Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Umsjónarmenn og safnaðarþjónar eru guðræðislega skipaðir

Umsjónarmenn og safnaðarþjónar eru guðræðislega skipaðir

Umsjónarmenn og safnaðarþjónar eru guðræðislega skipaðir

„Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni, sem heilagur andi fól yður til umsjónar.“ — POSTULASAGAN 20:28.

1, 2. Hvernig er Jesaja 60:22 að rætast?

ENDUR fyrir löngu sagði Jehóva fyrir athyglisverða framvindu á endalokatímanum. Hann sagði fyrir munn spámannsins Jesaja: „Hinn minnsti skal verða að þúsund og hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð. Ég, [Jehóva], mun hraða því, þegar að því kemur.“ — Jesaja 60:22.

2 Er spádómurinn að rætast núna? Já, greinilega. Á áttunda áratug nítjándu aldar myndaðist einn söfnuður fólks Jehóva í Allegheny í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Þetta var smá byrjun en af henni hafa sprottið tugþúsundir blómlegra safnaða um víða veröld. Boðberar Guðsríkis skipta milljónum núna og söfnuðirnir eru rösklega 91.000 í 235 löndum. Þeir eru orðnir að voldugri þjóð. Þetta staðfestir að Jehóva er að hraða samansöfnun dýrkenda sinna áður en ‚þrengingin mikla‘ skellur á í náinni framtíð. — Matteus 24:21; Opinberunarbókin 7:9-14.

3. Hvað merkir það að skírast „í nafni föður, sonar og heilags anda“?

3 Þessar milljónir manna hafa vígst Jehóva persónulega og látíð skírast „í nafni föður, sonar og heilags anda“ eins og Jesús bauð. (Matteus 28:19) Að láta skírast „í nafni föður“ merkir að viðurkenna Jehóva sem himneskan föður sinn og lífgjafa og lúta drottinvaldi hans. Að skírast ‚í nafni sonar‘ merkir að játa að Jesús Kristur sé lausnari manns, leiðtogi og konungur. Og að skírast ‚í nafni heilags anda‘ felur í sér að viðurkenna hlutverk heilags anda í lífi sínu, en heilagur andi er starfskraftur Guðs.

4. Hvernig hljóta menn kristna vígslu?

4 Nýir lærisveinar hljóta vígslu sem þjónar Jehóva Guðs þegar þeir skírast. Hver vígir þá? Orðin í 2. Korintubréfi 3:5 eiga efnislega við þá, en þar segir: „Hæfileiki vor [sem þjónar Guðs] er frá Guði.“ Það er ekki hægt að ímynda sér meiri heiður en þann að vera vígður af Jehóva Guði sjálfum. Eftir skírnina halda þeir áfram að vaxa andlega sem þjónar ‚fagnaðarerindisins,‘ svo framarlega sem þeir þiggja handleiðslu anda Guðs og halda áfram að fara eftir orði hans. — Matteus 24:14; Postulasagan 9:31.

Guðræðisleg skipun, en ekki lýðræðisleg

5. Eru kristnir umsjónarmenn og safnaðarþjónar kjörnir lýðræðislega? Skýrðu svarið.

5 Það þarf þroskaða og færa umsjónarmenn og dugmikla safnaðarþjóna til að sinna andlegum þörfum hins vaxandi boðberahóps. (Filippíbréfið 1:1) Þessir andlega þroskuðu menn eru ekki skipaðir til starfa með sömu aðferðum og kristni heimurinn beitir. Kristnir umsjónarmenn eru til dæmis skipaðir guðræðislega en ekki kjörnir lýðræðislega með atkvæðum meirihluta safnaðarmanna. Hvað merkir það?

6. (a) Hvað er raunverulegt guðræði? (b) Af hverju má segja að umsjónarmenn og safnaðarþjónar séu guðræðislega skipaðir til starfa?

6 Raunverulegt guðræði er stjórnarfar þar sem Guð fer með yfirráð. Vottar Jehóva lúta stjórn hans fúslega og vinna saman að því að gera vilja hans. (Sálmur 143:10; Matteus 6:9, 10) Kristnir umsjónarmenn (öldungar) og safnaðarþjónar eru guðræðislega skipaðir af því að meðmæli um útnefningu þeirra og sjálf útnefningin fer fram í samræmi við leiðbeiningar Guðs í Heilagri ritningu. Og Jehóva er „höfðingi“ yfir öllu svo að hann hefur auðvitað rétt til að ákveða hvernig sýnilegt skipulag hans starfar. — 1. Kroníkubók 29:11; Sálmur 97:9.

7. Hvernig stjórn lúta vottar Jehóva?

7 Ólíkt mörgum trúfélögum kristna heimsins ákveða vottar Jehóva ekki sjálfir hvers konar trúarlega stjórn þeir hafi yfir sér heldur leitast þeir við að fylgja þeim mælikvarða sem Jehóva hefur sett. Umsjónarmenn safnaðanna eru ekki skipaðir af einhvers konar klerkastjórn eða kjörinni sóknarnefnd eða safnaðarráði. Og fólk Jehóva myndi ekki leyfa veraldlegum öflum að hrófla við þessum útnefningum. Það fylgir einarðlega sömu stefnu og postularnir á fyrstu öld sem sögðu: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ (Postulasagan 5:29) Vottarnir lúta sem sagt Guði í öllu, og hann blessar þá fyrir að fara guðræðislega að í alla staði. — Hebreabréfið 12:9; Jakobsbréfið 4:7.

8. Hver er munurinn á lýðræðislegri og guðræðislegri skipun?

8 Þar sem við erum þjónar guðvaldsins mikla, Jehóva, er gott fyrir okkur að hafa í huga muninn á lýðræðislegum aðferðum og guðræðislegum. Lýðræði byggist á jöfnum rétti til að eiga sér fulltrúa í stjórn og einkennist oft af kosningabaráttu og kjöri miðað við meirihlutafylgi. En þegar menn eru skipaðir eða útnefndir guðræðislega eru það hvorki menn né einhver lögaðili sem skipar þá. Páll sagði Galatamönnum að hann væri „ekki sendur af mönnum né að tilhlutun manns, heldur að tilhlutun Jesú Krists og Guðs föður, sem uppvakti hann frá dauðum,“ og virðist þá vera að vísa til þess að hann var skipaður „postuli heiðingja“ af Jesú og Jehóva. — Rómverjabréfið 11:13; Galatabréfið 1:1.

Skipaðir af heilögum anda

9. Hvað segir Postulasagan 20:28 um útnefningu kristinna umsjónarmanna?

9 Páll minnti umsjónarmenn í Efesus á að þeir væru skipaðir af Guði fyrir atbeina heilags anda. Hann sagði: „Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni, sem heilagur andi fól yður til umsjónar. Verið hirðar Guðs kirkju, sem hann hefur unnið sér með sínu eigin blóði.“ (Postulasagan 20:28) Þessir kristnu umsjónarmenn og hirðar hjarðar Guðs þurftu að fylgja leiðsögn heilags anda við skyldustörf sín. Ef maður, sem var útnefndur til starfa, uppfyllti ekki lengur kröfur Guðs myndi heilagur andi sjá til þess að hann viki úr starfi með tíð og tíma.

10. Hvaða mikilvægu hlutverki gegnir heilagur andi í guðræðislegri útnefningu?

10 Hvernig gegnir heilagur andi þessu mikilvæga hlutverki? Í fyrsta lagi eru kröfurnar til umsjónarmanna safnaðarins tíundaðar í ritum sem eru innblásin af heilögum anda. Í bréfunum til Tímóteusar og Títusar telur Páll upp þær hæfniskröfur sem umsjónarmenn og safnaðarþjónar þurfa að uppfylla. Alls eru þetta 16 kröfur. Umsjónarmenn áttu til dæmis að vera óaðfinnanlegir, hófsamir, heilbrigðir í hugsun, reglufastir, gestrisnir, góðir fræðarar og fyrirmyndarfjölskyldufeður. Þeir áttu að vera hófsamir í notkun áfengis, iðka sjálfstjórn og máttu ekki vera fégjarnir. Það voru líka gerðar miklar kröfur til þeirra sem sóttust eftir safnaðarþjónsstarfi. — 1. Tímóteusarbréf 3:1-10, 12, 13, NW; Títusarbréfið 1:5-9.

11. Nefndu nokkrar af hæfniskröfunum sem menn þurfa að uppfylla til að geta farið með ábyrgðarstörf í söfnuðinum.

11 Ljóst er af þessum kröfum að þeir sem fara með forystuna í tilbeiðslunni á Jehóva verða að vera til fyrirmyndar í kristilegri breytni. Karlmenn, sem sækjast eftir safnaðarábyrgð, verða að sýna þess merki að heilagur andi starfi í þeim. (2. Tímóteusarbréf 1:14) Ávöxtur anda Guðs, sem er „kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi,“ þarf að vera augljós í fari þeirra. (Galatabréfið 5:22, 23) Þessi ávöxtur á að birtast í samskiptum þeirra við trúsystkini og aðra. Hinir ýmsu ávextir andans geta auðvitað verið misáberandi í fari manna og hið sama er að segja um aðra hæfileika sem umsjónarmenn þurfa að hafa til að bera. En á heildina litið ættu allir sem vonast til að verða umsjónarmenn eða safnaðarþjónar að sýna að þeir eru andlega þroskaðir menn og uppfylla þær kröfur sem orð Guðs gerir.

12. Hvernig má segja að menn séu skipaðir af heilögum anda?

12 Páll hvatti aðra til að líkja eftir sér. Hann gat gert það djarfmannlega af því að hann líkti sjálfur eftir Jesú Kristi sem ‚lét okkur eftir fyrirmynd til þess að við skyldum feta í hans fótspor.‘ (1. Pétursbréf 2:21; 1. Korintubréf 11:1) Það má því segja að það sé heilagur andi sem skipar umsjónarmenn og safnaðarþjóna því að þeir uppfylla hæfniskröfur Ritningarinnar þegar þeir eru útnefndir.

13. Hvernig hjálpar heilagur andi þeim sem mæla með öðrum til safnaðarábyrgðar?

13 Það er annað sem gefur til kynna að heilagur andi eigi þátt í því að mælt er með útnefningu einhvers til umsjónarstarfa. Jesús sagði að ‚faðirinn himneski gæfi þeim heilagan anda sem biðja hann.‘ (Lúkas 11:13) Safnaðaröldungar biðja Guð um leiðsögn anda hans þegar þeir koma saman til að mæla með öðrum til safnaðarábyrgðar. Þeir byggja meðmæli sín á innblásnu orði Guðs, og heilagur andi gerir þeim kleift að átta sig á því hvort sá sem er til umræðu uppfyllir hæfniskröfur Biblíunnar. Þeir sem veita meðmælin eiga ekki að láta ytra útlit, menntun eða náttúrlega hæfileika hafa of mikil áhrif á sig heldur einbeita sér fyrst og fremst að því hvort þetta sé andlega þroskaður maður sem safnaðarmenn hika ekki við að leita ráðlegginga hjá.

14. Hvað má læra af Postulasögunni 6:1-3?

14 Öldungaráð og farandumsjónarmenn mæla sameiginlega með bræðrum til öldungs- og safnaðarþjónsstarfa og útnefningin sjálf er síðan gerð eftir fyrirmyndinni frá fyrstu öld. Einhverju sinni þurfti að skipa andlega hæfa karlmenn til að sinna mikilvægu verkefni. Hið stjórnandi ráð gaf þá eftirfarandi leiðbeiningar: „Finnið því, bræður, sjö vel kynnta menn úr yðar hópi, sem fullir eru anda og visku. Munum vér setja þá yfir þetta starf.“ (Postulasagan 6:1-3) Það voru karlmenn á vettvangi sem mæltu með mönnum í starfið en forystumenn safnaðarins í Jerúsalem útnefndu þá. Það er farið svipað að nú á dögum.

15. Hvernig stendur hið stjórnandi ráð að útnefningum?

15 Hið stjórnandi ráð skipar milliliðalaust alla þá sem sitja í deildarnefndunum. Þegar ráðið skipar menn til þessa mikla ábyrgðarstarfs hefur það í huga orð Jesú: „Hver sem mikið er gefið, verður mikils krafinn, og af þeim verður meira heimtað, sem meira er léð.“ (Lúkas 12:48) Auk þess skipar hið stjórnandi ráð Betelöldunga og farandumsjónarmenn. En það felur áreiðanlegum bræðrum að annast aðrar útnefningar fyrir sína hönd. Það eru biblíulegar forsendur fyrir því að gera það.

‚Skipaðu öldunga svo sem ég lagði fyrir þig‘

16. Til hvers skildi Páll Títus eftir á Krít og hvað gefur það til kynna í sambandi við guðræðislegar útnefningar nú á dögum?

16 Páll sagði Títusi, samverkamanni sínum: „Ég lét þig eftir á Krít, til þess að þú færðir í lag það, sem ógjört var, og skipaðir öldunga í hverri borg, svo sem ég lagði fyrir þig.“ (Títusarbréfið 1:5) Síðan gerði hann grein fyrir því hvaða hæfileikum Títus átti að leita að í fari væntanlegra öldunga. Hið stjórnandi ráð skipar því hæfa bræður við útibúin sem útnefna öldunga og safnaðarþjóna í umboði sínu. Þess er gætt að fulltrúar hins stjórnandi ráðs skilji vel og fylgi þeim biblíulegu reglum sem hafa skal til viðmiðunar þegar bræður eru útnefndir til ábyrgðarstarfa. Það er því undir forystu hins stjórnandi ráðs sem hæfir bræður eru skipaðir til starfa í söfnuðum votta Jehóva um heim allan.

17. Hvernig fara útibú Félagsins með tillögur að útnefningu umsjónarmanna og safnaðarþjóna?

17 Reyndir umsjónarmenn við útibú Varðturnsfélagsins treysta á leiðsögn anda Guðs þegar þeim berast tillögur um útnefningu umsjónarmanna og safnaðarþjóna. Þeir gera sér grein fyrir ábyrgð sinni og hafa hugfast að þeir mega ekki leggja hendur í fljótræði yfir nokkurn mann, ella gætu þeir orðið hluttakendur í syndum hans. — 1. Tímóteusarbréf 5:22.

18, 19. (a) Hvernig eru sumar útnefningar sendar söfnuðunum? (b) Lýstu meðmæla- og útnefningarferlinu.

18 Vissar útnefningar eru sendar söfnuðunum í bréfi með stimpli ákveðins lögaðila, og hægt er að útnefna fleiri en einn bróður í söfnuðinum í sama bréfi.

19 Guðræðislegar útnefningar koma frá Jehóva fyrir milligöngu sonar hans og sýnilegrar boðleiðar hans á jörð, hins ‚trúa og hyggna þjóns‘ og hins stjórnandi ráðs. (Matteus 24:45-47) Meðmælin og útnefningarnar fara fram undir handleiðslu heilags anda vegna þess að hæfniskröfurnar eru settar fram í orði Guðs sem er innblásið af heilögum anda, og hinir útnefndu sýna að þeir bera ávöxt andans. Það er því litið svo á að þeir séu útnefndir af heilögum anda. Umsjónarmenn og safnaðarþjónar eru útnefndir guðræðislega nú á dögum eins og á fyrstu öld.

Þakklát fyrir leiðsögn Jehóva

20. Af hverju tökum við undir með Davíð í Sálmi 133:1?

20 Nú ríkir andleg velsæld og vöxtur er í boðunarstarfinu. Við erum Jehóva þakklát fyrir að hann skuli standa að baki útnefningu umsjónarmanna og safnaðarþjóna. Þetta biblíulega fyrirkomulag stuðlar að því að halda réttlætisstaðli Jehóva á loft meðal okkar sem erum vottar hans. Og kristilegur andi og viðleitni umsjónarmanna og safnaðarþjóna á drjúgan þátt í þeim friði og einingu sem við njótum. Við tökum undir með sálmaritaranum Davíð: „Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er, þegar bræður búa saman.“ — Sálmur 133:1.

21. Hvernig er Jesaja 60:17 að uppfyllast nú á dögum?

21 Við erum innilega þakklát fyrir leiðsögnina sem Jehóva veitir okkur með orði sínu og heilögum anda. Og orðin í Jesaja 60:17 hafa djúpstæða merkingu: „Ég mun færa þér gull í stað eirs og silfur í stað járns, eir í stað trjáviðar og járn í stað grjóts. Ég gjöri friðinn að valdstjórn þinni og réttlætið að valdsmanni þínum.“ Skipulag Jehóva um heim allan hefur uppskorið þessa blessun jafnhliða því að guðræðislegar aðferðir hafa verið útfærðar betur og betur meðal votta hans.

22. Fyrir hvað erum við þakklát og hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?

22 Við erum ákaflega þakklát fyrir guðræðisfyrirkomulagið sem við búum við. Og við metum mjög mikils elju og erfiði guðræðislega útnefndra umsjónarmanna og safnaðarþjóna. Við lofum himneskan föður okkar af heilum hug því að hann hefur látið okkur dafna andlega og blessað okkur ríkulega. (Orðskviðirnir 10:22) Verum því staðráðin í að vera samstíga skipulagi Jehóva. Umfram allt skulum við halda áfram að þjóna saman, til lofs og dýrðar háleitu og heilögu nafni Jehóva.

Hvert er svarið?

• Af hverju má segja að öldungar og safnaðarþjónar séu guðræðislega útnefndir en ekki lýðræðislega?

• Hvernig skipar heilagur andi karlmenn til ábyrgðarstarfa í kristna söfnuðinum?

• Hver er aðild hins stjórnandi ráðs að útnefningu umsjónarmanna og safnaðarþjóna?

• Af hverju ættum við að vera Jehóva þakklát fyrir guðræðislega skipan mála?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 23]

Öldungar og safnaðarþjónar eru útnefndir guðræðislega.