Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Í hvaða mæli þarf trú eiginkona að beita sér gegn skilnaði ef eiginmaðurinn vill skilja við hana?

Þegar stofnað var til hjónabandsins sagði Guð að hjón ættu að ‚búa við‘ hvort annað. (1. Mósebók 2:18-24) Maðurinn glataði fullkomleikanum sem hafði í för með sér erfiðleika í mörgum hjónaböndum, en Guð vill að hjón haldi saman engu að síður. „Þeim, sem gengið hafa í hjónaband, býð ég, þó ekki ég, heldur Drottinn, að konan skuli ekki skilja við mann sinn, — en hafi hún skilið við hann, þá sé hún áfram ógift eða sættist við manninn —, og að maðurinn skuli ekki heldur skilja við konuna,“ skrifaði Páll postuli. — 1. Korintubréf 7:10, 11.

Þessi orð fela í sér viðurkenningu á því að stundum ákveði annað hjónanna að yfirgefa maka sinn. Páll sagði til dæmis að bæði hjónin ættu að vera „áfram ógift“ ef annað þeirra yfirgæfi hitt. Af hverju? Þó að makinn sé farinn eru hjónin eftir sem áður bundin hvort öðru í augum Guðs. Páll sagði þetta vegna þess að Jesús hafði sett þá reglu um kristin hjónabönd að „sá sem skilur við konu sína nema sakir hórdóms [á grísku: porneia] og kvænist annarri, drýgir hór.“ (Matteus 19:9) ‚Hórdómur‘ eða kynferðislegt siðleysi er eina biblíulega forsendan fyrir því að slíta hjónabandi. Að því er best verður séð var hvorugt hjónanna sekt um siðleysi í því tilviki sem Páll nefndi, svo að hjónabandinu var ekki lokið í augum Guðs þó að annað þeirra yfirgæfi hitt.

Páll nefnir síðan þá stöðu að sannkristinn maður eigi vantrúaðan maka. Lítum á leiðbeiningar hans: „Ef hinn vantrúaði vill skilja, þá fái hann skilnað. Hvorki bróðir né systir eru þrælbundin í slíkum efnum. Guð hefur kallað yður að lifa í friði.“ (1. Korintubréf 7:12-16) Hvað getur trúföst eiginkona gert ef vantrúaður eiginmaður hennar yfirgefur hana og sækir jafnvel um lögskilnað?

Kannski vill hún helst búa með honum áfram. Kannski elskar hún hann enn, er sér meðvitandi um gagnkvæmar kynferðis- og tilfinningaþarfir þeirra og veit að hún og börnin, ef einhver eru, þurfa á framfærslu hans að halda. Kannski vonast hún til þess að hann taki trú einhvern tíma og verði hólpinn. En ef hann ákveður að slíta hjónabandinu (þó svo að biblíulegar forsendur séu ekki fyrir hendi) getur hún ‚látið hann fá skilnað‘ eins og Páll skrifaði. Hið sama gildir ef trúaður eiginmaður virðir að vettugi afstöðu Guðs til hjónabandsins og krefst skilnaðar við eiginkonu sína.

En ef slíkt gerist getur hún þurft að tryggja sjálfri sér og börnum sínum þá lagavernd sem í boði er. Hún myndi vilja halda forræði yfir börnunum til að geta haldið áfram að veita þeim móðurást sína og siðferðilega fræðslu, og til að geta innprentað þeim trú byggða á kenningum Biblíunnar. (2. Tímóteusarbréf 3:15) Skilnaðurinn gæti stofnað þeim rétti hennar í hættu. Hún getur þurft að gera ráðstafanir til að halda forræði yfir börnunum og tryggja lífeyri úr hendi eiginmannsins til fjölskyldunnar sem hann er að yfirgefa. Í sumum löndum getur kona skrifað undir skilnaðarpappíra þar sem kveðið er á um forræði barna og framfærslulífeyri, án þess þó að það sé jafnframt yfirlýsing um að hún fallist á skilnaðinn sem eiginmaður hennar fer fram á. Annars staðar getur orðalag skilnaðarpappíranna gefið til kynna að hún fallist á skilnaðinn, og ef eiginmaðurinn hefur gerst sekur um hjúskaparbrot myndi undirskrift hennar jafngilda því að hún hafnaði honum.

Fæstum í byggðarlaginu og söfnuðinum myndi auðvitað vera kunnugt um málsatvik, svo sem þau hvort skilnaðurinn væri fenginn á biblíulegum forsendum. Þess vegna væri ráðlegt fyrir eiginkonuna að gera umsjónarmanni í forsæti eða öðrum öldungi í söfnuðinum grein fyrir málsatvikum (helst skriflega), áður en til þess kemur að ganga frá skilnaði. Með því að gera það liggja málsatvik ljós fyrir ef einhverjar spurningar koma upp, þá eða síðar.

Snúum okkur aftur að orðum Jesú: „Sá sem skilur við konu sína nema sakir hórdóms og kvænist annarri, drýgir hór.“ Ef eiginmaðurinn er raunverulega sekur um siðferðisbrot en vill búa áfram með eiginkonu sinni verður hún (saklausi makinn í dæminu sem Jesús tók) að ákveða hvort hún fyrirgefur honum og heldur áfram að deila hjónasænginni með honum eða hafnar honum. Hún er ekki siðferðilega óhrein ef hún ákveður að fyrirgefa lögmætum eiginmanni sínum og búa með honum áfram. — Hósea 1:1-3; 3:1-3.

Sú staða getur komið upp að lauslátur eiginmaður sæki um skilnað en eiginkonan sé samt sem áður fús til að fyrirgefa honum og vonist til að hann komi aftur. Það er hennar að ákveða hvort hún mótmælir skilnaðarumsókn hans. Hún þarf að gera það upp við samvisku sína og taka mið af málsatvikum. Sums staðar getur kona skrifað undir pappíra þar sem kveðið er á um forræði barnanna, meðlag og framfærslulífeyri, án þess að það feli í sér viðurkenningu á því að hún fallist á skilnaðinn. Undirskrift hennar sem slík er þá ekki yfirlýsing um að hún hafni honum. Annars staðar getur verið farið fram á það að eiginkona, sem samþykkir ekki skilnað, undirriti pappíra sem gefa til kynna að hún fallist á skilnað, og með því að undirrita þá gæfi hún greinilega til kynna að hún hafnaði sekum eiginmanni sínum.

Til að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning væri ráðlegt í þessu tilviki að eiginkonan láti fulltrúum safnaðarins í té bréf þar sem hún greinir frá því í stórum dráttum hvaða skref hafi verið stigin og hvaða afstaða búi þeim að baki. Hún gæti tekið fram að hún hafi sagt eiginmanni sínum að hún hafi verið fús til að fyrirgefa honum og vera eiginkona hans áfram. Það myndi þýða að skilnaðurinn væri fenginn gegn vilja hennar og að hún væri ekki að hafna manni sínum heldur væri hún enn þá reiðubúin að fyrirgefa honum. Eftir að hafa tekið það skýrt fram að hún sé fús til að fyrirgefa eiginmanni sínum og vera gift honum áfram er hún ekki að gefa til kynna að hún hafni honum þó að hún undirriti pappíra þar sem einungis er kveðið á um forræði og framfærslulífeyri. *

Eftir að konan hefur tekið fram að hún sé fús til að fyrirgefa manni sínum, jafnvel eftir skilnað, er hvorugu þeirra frjálst að giftast öðrum. Ef saklaus eiginkona, sem bauðst til að fyrirgefa en var hafnað, ákveður síðar að hafna manni sínum vegna lauslætis hans, þá er báðum frjálst að giftast öðrum. Jesús benti á að saklausi makinn hefði þann rétt að ákveða það. — Matteus 5:32; 19:9; Lúkas 16:18.

[Neðanmáls]

^ gr. 11 Réttarfarsreglur og skilnaðarákvæði eru breytileg frá landi til lands. Áður en skilnaðarpappírar eru undirritaðir er nauðsynlegt að lesa þá vandlega og skoða alla skilmála sem þar eru. Ef saklausi makinn undirritar pappíra sem gefa til kynna að hann andmæli ekki skilnaðinum, sem hinn er að sækja um, jafngildir það því að hafna maka sínum. — Matteus 5:37.