Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva gefur þreyttum kraft

Jehóva gefur þreyttum kraft

Jehóva gefur þreyttum kraft

„[Jehóva] veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa.“ — JESAJA 40:29.

1. Lýstu orkunni sem býr í sköpunarverki Guðs.

JEHÓVA ræður yfir takmarkalausum krafti. Gríðarlegt afl er bundið í sköpunarverki hans. Atómið — frumeindin sem allt er gert úr — er svo smátt að í einum vatnsdropa eru eitt hundrað milljarðar milljarða. * Lífið á jörðinni á allt sitt undir þeirri orku sem myndast við kjarnahvörf í sólinni. En hversu mikla sólarorku þarf til að viðhalda lífinu á jörðinni? Aðeins fáeinir milljörðustu hlutar þeirrar orku, sem sólin framleiðir, ná til jarðar. En „hið agnarlitla brot sólarorkunnar, sem berst til jarðar, . . . er um 100.000 sinnum meira en samanlögð sú orka sem öll iðnver jarðar nota,“ segir stjarn- og stærðfræðingurinn sir Fred Hoyle í bók sinni, Astronomy.

2. Hvað segir Jesaja 40:26 efnislega um kraft Jehóva?

2 Hvort sem við hugsum um atómið eða alheiminn getum við ekki annað en hrifist af hinni gífurlegu orku sem Jehóva ræður yfir. Það er ekki nema eðlilegt að hann skyldi segja: „Hefjið upp augu yðar til hæða og litist um: Hver hefir skapað stjörnurnar? Hann, sem leiðir út her þeirra með tölu og kallar þær allar með nafni. Sökum mikilleiks kraftar hans og af því að hann er voldugur að afli verður einskis þeirra vant.“ (Jesaja 40:26) Já, Jehóva er „voldugur að afli“ og er uppspretta þess ‚mikla kraftar‘ sem notaður var til að mynda allan alheiminn.

Þarf meira en venjulegan kraft

3, 4. (a) Hvað getur verið lýjandi fyrir okkur? (b) Hvaða spurningu þurfum við að skoða?

3 Menn hafa ekki óendanlega kraft eins og Guð heldur þreytast. Við sjáum þreytt fólk alls staðar í kringum okkur. Menn vakna þreyttir, halda þreyttir til vinnu eða skóla, koma þreyttir heim og eru úrvinda þegar þeir fara að sofa. Sumir eiga þá ósk heitasta að komast burt frá daglegu amstri til að geta hvílst. Þjónar Jehóva þreytast líka því að guðræknin kostar mikla áreynslu og erfiði. (Markús 6:30, 31; Lúkas 13:24; 1. Tímóteusarbréf 4:8) Og margt annað dregur úr okkur kraft.

4 Þótt við séum kristin erum við ekki ónæm fyrir þeim vandamálum sem steðja að fólki almennt. (Jobsbók 14:1) Veikindi, fjárhagserfiðleikar og önnur algeng vandamál geta verið letjandi og lýjandi. Ofan á það leggjast svo þær prófraunir sem fylgja því að vera ofsóttur vegna réttlætisins. (2. Tímóteusarbréf 3:12; 1. Pétursbréf 3:14) Daglegt álag frá heiminum og andstaða gegn boðunarstarfinu getur dregið svo úr okkur kraft að okkur langar einna helst til að hægja á okkur í þjónustu Jehóva. Satan djöfullinn beitir öllum brögðum til að reyna að brjóta á bak aftur ráðvendni okkar við Guð. Hvernig getum við fengið þann andlega kraft sem þarf til að lýjast ekki og gefast upp?

5. Af hverju útheimtir hin kristna þjónusta meira en mannlegan mátt?

5 Við þurfum að reiða okkur á Jehóva, hinn almáttuga skapara, til að fá andlegan styrk. Páll postuli benti á að hin kristna þjónusta útheimti meira en venjulegan kraft fyrir ófullkomna menn. Hann skrifaði: „Þennan fjársjóð höfum vér í leirkerum, til þess að ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss.“ (2. Korintubréf 4:7) Smurðir kristnir menn vinna að „þjónustu sáttargjörðarinnar“ með stuðningi félaga sinna með jarðneska von. (2. Korintubréf 5:18; Jóhannes 10:16; Opinberunarbókin 7:9) Við ófullkomnir menn megum búast við ofsóknum fyrir að vinna verk Guðs, svo að við getum ekki gert það í eigin krafti. Jehóva hjálpar okkur með heilögum anda sínum og þannig miklar veikleiki okkar mátt hans. Og Biblían hughreystir okkur með því loforði að ‚Jehóva styðji réttláta.‘ — Sálmur 37:17.

‚Vinnum hreystiverk með hjálp Jehóva‘

6. Hvernig fullvissar Biblían okkur um að Jehóva veiti okkur kraft?

6 Faðir okkar á himnum er „voldugur að afli“ og getur auðveldlega endurnært okkur. Reyndar er okkur sagt: „[Jehóva] veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa. Ungir menn þreytast og lýjast, og æskumenn hníga, en þeir, sem vona á [Jehóva], fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir. Þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki.“ (Jesaja 40:29-31) Sökum vaxandi álags getur okkur liðið eins og hlaupara sem er að niðurlotum kominn og finnst fæturnir ekki geta borið sig lengra. En markið í kapphlaupinu um lífið er rétt framundan og við megum ekki gefast upp. (2. Kroníkubók 29:11) Óvinur okkar, djöfullinn, æðir um eins og „öskrandi ljón“ og vill stöðva okkur. (1. Pétursbréf 5:8) Munum að ‚Jehóva er vígi okkar og skjöldur‘ og hefur séð vel fyrir því að ‚gefa þreyttum kraft.‘ — Sálmur 28:7.

7, 8. Hvaða sönnun höfum við fyrir því að Jehóva hafi styrkt Davíð, Habakkuk og Pál?

7 Jehóva gaf Davíð þann kraft sem hann þurfti til að halda áfram þrátt fyrir mikla erfiðleika. Davíð skrifaði því í trú og trausti á Guð: „Með Guðs hjálp munum vér hreystiverk vinna, og hann mun troða óvini vora fótum.“ (Sálmur 60:14) Jehóva gaf Habakkuk þann kraft sem hann þurfti til að ljúka spámannsverki sínu. Við lesum í Habakkuk 3:19: „[Jehóva] Guð er styrkur minn! Hann gjörir fætur mína sem hindanna og lætur mig ganga eftir hæðunum.“ Og fordæmi Páls er eftirtektarvert en hann sagði: „Allt megna ég fyrir hjálp [Guðs], sem mig styrkan gjörir.“ — Filippíbréfið 4:13.

8 Við ættum að trúa á það að Guð geti styrkt okkur og bjargað, eins og þeir Davíð, Habakkuk og Páll gerðu. Við skulum líta á nokkur dæmi um það hvernig alvaldur Drottinn Jehóva gefur okkur andlegan kraft svo að við getum ‚unnið hreystiverk.‘

Andlegar ráðstafanir sem gefa okkur kraft

9. Hvernig geta biblíunámsrit nært okkur?

9 Rækilegt biblíunám með hjálp námsrita getur gefið okkur kraft til að halda áfram. Sálmaritarinn söng: „Sæll er sá maður, er . . . hefir yndi af lögmáli [Jehóva] og hugleiðir lögmál hans dag og nótt. Hann er sem tré, gróðursett hjá rennandi lækjum, er ber ávöxt sinn á réttum tíma, og blöð þess visna ekki. Allt er hann gjörir lánast honum.“ (Sálmur 1:1-3) Til að halda andlegum styrk þurfum við að neyta andlegrar fæðu sem Guð gefur í orði sínu og biblíutengdum ritum, alveg eins og við þurfum að borða til að viðhalda líkamlegum kröftum. Þess vegna er nauðsynlegt að nema Biblíuna af alvöru og hugleiða efni hennar.

10. Hvenær getum við fundið okkur tíma til náms og hugleiðingar?

10 Það er auðgandi að hugleiða „djúp Guðs.“ (1. Korintubréf 2:10) En hvenær höfum við tíma til hugleiðingar? Ísak, sonur Abrahams, ‚gekk út á mörkina að áliðnum degi til að hugleiða.‘ (1. Mósebók 24:63-67) Sálmaritarinn Davíð ‚hugsaði um Guð á næturvökunum.‘ (Sálmur 63:7) Við getum numið orð Guðs og hugleitt það að morgni, kvöldi eða nóttu — hvenær sem er sólarhringsins. Nám og hugleiðing er svo kveikja bænarinnar sem er önnur leið Jehóva til að styrkja okkur.

11. Af hverju er reglulegt bænasamband mikilvægt?

11 Reglulegt bænasamband við Guð er endurnærandi. Verum því ‚staðföst í bæninni.‘ (Rómverjabréfið 12:12) Stundum þurfum við að biðja sérstaklega um visku og kraft til að standast prófraun. (Jakobsbréfið 1:5-8) Þökkum líka Guði og lofum hann þegar við sjáum hvernig tilgangi hans vindur fram eða finnum að hann hefur styrkt okkur til að halda áfram að þjóna sér. (Filippíbréfið 4:6, 7) Jehóva yfirgefur okkur aldrei ef við höldum nánu bænasambandi við hann. „Sjá, Guð er mér hjálpari,“ söng Davíð. — Sálmur 54:6.

12. Af hverju ættum við að biðja Guð um heilagan anda?

12 Faðirinn á himnum endurnærir okkur og styrkir með heilögum anda, starfskrafti sínum. Páll skrifaði: „[Ég] beygi . . . kné mín fyrir föðurnum. . . . Megi hann gefa yður af ríkdómi dýrðar sinnar að styrkjast fyrir anda sinn að krafti hið innra með yður.“ (Efesusbréfið 3:14-16) Við ættum að biðja um heilagan anda í trausti þess að Jehóva veiti okkur hann. Jesús rökstuddi það þannig: Myndi ástríkur faðir gefa barni sínu höggorm ef það bæði um fisk? Auðvitað ekki. Síðan sagði hann: „Fyrst þér, sem eruð [syndugir og þess vegna að einhverju marki] vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.“ (Lúkas 11:11-13) Við skulum biðja í slíku trausti, minnug þess að trúir þjónar Guðs geta ‚styrkst‘ að krafti með hjálp anda hans.

Söfnuðurinn er styrkjandi hjálp

13. Hvernig eigum við að líta á safnaðarsamkomur?

13 Safnaðarsamkomurnar eru önnur leið sem Jehóva notar til að gefa okkur kraft. Jesús sagði: „Hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra.“ (Matteus 18:20) Þegar hann gaf þetta loforð var hann að ræða um mál sem forystumenn safnaðarins þurftu að taka á. (Matteus 18:15-19) En orð hans eiga við allar samkomur og mót sem hefjast og ljúka með bæn í nafni hans. (Jóhannes 14:14) Það eru því sérréttindi að mega sækja samkomur safnaðarins, jafnt fámennar sem fjölmennar. Við skulum sýna að við kunnum að meta þessa hjálp til að styrkja okkur andlega og hvetja okkur til kærleika og góðra verka. — Hebreabréfið 10:24, 25.

14. Hvaða gagn höfum við af starfi kristinna öldunga?

14 Kristnir öldungar veita safnaðarmönnum andlegan stuðning og hvatningu. (1. Pétursbréf 5:2, 3) Páll hjálpaði söfnuðunum, sem hann þjónaði, og hvatti þá líkt og farandumsjónarmenn gera nú á tímum. Reyndar þráði hann að vera með trúbræðrum sínum til að þeir gætu uppörvast saman. (Postulasagan 14:19-22; Rómverjabréfið 1:11, 12) Sýnum alltaf að við kunnum að meta safnaðaröldunga og aðra kristna umsjónarmenn sem eiga drjúgan þátt í að styrkja okkur andlega.

15. Hvernig geta trúsystkin í söfnuðinum verið „til huggunar“ og hjálpar?

15 Trúsystkini okkar í söfnuðinum geta verið „til huggunar“ og styrktar. (Kólossubréfið 4:10, 11) Þau eru sannir ‚vinir‘ og geta hjálpað okkur á neyðarstund. (Orðskviðirnir 17:17) Árið 1945 voru 220 þjónar Guðs fluttir úr fangabúðunum í Sachsenhausen. Þeir áttu fyrir höndum 200 kílómetra göngu í umsjón fangavarða nasista. Þeir héldu hópinn og hinir styrkari drógu þá veikustu á fáeinum smákerrum. Meira en 10.000 fangar létust á helgöngunni en enginn vottur Jehóva. Frásögur eins og þessar birtast í ritum Varðturnsfélagsins, svo sem Árbókum votta Jehóva og bókinni Jehovah’s Witnesses — Proclaimers of God’s Kingdom, og þær sanna að Guð gefur fólki sínu kraft svo að það gefst ekki upp. — Galatabréfið 6:9. *

Boðunarstarfið styrkir

16. Hvernig er regluleg þátttaka í boðunarstarfinu andlega styrkjandi?

16 Regluleg þátttaka í boðunarstarfinu styrkir okkur andlega af því að boðunarstarfið hjálpar okkur að einbeita okkur að Guðsríki og að hafa blessun þess og eilífðina í sjónmáli. (Júdasarbréfið 20, 21) Hin biblíulegu fyrirheit, sem við tölum um í boðunarstarfinu, geta gert okkur eins einbeitt og Míka spámann sem sagði: „Vér göngum í nafni [Jehóva], Guðs vors, æ og ævinlega.“ — Míka 4:5.

17. Hvað er gott að hafa í huga í sambandi við heimabiblíunámskeið?

17 Við styrkjum sambandið við Jehóva þegar við notum Biblíuna meira við að kenna öðrum. Þegar við kennum fólki með hjálp bókarinnar Þekking sem leiðir til eilífs lífs er skynsamlegt að fletta upp á sem flestum ritningarstöðum, sem vísað er í, lesa þá og ræða. Nemandinn lærir af því og við skerpum andlegan skilning okkar. Ef hann á erfitt með að skilja biblíulega hugmynd eða líkingu getur þurft fleiri en eina námsstund til að komast yfir einn kafla í Þekkingarbókinni. Það er mjög gagnlegt að undirbúa sig vel og leggja sig sérstaklega fram um að hjálpa öðrum að nálgast Guð.

18. Lýstu með dæmi hvernig Þekkingarbókin kemur að góðum notum.

18 Þekkingarbókin er gott námsrit sem hjálpar þúsundum manna til að vígjast Jehóva á hverju ári, þar á meðal fjölda fólks sem hafði enga biblíuþekkingu fyrir. Hindúi á Srí Lanka var á barnsaldri þegar hann heyrði vott Jehóva tala um paradís. Allmörgum árum síðar kom hann að máli við vottinn og innan skamms var biblíunám komið af stað. Ungi maðurinn kom daglega til náms og lauk við að fara yfir Þekkingarbókina á tiltölulega skömmum tíma. Hann fór að sækja allar samkomur, sleit tengslin við fyrri trúarbrögð sín og varð boðberi. Þegar hann lét skírast stýrði hann sjálfur biblíunámskeiði sem nokkrir kunningjar hans sóttu.

19. Hverju megum við treysta ef við leitum fyrst ríkis Guðs?

19 Það er bæði ánægjulegt og styrkjandi að leita fyrst ríkis Guðs. (Matteus 6:33) Þó að ýmsar prófraunir verði á veginum höldum við áfram að boða fagnaðarerindið, glöð og kostgæfin. (Títusarbréfið 2:14) Sum okkar eru boðberar í fullu starfi og sum okkar þjóna þar sem þörfin er mikil. Hvort sem við eflum hag Guðsríkis þannig eða með öðrum hætti treystum við að Jehóva gleymi ekki verki okkar og kærleikanum sem við sýnum nafni hans. — Hebreabréfið 6:10-12.

Haltu áfram í krafti Jehóva

20. Hvernig getum við sýnt að við leitum styrks hjá Jehóva?

20 Sýnum umfram allt að við vonum á Jehóva og reiðum okkur á styrk hans. Við getum gert það með því að notfæra okkur til fulls þær andlegu ráðstafanir sem hann gerir fyrir atbeina hins ‚trúa þjóns.‘ (Matteus 24:45) Einkanám og safnaðarnám í orði Guðs með hjálp námsrita, innileg bæn, andlegur stuðningur öldunganna, gott fordæmi dyggra trúsystkina og regluleg þátttaka í boðunarstarfinu styrkir samband okkar við Jehóva og gefur okkur kraft til að halda áfram í heilagri þjónustu hans.

21. Hvernig lýstu Pétur og Páll þörfinni fyrir kraft frá Guði?

21 Þrátt fyrir veikleika okkar styrkir Jehóva okkur til að gera vilja sinn ef við reiðum okkur á hjálp hans. Pétur postuli skrifaði um þetta mál: „Sá sem þjónustu hefur skal þjóna eftir þeim mætti, sem Guð gefur.“ (1. Pétursbréf 4:11) Og Páll sagði um sjálfan sig: „[Ég] uni . . . mér vel í veikleika, í misþyrmingum, í nauðum, í ofsóknum, í þrengingum vegna Krists. Þegar ég er veikur, þá er ég máttugur.“ (2. Korintubréf 12:10) Sýnum sömu sannfæringu og vegsömum alvaldan Drottin Jehóva sem gefur þreyttum kraft. — Jesaja 12:2.

[Neðanmáls]

^ gr. 1 Talan 1 með 20 núllum á eftir.

^ gr. 15 Gefnar út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

Hvert er svarið?

• Af hverju þurfa þjónar Jehóva meira en venjulegan kraft?

• Sýndu fram á með hjálp Biblíunnar að Guð gefi þjónum sínum kraft.

• Hvaða andlegar ráðstafanir hefur Jehóva gert til að styrkja okkur?

• Hvernig getum við sýnt að við treystum á kraft frá Guði?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 12]

Við styrkjum samband okkar við Jehóva þegar við notum Biblíuna til að kenna öðrum.