Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kristnir menn njóta þess að þjóna

Kristnir menn njóta þess að þjóna

Kristnir menn njóta þess að þjóna

„Sælla er að gefa en þiggja.“ — POSTULASAGAN 20:35.

1. Hvaða rangt viðhorf er algengt og hvers vegna er það skaðlegt?

Á SÍÐUSTU áratugum 20. aldarinnar var mikið talað um eiginhagsmunastefnu. Það er sú stefna að láta sína hagsmuni ganga fyrir öllu, en slíkt viðhorf lýsir bæði eigingirni, græðgi og tillitsleysi gagnvart öðrum. Eitt er víst að árið 2001 verður þetta viðhorf ekki horfið. Oft er spurt: „Hvað hef ég upp úr þessu?“ eða: „Græði ég eitthvað á þessu?“ Eigingirni af þessu tagi stuðlar ekki að hamingju. Hún er andstæða frumreglunnar: „Sælla er að gefa en þiggja,“ sem Jesús bar fram. — Postulasagan 20:35.

2. Á hverju má sjá að það er sælla að gefa en þiggja?

2 Er rétt að það sé sælla að gefa en þiggja? Já. Leiddu hugann að Jehóva Guði en hann er „uppspretta lífsins.“ (Sálmur 36:10) Hann sér okkur fyrir öllu sem við þörfnumst til að vera hamingjusöm og farsæl. Frá honum kemur „sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa.“ (Jakobsbréfið 1:17) Jehóva, ‚hinn sæli Guð,‘ er alltaf að gefa. (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912) Hann elskar mennina sem hann skapaði og gefur þeim mikið. (Jóhannes 3:16) Leiddu líka hugann að fjölskyldufyrirkomulaginu. Sértu foreldri þá veistu hvað það kostar margar fórnir að ala upp barn. Og árum saman gerir barnið sér ekki grein fyrir fórnum þínum og finnst þær sjálfsagðar. Engu að síður nýtur þú þess að sjá barnið dafna vegna alls þess sem þú hefur af óeigingirni veitt því. Hvers vegna? Vegna þess að þú elskar barnið.

3. Hvers vegna er ánægjulegt að þjóna Jehóva og trúsystkinum okkar?

3 Sönn tilbeiðsla einkennist á svipaðan hátt af kærleiksríkri gjafmildi. Við elskum Jehóva og trúsystkini okkar og þess vegna njótum við þess að þjóna þeim og gefa af okkur. (Matteus 22:37-39) Eigingjörn tilbeiðsla veitir mjög litla ánægju. En þeir sem þjóna af óeigingirni og hafa meiri áhuga á að gefa en þiggja verða hamingjusamir. Við sjáum sannleikann í þessu með því að athuga hvernig ákveðin biblíuorð, sem tengjast tilbeiðslu okkar, eru notuð. Við fjöllum um þrjú slík orð í þessari grein og þeirri næstu.

Helgiþjónusta Jesú

4. Hvers eðlis er „helgiþjónusta“ í kristna heiminum?

4 Í frumgrísku er að finna mikilvægt orð sem tengist tilbeiðslu. Það er orðið leitúrgía sem er oft þýtt „helgiþjónusta“ í íslensku Biblíunni en „þjónusta í þágu almennings“ í Nýheimsþýðingunni. Enska orðið liturgy er dregið af þessu orði og er notað um helgisiði eða messur í kristna heiminum. * Formlegir helgisiðir kristna heimsins eru þó ekki beint helgiþjónusta í þágu almennings.

5, 6. (a) Hvaða helgiþjónusta var unnin í Ísrael og með hvaða árangri? (b) Hvaða stórkostleg þjónusta kom í staðinn fyrir helgiþjónustuna í Ísrael og hvers vegna?

5 Páll postuli notaði grískt orð sem er skylt orðinu leitúrgía í sambandi við prestana í Ísrael. Hann sagði: „Og svo er því farið um hvern prest, að hann er dag hvern bundinn við helgiþjónustu [orð dregið af leitúrgía] sína og ber fram margsinnis hinar sömu fórnir.“ (Hebreabréfið 10:11) Levítaprestar gegndu mjög dýrmætri helgiþjónustu í Ísrael. Þeir kenndu lögmálið og báru fram fórnir til að friðþægja fyrir syndir fólksins. (2. Kroníkubók 15:3; Malakí 2:7) Þegar prestarnir og fólkið fylgdu lögum Jehóva gat þjóðin glaðst. — 5. Mósebók 16:15.

6 Það var sérstakur heiður fyrir presta í Ísrael að gegna helgiþjónustu, en þjónusta þeirra glataði gildi sínu þegar Ísraelsþjóðinni var hafnað sökum ótrúmennsku. (Matteus 21:43) Jehóva hafði gert aðra og stórkostlegri ráðstöfun — sem var helgiþjónusta hins mikla æðstaprests Jesú í þágu almennings. Við lesum um hann: „En hann er að eilífu og hefur prestdóm þar sem ekki verða mannaskipti. Þess vegna getur hann og til fulls frelsað þá, sem fyrir hann ganga fram fyrir Guð, þar sem hann ávallt lifir til að biðja fyrir þeim.“ — Hebreabréfið 7:24, 25.

7. Hvers vegna veitir helgiþjónusta Jesú óviðjafnanlega blessun?

7 Jesús verður prestur að eilífu og það verða engin mannaskipti. Þar af leiðandi getur hann einn veitt fólki algera frelsun. Hann gegnir óviðjafnanlegri helgiþjónustu, ekki í musteri gerðu af mannahöndum heldur í táknrænu musteri, hinu mikla tilbeiðslufyrirkomulagi Jehóva sem tók til starfa árið 29. Jesús þjónar nú í hinu allra helgasta í þessu himneska musteri. Hann er „helgiþjónn [á grísku leitúrgos, „þjónn í þágu almennings,“ NW] helgidómsins og tjaldbúðarinnar, hinnar sönnu, sem [Jehóva] reisti, en eigi maður.“ (Hebreabréfið 8:2; 9:11, 12) Enda þótt staða Jesú sé háleit er hann samt „þjónn í þágu almennings.“ Hann notar hið mikla vald sitt til að gefa en ekki þiggja. Slík gjafmildi veitir honum gleði og er hluti þeirrar ‚gleði er beið hans‘ og gaf honum styrk til að vera staðfastur allt til enda hér á jörð. — Hebreabréfið 12:2.

8. Hvernig helgiþjónustu innti Jesús af hendi til að leysa lagasáttmálann af hólmi?

8 Helgiþjónusta Jesú á sér líka aðra hlið. Páll skrifaði: „En nú hefur Jesús fengið þeim mun ágætari helgiþjónustu sem hann er meðalgangari betri sáttmála, sem byggist á betri fyrirheitum.“ (Hebreabréfið 8:6) Móse var meðalgöngumaður sáttmálans á milli Ísraelsþjóðarinnar og Jehóva. (2. Mósebók 19:4, 5) Jesús var meðalgöngumaður nýs sáttmála, svo að ný þjóð, „Ísrael Guðs,“ gat orðið til sem samanstóð af andasmurðum kristnum mönnum af ýmsum þjóðum. (Galatabréfið 6:16; Hebreabréfið 8:8, 13; Opinberunarbókin 5:9, 10) Þetta var frábær helgiþjónusta. Það er okkur mikil ánægja að þekkja Jesú því að vegna helgiþjónustu hans getum við þjónað Jehóva á velþóknanlegan hátt. — Jóhannes 14:6.

Kristnir menn þjóna líka í þágu almennings

9, 10. Hvers konar þjónustu gegna kristnir menn í þágu annarra?

9 Helgiþjónusta manna getur aldrei orðið eins háleit og þjónusta Jesú. Þegar andasmurðir kristnir menn hljóta himnesk laun taka þeir þátt í helgiþjónustu Jesú sem himneskir konungar og prestar. (Opinberunarbókin 20:6, 7; 22:1-6) Kristnir menn á jörð þjóna í þágu almennings og hafa ánægju af því. Tökum dæmi: Þegar hungursneyð ríkti í Palestínu færði Páll postuli kristnum Gyðingum í Júdeu nauðsynjar að gjöf frá trúbræðrum þeirra í Evrópu. Þetta var þjónusta í þágu almennings. (Rómverjabréfið 15:27; 2. Korintubréf 9:12) Kristnir menn nú á tímum veita fúslega slíka þjónustu og koma skjótlega til aðstoðar þegar bræður þeirra lenda í neyð, náttúruhamförum eða öðrum erfiðleikum. — Orðskviðirnir 14:21.

10 Páll minntist á annars konar þjónustu þegar hann skrifaði: „Enda þótt blóði mínu verði úthellt við fórnarþjónustu mína, þegar ég ber trú yðar fram fyrir Guð, þá gleðst ég og samgleðst yður öllum.“ (Filippíbréfið 2:17) Páll hafði lagt á sig fórnarþjónustu fyrir Filippímenn og veitt hana af kærleika og kostgæfni. Nú eru það einkum andasmurðir kristnir menn, hinn „trúi og hyggni þjónn,“ sem annast þess háttar þjónustu og veita andlega fæðu á réttum tíma. (Matteus 24:45-47) Sem hópur eru þeir ‚heilagt prestafélag‘ og þeim hefur verið falið að „bera fram andlegar fórnir, Guði velþóknanlegar fyrir Jesú Krist“ og „víðfrægja dáðir hans, sem kallaði [þá] frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.“ (1. Pétursbréf 2:5, 9) Þeir fagna slíkum sérréttindum eins og Páll gerði og leggja sig fram um að gegna skyldum sínum. Félagar þeirra, ‚hinir aðrir sauðir,‘ aðstoða þá og styðja í því að kunngera mannkyninu tilgang Jehóva. * (Jóhannes 10:16; Matteus 24:14) Þetta er stórkostleg og gleðileg þjónusta í þágu almennings. — Sálmur 107:21, 22.

Veitið heilaga þjónustu

11. Hvaða fordæmi gaf spákonan Anna öllum kristnum mönnum?

11 Annað grískt orð, sem tengist tilbeiðslu okkar, er latreia sem oftast er þýtt „þjóna“ í íslensku Biblíunni en „veita heilaga þjónustu“ í Nýheimsþýðingunni. Heilög þjónusta tengist tilbeiðslu. Til dæmis er sagt um Önnu, 84 ára ekkju og spákonu: „Hún vék eigi úr helgidóminum, en þjónaði [grískt orð skylt latreia] Guði nótt og dag með föstum og bænahaldi.“ (Lúkas 2:36, 37) Anna tilbað Jehóva trúfastlega. Hún er okkur öllum gott fordæmi, bæði ungum sem öldnum, konum og körlum. Anna bað innilega til Jehóva og tilbað hann staðfastlega í musterinu. Á sama hátt á heilög þjónusta okkar að fela í sér bænir og samkomusókn. — Rómverjabréfið 12:12; Hebreabréfið 10:24, 25.

12. Hvert er aðalinntakið í heilagri þjónustu okkar og hvernig er hún líka þjónusta í þágu almennings?

12 Páll postuli nefndi veigamikinn þátt í heilagri þjónustu okkar þegar hann skrifaði: „Guð, sem ég þjóna í anda mínum með fagnaðarerindinu um son hans, er mér vottur þess, hve óaflátanlega ég minnist yðar í bænum mínum.“ (Rómverjabréfið 1:9) Boðun fagnaðarerindisins er annað og meira en þjónusta í þágu almennings, hún felur í sér tilbeiðslu á Jehóva Guði. Boðunarstarfið er heilög þjónusta við Jehóva hvort sem einhver sýnir áhuga eða ekki. Við fyllumst gleði þegar við leggjum okkur fram um að segja öðrum frá góðum eiginleikum okkar ástkæra, himneska föður og stórkostlegum tilgangi hans. — Sálmur 71:23.

Hvar veitum við heilaga þjónustu?

13. Hvaða von hafa þeir sem gegna heilagri þjónustu í innri forgarði andlegs musteris Jehóva og hverjir fagna með þeim?

13 Páll skrifaði smurðum kristnum mönnum: „Þar sem vér því fáum ríki, sem ekki getur bifast, skulum vér þakka það og þjóna Guði, svo sem honum þóknast, með lotningu og ótta.“ (Hebreabréfið 12:28) Hinir smurðu eru sannfærðir um að þeir erfi ríkið og tilbiðja hinn hæsta í óbifanlegri trú. Þeir einir geta veitt honum heilaga þjónustu í hinu heilaga og í innri forgarði andlegs musteris hans, og hlakka til þess að þjóna með Jesú í hinu allra helgasta, það er að segja á himni. Félagar þeirra, hinir aðrir sauðir, samfagna þeim í stórkostlegri von þeirra. — Hebreabréfið 6:19, 20; 10:19-22.

14. Hvernig er helgiþjónusta Jesú hinum mikla múgi til blessunar?

14 En hvað um hina aðra sauði? Jóhannes postuli sá fyrir að mikill múgur þeirra myndi koma fram á síðustu dögum er hefði „þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.“ (Opinberunarbókin 7:14) Það merkir að þeir, eins og smurðir samþjónar þeirra, iðka trú á helgiþjónustu Jesú og á fórn hans í þágu mannkyns er hann lagði fullkomið mannslíf sitt í sölurnar. Helgiþjónusta Jesú er hinum öðrum sauðum líka til blessunar af því að þeir ‚halda fast við sáttmála Jehóva.‘ (Jesaja 56:6, 7) Þeir eiga ekki aðild að nýja sáttmálanum en ganga undir hann með því að lúta þeim lögum sem tengjast honum og njóta góðs af ráðstöfunum hans. Þeir eru samstarfsmenn Ísraels Guðs, nærast af sama andlega borði og vinna með honum, lofa Guð opinberlega og bera fram andlegar fórnir sem hann hefur velþóknun á. — Hebreabréfið 13:15.

15. Hvar gegnir hinn mikli múgur heilagri þjónustu og hvernig er það honum til blessunar?

15 Þess vegna stendur múgurinn mikli „frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddir hvítum skikkjum.“ Þeir eru „frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans, og sá, sem í hásætinu situr, mun tjalda yfir þá.“ (Opinberunarbókin 7:9, 15) Trúskiptingar í Ísrael tilbáðu í ytri forgarði musteris Salómons. Á svipaðan hátt tilbiður hinn mikli múgur í ytri forgarði andlegs musteris Jehóva. Þeir njóta þess að þjóna þar. (Sálmur 122:1) Og jafnvel eftir að síðasti andasmurði félagi þeirra hlýtur himneska arfleifð sína halda þeir áfram að veita Jehóva heilaga þjónustu sem fólk hans. — Opinberunarbókin 21:3.

Heilög þjónusta sem er vanþóknanleg

16. Við hverju er varað í tengslum við heilaga þjónustu?

16 Í Forn-Ísrael átti heilög þjónusta að fara fram í samræmi við lög Jehóva. (2. Mósebók 30:9; 3. Mósebók 10:1, 2) Við þurfum líka að uppfylla viss skilyrði til að heilög þjónusta okkar sé Jehóva þóknanleg. Þess vegna skrifaði Páll Kólossumönnum: „Höfum vér því ekki látið af að biðja fyrir yður. Vér biðjum þess, að þér mættuð fyllast þekkingu á vilja Guðs með allri speki og skilningi andans, svo að þér hegðið yður eins og [Jehóva] er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt, og fáið borið ávöxt í öllu góðu verki og vaxið að þekkingu á Guði.“ (Kólossubréfið 1:9, 10) Það er ekki okkar að ákveða hvernig eigi að tilbiðja Guð. Nákvæm biblíuþekking er nauðsynleg, auk andlegs skilnings og visku frá Guði. Annars getur farið illa.

17. (a) Hvernig saurgaði fólk heilaga þjónustu á dögum Móse? (b) Hvernig væri hægt að beina heilagri þjónustu í ranga átt núna?

17 Minnumst Ísraelsmanna á dögum Móse. Við lesum: „Guð sneri sér frá þeim og lét þeim eftir að dýrka her himinsins.“ (Postulasagan 7:42) Þeir höfðu séð margt stórkostlegt sem Jehóva hafði gert fyrir þá. Samt sem áður sneru þeir sér að öðrum guðum þegar þeir héldu að þeim væri hagur í því. Þeir voru ekki trúfastir, en við verðum að vera trúföst til að Guð hafi velþóknun á heilagri þjónustu okkar. (Sálmur 18:26, Biblían 1859) Nú myndu sennilega ekki margir snúa sér frá Jehóva til að tilbiðja stjörnurnar eða gullkálfa, en það er til annars konar skurðgoðadýrkun. Jesús varaði fólk við að þjóna „mammón“ og Páll sagði að ágirnd væri skurðgoðadýrkun. (Matteus 6:24; Kólossubréfið 3:5) Satan kemur fram sem guð. (2. Korintubréf 4:4) Þess háttar skurðgoðadýrkun er allsráðandi og mikil tálsnara. Tökum sem dæmi mann sem segist fylgja Kristi en markmið hans í lífinu er að verða ríkur, eða mann sem treystir bara á sjálfan sig og eigin hugmyndir. Hverjum þjónar slíkur maður í raun og veru? Er hann eitthvað frábrugðin Gyðingunum á dögum Jesaja sem sóru við nafn Jehóva en gáfu saurugum skurðgoðum heiðurinn af kraftaverkum hans? — Jesaja 48:1, 5.

18. Hvernig hefur heilagri þjónustu verið beint í ranga átt jafnt í fortíð sem nútíð?

18 Jesús sagði líka: „Sú stund kemur, að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu.“ (Jóhannes 16:2) Sál, sem síðar varð Páll postuli, hefur eflaust haldið að hann væri að þjóna Guði þegar hann „lét sér vel líka líflát [Stefáns]“ og „blés . . . ógnum og manndrápum gegn lærisveinum Drottins.“ (Postulasagan 8:1; 9:1) Til eru menn sem segjast tilbiðja Guð en aðhyllast þjóðernishreinsanir og þjóðarmorð. Margir segjast tilbiðja Guð en tilbeiðsla þeirra beinist að þjóðernishyggju, kynþáttahroka, auði, eigingirni eða öðrum goðum.

19. (a) Hvernig lítum við á heilaga þjónustu okkar? (b) Hvers konar þjónusta veitir okkur gleði?

19 Jesús sagði: „[Jehóva], Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“ (Matteus 4:10) Hann var að tala við Satan, en það er mikilvægt að allir taki þessi orð til sín. Það er alveg stórfenglegt að fá að veita alheimsdrottni heilaga þjónustu. Og hvað má segja um þá þjónustu í þágu almennings sem tengist tilbeiðslu okkar? Slík þjónusta í þágu náungans er mikill gleðigjafi en einungis sé hún veitt af heilum hug og á réttan hátt. (Sálmur 41:2, 3; 59:17) Hverjir tilbiðja Guð á réttan hátt? Og heilaga þjónustu hverra viðurkennir Jehóva? Við getum fengið svör við þessum spurningum ef við athugum þriðja biblíuorðið sem tengist tilbeiðslu okkar. Það er gert í næstu grein.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Helgisiðir kristna heimsins eru annaðhvort guðsþjónustur eða sérstakir trúarsiðir svo sem kvöldmáltíðarsakramentið í rómversk-kaþólsku kirkjunni.

^ gr. 10 Postulasagan 13:2 segir að spámenn og kennarar í Antíokkíu hafi ‚þjónað‘ Jehóva (í frummálinu er notað orð sem er skylt orðinu leitúrgía). Þessi þjónusta hefur sennilega falist í því að boða almenningi trúna.

Hverju svarar þú?

• Hvaða stórkostlega helgiþjónustu veitti Jesús í þágu almennings?

• Hvaða þjónustu veita kristnir menn í þágu almennings?

• Hvað er heilög þjónusta kristinna manna og hvar er hún framkvæmd?

• Hvað verðum við að tileinka okkur til að heilög þjónusta okkar sé Guði velþóknanleg?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 19]

Foreldrar njóta þess að gefa.

[Mynd á blaðsíðu 20, 21]

Kristnir menn þjóna í þágu almennings þegar þeir aðstoða aðra og þegar þeir boða fagnaðarerindið.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Við verðum að hafa nákvæma þekkingu og skilning til að heilög þjónusta okkar sé Guði velþóknanleg.