Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hefurðu tileinkað þér sannleikann?

Hefurðu tileinkað þér sannleikann?

Hefurðu tileinkað þér sannleikann?

„Takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 12:2.

1, 2. Af hverju er ekki auðvelt að vera sannkristinn nú á dögum?

ÞAÐ er engan veginn auðvelt að vera sannkristinn maður núna á „síðustu dögum.“ Þetta eru ‚örðugir tímar.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Til að fylgja fordæmi Krists þurfum við að sigra heiminn. (1. Jóhannesarbréf 5:4) Jesús sagði um hina kristnu lífsbraut: „Gangið inn um þrönga hliðið. Því að vítt er hliðið og vegurinn breiður, sem liggur til glötunar, og margir þeir, sem þar fara inn. Hve þröngt er það hlið og mjór sá vegur, er liggur til lífsins, og fáir þeir, sem finna hann.“ Öðru sinni sagði hann: „Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér.“ — Matteus 7:13, 14; Lúkas 9:23.

2 Eftir að hafa fundið mjóa veginn til lífsins er vandinn sá að halda sig á honum. Af hverju er það vandi? Af því að við gerum okkur að skotspæni Satans með því að vígjast og skírast og Satan er slóttugur. (Efesusbréfið 6:11) Hann tekur eftir veikleikum okkar og reynir að notfæra sér þá í þeim tilgangi að spilla andlegu hugarfari okkar. Varla lætur hann okkur í friði fyrst hann reyndi að spilla Jesú. — Matteus 4:1-11.

Klækjabrögð Satans

3. Hvernig sáði Satan efasemdum í huga Evu?

3 Eitt af bellibrögðum Satans er fólgið í því að vekja hjá okkur efasemdir . Hann leitar að veilum í andlegum herklæðum okkar. Hann beitti þessari aðferð strax í upphafi er hann spurði Evu: „Er það satt, að Guð hafi sagt: ‚Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum‘?“ (1. Mósebók 3:1) Satan sagði með öðrum orðum: ‚Getur það virkilega verið að Guð hafi lagt þetta bann á ykkur? Af hverju ætli hann sé að meina ykkur um eitthvað sem er svona gott fyrir ykkur? Hann veit nefnilega að augu ykkar opnast jafnskjótt og þið borðið ávöxtinn af trénu og þið verðið eins og hann og þekkið muninn á góðu og illu!‘ Satan sáði efasemdum og beið þess svo að þær skytu rótum. — 1. Mósebók 3:5.

4. Hvaða efasemdir gætu sótt á suma?

4 Hvernig beitir Satan þessari aðferð núna? Ef við vanrækjum biblíulestur, einkanám, bænir, boðunarstarf og samkomur er hætta á að við gerum okkur berskjalda fyrir efasemdum annarra, svo sem: ‚Hvernig vitum við að þetta er sannleikurinn eins og Jesús kenndi hann?‘ ‚Lifum við raunverulega á síðustu dögum? Það er nú komið fram á 21. öldina.‘ ‚Er Harmagedón alveg að koma eða er langt í það?‘ Hvað getum við gert til að eyða svona efasemdum ef þær sækja á okkur?

5, 6. Hvað þurfum við að gera ef efasemdir sækja á okkur?

5 Jakob gaf góð ráð í bréfi sínu: „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast. En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi. Sá maður, tvílyndur og reikull á öllum vegum sínum, má eigi ætla, að hann fái nokkuð hjá [Jehóva].“ — Jakobsbréfið 1:5-8.

6 Hvað þurfum við þá að gera? Við þurfum að ‚biðja Guð‘ um trú og skilning og leggja okkur sérstaklega vel fram við einkanám á þeim sviðum þar sem við erum efablandin eða höfum spurningar. Við getum líka beðið um hjálp þeirra sem eru sterkir í trúnni, og við skulum aldrei efast um að Jehóva veiti okkur þann stuðning sem við þörfnumst. Jakob sagði líka: „Gefið yður því Guði á vald, standið gegn djöflinum, og þá mun hann flýja yður. Nálægið yður Guði, og þá mun hann nálgast yður.“ Við eyðum efasemdunum með því að nálægja okkur Guði með námi og bæn. — Jakobsbréfið 4:7, 8.

7, 8. Hvað þarf að miða við til að kanna hvers konar tilbeiðslu Jesús boðaði og hverjir stunda hana?

7 Lítum til dæmis á það hvernig við vitum að við stundum þá tilbeiðslu sem Jesús boðaði. Hvað þarf að miða við til að ganga úr skugga um það? Biblían bendir á að sannkristnir menn verði að elska hver annan í alvöru. (Jóhannes 13:34, 35) Þeir verða að helga nafn Guðs, Jehóva. (Jesaja 12:4, 5; Matteus 6:9) Og þeir verða að kunngera nafnið. — 2. Mósebók 3:15; Jóhannes 17:26.

8 Virðing fyrir orði Guðs, Biblíunni, er annað einkenni sannrar tilbeiðslu. Biblían er einstök bók sem opinberar persónuleika Jehóva og tilgang. (Jóhannes 17:17; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Sannkristnir menn boða að ríki Guðs sé eina vonin um að mannkynið geti hlotið eilíft líf í paradís á jörð. (Markús 13:10; Opinberunarbókin 21:1-4) Þeir halda sér aðgreindum frá spilltum stjórnmálum heimsins og óhreinu líferni. (Jóhannes 15:19; Jakobsbréfið 1:27; 4:4) Hverjir uppfylla þessi skilyrði? Staðreyndirnar sýna að það eru einungis vottar Jehóva sem gera það.

Ef efasemdirnar eru þrálátar

9, 10. Hvað getum við gert til að sigrast á þrálátum efasemdum?

9 Hvað getum við gert ef efasemdirnar eru þrálátar og áleitnar? Salómon konungur kom með viturlegt svar: „Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku og geymir boðorð mín hjá þér, svo að þú ljáir spekinni athygli þína, hneigir hjarta þitt að hyggindum, já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin, ef þú leitar að þeim sem að silfri og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum, þá munt þú skilja, hvað ótti [Jehóva] er, og öðlast þekking á Guði.“ — Orðskviðirnir 2:1-5.

10 Þetta er næstum yfirþyrmandi tilhugsun. Ef við erum fús til að gefa alvarlegan gaum að visku Guðs ‚öðlumst við þekkingu á honum.‘ Alvaldur Drottinn alheimsins er innan seilingar ef við erum tilbúin til að taka við orðum hans og varðveita þau. Við náum til hans með einkanámi og bæn. Hinir huldu fjársjóðir Biblíunnar geta eytt öllum efasemdum og hjálpað okkur að sjá ljós sannleikans.

11. Hvaða efasemdir sóttu á þjón Elísa?

11 Við finnum skýrt dæmi í 2. Konungabók 6:11-18 um það hvernig bænin hjálpaði óttaslegnum og efablöndnum þjóni Guðs. Þjónn Elísa sá hlutina ekki alveg í andlegu samhengi. Hann áttaði sig ekki á því að himneskar hersveitir voru nærri til að styðja spámann Guðs sem var umsetinn sýrlenskum her. Hann hrópaði óttasleginn: „Æ, herra minn, hvað eigum við nú til bragðs að taka?“ „Óttast ekki, því að fleiri eru þeir, sem með okkur eru, en þeir, sem með þeim eru,“ svaraði Elísa. En hvernig sannfærðist þjónninn? Hann sá ekki hinar himnesku hersveitir.

12. (a) Hvernig var efasemdum þjónsins eytt? (b) Hvernig getum við eytt efasemdum sem kunna að sækja á okkur?

12 „Elísa gjörði bæn sína og mælti: ‚[Jehóva], opna þú augu hans, svo að hann sjái.‘ Þá opnaði [Jehóva] augu sveinsins, og sá hann þá, að fjallið var alþakið hestum og eldlegum vögnum hringinn í kring um Elísa.“ Hér lét Jehóva þjóninn sjá hinar himnesku hersveitir sem vernduðu Elísa. En við skulum ekki reikna með að fá þess konar hjálp frá Guði nú á tímum. Höfum hugfast að þjónn spámannsins hafði ekki aðgang að allri Biblíunni til að nema og styrkja trúna. Við höfum alla Biblíuna. Ef við notum hana vel getur það líka styrkt trú okkar. Við gætum til dæmis ígrundað nokkrar frásagnir sem lýsa Jehóva í himneskum hirðsölum sínum. Þær taka af allan vafa um að hann á sér himneskt skipulag sem styður þjóna hans í fræðslustarfi þeirra um víða veröld. — Jesaja 6:1-4; Esekíel 1:4-28; Daníel 7:9, 10; Opinberunarbókin 4:1-11; 14:6, 7.

Gættu þín á vélabrögðum Satans!

13. Hvernig reynir Satan að veikja tök okkar á sannleikanum?

13 Satan hefur ýmsar aðrar leiðir til að draga úr andlegum mætti okkar og veikja tök okkar á sannleikanum. Ein þeirra er siðleysi í öllum sínum myndum. Nautnasjúk og kynóð kynslóð er staðráðin í að skemmta sér hvað sem það kostar. Svokölluð ástarævintýri (skrauthvörf fyrir framhjáhald) eða einnar nætur gaman (skyndikynni) eru orðin daglegt brauð. Kvikmyndir, sjónvarp og myndbönd hampa þess konar líferni. Fjölmiðlar, einkum Netið, eru gagnsýrðir klámi og freistingin bíður hinna forvitnu. — 1. Þessaloníkubréf 4:3-5; Jakobsbréfið 1:13-15.

14. Af hverju hafa sumir kristnir menn orðið vélabrögðum Satans að bráð?

14 Sumir kristnir menn hafa látið forvitnina hlaupa með sig í gönur og óhreinkað hugann og hjartað með því að horfa á hálfdjarfar eða jafnvel svæsnar klámmyndir. Þeir hafa leyft sér að falla í eina af tálgryfjum Satans. Afleiðingin er oft andlegt skipbrot. Þeir hafa hvorki gætt þess að vera „sem ungbörn í illskunni“ né orðið „fullorðnir í dómgreind.“ (1. Korintubréf 14:20) Þúsundir manna gjalda dýru verði fyrir það að fylgja ekki þeim meginreglum sem orð Guðs setur. Þeir íklæðast ekki eða viðhalda „alvæpni Guðs.“ — Efesusbréfið 6:10-13; Kólossubréfið 3:5-10; 1. Tímóteusarbréf 1:18, 19.

Fjársjóður okkar

15. Af hverju getur sumum fundist erfitt að meta andlega arfleifð sína að verðleikum?

15 Þið „munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa,“ sagði Jesús. (Jóhannes 8:32) Flestir vottar hafa þurft að breyta líferni sínu og slíta þeim trúartengslum sem þeir höfðu. Fyrir vikið finna þeir vel fyrir því frelsi sem sannleikurinn veitir. Ungt fólk, sem er alið upp í sannleikanum, á stundum erfiðara með að meta hina andlegu arfleifð sína að verðleikum. Það hefur aldrei tilheyrt falstrúarbrögðum eða heiminum þar sem allt snýst um skemmtanafíkn, eiturlyfjafíkn og siðleysi. Þar af leiðandi skynjar það ekki alltaf hvílíkur reginmunur er á andlegu paradísinni og spilltum heimi Satans. Sumir falla jafnvel fyrir freistingunni að smakka á eitri heimsins til að kanna hvað þeir hafi farið á mis við. — 1. Jóhannesarbréf 2:15-17; Opinberunarbókin 18:1-5.

16. (a) Hvaða spurninga getum við spurt okkur? (b) Hvað er okkur kennt og hvað erum við hvött til að gera?

16 Þurfum við virkilega að brenna okkur til að þekkja sársauka og þjáningar? Getum við ekki dregið lærdóm af biturri reynslu annarra? Þurfum við að vaða út í „saur“ heimsins til að kanna hvort við höfum farið á mis við eitthvað? (2. Pétursbréf 2:20-22) Pétur minnti kristna menn fyrstu aldar á að þeir hefðu áður tilheyrt heimi Satans: „Nógu lengi hafið þér gjört vilja heiðingjanna og lifað í saurlifnaði, girndum, ofdrykkju, óhófi, samdrykkjum og svívirðilegri skurðgoðadýrkun.“ Við þurfum ekki að kynnast „spillingardíki“ heimsins af eigin raun til að sjá hve djúpt er hægt að sökkva. (1. Pétursbréf 4:3, 4) Ríkissalurinn er biblíufræðslumiðstöð þar sem við lærum um háleita siðferðisstaðla Jehóva. Og við erum hvött til að beita skynseminni til að sanna fyrir sjálfum okkur að við þekkjum sannleikann og síðan að tileinka okkur hann. — Jósúabók 1:8; Rómverjabréfið 12:1, 2; 2. Tímóteusarbréf 3:14-17.

Nafnið er meira en merkimiði

17. Hvernig getum við verið góðir vottar um Jehóva?

17 Ef við tileinkum okkur sannleikann gerum við okkur far um að koma honum á framfæri við aðra hvenær sem viðeigandi færi gefst. Það merkir ekki að við reynum að þröngva honum upp á fólk sem sýnir engan áhuga. (Matteus 7:6) En við erum ekki feimin að segja frá því að við séum vottar Jehóva. Ef einhver sýnir smááhuga með því að spyrja einlægrar spurningar eða þiggja biblíutengt rit, þá erum við reiðubúin að segja frá voninni sem við höfum. Þetta þýðir auðvitað að gott er að hafa alltaf meðferðis einhver rit, hvort sem við erum heima, í vinnu, skóla, verslun eða á einhverjum afþreyingarstað. — 1. Pétursbréf 3:15.

18. Hvernig getur það verið gott fyrir okkur að láta aðra vita að við erum kristin?

18 Við styrkjum varnir okkar gegn lúmskum árásum Satans ef við drögum ekki dul á það að við erum kristin. Vinnufélagarnir ætla að halda jólaveislu, fagna afmæli eða efna til happdrættis en segja þá: „Látum hana eiga sig. Hún er vottur.“ Af sömu ástæðu segja menn síður grófa brandara í viðurvist okkar. Það er því mjög gott fyrir okkur að aðrir viti hver afstaða okkar er, líkt og Pétur postuli benti á: „Hver er sá, er mun gjöra yður illt, ef þér kappkostið það sem gott er? En þótt þér skylduð líða illt fyrir réttlætis sakir, þá eruð þér sælir.“ — 1. Pétursbréf 3:13, 14.

19. Hvernig vitum við að það er langt liðið á hina síðustu daga?

19 Ef við tileinkum okkur sannleikann sannfærumst við líka um að við lifum raunverulega á síðustu dögum þessa heimskerfis. Þá vitum við að margir af spádómum Biblíunnar eru að ná hámarki á okkar dögum. * Páll sagði í varnaðartón að ‚á síðustu dögum myndu koma örðugar tíðir‘ og það hefur sannast rækilega í hryllingi nýliðinnar aldar. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Markús 13:3-37) Fyrir nokkru birtist blaðagrein, sem fjallaði um 20. öldina, og fyrirsögnin var: „Hún verður kölluð öld villimennskunnar.“ Þar sagði meðal annars: „Árið 1999 reyndist mesta manndrápsár á síðari helmingi mestu manndrápsaldar sögunnar.“

20. Hvað þurfum við að gera núna?

20 Þetta er ekki rétti tíminn til að tvístíga. Það er ljóst að Jehóva blessar mesta biblíufræðsluátak sem gert hefur verið í sögu mannkyns, öllum þjóðum til vitnisburðar. (Matteus 24:14) Tileinkaðu þér sannleikann og segðu öðrum frá honum. Eilíf framtíð þín er undir því komin hvað þú gerir núna. Við ávinnum okkur ekki blessun Jehóva með því að slá slöku við heldur þurfum við að vera ‚staðföst, óbifanleg, síauðug í verki Drottins, því að við vitum að erfiði okkar er ekki árangurslaust í Drottni.‘ — Lúkas 9:62; 1. Korintubréf 15:58.

[Neðanmáls]

^ gr. 19 Sjá Varðturninn 1. mars 2000, bls. 26-8. Í 13.-18. grein er bent á sex sönnunarleiðir til að sýna fram á að hinir síðustu dagar hafi hafist árið 1914.

Manstu?

• Hvernig getum við eytt efasemdum?

• Hvaða lærdóm má draga af þjóni Elísa?

• Gegn hvaða freistingum þurfum við að vera á varðbergi?

• Af hverju ættum við að vera ófeimin að láta aðra vita að við erum vottar Jehóva?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 10]

Reglulegt biblíunám og bæn getur eytt efasemdum.

[Mynd á blaðsíðu 11]

Þjónn Elísa sá sýn sem vann bug á efasemdum hans.

[Mynd á blaðsíðu 12]

Í ríkissalnum lærum við háleita siðferðisstaðla Jehóva. Ríkissalurinn á myndinni er í Benín.