Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þarftu að trúa því?

Þarftu að trúa því?

Þarftu að trúa því?

TÓLF ára nemandi var að basla við undirstöðuatriði algebrunnar. Jafnan, sem kennarinn skrifaði á töfluna, var einföld að sjá.

„Segjum að x=y og bæði x og y séu jafnt og 1,“ byrjaði hann.

‚Þetta er nú ekki flókið,‘ hugsaði nemandinn.

En kennarinn kom með óvænta niðurstöðu eftir að hafa skrifað á töfluna fjórar línur með útreikningum sem virtust alveg rökréttir: „Þess vegna er 2=1!“

„Afsannið þetta,“ sagði hann nemendunum sem voru óneitanlega svolítið ringlaðir.

Nemandinn ungi var ekki nógu vel að sér í algebru til að koma auga á hvernig hann gæti afsannað þetta. Útreikningarnir virtust eðlilegir. Átti hann þá að trúa þessari undarlegu niðurstöðu? Kennarinn var nú öllu færari í stærðfræði en hann. En auðvitað átti hann ekki að trúa þessu. ‚Ég þarf ekkert að afsanna þetta,‘ hugsaði hann með sér. ‚Heilbrigð skynsemi segir mér að þetta sé fáránlegt!‘ (Orðskviðirnir 14:15, 18) Hann vissi að hvorki kennarinn né bekkjarfélagarnir myndu skipta á tveim krónum fyrir eina.

Seinna fann nemandinn veiluna í útreikningum kennarans. En þetta atvik kenndi honum mikilvæga lexíu. Mjög fróð manneskja getur sett fram vel úthugsuð rök, sem virðast óhrekjandi, en maður þarf ekki að trúa heimskulegri niðurstöðu þó að maður geti ekki afsannað hana þegar í stað. Hér fylgdi nemandinn reyndar afar góðri meginreglu sem er að finna í Biblíunni í 1. Jóhannesarbréfi 4:1 — að trúa ekki í fljótfærni öllu sem maður heyrir, jafnvel þó að heimildin virðist áreiðanleg.

En það merkir ekki að maður eigi að halda þrákelknislega í fyrir fram ákveðnar hugmyndir. Það er mjög misráðið að loka huganum fyrir vitneskju sem getur leiðrétt rangar hugmyndir. En það er ekki heldur skynsamlegt að ‚vera fljótur til að komast í uppnám‘ þegar einhver þrýstir á sem þykist búa yfir mikilli þekkingu eða valdi. (2. Þessaloníkubréf 2:2) Kennarinn var auðvitað bara að leika á nemendur sína. En blekkingarnar eru ekki alltaf svona saklausar. Stundum beita menn ákaflega slóttugum „vélabrögðum villunnar.“ — Efesusbréfið 4:14; 2. Tímóteusarbréf 2:14, 23, 24.

Hafa sérfræðingar alltaf á réttu að standa?

Algengt er að sérfræðinga greini á um sama mál, þótt fróðir séu. Tökum sem dæmi hina óslitnu deilu innan læknisfræðinnar um grundvallaratriði eins og orsakir sjúkdóma. „Vísindamenn deila hart um hlutfallslegt áhrifavægi erfða og umhverfis í sjúkdómum,“ segir prófessor í læknisfræði við Harvardháskóla. Svokallaðir nauðhyggjumenn eru sannfærðir um að genin ráði mestu um sóttnæmi. Aðrir halda því fram að umhverfi og líferni sé sterkasti áhrifavaldurinn. Í báðum herbúðum eru menn fljótir að benda á rannsóknir og tölur máli sínu til stuðnings. En deilurnar halda áfram.

Frægustu hugsuðir sögunnar hafa aftur og aftur farið með rangt mál, þó svo að þeir virtust hafa fullkomlega rétt fyrir sér á sínum tíma. Heimspekingurinn Bertrand Russell kallar Aristóteles einhvern „áhrifamesta heimspeking sögunnar“ en bendir þó á að margar af kenningum hans hafi verið „alrangar.“ „Nálega hvert einasta framfaraspor vísinda, rökfræði og heimspeki í nútímasögu hefur kostað harkalega árekstra við lærisveina Aristótelesar,“ skrifar hann. — History of Western Philosophy.

‚Hin rangnefnda þekking‘

Frumkristnir menn hafa trúlega hitt fyrir marga lærisveina nafntogaðra heimspekinga Grikkja, svo sem Sókratesar, Platóns og Aristótelesar. Menntamenn þess tíma álitu sig töluvert meiri gáfumenn en flesta af hinum kristnu. Lærisveinar Jesú voru ekki margir „vitrir að manna dómi.“ (1. Korintubréf 1:26) Þeim sem voru menntaðir í heimspeki samtíðarinnar þótti átrúnaður kristinna manna ‚heimska‘ eða ‚hrein vitleysa.‘ — 1. Korintubréf 1:23, Phillips.

Hvernig hefðir þú hugsað ef þú hefðir verið uppi á fyrstu öld og verið kristinn? Hefðir þú verið yfir þig hrifinn af sannfærandi rökum hinna hámenntuðu eða dolfallinn yfir visku þeirra? (Kólossubréfið 2:4) Páll postuli sagði enga ástæðu til þess. Hann minnti kristna menn á að „speki spekinganna“ og „hyggindi hyggindamannanna“ væri heimska í augum Jehóva. (1. Korintubréf 1:19) „Hvaða visku hefur heimspekingur, rithöfundur og gagnrýnandi þessa heims fram að færa?“ spurði hann. (1. Korintubréf 1:20, Phillips) Þrátt fyrir allar gáfurnar og snillina höfðu heimspekingar, rithöfundar og gagnrýnendur þess tíma ekki fundið neina raunverulega lausn á vandamálum mannkyns.

Kristnum mönnum lærðist því að forðast það sem Páll kallaði „mótsagnir hinnar rangnefndu þekkingar.“ (1. Tímóteusarbréf 6:20) Ástæðan fyrir því að Páll kallaði þetta ‚rangnefnda‘ þekkingu er sú að það vantaði einn úrslitaþáttinn í hana — heimild eða skírskotun frá Guði til að nota sem prófstein á kenningarnar. (Jobsbók 28:12; Orðskviðirnir 1:7) Þeir sem ríghéldu í þessa þekkingu gátu aldrei vonast til að finna sannleikann af því að þeir höfðu ekki þennan prófstein og voru jafnframt blindaðir af blekkingameistaranum Satan. — 1. Korintubréf 2:6-8, 14; 3:18-20; 2. Korintubréf 4:4; 11:14; Opinberunarbókin 12:9.

Biblían, innblásinn leiðarvísir

Frumkristnir menn efuðust aldrei um að Guð hefði opinberað vilja sinn, ásetning og meginreglur í Ritningunni. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Það veitti þeim vernd svo að þeir yrðu ekki ‚herteknir með heimspeki og hégómavillu sem byggðist á mannasetningum.‘ (Kólossubréfið 2:8) Hið sama er uppi á teningnum núna. Orð Guðs er traustur grunnur til að byggja trú okkar á, ólíkt ruglingslegum og mótsagnakenndum skoðunum manna. (Jóhannes 17:17; 1. Þessaloníkubréf 2:13; 2. Pétursbréf 1:21) Ef því væri ekki til að dreifa værum við í þeirri vonlausu aðstöðu að reyna að reisa trausta trúarbyggingu á hvikulum sandi mannlegra kenninga og heimspeki. — Matteus 7:24-27.

‚En bíðum nú við,‘ segir einhver. ‚Vísindin hafa nú sýnt fram á að Biblían fer með rangt mál, svo að hún er ekkert áreiðanlegri en breytilegar heimspekihugmyndir manna.‘ Bertrand Russell heldur því til dæmis fram að „Kóperníkus, Kepler og Galíleó Galílei hafi þurft að berjast gegn Aristótelesi og Biblíunni til að staðfesta að jörðin væri ekki miðpunktur alheimsins.“ (Leturbreyting okkar.) Og eru sköpunarsinnar ekki harðir á því, svo annað dæmi sé tekið, að Biblían kenni að jörðin hafi verið sköpuð á sex sólarhringum, þó svo að staðreyndir sýni mætavel að jörðin er margra milljarða ára gömul?

Biblían segir reyndar ekki að jörðin sé miðdepill alheimsins. Það var kenning kirkjuleiðtoga sem héldu sig ekki við orð Guðs. Sköpunarsaga Biblíunnar býður upp á það að jörðin geti verið margra milljarða ára gömul, og hún takmarkar ekki sköpunardagana við 24 klukkustundir hvern. (1. Mósebók 1:1, 5, 8, 13, 19, 23, 31; 2:3, 4) Heiðarlegt mat á Biblíunni sýnir að hún fer vissulega ekki með neina ‚vitleysu‘ þó að hún sé ekki kennslubók í vísindum. Sannleikurinn er sá að hún er í fullu samræmi við sönn vísindi. *

‚Skynsemin‘

Þó svo að margir af lærisveinum Jesú hafi verið óbrotið alþýðufólk, og hafi hugsanlega haft litla menntun, höfðu þeir tvennt til að bera sem Guð hafði gefið þeim — rökhyggju og skynsemi sem var óháð uppruna og menntun. Páll postuli hvatti trúsystkini sín til að nota ‚skynsemina‘ til að fá að „reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“ — Rómverjabréfið 12:1, 2, Biblían 1912.

Með því að beita ‚skynseminni‘ sáu frumkristnir menn að hver sú heimspeki eða kenning var gagnslaus sem samræmdist ekki opinberuðu orði Guðs. Í sumum tilvikum voru vitringar samtíðarinnar reyndar að „kefja sannleikann“ og hunsuðu sönnunargögnin fyrir tilvist Guðs. „Þeir þóttust vera vitrir, en urðu heimskingjar,“ skrifaði Páll. Og þar eð þeir höfnuðu sannleikanum um Guð og tilgangi hans urðu þeir ‚hégómlegir í hugsunum sínum og hið skynlausa hjarta þeirra hjúpaðist myrkri.‘ — Rómverjabréfið 1:18-22; Jeremía 8:8, 9.

Þeir sem þykjast vera vitrir komast oft að niðurstöðu á borð við: „Guð er ekki til,“ eða: „Það er ekki hægt að treysta Biblíunni,“ eða: „Þetta eru ekki ‚síðustu dagar.‘“ En þetta er jafnheimskulegt í augum Guðs og að halda því fram að „2=1.“ (1. Korintubréf 3:19) Þó svo að menn taki sér eitthvert vald þarftu ekki að gleypa við ályktunum þeirra ef þær hunsa eða stangast á við orð Guðs eða stríða gegn heilbrigðri skynsemi. Þegar öll kurl koma til grafar er niðurstaðan sú að ‚Guð reynist sannorður þótt hver maður reynist lygari.‘ — Rómverjabréfið 3:4.

[Neðanmáls]

^ gr. 20 Nánari upplýsingar er að finna í bókunum The Bible — God’s Word or Man’s? og Er til skapari sem er annt um okkur? gefnar út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

[Myndir á blaðsíði 31]

Biblían er traustur trúargrunnur, gagnstætt síbreytilegum skoðunum manna.

[Credit line]

Vinstra megin, Epíkúros: Ljósmyndað með góðfúslegu leyfi British Museum; í miðju, Platón: National Archaeological Museum, Aþenu; hægra megin, Sókrates: Musei Capitolini, Róm.