Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lifirðu eftir vígsluheiti þínu?

Lifirðu eftir vígsluheiti þínu?

Lifirðu eftir vígsluheiti þínu?

„Hvað sem þér gjörið, þá vinnið af heilum huga, eins og [Jehóva] ætti í hlut, en ekki menn.“ — KÓLOSSUBRÉFIÐ 3:23.

1. Hvernig helga menn sig íþróttum?

HVERNIG ná íþróttamenn að skara fram úr? Hinir bestu komast ekki á toppinn nema þeir helgi sig íþróttinni, og gildir þá einu hvort um er að ræða tennis, knattspyrnu, körfuknattleik, spretthlaup, golf eða eitthvað annað. Íþróttamaðurinn þarf að þjálfa bæði huga og líkama, og þjálfa stíft. En er það þess konar helgun sem á að koma upp í hugann þegar talað er um vígslu í biblíulegum skilningi?

2. Hvað merkir „vígsla“ í biblíulegu samhengi? Gefðu dæmi.

2 Hvað merkir orðið „vígsla“ í biblíulegum skilningi? Sögnin „að vígja“ er þýðing hebreskrar sagnar sem merkir „að halda aðgreindum; vera aðgreindur; taka burtu eða til baka.“ * Aron, æðstiprestur í Ísrael að fornu, bar á vefjarhetti sínum „hið heilaga vígslutákn“ sem var skínandi gullplata með áletruninni „heilagleiki tilheyrir Jehóva.“ Það var til áminningar fyrir æðstaprestinn um að hann mætti ekki vanhelga helgidóminn „því að vígsla smurningarolíu Guðs hans er á honum.“ — 2. Mósebók 29:6; 39:30, NW; 3. Mósebók 21:12.

3. Hvaða áhrif á vígsla að hafa á líf okkar?

3 Af þessu samhengi sést að vígsla er alvarlegt mál. Hún gefur í skyn að maður lýsi sig þjón Guðs og hún heimtar hreint líferni. Við skiljum því hvers vegna Pétur postuli hafði eftir Jehóva: „Verið heilagir, því ég er heilagur.“ (1. Pétursbréf 1:15, 16) Vígðum kristnum manni er skylt að lifa eftir vígsluheiti sínu, að vera trúr allt til enda. En hvað er fólgið í kristinni vígslu? — 3. Mósebók 19:2; Matteus 24:13.

4. Hvernig náum við því stigi að vígjast og við hvað má líkja því?

4 Við byrjuðum á því að tileinka okkur nákvæma þekkingu á Jehóva Guði og tilgangi hans, og á Jesú Kristi og hlutverki hans í tilgangi Guðs. Síðan ákváðum við að þjóna Guði af öllu hjarta, huga, sálu og mætti. (Markús 8:34; 12:30; Jóhannes 17:3) Það má líta á það sem persónulegt heit, sem skilyrðislausa vígslu til Guðs. Við vígðum okkur ekki í hita augnabliksins heldur eftir að hafa ígrundað það vel og rætt það við Jehóva í bæn. Þetta var engin skammtímaákvörðun. Við megum ekki vera eins og maður sem byrjar að plægja akur og hættir síðan í miðjum klíðum af því að honum finnst það of erfitt eða finnst of langt fram til uppskeru eða uppskeran óviss. Hugsaðu um fólk sem hefur ‚lagt hönd á plóginn‘ og haldið áfram í guðræðislegri þjónustu í blíðu og stríðu. — Lúkas 9:62; Rómverjabréfið 12:1, 2.

Þeir féllu ekki frá

5. Hvernig var Jeremía gott dæmi um dyggan þjón Guðs?

5 Jeremía var spámaður í Jerúsalem í meira en 40 ár (647-607 f.o.t.) og það var engan veginn auðvelt starf. Hann gerði sér fulla grein fyrir takmörkum sínum. (Jeremía 1:2-6) Hann þurfti að vera hugrakkur og þolgóður til að horfast í augu við hina þrjósku Júdamenn dag eftir dag. (Jeremía 18:18; 38:4-6) En Jeremía treysti á Jehóva Guð sem styrkti hann svo að hann reyndist trúr og dyggur þjónn. — Jeremía 1:18, 19.

6. Hvaða gott fordæmi gaf Jóhannes postuli?

6 Jóhannes postuli var sendur háaldraður í útlegð til hrjóstureyjarinnar Patmos „fyrir sakir Guðs orðs og vitnisburðar Jesú.“ (Opinberunarbókin 1:9) Hann var vígður kristinn maður í ein 60 ár og lifði samkvæmt því. Hann lifði það að Rómverjar eyddu Jerúsalem. Hann fékk að skrifa eitt guðspjallanna, þrjú innblásin bréf og Opinberunarbókina þar sem hann sá Harmagedónstríðið í sýn. Gafst hann upp þegar hann komst að raun um að Harmagedón kæmi ekki fyrr en eftir hans dag? Missti hann áhugann? Nei, hann var trúr allt til dauða. Hann vissi að ‚tíminn var í nánd‘ þó að sýnin ætti ekki að uppfyllast fyrr en síðar. — Opinberunarbókin 1:3; Daníel 12:4.

Nútímadæmi um vígða þjóna Guðs

7. Nefndu dæmi um bróður sem hélt vígsluheit sitt dyggilega.

7 Í nútímasögu hafa þúsundir kristinna manna haldið vígsluheit sitt dyggilega þótt þeir hafi ekki lifað það að sjá Harmagedón. Ernest E. Beavor á Englandi gerðist vottur árið 1939, í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar. Hann hafði gert það gott sem fréttaljósmyndari en hætti því til að gerast boðberi í fullu starfi. Hann þurfti að sitja í fangelsi í tvö ár vegna hlutleysis. Fjölskyldan studdi hann og árið 1950 innrituðust börnin hans þrjú í biblíuskólann Gíleað í New York til að fá trúboðsþjálfun. Bróðir Beavor var svo kostgæfinn í boðunarstarfinu að vinir hans kölluðu hann Harmagedón-Ernie. Hann hélt vígsluheit sitt dyggilega og boðaði Harmagedónstríð Guðs allt til dauða árið 1986. Hann leit ekki á vígslu sína sem tímabundinn samning við Guð. * — 1. Korintubréf 15:58.

8, 9. (a) Hvaða góða fyrirmynd gáfu ungir menn á Spáni í stjórnartíð Francos? (b) Hvaða spurninga er viðeigandi að spyrja?

8 Við finnum líka mörg dæmi á Spáni um óbilandi kostgæfni. Í stjórnartíð Francos (1939-75) þurftu hundruð ungra votta að standa fast á hlutleysi sínu. Margir sátu í herfangelsi í tíu ár eða lengur. Einn þeirra, Jesús Martín, fékk samanlagt 22 ára dóm. Honum var misþyrmt hrottalega í herfangelsi í Norður-Afríku. Þetta var mikil þraut en hann hvikaði ekki frá staðfestu sinni.

9 Lengst af höfðu þessir ungu menn enga hugmynd um hvenær eða hvort þeim yrði sleppt úr fangelsi, því að þeir fengu á sig marga dóma sem þeir þurftu að afplána hvern á fætur öðrum. En þeir létu ekki haggast og héldu boðunaráhuganum vakandi meðan þeir sátu í fangelsi. Ástandið batnaði loks árið 1973 og mörgum af þessum vottum var þá sleppt úr fangelsi. Þeir voru þá rúmlega þrítugir og gerðust margir boðberar í fullu starfi. Sumir urðu sérbrautryðjendur og farandumsjónarmenn. Þeir lifðu eftir vígsluheiti sínu meðan þeir voru í fangelsi og flestir hafa haldið því áfram eftir að þeim var sleppt. * Hvað um okkur? Höldum við vígsluheit okkar dyggilega eins og þessir bræður? — Hebreabréfið 10:32-34; 13:3.

Rétt afstaða til vígslu okkar

10. (a) Hvernig eigum við að líta á vígslu okkar? (b) Hvernig lítur Jehóva á þjónustu okkar við sig?

10 Hvernig lítum við á heit okkar að gera vilja Guðs? Gengur vilji hans fyrir öðru í lífi þínu? Hvort sem við erum ung eða gömul, gift eða einhleyp, hraust eða heilsutæp ættum við að kappkosta að lifa eftir vígsluheiti okkar í samræmi við aðstæður. Einn er kannski í aðstöðu til að þjóna Guði í fullu starfi sem brautryðjandi, trúboði, farandumsjónarmaður eða starfa sem sjálfboðaliði við eitt af útibúum Varðturnsfélagsins. Margir foreldrar eiga hins vegar nóg með að annast líkamlegar og andlegar þarfir fjölskyldunnar og geta ekki notað nema fáeinar klukkustundir í boðunarstarfinu í hverjum mánuði. En eru þessar stundir minna virði í augum Jehóva en hinar mörgu stundir boðberans í fullu starfi? Nei, Guð ætlast ekki til þess að við gerum meira en við getum. „Ef viljinn er góður, þá er hver þóknanlegur með það, sem hann á til, og ekki farið fram á það, sem hann á ekki til,“ sagði Páll postuli. — 2. Korintubréf 8:12.

11. Undir hverju er hjálpræði okkar komið?

11 En hvað sem því líður er hjálpræði okkar ekki háð einhverju sem við getum gert heldur hinni óverðskulduðu góðvild sem Jehóva sýnir fyrir milligöngu Drottins okkar, Jesú Krists. Páll benti á að ‚allir hafi syndgað og skorti Guðs dýrð, og að þeir réttlætist án verðskuldunar af náð hans fyrir endurlausnina sem er í Kristi Jesú.‘ En verk okkar sanna að við trúum á fyrirheit Guðs og að trúin er lifandi. — Rómverjabréfið 3:23, 24; Jakobsbréfið 2:17, 18, 24.

12. Af hverju eigum við ekki að bera okkur saman við aðra?

12 Það er engin ástæða til að bera sig saman við aðra í sambandi við starfstíma, dreifingu rita eða biblíunámskeið sem við stjórnum. (Galatabréfið 6:3, 4) Jesús minnti á að við ættum að vera auðmjúk, hvað svo sem við afrekum í boðunarstarfinu. Hann sagði: „Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gjört allt, sem yður var boðið: ‚Ónýtir þjónar erum vér, vér höfum gjört það eitt, sem vér vorum skyldir að gjöra.‘“ (Lúkas 17:10) Hve oft getum við sagt að við höfum virkilega gert ‚allt sem okkur var boðið‘? Málið snýst því um það í hvaða gæðaflokki þjónusta okkar við Guð eigi að vera. — 2. Korintubréf 10:17, 18.

Að nota hvern dag

13. Hvaða afstöðu þurfum við að hafa til þjónustu okkar?

13 Eftir að hafa leiðbeint eiginkonum, eiginmönnum, börnum, foreldrum og þrælum skrifar Páll: „Hvað sem þér gjörið, þá vinnið af heilum huga, eins og [Jehóva] ætti í hlut, en ekki menn. Þér vitið og sjálfir, að [Jehóva] mun veita yður arfleifðina að launum. Þér þjónið Drottni Kristi.“ (Kólossubréfið 3:23, 24) Við erum ekki að reyna að vekja hrifningu manna með því sem við áorkum í þjónustu Jehóva heldur erum við að reyna að þjóna honum með því að líkja eftir fordæmi Jesú Krists. Hann þjónaði af miklu kappi þann tiltölulega stutta tíma sem hann hafði til umráða. — 1. Pétursbréf 2:21.

14. Við hverju varaði Pétur sem yrði á síðustu dögum?

14 Pétur postuli var líka kappsamur. Í síðara bréfi sínu varaði hann við því að á síðustu dögum myndu koma fram spottarar, fráhvarfsmenn og efunarmenn sem véfengdu nærveru Krists. En svo sagði hann: „Ekki er [Jehóva] seinn á sér með fyrirheitið, þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við yður, þar eð hann vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar. En dagur [Jehóva] mun koma sem þjófur.“ Já, dagur Jehóva kemur örugglega. Við ættum því að hugsa daglega um það hve örugglega við treystum og trúum fyrirheitum hans. — 2. Pétursbréf 3:3, 4, 9, 10.

15. Hvernig ættum við að nota hvern dag sem við lifum?

15 Til að lifa samviskusamlega eftir vígsluheiti okkar ættum við að nota hvern dag til að lofa Jehóva. Sjáum við, þegar dagur er að kvöldi kominn, að við höfum stuðlað með einhverjum hætti að því að helga nafn Guðs og koma fagnaðarerindinu um ríkið á framfæri? Kannski gerðum við það með góðri framkomu, uppbyggjandi samræðum eða umhyggju fyrir fjölskyldu og vinum. Notuðum við tækifærin, sem gáfust, til að segja öðrum frá voninni sem við berum í brjósti? Hjálpuðum við einhverjum að hugsa alvarlega um fyrirheit Guðs? Reynum að koma einhverju gagnlegu til leiðar á hverjum degi og safna okkur góðri andlegri innistæðu ef svo má að orði komast. — Matteus 6:20; 1. Pétursbréf 2:12; 3:15; Jakobsbréfið 3:13.

Varðveittu skarpa sjón

16. Hvernig reynir Satan að veikja vígslusamband okkar við Guð?

16 Við lifum á tímum sem verða æ erfiðari fyrir kristna menn. Satan og útsendarar hans reyna að sljóvga skynbragð manna á gott og illt, rétt og rangt, siðgæði og siðleysi. (Rómverjabréfið 1:24-28; 16:17-19) Hann hefur gert okkur sérstaklega auðvelt að spilla huganum og hjartanu með fjarstýringu sjónvarpstækisins eða lyklaborði tölvunnar. Andlega sjónin getur orðið óskýr hjá okkur svo að við sjáum ekki við vélabrögðum hans. Við getum linast í þeim ásetningi að lifa samkvæmt vígsluheiti okkar, og við gætum slakað tökin á ‚plóginum‘ ef við hvikum frá hinum andlegu gildum sem við höfum tileinkað okkur. — Lúkas 9:62; Filippíbréfið 4:8.

17. Hvernig geta leiðbeiningar Páls hjálpað okkur að varðveita sambandið við Guð?

17 Orð Páls til safnaðarins í Þessaloníku eiga því fullt erindi til okkar: „Það er vilji Guðs, að þér verðið heilagir. Hann vill, að þér haldið yður frá frillulífi, að sérhver yðar hafi vit á að halda líkama sínum í helgun og heiðri, en ekki í losta, eins og heiðingjarnir, er ekki þekkja Guð.“ (1. Þessaloníkubréf 4:3-5) Sumum hefur verið vikið úr kristna söfnuðinum fyrir siðleysi. Þeir vanræktu vígslusamband sitt við Guð svo að það veiktist og hætti að skipta þá máli. En Páll sagði: „Ekki kallaði Guð oss til saurlifnaðar, heldur helgunar. Sá, sem fyrirlítur þetta, fyrirlítur þess vegna ekki mann, heldur Guð, sem hefur gefið yður sinn heilaga anda.“ — 1. Þessaloníkubréf 4:7, 8.

Hvað ætlar þú að gera?

18. Í hverju ættum við að vera staðráðin?

18 Ef við gerum okkur grein fyrir hve alvarlegt vígslusambandið við Jehóva Guð er ættum við að vera staðráðin í að varðveita góða samvisku, bæði í sambandi við breytni okkar og boðunarstarfið. Pétur hvatti: „Hafið góða samvisku, til þess að þeir, sem lasta góða hegðun yðar sem kristinna manna, verði sér til skammar í því, sem þeir mæla gegn yður.“ (1. Pétursbréf 3:16) Við getum þurft að þjást og þola svívirðingar vegna kristinnar breytni okkar, en Kristur þurfti líka að þjást vegna trúar sinnar og hollustu við Guð. „Eins og því Kristur leið líkamlega, svo skuluð þér og herklæðast sama hugarfari,“ sagði Pétur. „Sá sem hefur liðið líkamlega, er skilinn við synd.“ — 1. Pétursbréf 4:1.

19. Hvaða vitnisburð viljum við fá?

19 Ef við erum staðráðin í að lifa í samræmi við vígsluheit okkar verndar það okkur fyrir þeim gildrum sem lagðar eru í heimi Satans. Og heimur hans er andlega, siðferðilega og líkamlega sjúkur. En mikilvægara er að við sannfærumst um að við njótum velþóknunar Guðs sem er margfalt betra en nokkuð sem Satan og útsendarar hans geta boðið upp á. Látum því aldrei segja um okkur að við höfum afrækt kærleikann sem við bárum í brjósti þegar við kynntumst sannleikanum. Látum heldur gefa okkur sömu einkunn og safnaðarmönnum í Þýatíru fyrstu aldar: „Ég þekki verkin þín og kærleikann, trúna, þjónustuna og þolgæði þitt og veit, að verk þín hin síðari eru meiri en hin fyrri.“ (Opinberunarbókin 2:4, 18, 19) Verum ekki hálfvolg gagnvart  vígsluheiti okkar heldur „brennandi í andanum“ og kostgæfin allt til enda — og endirinn er nærri. — Rómverjabréfið 12:11; Opinberunarbókin 3:15, 16.

[Neðanmáls]

^ gr. 2 Sjá Varðturninn (enska útgáfu) 15. apríl 1987, bls. 31.

^ gr. 7 Ævisaga Ernests Beavors birtist í Varðturninum (enskri útgáfu) 15. mars 1980, bls. 8-11.

^ gr. 9 Sjá Árbók votta Jehóva 1978, bls. 156-8 og 201-18, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

Manstu?

• Hvað er vígsla?

• Nefndu dæmi úr fortíð og nútíð um vígða þjóna Guðs sem eru verðir eftirbreytni.

• Hvernig eigum við að líta á þjónustu okkar við Guð?

• Hvernig ættum við að hugsa um vígsluheit okkar við Guð?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

Jeremía var trúfastur þrátt fyrir grimmilega meðferð.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Ernest Beavor var kostgæfinn kristinn maður og góð fyrirmynd barna sinna.

[Mynd á blaðsíðu 17]

Hundruð ungra votta voru ráðvandar í spænskum fangelsum.

[Myndir á blaðsíðu 18]

Reynum að koma einhverju gagnlegu til leiðar á hverjum degi.