjabréfið 8:28.

Hvernig getum við sýnt kærleika okkar?

14. Hvernig getum við sýnt að kærleikur okkar til Jehóva er ósvikinn?

14 Margir segjast reyndar elska Guð en verkin segja annað. Hvernig getum við verið viss um að við elskum Jehóva í alvöru? Við getum talað við hann í bæn og sagt honum hvernig okkur er innanbrjósts. Og við getum sýnt kærleikann í verki. Jóhannes postuli sagði: „Hver sem varðveitir orð [Guðs], í honum er sannarlega kærleikur til Guðs orðinn fullkominn. Af því þekkjum vér, að vér erum í honum.“ (1. Jóhannesarbréf 2:5; 5:3) Orð Guðs segir meðal annars að við eigum að umgangast hvert annað og vera siðferðilega hrein. Við forðumst hræsni, erum sannsögul og hrein í hugsun. (2. Korintubréf 7:1; Efesusbréfið 4:15; 1. Tímóteusarbréf 1:5; Hebreabréfið 10:23-25) Við sýnum kærleika með því að hjálpa þeim sem þurfandi eru. (1. Jóhannesarbréf 3:17, 18) Og við erum óðfús að segja öðrum frá Jehóva, meðal annars með því að taka þátt í boðun fagnaðarerindisins um ríkið. (Matteus 24:14; Rómverjabréfið 10:10) Við sýnum að kærleikur okkar til Jehóva er ósvikinn með því að hlýða orði hans í þessum efnum.

15, 16. Hvernig tjáðu margir kærleika sinn til Jehóva á síðasta ári?

15 Kærleikur til Jehóva auðveldar fólki að taka réttar ákvarðanir. Á síðasta ári sýndu 288.907 einstaklingar kærleika sinn til hans með því að vígjast honum og tákna það með niðurdýfingarskírn. (Matteus 28:19, 20) Vígsla þeirra var þýðingarmikil af því að hún var til marks um breytingu á lífi þeirra. Gazmend var einn af fremstu körfuboltastjörnum Albaníu. Hann kynnti sér Biblíuna um nokkurra ára skeið ásamt eiginkonu sinni og þau hjónin urðu að lokum boðberar þó svo að ýmis ljón væru í veginum. Gazmend lét skírast á síðasta þjónustuári en alls voru 366 skírðir í Albaníu það ár. Í blaðagrein um hann sagði: „Líf hans hefur tilgang og fjölskyldan hefur aldrei verið hamingjusamari. Núna hugsar hann ekki fyrst og fremst um það að fá sem mest út úr lífinu sjálfur heldur að hjálpa öðrum.“

16 Nýlega skírð systir vann hjá olíufélagi á Gvam er hún fékk freistandi tilboð. Hún hafði klifið metorðastigann um árabil og var nú boðin framkvæmdastjórastaða, fyrst kvenna í sögu fyrirtækisins. En nú var hún búin að vígjast Jehóva. Eftir að hafa rætt málið við eiginmann sinn afþakkaði hún boðið og réð sig í hlutastarf svo að hún gæti stefnt að brautryðjandastarfi. Hún elskaði Jehóva svo að hún vildi heldur þjóna honum sem brautryðjandi en komast áfram í heiminum. Kærleikurinn til Jehóva fékk 805.205 þjóna hans um allan heim til að taka þátt í einhvers konar brautryðjandastarfi á þjónustuárinu 2000. Þannig sýndu þeir kærleikann og trúna í verki.

Að elska Jesú

17. Hvernig er Jesús góð fyrirmynd um kærleika?

17 Jesús er afbragðsdæmi um það að láta kærleikann ráða ferðinni. Hann elskaði bæði föður sinn og mannkynið áður en hann varð maður. Sem persónugervingur viskunnar sagði hann: „Þá stóð ég [Jehóva] við hlið sem verkstýra, og ég var yndi hans dag hvern, leikandi mér fyrir augliti hans alla tíma, leikandi mér á jarðarkringlu hans, og hafði yndi mitt af mannanna börnum.“ (Orðskviðirnir 8:30, 31) Kærleikur Jesú fékk hann til að yfirgefa himneskan bústað sinn og fæðast sem ómálga barn. Hann var alúðlegur og þolinmóður við auðmjúka og lítilláta og þoldi margt af hendi óvina Jehóva. Að síðustu dó hann fyrir allt mannkyn á kvalastaur. (Jóhannes 3:35; 14:30, 31; 15:12, 13; Filippíbréfið 2:5-11) Hann er góð fyrirmynd um að gera hlutina af réttum hvötum.

18. (a) Hvernig þroskum við með okkur kærleika til Jesú? (b) Hvernig sýnum við að við elskum Jesú?

18 Réttsinnaðir menn fá ást á Jesú þegar þeir lesa frásagnir guðspjallanna af lífi hans og íhuga alla blessunina sem trúfesti hans hefur veitt þeim. Við erum eins og þeir sem Pétur ávarpaði í bréfi sínu er hann sagði: „Þér hafið ekki séð [Jesú], en elskið hann þó.“ (1. Pétursbréf 1:8) Við sýnum honum kærleika okkar með því að iðka trú á hann og líkja eftir fórnfýsi hans. (1. Korintubréf 11:1; 1. Þessaloníkubréf 1:6; 1. Pétursbréf 2:21-25) Hin árlega minningarhátíð um dauða Jesú var haldin 19. apríl 2000. Þá komu saman 14.872.086 manns og minntust hins mikla kærleiksverks sem hann vann. Og það er mjög hvetjandi til þess að vita að svona margir skuli hafa áhuga á hjálpræði sem veitist vegna fórnar Jesú. Kærleikur Jehóva og Jesú til okkar og kærleikur okkar til þeirra er sannarlega uppbyggjandi.

19. Hvaða spurningum er svarað í greininni á eftir?

19 Jesús sagði að við ættum að elska Jehóva af öllu hjarta, sálu, huga og mætti, en við eigum líka að elska náungann eins og sjálfa okkur. (Markús 12:29-31) Hver er náungi okkar? Og hvernig getur náungakærleikur hjálpað okkur að viðhalda góðu jafnvægi og réttum hvötum? Þessum spurningum er svarað í greininni á eftir.

Manstu?

• Af hverju er kærleikur mikilvægur?

• Hvernig getum við lært að elska Jehóva?

• Hvernig sýnum við með breytni okkar að við elskum Jehóva?

• Hvernig sýnum við kærleika okkar til Jesú?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 10]

Kærleikur hjálpar okkur að bíða þolinmóð eftir lausn.

[Mynd á blaðsíðu 12]

Hin mikla fórn Jesú vekur kærleika til hans.