Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hver er sannleikurinn um Dauðahafshandritin?

Hver er sannleikurinn um Dauðahafshandritin?

Hver er sannleikurinn um Dauðahafshandritin?

Sumir kalla þetta merkasta fornleifafund tuttugustu aldar. Hann átti sér stað fyrir rúmlega 50 árum þegar Bedúíni, sem var að gæta fjár, kastaði steini inn í helli og heyrði brothljóð. Inni í hellinum fann hann brotna leirkrukku ásamt bókrollu. Hann hafði fundið fyrsta Dauðahafshandritið sem svo er kallað.

ÞESSAR bókrollur hafa vakið mikla athygli og verið tilefni mikilla deilna, bæði meðal fræðimanna og í fjölmiðlum. Almenningur hefur fengið misvísandi og jafnvel rangar upplýsingar um þær. Sögur eru á kreiki um stórkostlegar yfirhylmingar sem eiga að vera sprottnar af ótta við að handritin innihaldi upplýsingar sem grafi bæði undan trú kristinna manna og Gyðinga. En hvert er raunverulegt gildi þessara bóka? Liggja staðreyndirnar fyrir núna, 50 árum eftir að þær fundust?

Hvað eru Dauðahafshandritin?

Dauðahafshandritin eru æfaforn gyðingleg handrit, flest á hebresku, sum á arameísku og fáein á grísku. Bókrollurnar og handritabrotin eru mörg hver meira en 2000 ára gömul, það er að segja frá því fyrir fæðingu Jesú. Meðal fyrstu handritanna, sem fengust frá Bedúínunum, voru sjö langar bókrollur, misjafnlega illa farnar. Fleiri bókrollur og þúsundir handritabrota fundust þegar leitað var í fleiri hellum. Á árunum 1945 til 1956 fundust handrit í alls 11 hellum í grennd við Kúmran við Dauðahaf.

Eftir að búið var að flokka allar bókrollur og handritabrot kom í ljós að handritin voru um 800 talsins. Hér um bil fjórðungur, eða liðlega 200 handrit, eru afrit af bókum eða hlutum hebresku biblíunnar. Hin handritin eru óbiblíuleg gyðingarit, bæði apokrýfurit og ýmis falsrit. *

Fræðimenn voru sérstaklega spenntir að kynna sér innihald áður óþekktra verka. Þar var meðal annars um að ræða túlkanir á ýmsum ákvæðum gyðinglegra laga, sérreglur um samfélag sértrúarflokksins sem bjó í Kúmran, helgiljóð og bænir, og svo heimsslitafræðiverk sem lýsa skoðunum á uppfyllingu biblíuspádóma og síðustu dögum. Þar voru einnig fágæt biblíuskýringarit, elstu forverar nútímalegra skýringarita þar sem farið er yfir biblíutexta vers fyrir vers.

Hverjir skrifuðu Dauðahafshandiritin?

Ýmsar aldursgreiningaraðferðir gefa til kynna að Dauðahafshandritin hafi verið samin eða afrituð einhvern tíma á milli þriðju aldar f.o.t. og fyrstu aldar e.o.t. Sumir fræðimenn hafa slegið fram þeirri hugmynd að Gyðingar frá Jerúsalem hafi falið handritin í hellunum áður en musterinu var eytt árið 70. Flestir fræðimenn, sem hafa rannsakað handritin, eru þó á því að það geti ekki staðist miðað við efni þeirra. Mörg þeirra lýsa viðhorfum og siðum sem stinga mjög í stúf við afstöðu trúaryfirvaldanna í Jerúsalem. Bókrollurnar lýsa samfélagi sem trúði að Guð hefði hafnað prestunum og musterisþjónustunni í Jerúsalem og taldi að hann liti á tilbeiðslu þessa eyðimerkursamfélags sem eins konar ígildi musterisþjónustunnar. Það verður að teljast ólíklegt að musterisyfirvöldin í Jerúsalem hefðu viljað koma safni handrita með bókum af þessu tagi í örugga geymslu.

Þótt líklegt sé að hópur afritunarmanna hafi verið í Kúmran má ætla að mörgum af bókrollunum hafi verið safnað annars staðar og þær fluttar þangað af hinum trúuðu. Í vissum skilningi má kalla Dauðahafshandritin viðamikið bókasafn. Eins og í hverju öðru bókasafni gætir þar mjög ólíkra skoðana sem þurfa ekki endilega að hafa endurspeglað trúarviðhorf lesendanna. En þeir textar, sem til eru í mörgum eintökum, bera eflaust vitni um sérstök áhugamál og trú hópsins.

Voru Kúmranbúar essenar?

Ef þessar bókrollur eru ættaðar frá bókasafninu í Kúmran liggur beint við að spyrja næst hverjir hafi búið þar. Eleazar Sukenik, prófessor, fékk þrjár bókrollur til Hebreska háskólans í Jerúsalem árið 1947, og hann sló því fram fyrstur manna að handritin hefðu tilheyrt samfélagi essena.

Essenar voru gyðinglegur sértrúarflokkur sem fyrst er getið um í ritum Jósefusar, Fílons frá Alexandríu og Pliníusar eldri á fyrstu öld. Margt er á huldu um uppruna essena en þeir virðast hafa komið fram á umbrotatímanum eftir uppreisn Makkabea á annarri öld f.o.t. * Hjá Jósefusi kemur fram að þeir hafi verið til á þeim tíma því að hann lýsir muninum á trúarviðhorfum þeirra annars vegar og farísea og saddúkea hins vegar. Pliníus getur þess að essenar hafi haft aðsetur við Dauðahaf á milli Jeríkó og Engedí.

James VanderKam, prófessor og dauðahafshandritafræðingur, getur sér þess til að „essenar í Kúmran hafi aðeins verið lítill hluti af stærri hreyfingu essena“ sem Jósefus segir hafa verið um fjögur þúsund talsins. Þó svo að essenar samsvari ekki nákvæmlega þeirri mynd, sem lesa má út úr textunum frá Kúmran, gera þeir það betur en nokkur annar hópur Gyðinga sem um er vitað á þeim tíma.

Sumir segja að kristnin hafi átt upptök sín í Kúmran. En það er mikill munur á trúarviðhorfum frumkristinna manna og sértrúarflokksins í Kúmran. Kúmranritin lýsa ofurströngum hvíldardagsreglum og áherslan á trúarlegan hreinleika er slík að jaðrar við þráhyggju. (Matteus 15:1-20; Lúkas 6:1-11) Hið sama er að segja um einangrun essena frá umheiminum, trú þeirra á forlög og ódauðleika sálarinnar og um áherslu þeirra á ókvæni og dulspekilegar hugmyndir um þátttöku engla í tilbeiðslu þeirra. Þessar hugmyndir stinga óneitanlega í stúf við kenningar Jesú og frumkristinna manna. — Matteus 5:14-16; Jóhannes 11:23, 24; Kólossubréfið 2:18; 1. Tímóteusarbréf 4:1-3.

Engar yfirhylmingar, engum bókrollum leynt

Á árunum eftir að Dauðahafshandritin fundust voru fyrstu uppgötvanir birtar og fræðimenn um heim allan áttu greiðan aðgang að þeim. Þúsundir handritabrota, sem fundist höfðu í svonefndum Fjórða helli, lágu hins vegar ekki á lausu. Fámennur, alþjóðlegur hópur fræðimanna við Fornminjasafn Palestínu í Austur-Jerúsalem (sem þá tilheyrði Jórdaníu) réð yfir þessum handritum. Engir ísraelskir eða gyðinglegir fræðimenn voru í hópnum.

Hópurinn markaði sér þá stefnu að leyfa ekki aðgang að bókrollunum fyrr en rannsóknum væri lokið og opinberar niðurstöður hefðu verið birtar. Aðeins takmarkaður fjöldi fræðimanna fékk að vera í hópnum. Dæi einhver þeirra var aðeins bætt við einum nýjum fræðimanni í hans stað. En verkið krafðist margfalt fleiri fræðimanna og í sumum tilvikum meiri sérfræðikunnáttu í forn-hebresku og arameísku en rannsóknarhópurinn bjó yfir. „Átta sérfræðingar, þótt færir væru, réðu ekki við tugþúsundir handritabrota,“ svo notuð séu orð James VanderKams.

Í sexdagastríðinu árið 1967 komst Austur-Jerúsalem og bókrollurnar undir yfirráð Ísraela en engin stefnubreyting varð í sambandi við teymið sem vann að rannsóknum á þeim. Drátturinn á því að bókrollurnar úr Fjórða helli væru birtar lengdist úr árum í áratugi og margir fræðimenn mótmæltu hástöfum þessum vinnubrögðum. Geza Vermes, prófessor við Oxford-háskóla, kallaði þessi vinnubrögð hið fullkomna akademíska hneyksli 20. aldarinnar. Það var árið 1977. Sá kvittur komst á kreik að kaþólska kirkjan væri að fela efni úr bókunum af því að birting þess yrði reiðarslag fyrir kristnina.

Á níunda áratugnum var loks fjölgað í 20 fræðimenn í vinnuhópnum. Árið 1990 var fjölgað enn í hópnum undir forystu nýskipaðs aðalritstjóra, Emanuels Tovs frá Hebreska háskólanum í Jerúsalem. Rannsóknarmennirnir voru nú orðnir rúmlega 50. Sett var upp stíf tímaáætlun að fræðilegri útgáfu allra þeirra handrita sem eftir voru.

Árið 1991 urðu óvænt tímamót í birtingu handritanna. Fyrst var gefin út bráðabirgðaútgáfa áður óbirtra Dauðahafshandrita (í bókinni A Preliminary Edition of the Unpublished Dead Sea Scrolls). Handritabrotunum hafði verið raðað saman með tölvutækni og byggt á samræmingarlykli sem rannsóknarhópurinn hafði búið til. Því næst tilkynnti Huntington-bókasafnið í San Marino í Kaliforníu að það myndi láta öllum fræðimönnum, sem vildu, í té heilstætt safn mynda af öllum bókrollunum. Áður en langt um leið var svo hægt að nálgast ljósmyndir af áður óbirtum Dauðahafshandritum (Facsimile Edition of the Dead Sea Scrolls).

Öll Dauðahafshandritin hafa því verið aðgengileg fræðimönnum til rannsókna frá því á síðasta áratug. Rannsóknir á þessum handritum leiða í ljós að það hafa aldrei átt sér stað neinar yfirhylmingar og engum bókum hefur verið leynt. Nú er loks hægt að hefja heildarrannsóknir á þessum handritum. Og ný kynslóð handritafræðinga er komin fram á sjónarsviðið. En hvaða þýðingu hafa þessar rannsóknir haft fyrir biblíuáhugamenn?

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Bæði apokrýfuritin (bókstaflega „huldurit“) og falsritin (Pseudepigrapha) eru gyðingleg rit frá þriðju öld f.o.t. fram til fyrstu aldar e.o.t. Apokrýfuritin eru viðurkennd af rómversk-kaþólsku kirkjunni sem hluti af helgiritasafni hinnar innblásnu Biblíu en gyðingar og mótmælendur hafna þeim. Falsritin eru gjarnan viðbætur við frásögur Biblíunnar, skrifaðar í nafni einhverrar frægrar biblíupersónu.

^ gr. 13 Sjá greinina „Who Were the Maccabees?“ (Hverjir voru Makkabear?) í Varðturninum (enskri útgáfu) 15. nóvember 1998, bls. 21-4.

[Mynd á blaðsíðu 3]

Hellar nærri Dauðahafinu þar sem sum af handritunum fundust.

[Mynd credit line á blaðsíðu 3]

Handritabrot: Bls. 3, 4 og 6: Með góðfúslegu leyfi Israel Antiquities Authority.

[Mynd credit line á blaðsíðu 5]

Með góðfúslegu leyfi Shrine of the Book, Israel Museum, Jerúsalem.