Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hverjir eru þjónar Guðs nú á tímum?

Hverjir eru þjónar Guðs nú á tímum?

Hverjir eru þjónar Guðs nú á tímum?

„Hæfileiki vor [er] frá Guði, sem hefur gjört oss hæfa til að vera þjóna nýs sáttmála.“ — 2. KORINTUBRÉF 3:5, 6.

1, 2. Hvaða ábyrgð höfðu allir kristnir menn á fyrstu öld og hvernig breyttist það?

Á FYRSTU öld okkar tímatals hvíldi sú mikla ábyrgð — eða skylda — á kristnum mönnum að boða fagnaðarerindið. Þeir voru allir smurðir og voru þjónar nýja sáttmálans. Sumir höfðu með höndum önnur ábyrgðarstörf svo sem kennslu í söfnuðinum. (1. Korintubréf 12:27-29; Efesusbréfið 4:11) Foreldrar báru mikla fjölskylduábyrgð. (Kólossubréfið 3:18-21) En allir tóku þátt í hinu þýðingarmikla og nauðsynlega boðunarstarfi. Kristnu ritningarnar notuðu frumgríska orðið diakonia — þjónusta — um þessa ábyrgð. — Kólossubréfið 4:17, Biblían 1859.

2 En þetta breyttist með tímanum og hin svokallaða klerkastétt varð til sem eignaði sér þau sérréttindi að boða trúna. (Postulasagan 20:30) Klerkastéttin var aðeins lítill hluti þeirra sem töldust kristnir. Meirihlutinn nefndist leikmenn. Leikmönnunum, sem flestir eru óvirkir áheyrendur en ekki boðendur, hefur verið kennt að þeirra skylda sé meðal annars að halda klerkastéttinni uppi.

3, 4. (a) Hvernig verða menn þjónar orðsins í kristna heiminum? (b) Hverjir kallast þjónar orðsins í kristna heiminum og hvers vegna er þetta ekki þannig hjá vottum Jehóva?

3 Klerkarnir segjast vera þjónar orðsins. * Þeir útskrifast úr háskólum eða prestaskólum í þeim tilgangi og eru síðan vígðir til prestsþjónustu. Bókin The International Standard Bible Encyclopedia segir: „‚Prestsvígsla‘ vísar venjulega til sérstakrar stöðu sem prestum er veitt með opinberri helgiathöfn og tilheyrandi áherslu á heimild til að boða orðið eða veita sakramenti eða hvorutveggja.“ Hver vígir presta? „Biskup sér alltaf um prestvígslu í þeim kirkjum sem hafa haldið í hefðbundin biskupsdæmi. Öldungaráð sér um prestvígslu í öldungakirkjunni,“ segir alfræðibókin The New Encyclopædia Britannica.

4 Kirkjur kristna heimsins hafa sett miklar skorður við því hverjir geti orðið þjónar orðsins. Það var ekki gert í frumkristna söfnuðinum svo að vottar Jehóva gera það ekki heldur.

Hverjir eru í raun og veru þjónar Guðs?

5. Hverjir eru þjónar orðsins samkvæmt Biblíunni?

5 Allir tilbiðjendur Jehóva — jarðneskir sem himneskir — eru þjónar samkvæmt Biblíunni. Englar þjónuðu Jesú. (Matteus 4:11; 26:53; Lúkas 22:43) Englar eru líka „þjónustubundnir andar, útsendir í þeirra þarfir, sem hjálpræðið eiga að erfa.“ (Hebreabréfið 1:14; Matteus 18:10) Jesús var þjónn. Hann sagði: „Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna.“ (Matteus 20:28; Rómverjabréfið 15:8) Því er ekki að undra að fylgjendur Jesú, sem áttu að „feta í hans fótspor,“ eigi líka að vera þjónar. — 1. Pétursbréf 2:21.

6. Hvernig gaf Jesús til kynna að lærisveinar hans ættu að vera þjónar?

6 Stuttu áður en Jesús steig upp til himna sagði hann við lærisveina sína: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Lærisveinar Jesú áttu að gera menn að lærisveinum — vera þjónar orðsins. Nýir lærisveinar áttu að halda allt það sem Jesús hafði boðið þeim, þar á meðal boðið um að fara og gera menn að lærisveinum. Sannir lærisveinar Jesú Krists — karlar og konur, börn og fullorðnir — áttu að vera þjónar orðsins. — Jóel 3:1, 2.

7, 8. (a) Hvaða ritningarstaður sýnir fram á að allir sannkristnir menn eru þjónar orðisins? (b) Hvaða spurningar vakna í sambandi við vígslu þjóna orðsins?

7 Þess vegna komu allir lærisveinar Jesú saman á hvítasunnudeginum árið 33, bæði karlar og konur, og sögðu frá ‚stórmerkjum Guðs.‘ (Postulasagan 2:1-11) Auk þess skrifaði Páll postuli: „Með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis.“ (Rómverjabréfið 10:10) Hann beindi ekki orðum sínum eingöngu til fámennrar klerkastéttar heldur til ‚allra Guðs elskuðu í Róm.‘ (Rómverjabréfið 1:1, 7) Sömuleiðis áttu allir ‚hinir heilögu í Efesus, þeir sem trúðu á Krist Jesú‘ að vera „skóaðir á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins.“ (Efesusbréfið 1:1; 6:15) Og allir áttu að ‚halda fast við játningu vonar sinnar án þess að hvika, því að trúr er sá, sem fyrirheitið hefur gefið‘ eins og hvatt er til í Hebreabréfinu. — Hebreabréfið 10:23.

8 Hvenær verða menn þjónar orðsins? Með öðrum orðum, hvenær fer vígslan fram? Og hver framkvæmir hana?

Hvenær verða menn vígðir þjónar?

9. Hvenær var Jesús vígður og hver vígði hann?

9 Jesús Kristur er dæmi um það hvenær menn eru vígðir og hver framkvæmir vígsluna. Jesús var hvorki með skírteini upp á það að hann væri vígður né prófgráðu frá einhverjum prestaskóla til að sanna að hann væri þjónn orðsins. Hann hafði ekki heldur hlotið vígslu hjá manni. Hvers vegna getum við þá sagt að hann hafi verið þjónn orðsins? Vegna þess að innblásin orð Jesaja rættust á honum: „Andi [Jehóva] er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja . . . gleðilegan boðskap.“ (Lúkas 4:17-19; Jesaja 61:1) Þessi orð draga ekki dul á að Jesú var falið að boða gleðilegan boðskap. En hver fól honum það? Þar sem andi Jehóva smurði hann til starfsins er augljóst að Jehóva Guð vígði hann. Það gerðist við skírn hans þegar andi Jehóva steig niður yfir hann. (Lúkas 3:21, 22) Hann var vígður um leið og hann lét skírast.

10. Hver gerir kristinn þjón orðsins ‚hæfan‘?

10 En hvað um fylgjendur hans á fyrstu öldinni? Jehóva skipaði þá líka þjóna sína. Páll sagði: „Hæfileiki vor [er] frá Guði, sem hefur gjört oss hæfa til að vera þjónar nýs sáttmála.“ (2. Korintubréf 3:5, 6) Hvernig gerir Jehóva tilbiðjendur sína hæfa til að vera þjónar? Tökum Tímóteus sem dæmi en Páll kallaði hann „aðstoðarmann [„þjón,“ NW] Guðs við fagnaðarerindið um Krist.“ — 1. Þessaloníkubréf 3:2.

11, 12. Hvernig gat Tímóteus tekið nægum framförum til að verða þjónn orðsins?

11 Eftirfarandi orðum var beint til Tímóteusar og við sjáum á þeim hvernig hann varð þjónn orðsins: „En halt þú stöðuglega við það, sem þú hefur numið og hefur fest trú á, þar eð þú veist af hverjum þú hefur numið það. Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú.“ (2. Tímóteusarbréf 3:14, 15) Trú Tímóteusar var byggð á biblíuþekkingu sem knúði hann til að prédika meðal almennings. Ætli það hafi verið nóg fyrir hann að lesa bara sjálfur? Nei, hann þurfti aðstoð til að öðlast nákvæma þekkingu á því sem hann las og andlegan skilning. (Kólossubréfið 1:9) Tímóteus hafði þannig „fest trú á“ það sem hann las. Þar eð hann hafði þekkt ritningarnar frá „blautu barnsbeini“ hljóta fyrstu kennarar hans að hafa verið móðir hans og amma þar sem faðir hans var greinilega ekki í trúnni. — 2. Tímóteusarbréf 1:5.

12 Fleira stuðlaði að því að Tímóteus varð þjónn orðsins. Til dæmis varð trú hans sterkari þegar hann hafði félagsskap við trúsystkini sín í söfnuðum í grenndinni. Hvernig vitum við það? ‚Bræðurnir í Lýstru og Íkóníum báru Tímóteusi gott orð‘ þegar Páll hitti hann í fyrsta sinn. (Postulasagan 16:2) Á þeim tíma skrifuðu ákveðnir bræður bréf til safnaðanna til að styrkja þá og umsjónarmenn uppbyggðu þá með heimsóknum. Þetta hjálpaði kristnum mönnum eins og Tímóteusi að taka andlegum framförum. — Postulasagan 15:22-32; 1. Pétursbréf 1:1.

13. Hvenær vígðist Tímóteus sem þjónn orðsins, og hvers vegna má segja að þar með hafi hann ekki hætt að taka andlegum framförum?

13 Í ljósi fyrirmæla Jesú í Matteusi 28:19, 20 hefur trú Tímóteusar örugglega knúið hann til að feta í fótspor Jesú og láta skírast. (Matteus 3:15-17; Hebreabréfið 10:5-9) Það var merki þess að Tímóteus hefði helgað sig Guði heilshugar. Hann varð þjónn orðsins þegar hann lét skírast. Upp frá því helgaði hann Guði líf sitt, krafta og eigur. Það var ‚heilög þjónusta‘ eða grundvallarþáttur tilbeiðslu hans. Tímóteus lét ekki þar við sitja heldur hélt áfram að taka andlegum framförum og varð þroskaður kristinn þjónn. Náin vinátta hans við þroskaða kristna bræður eins og Pál átti sinn þátt í því, svo og einkanám og ötult boðunarstarf. — 1. Tímóteusarbréf 4:14; 2. Tímóteusarbréf 2:2; Hebreabréfið 6:1.

14. Hvernig taka þeir sem ‚hneigjast til eilífs lífs‘ framförum nú á tímum til að geta orðið þjónar orðsins?

14 Kristnir þjónar vígjast á sama hátt á okkar tímum. Þeir sem ‚hneigjast til eilífs lífs‘ fá biblíunámsaðstoð svo að þeir geti lært um Guð og fyrirætlanir hans. (Postulasagan 13:48, NW) Þeir læra að fara eftir frumreglum Biblíunnar og að biðja til Guðs á markvissan hátt. (Sálmur 1:1-3; Orðskviðirnir 2:1-9; 1. Þessaloníkubréf 5:17, 18) Þeir umgangast aðra í söfnuðinum og nýta sér ráðstafanir hins ‚trúa og hyggna þjóns‘ og andlegu fæðuna sem hann lætur í té. (Matteus 24:45-48; Orðskviðirnir 13:20, 21; Hebreabréfið 10:23-26) Þannig taka þeir framförum með markvissu námi.

15. Hvað gerist þegar fólk lætur skírast? (Sjá einnig neðanmálsathugasemd.)

15 Þegar biblíunemandinn hefur þroskað með sér kærleika til Jehóva Guðs og sterka trú á lausnargjaldið kemur að því að hann langar til að vígja líf sitt himneskum föður sínum. (Jóhannes 14:1) Hann vígir sig í einkabæn og lætur síðan skírast til tákns um vígsluna. Skírnin er vígsluathöfn því að með henni verður hann vígður þjónn [diakonos] Guðs. Hann verður að aðgreina sig frá heiminum. (Jóhannes 17:16; Jakobsbréfið 4:4) Hann hefur boðið sig fram sem ‚lifandi, heilaga, Guði þóknanlega fórn‘ án nokkurra skilyrða. (Rómverjabréfið 12:1) * Hann er þjónn Guðs og fetar í fótspor Krists.

Hvað er kristin þjónusta?

16. Hvaða skyldum gegndi Tímóteus sem þjónn orðsins?

16 Hvað fólst í þjónustu Tímóteusar? Hann var ferðafélagi Páls og sá um sérstök verkefni. Og þegar hann varð öldungur lagði hann sig fram um að kenna og styrkja trúsystkini sín. En boðunar- og kennslustarfið var kjarni þjónustu hans eins og hjá Jesú og Páli. (Matteus 4:23; 1. Korintubréf 3:5) Páll sagði við Tímóteus: „En ver þú algáður í öllu, þol illt, gjör verk trúboða, fullna þjónustu þína.“ — 2. Tímóteusarbréf 4:5.

17, 18. (a) Hvaða þjónustu stunda kristnir menn? (b) Hve mikils virði er boðunarstarfið kristnum þjónum?

17 Sömu sögu er að segja um kristna þjóna nú á tímum. Þeir taka þátt í þjónustu í þágu almennings, prédikunarstarfi, benda öðrum á frelsun á grundvelli lausnarfórnar Jesú og kenna auðmjúku fólki að ákalla nafn Jehóva. (Postulasagan 2:21; 4:10-12; Rómverjabréfið 10:13) Þeir sýna fram á, með hjálp Biblíunnar, að Guðsríki er eina von mannkynsins og benda á að það sé jafnvel hægt að bæta hlutskipti sitt núna með því að lifa samkvæmt fumreglum Guðs. (Sálmur 15:1-5; Markús 13:10) En kristnir þjónar boða ekki kristilegar þjóðfélagsumbætur heldur kenna þeir að ‚guðhræðslan sé til allra hluta nytsamleg og hafi fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda.‘ — 1. Tímóteusarbréf 4:8.

18 Flestir þjónar orðsins hafa ýmsa aðra þjónustu með höndum. Margir hafa fjölskylduábyrgð. (Efesusbréfið 5:21–6:4) Öldungar og safnaðarþjónar gegna ýmsum skyldum innan safnaðarins. (1. Tímóteusarbréf 3:1, 12, 13; Títusarbréfið 1:5; Hebreabréfið 13:7) Margir aðstoða við ríkissalabyggingar. Aðrir starfa sem sjálfboðaliðar á Betelheimilum Varðturnsfélagsins. En undantekningarlaust taka allir kristnir þjónar þátt í að boða fagnaðarerindið. Þetta starf auðkennir þá sem ósvikna kristna þjóna.

Viðhorf kristinna þjóna

19, 20. Hvaða viðhorf verða kristnir þjónar að þroska með sér?

19 Flestir þjónar orðsins í kristna heiminum vænta sérstakrar virðingar og taka sér titla eins og „séra“ og „faðir.“ En kristnir þjónar vita að Jehóva einn verðskuldar lotningu. (1. Tímóteusarbréf 2:9, 10) Þeir fara aldrei fram á slíka lotningu og sækjast ekki heldur eftir sérstökum titlum. (Matteus 23:8-12 ) Þeir vita að grunnmerking orðsins diakonia er „þjónusta“ og sagnmynd þess er stundum notuð um persónulega þjónustu eins og að þjóna til borðs. (Lúkas 4:39; 17:8; Jóhannes 2:5) Merking orðsins er mun virðulegri þegar um hina kristnu þjónustu er að ræða, en samt sem áður merkir diakonos þjónn.

20 Kristnir menn hafa því enga ástæðu til að mikla sjálfa sig. Sannkristnir þjónar — þar á meðal þeir sem gegna mikilli ábyrgð innan safnaðarins — eru auðmjúkir þrælar. Jesú sagði: „Sá, sem mikill vill verða meðal yðar, [sé] þjónn yðar. Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé þræll yðar.“ (Matteus 20:26, 27) Til að sýna lærisveinum sínum hvaða viðhorf þeir ættu að þroska með sér þvoði Jesú fætur þeirra en það var starf lægst settu þrælanna. (Jóhannes 13:1-15) Hvílík auðmýkt! Þess vegna þjóna kristnir menn Jehóva Guði og Jesú Kristi auðmjúklega. (2. Korintubréf 6:4; 11:23) Þeir þjóna hver öðrum af lítillæti. Og þegar þeir boða fagnaðarerindið eru þeir að þjóna vantrúuðum nágrönnum sínum á óeigingjarnan hátt. — Rómverjabréfið 1:14, 15; Efesusbréfið 3:1-7.

Verið þolgóðir í þjónustunni

21. Hvernig var Páli launað þolgæði sitt í þjónustunni?

21 Páll þurfti að sýna þolgæði í þjónustunni. Hann sagði Kólossumönnum að hann hefði þurft að líða mikið til að flytja þeim fagnaðarerindið. (Kólossubréfið 1:24, 25) En vegna þolgæðis hans tóku margir við fagnaðarerindinu og urðu þjónar orðsins. Þeir voru getnir sem synir Guðs og bræður Jesú Krists og áttu fyrir sér að verða andaverur ásamt honum á himni. Það voru dýrleg laun fyrir þolgæði.

22, 23. (a) Hvers vegna þurfa kristnir þjónar nú á tímum á þolgæði að halda? (b) Hvaða dásamleg blessun fylgir kristnu þolgæði?

22 Sannir þjónar Guðs nú á tímum verða líka að sýna þolgæði. Margir eiga í daglegri baráttu við sjúkdóma eða við þrautir elliáranna. Foreldrar, sem margir hverjir eru einstæðir, leggja mikið á sig við barnauppeldið. Hugrökk skólabörn standast slæm áhrif umhverfisins. Margir kristnir menn þurfa að kljást við fjárhagserfiðleika. Og margir líða ofsóknir eða erfiðleika vegna hinna ‚örðugu tíða‘ sem nú standa yfir. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Já, næstum sex milljónir þjóna Jehóva geta nú tekið undir orð Páls postula: „Á allan hátt sýnum vér, að vér erum þjónar Guðs, með miklu þolgæði í þrengingum, í nauðum, í angist.“ (2. Korintubréf 6:4) Kristnir þjónar gefast ekki upp. Þeir eiga vissulega hrós skilið fyrir þolgæði sitt.

23 Ávextir þolgæðis eru dásamlegir, eins og líf Páls bar glöggt vitni um. Við getum varðveitt náið samband við Jehóva og glatt hjarta hans með því að sýna þolgæði. (Orðskviðirnir 27:11) Við styrkjum trú okkar og gerum menn að lærisveinum, og þar með stuðlum við að aukningu innan bræðrafélgsins. (1. Tímóteusarbréf 4:16) Jehóva hefur stutt þjóna sína og blessað boðunarstarf þeirra nú á hinum síðustu dögum. Og þar með hefur þeim síðustu af hinum 144.000 verið safnað saman og milljónir annarra manna hafa örugga von um eilíft líf í paradís á jörð. (Lúkas 23:43; Opinberunarbókin 14:1) Kristin þjónusta ber vott um miskunn Jehóva. (2. Korintubréf 4:1) Metum hana öll að verðleikum og verum þakklát fyrir að blessun hennar varir að eilífu. 

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Orðið „djákni,“ embættismaður kirkju, er dregið af gríska orðinu diakonos.

^ gr. 15 Enda þótt Rómverjabréfið 12:1 eigi sérstaklega við smurða kristna menn gildir frumreglan líka fyrir hina „aðra sauði.“ (Jóhannes 10:16) Þetta eru þeir sem „gengið hafa [Jehóva] á hönd til þess að þjóna honum og til þess að elska nafn [Jehóva], til þess að verða þjónar hans.“ — Jesaja 56:6.

Geturðu útskýrt?

• Hvaða ábyrgð hvíldi á öllum frumkristnum mönnum?

• Hver vígir kristna þjóna orðsins og hvenær?

• Hvers konar viðhorf ætti kristinn þjónn að þroska með sér?

• Hvers vegna á kristinn þjónn að sýna þolgæði í erfiðleikum?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 26, 27]

Tímóteusi var frá blautu barnsbeini kennt orð Guðs. Hann varð vígður þjónn orðsins þegar hann lét skírast.

[Mynd á blaðsíðu 28]

Skírnin er tákn um vígslu til Guðs og merkir að maður sé vígður þjónn orðsins.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Kristnir menn vilja þjóna öðrum.