Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Elskarðu áminningar Jehóva?

Elskarðu áminningar Jehóva?

Elskarðu áminningar Jehóva?

„Sál mín hefur varðveitt áminningar þínar og ég elska þær mjög.“ — SÁLMUR 119:167, NW.

1. Hvar er minnst margsinnis á áminningar Jehóva?

JEHÓVA vill að fólk sitt sé hamingjusamt. Til að vera það þurfum við auðvitað að framganga í lögmáli hans og hlýða fyrirmælum hans. Þess vegna gefur hann okkur áminningar. Þær eru nefndar margsinnis í Ritningunni, ekki síst í Sálmi 119 sem hugsanlegt er að Hiskía Júdaprins hafi ort á unga aldri. Þessi fagri sálmur hefst með orðunum: „Sælir eru þeir sem breyta grandvarlega, þeir er fram ganga í lögmáli [Jehóva]. Sælir eru þeir er halda reglur [„áminningar,“ NW] hans, þeir er leita hans af öllu hjarta“ — Sálmur 119:1, 2.

2. Hvernig eru áminningar Guðs tengdar hamingju?

2 Við ‚framgöngum í lögmáli Jehóva‘ með því að byggja upp nákvæma þekkingu á orði hans og fara eftir því. En við erum ófullkomin svo að það þarf að minna okkur á það. Hebreska orðið, sem þýtt er „áminningar,“ gefur til kynna að Guð kalli lög sín, fyrirmæli, reglur, boðorð og ákvæði fram í huga okkar. (Matteus 10:18-20) Við þurfum að virða þessar áminningar til að vera hamingjusöm af því að þær vara okkur við andlegum tálgryfjum sem eru ávísun á ógæfu og sorg.

Virtu áminningar Jehóva

3. Hverju getum við treyst miðað við Sálm 119:60, 61?

3 Áminningar Guðs voru sálmaritaranum kærar og hann söng: „Ég hefi flýtt mér og eigi tafið að varðveita boð þín. Snörur óguðlegra lykja um mig, en lögmáli þínu hefi ég eigi gleymt.“ (Sálmur 119:60, 61) Áminningar Jehóva hjálpa okkur að þrauka í ofsóknum af því að við treystum að faðir okkar á himnum geti skorið sundur snörurnar sem óvinirnir herða að okkur. Hann losar okkur úr þeim þegar það er tímabært svo að við getum haldið áfram að boða Guðsríki. — Markús 13:10.

4. Hvernig eigum við að bregðast við áminningum Jehóva?

4 Jehóva leiðréttir okkur stundum með áminningum sínum. Verum alltaf móttækileg fyrir því eins og sálmaritarinn var. Hann sagði í bæn „[Áminningar] þínar eru unun mín, . . . þess vegna elska ég [áminningar] þínar.“ (Sálmur 119:24, 119) Við höfum fleiri áminningar frá Guði en sálmaritarinn. Í Grísku ritningunum eru hundruð tilvitnana í þær hebresku og þær minna okkur bæði á fyrirmæli Jehóva til þjóna sinna undir lögmálinu og á tilgang hans með kristna söfnuðinn. Við erum þakklát þegar Guð telur rétt að minna okkur á eitthvað sem tengist lögum hans. Og með því að ‚halda fast við áminningar Jehóva‘ forðumst við tálbeitur syndarinnar sem hann hefur vanþóknun á og geta rænt okkur hamingjunni. — Sálmur 119:31.

5. Hvernig getum við tekið ástfóstri við áminningar Jehóva?

5 Hversu vænt ætti okkur að þykja um áminningar Jehóva? „Sál mín hefur varðveitt áminningar þínar og ég elska þær mjög,“ söng sálmaritarinn. (Sálmur 119:167, NW) Við tökum ástfóstri við áminningar Jehóva ef við lítum á þær sem hvatningu frá umhyggjusömum föður. (1. Pétursbréf 5:6, 7) Við þurfum að fá áminningar frá honum og lærum að elska þær þegar við sjáum hve gagnlegar þær eru.

Hvers vegna við þörfnumst áminninga Guðs

6. Nefndu eina ástæðu fyrir því að áminningar Guðs séu nauðsynlegar. Hvað hjálpar okkur að muna eftir þeim?

6 Ein ástæðan fyrir því að við þurfum að fá áminningar frá Guði er sú að við erum gleymin. Alfræðibókin The World Book Encyclopedia segir: „Almennt gleymir fólk meiru með tímanum. . . . Sennilega hefurðu orðið fyrir því að geta ekki munað nafn eða eitthvað annað sem var komið fram á varir þínar. . . . Slík stundargleymska er algeng . . . Vísindamenn líkja því við það að reyna að finna hlut sem maður hefur sett inn í herbergi þar sem allt er á rúi og stúi. . . . Vilji maður vera öruggur um að muna eitthvað er gott að rifja það upp löngu eftir að maður heldur sig gjörþekkja það.“ Rækilegt nám og endurtekning er góð leið til að muna eftir áminningum Guðs og fara eftir þeim sér til góðs.

7. Af hverju eru áminningar Guðs nauðsynlegri en nokkru sinni fyrr?

7 Við þörfnumst áminninga Jehóva meira en nokkru sinni fyrr vegna þess að illskan hefur aldrei verið meiri í allri mannkynssögunni. Ef við gefum gaum að áminningum Guðs erum við nógu hyggin til að láta heiminn ekki tæla okkur út á illskubraut. „Ég er hyggnari en allir kennarar mínir, því að ég íhuga reglur þínar,“ sagði sálmaritarinn. „Ég er skynsamari en öldungar, því að ég held fyrirmæli þín. Ég held fæti mínum frá hverjum vondum vegi til þess að gæta orðs þíns.“ (Sálmur 119:99-101) Með því að varðveita reglur og áminningar Guðs höldum við okkur frá „hverjum vondum vegi“ og verðum ekki eins og fjöldinn sem er ‚blindaður og fjarlægur lífi Guðs.‘ — Efesusbréfið 4:17-19.

8. Hvað getum við gert til að standast trúarprófraunir?

8 Við þurfum líka að fá áminningar frá Guði af því að þær styrkja okkur svo að við getum staðist hinar mörgu prófraunir endalokatímans. (Daníel 12:4) Við yrðum ‚gleymnir heyrendur‘ ef við fengjum þær ekki. (Jakobsbréfið 1:25) En ef við erum ástundunarsöm við einkanám og safnaðarnám í Biblíunni og notum rit ‚hins trúa og hyggna þjóns‘ fáum við drjúga hjálp til að standast trúarprófraunir. (Matteus 24:45-47) Þá sjáum við hvað við þurfum að gera til að þóknast Jehóva þegar við lendum í aðstöðu þar sem reynir á trúna.

Samkomurnar eru mikilvægar

9. Hverjir eru ‚gjafir í mönnum‘ og hvernig styðja þeir trúbræður sína?

9 Áminningaþörfinni er að nokkru leyti fullnægt á safnaðarsamkomum þar sem útnefndir bræður sjá um fræðslu. Páll postuli skrifaði að Jesús hafi ‚stigið upp til hæða, hertekið fanga og gefið gjafir í mönnum.‘ Síðan bætti hann við: „Og frá honum er sú gjöf komin, að sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar. Þeir eiga að fullkomna hina heilögu og láta þeim þjónustu í té, líkama Krists til uppbyggingar.“ (Efesusbréfið 4:8, 11, 12, sjá NW) Við megum vera þakklát fyrir þessar ‚gjafir í mönnum,‘ safnaðaröldungana, sem benda okkur á áminningar Jehóva þegar við söfnumst saman til tilbeiðslu.

10. Hver er kjarninn í Hebreabréfinu 10:24, 25?

10 Ef við kunnum að meta ráðstafanir Guðs sækjum við allar fimm safnaðarsamkomurnar í hverri viku. Páll leggur áherslu á að við þurfum að safnast reglulega saman. Hann skrifaði: „Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.“ — Hebreabréfið 10:24, 25.

11. Hvaða gagn höfum við af hinum vikulegu safnaðarsamkomum?

11 Gerirðu þér grein fyrir því gagni sem við höfum af samkomunum? Hið vikulega Varðturnsnám styrkir trúna, hjálpar okkur að fylgja áminningum Jehóva og herðir okkur gegn „anda heimsins.“ (1. Korintubréf 2:12; Postulasagan 15:31) Opinberi fyrirlesturinn fræðir um orð Guðs, þar á meðal áminningar Jehóva og „orð eilífs lífs“ sem Jesús flutti. (Jóhannes 6:68; 7:46; Matteus 5:1–7:29) Í Guðveldisskólanum skerpum við kennslugáfuna. Á þjónustusamkomunni fáum við ómetanlega kennslu í því að kynna fagnaðarerindið hús úr húsi og í endurheimsóknum, að stjórna biblíunámskeiðum og í öðru sem snýr að boðun og kennslu. Í bóknámshópunum, sem eru smærri, er gott tækifæri til að tjá sig og ræða um áminningar Guðs.

12, 13. Hvernig hafa þjónar Guðs í Asíulandi sýnt að þeir kunna að meta kristnar samkomur?

12 Á safnaðarsamkomum erum við minnt reglulega á boðorð Guðs og þær halda okkur andlega sterkum gegnum hernaðarátök, efnahagserfiðleika og aðrar trúarprófraunir. Um 70 vottar í Asíulandi fundu greinilega fyrir því hve mikilvægar samkomurnar eru þegar þeir neyddust til að flýja heimili sín og hafast við langt úti í skógi. Þeir voru staðráðnir í að halda áfram að sækja samkomur reglulega og sneru því aftur til bæjarins, sem var illa útleikinn eftir stríðsátök, tóku niður það sem eftir var af ríkissalnum og endurbyggðu hann í skóginum.

13 Þrátt fyrir áralöng hernaðarátök hefur ekki dregið úr kostgæfni fólks Jehóva annars staðar í landinu. Aðspurður hvað hafi öðru fremur viðhaldið sameiningu bræðranna svaraði öldungur á svæðinu: „Á 19 árum höfum við aldrei látið samkomu falla niður. Stundum komust sumir af bræðrunum ekki á samkomur vegna sprengjuárása eða annarra erfiðleika en við höfum aldrei fellt niður samkomu.“ Þessir kæru bræður og systur gera sér grein fyrir því hve mikilvægt það er að ‚vanrækja ekki safnaðarsamkomur.‘

14. Hvað getum við lært af Önnu spákonu?

14 Anna var 84 ára ekkja sem „vék eigi úr helgidóminum.“ Þar af leiðandi var hún viðstödd þegar komið var með Jesú þangað skömmu eftir fæðingu. (Lúkas 2:36-38) Ertu staðráðinn í að missa ekki af samkomum? Reynirðu þitt besta til að vera viðstaddur alla dagskrána á svæðismótum og landsmótum? Hin andlega fræðsla á þessum samkomum er glöggt merki þess að faðir okkar á himnum láti sér annt um fólk sitt. (Jesaja 40:11) Samkomurnar eru gleðigjafi og við sýnum að við kunnum að meta áminningar Jehóva með því að sækja þær. — Nehemíabók 8:5-8, 12.

Áminningar Jehóva aðgreina okkur

15, 16. Hvaða áhrif hefur það á breytni okkar að varðveita áminningar Jehóva?

15 Að varðveita áminningar Guðs aðgreinir okkur frá þessum illa heimi. Til dæmis kemur það í veg fyrir að við stundum siðleysi. (5. Mósebók 5:18; Orðskviðirnir 6:29-35; Hebreabréfið 13:4) Við getum staðist freistingar til að ljúga, stela og vera óheiðarleg með því að hlýða áminningum Guðs. (2. Mósebók 20:15, 16; 3. Mósebók 19:11; Orðskviðirnir 30:7-9; Efesusbréfið 4:25, 28; Hebreabréfið 13:18) Ef við varðveitum áminningar hans reynum við ekki að hefna okkar og við berum hvorki kala til annarra né rægjum þá. — 3. Mósebók 19:16, 18; Sálmur 15:1, 3.

16 Ef við hlýðum áminningum Guðs erum við helguð og aðgreind fyrir þjónustu hans. Og það er ákaflega mikilvægt að vera aðgreind frá þessum heimi. Jesús bað fyrir fylgjendum sínum síðustu nóttina sem hann var maður: „Ég hef gefið þeim orð þitt, og heimurinn hataði þá, af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur.“ (Jóhannes 17:14-17) Höldum áfram að láta okkur annt um orð Guðs sem heldur okkur aðgreindum til helgiþjónustu við hann.

17. Hvað myndi gerast ef við sinntum ekki áminningum Guðs og hvað eigum við að gera?

17 Við viljum vera boðlegir þjónar Jehóva. En ef við sinntum ekki áminningum hans gæti andi heimsins yfirbugað okkur, og nóg er af honum í ræðu, riti, skemmtiefni og hátterni heimsins. Og ekki viljum við verða fégráðug, raupsöm, hrokafull, vanþakklát, vanheilög, grimm, framhleypin, ofmetnaðarfull né elska munaðarlífið meira en Guð — svo nefnd séu aðeins fáein af einkennum þeirra sem eru fjarlægir Guði. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Þar sem langt er liðið á síðustu daga þessa illa heimskerfis skulum við halda áfram að biðja Guð um hjálp hans til að virða áminningar hans og ‚gefa gaum að orði hans.‘ — Sálmur 119:9.

18. Hvað gerum við ef við varðveitum áminningar Guðs?

18 Áminningar Jehóva eru ekki aðeins fólgnar í því að vara okkur við því sem við megum ekki gera. Þær fá okkur líka til að láta hendur standa fram úr ermum, hvetja okkur til að treysta Jehóva skilyrðislaust og elska hann af öllu hjarta, sálu, huga og mætti. (5. Mósebók 6:5; Sálmur 4:5; Orðskviðirnir 3:5, 6; Matteus 22:37; Markús 12:30) Áminningar Guðs hvetja okkur einnig til að elska náungann. (3. Mósebók 19:18; Matteus 22:39) Við sýnum einkum kærleika til Guðs og náungans með því að gera vilja hans og miðla öðrum af hinni lífgandi ‚þekkingu á Guði.‘ — Orðskviðirnir 2:1-5.

Að varðveita áminningar Jehóva gefur líf

19. Hvernig getum við sýnt öðrum að það sé raunhæft og gagnlegt að hlýða áminningum Jehóva?

19 Með því að virða áminningar Jehóva og hjálpa öðrum til þess líka björgum við sjálfum okkur og áheyrendum okkar. (1. Tímóteusarbréf 4:16) Hvernig getum við sýnt öðrum fram á að það sé bæði raunhæft og gagnlegt að hlýða áminningum Jehóva? Með því að fara sjálf eftir meginreglum Biblíunnar á öllum sviðum lífsins. Þeir sem ‚hneigjast til eilífs lífs‘ sjá þá lifandi dæmi þess að sú lífsstefna, sem orð Guðs markar, er sú besta. (Postulasagan 13:48, NW) Þeir sjá að ‚Guð er sannarlega hjá okkur‘ og finna hjá sér hvöt til að tilbiðja alvaldan Drottin Jehóva með okkur. — 1. Korintubréf 14:24, 25.

20, 21. Hvað gera áminningar Guðs og andi fyrir okkur?

20 Ef við höldum áfram biblíunámi, förum eftir því sem við lærum og notfærum okkur andlegar ráðstafanir Jehóva til hins ítrasta verður það til þess að við elskum áminningar hans mjög. Ef við förum eftir þessum áminningum hjálpa þær okkur að íklæðast „hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.“ (Efesusbréfið 4:20-24) Áminningar Jehóva og heilagur andi gera okkur kleift að sýna kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðmennsku, trú, mildi og sjálfstjórn — gerólíkt heiminum sem er á valdi Satans. (Galatabréfið 5:22, 23; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Við megum því vera þakklát fyrir að öldungar safnaðarins skuli minna okkur á kröfur Jehóva og að við skulum vera minnt á þær í einkabiblíunámi, á samkomum og mótum.

21 Að virða áminningar Jehóva veldur því að við getum jafnvel fagnað þegar við þjáumst vegna réttlætisins. (Lúkas 6:22, 23) Við treystum að hann bjargi okkur úr sérhverri hættu, og slíkt traust er sérlega mikilvægt núna þegar allar þjóðir eru að safnast saman til „stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda“ við Harmagedón. — Opinberunarbókin 16:14-16.

22. Hvernig ættum við að vera staðráðin í að bregðast við áminningum Jehóva?

22 Til að hljóta eilíft líf, sem er óverðskulduð gjöf, verðum við að elska áminningar Jehóva innilega og varðveita þær af öllu hjarta. Hugsum eins og sálmaritarinn sem söng: „[Áminningar] þínar eru réttlæti um eilífð, veit mér skyn, að ég megi lifa.“ (Sálmur 119:144) Og sýnum sömu einbeitni og fram kemur í orðum hans: „Ég ákalla þig [Jehóva], hjálpa þú mér, að ég megi varðveita [áminningar] þínar.“ (Sálmur 119:146) Já, sönnum í orði og verki að við elskum áminningar Jehóva mjög.

Hvert er svarið?

• Hvernig leit sálmaritarinn á áminningar Jehóva?

• Af hverju þurfum við að fá áminningar frá Guði?

• Hvaða hlutverki gegna samkomurnar í sambandi við áminningar Guðs?

• Hvernig aðgreina áminningar Jehóva okkur frá heiminum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

Sálmaritarinn elskaði áminningar Jehóva mjög.

[Myndir á blaðsíðu 17]

Líkirðu eftir Önnu og reynir að missa aldrei af samkomu?

[Mynd á blaðsíðu 18]

Með því að hlýða áminningum Jehóva erum við hrein og hæf til þjónustu hans.