Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Dauðahafshandritin — af hverju eru þau áhugaverð fyrir þig?

Dauðahafshandritin — af hverju eru þau áhugaverð fyrir þig?

Dauðahafshandritin — af hverju eru þau áhugaverð fyrir þig?

Áður en Dauðahafshandritin fundust voru elstu þekktu handrit Hebresku ritninganna frá níundu og tíundu öld okkar tímatals. Ritun Hebresku ritninganna lauk rösklega þúsund árum áður. Var hægt að treysta því að handritin frá níundu og tíundu öld skiluðu orði Guðs óbrengluðu? Julio Trebolle Barrera, prófessor, sem er einn af alþjóðlegum ritstjórum Dauðahafshandritanna, segir: „Jesajabókrollan [frá Kúmran] sannar ótvírætt að afritunarmenn Gyðinga hafa á meira en þúsund ára tímabili varðveitt biblíutextann afar vel og vandvirknislega.“

BÓKROLLAN, sem Barrera nefnir hér, er bók Jesaja í heilu lagi. Þegar þetta er skrifað hafa fundist ríflega 200 biblíuhandrit í Kúmran sem svara til einhvers hluta af öllum bókum Hebresku ritninganna að Esterarbók undanskilinni. Ólíkt Jesajabókrollunni eru þetta að mestu leyti brot af bókum Biblíunnar, yfirleitt innan við tíundi hluti hverrar bókar. Af handritunum, sem fundust í Kúmran, voru flest af Sálmunum (36 eintök), 5. Mósebók (29 eintök) og Jesaja (21 eintak). Þetta eru líka þær bækur sem oftast er vitnað til í kristnu Grísku ritningunum.

Bókrollurnar sýna og sanna að Biblían hefur ekki breyst sem neinu nemur. Þó bera þær með sér að til voru eilítið ólíkar útgáfur af hebreska biblíutextanum, hver með sínu afbrigði, sem Gyðingar notuðu á tímum síðara musterisins. Orðalag og stafsetning er ekki alltaf nákvæmlega eins og masoretatextinn. Sum handritin eru nær grísku Sjötíumannaþýðingunni. Áður töldu fræðimenn að rekja mætti frávik Sjötíumannaþýðingarinnar til mistaka eða vísvitandi breytinga þýðendanna. En handritin leiða í ljós að oft má rekja þennan mun til afbrigða í hebreska textanum. Það kann að vera skýringin á því að frumkristnir menn notuðu stundum annað orðalag en er í masoretatextanum þegar þeir vitnuðu í Hebresku ritningarnar. — 2. Mósebók 1:5; Postulasagan 7:14.

Þessi handritafjársjóður er því góður vettvangur til að rannsaka hvernig hebreski biblíutextinn hefur borist frá kynslóð til kynslóðar. Dauðahafshandritin hafa bæði staðfest gildi Sjötíumannaþýðingarinnar og Samverska fimmbókaritsins til textasamanburðar. Þau gefa biblíuþýðendum nýjan grunn að hugsanlegum lagfæringum á masoretatextanum. Í mörgum tilvikum staðfesta þau þá ákvörðun nýheimsþýðingarnefndarinnar að setja nafn Jehóva inn þar sem það hafði verið fellt niður í masoretatextanum.

Þau handrit, sem lýsa trú og reglum sértrúarflokksins í Kúmran, sýna mjög greinilega að Gyðingdómurinn á dögum Jesú var klofinn í nokkrar greinar. Kúmranflokkurinn átti sér aðrar erfðavenjur en farísear og saddúkear. Þessi mismunur hefur líklega átt þátt í því að flokkurinn dró sig afsíðis út í eyðimörkina. Þeir álitu ranglega að þeir væru að uppfylla Jesaja 40:3 um rödd í eyðimörkinni sem ryddi Jehóva veg. Mörg af handritabrotunum minnast á Messías og höfundar töldu greinilega að hann væri á næsta leiti. Þetta er einkar athyglisvert fyrir þá sök að Lúkas nefnir ‚mikla eftirvæntingu hjá lýðnum‘ vegna komu Messíasar. — Lúkas 3:15.

Dauðahafshandritin eru nokkur hjálp til að skilja samtíð Jesú og umhverfið þar sem hann prédikaði. Þau veita upplýsingar sem nota má til samanburðarrannsókna á forn-hebresku og biblíutextanum. En mörg af Dauðahafshandritunum þarfnast nánari rannsóknar. Vel má því vera að þau eigi eftir að veita nýjan skilning á ýmsu. Já, merkasti fornleifafundur 20. aldarinnar er mjög spennandi bæði fyrir biblíufræðinga og biblíunemendur nú í upphafi 21. aldar.

[Mynd credit line á blaðsíðu 7]

Uppgröftur í Kúmran: Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.; handrit: Með góðfúslegu leyfi Shrine of the Book, Israel Museum, Jerúsalem.