Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vertu samstíga skipulagi Jehóva

Vertu samstíga skipulagi Jehóva

Vertu samstíga skipulagi Jehóva

„Guð friðarins . . . fullkomni yður í öllu góðu til að gjöra vilja hans.“ — HEBREABRÉFIÐ 13:20, 21.

1. Hver er íbúatala jarðar og hvernig skiptist hún milli helstu trúarbragða?

JARÐARBÚAR urðu sex milljarðar árið 1999. Þar af eru 1.165.000.000 múslímar, 1.030.000.000 rómversk-kaþólskir, 762.000.000 hindúar, 354.000.000 búddhatrúar, 316.000.000 mótmælendur og 214.000.000 eru rétttrúnaðarmenn, að sögn The World Almanac.

2. Hvað er hægt að segja um trúmálaástandið í heiminum?

2 Í ljósi trúarglundroðans í heiminum er eðlilegt að spyrja hvort þessar milljónir séu samstíga vilja Guðs. Svo er ekki „því að Guð er ekki Guð truflunarinnar, heldur friðarins.“ (1. Korintubréf 14:33) En hvað um alþjóðlegt bræðrafélag þjóna Jehóva? (1. Pétursbréf 2:17) Nákvæm athugun leiðir í ljós að ‚Guð friðarins fullkomnar þá í öllu góðu til að gera vilja sinn.‘ — Hebreabréfið 13:20, 21.

3. Hvað gerðist í Jerúsalem á hvítasunnu árið 33 og hvers vegna?

3 Fjöldinn er auðvitað ekki mælikvarði á það hvort vottar Jehóva njóta velþóknunar hans, og Jehóva hrífst ekki af tölum. Hann útvaldi ekki Ísraelsþjóðina af því að hún væri „fjölmennari“ en aðrar þjóðir; reyndar var hún ‚allra þjóða minnst.‘ (5. Mósebók 7:7) En Ísraelsmenn reyndust Guði ótrúir svo að hann tók velþóknun sína frá þeim og veitti hana hinum nýja söfnuði fylgjenda Jesú Krists á hvítasunnu árið 33. Þeir voru smurðir með heilögum anda Guðs og kunngerðu sannleikann um hann og Krist af miklu kappi. — Postulasagan 2:41, 42.

Stöðug framsókn

4. Hvernig sótti frumkristni söfnuðurinn jafnt og þétt fram?

4 Kristni söfnuðurinn á fyrstu öld sótti fram jafnt og þétt, hélt á ný mið með fagnaðarerindið, gerði menn að lærisveinum og glöggvaði sig á fyrirætlun Guðs. Frumkristnir menn tileinkuðu sér þá fræðslu sem þeir fengu í innblásnum bréfum. Heimsóknir postula og annarra hvöttu þá til að gera þjónustunni rækileg skil. Þetta er vel skjalfest í kristnu Grísku ritningunum. — Postulasagan 10:21, 22; 13:46, 47; 2. Tímóteusarbréf 1:13; 4:5; Hebreabréfið 6:1-3; 2. Pétursbréf 3:17, 18.

5. Af hverju sækir skipulag Guðs fram núna og af hverju ættum við að vera samstíga því?

5 Nútímasaga votta Jehóva hófst með fámennum hópi líkt og var hjá kristnum mönnum á fyrstu öld. (Sakaría 4:8-10) Allt frá síðari hluta 19. aldar hefur andi Guðs augljóslega verið með skipulagi hans. Við höfum ekki treyst á mannlegan mátt heldur leiðsögn heilags anda, svo að við höfum fengið aukinn biblíuskilning og bætt okkur í því að gera vilja Guðs. (Sakaría 4:6) Nú eru ‚síðustu dagar‘ svo að við verðum að vera samstíga framsæknu skipulagi Jehóva. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Þannig getum við haldið voninni vakandi og haldið áfram að bera vitni um stofnsett ríki Guðs áður en endirinn ríður yfir þetta heimskerfi. — Matteus 24:3-14.

6, 7. Hvaða þrjú svið ætlum við að skoða þar sem skipulag Jehóva hefur sótt fram á við?

6 Meðal okkar er fólk sem tengdist skipulagi Jehóva á þriðja, fjórða og fimmta áratug 20. aldar. Hver hefði getað ímyndað sér á þeim árum þann gífurlega vöxt og þá framför sem orðið hefur í skipulaginu fram á okkar dag? Hugsaðu um alla þá merku áfanga sem náðst hafa í nútímasögu okkar. Það er andlega auðgandi að velta fyrir sér hverju Jehóva hefur áorkað með guðræðisskipulagi sínu.

7 Davíð konungur var djúpt snortinn þegar hann ígrundaði dásemdarverk Jehóva. „Ef ég ætti að boða þau og kunngjöra, eru þau fleiri en tölu verði á komið,“ sagði hann. (Sálmur 40:6) Við getum ekki heldur lýst hinum mörgu og lofsverðu verkum Jehóva á okkar tímum. En við skulum engu að síður líta á það hvernig skipulag hans hefur sótt fram á þrem sviðum sem eru: (1) markviss uppfræðsla, (2) bætt og aukið boðunarstarf og (3) tímabærar lagfæringar í skipulagsmálum.

Þakklát fyrir andlega uppfræðslu

8. Hvernig höfum við verið frædd markvisst um Guðsríki, í samræmi við Orðskviðina 4:18?

8 Orðskviðirnir 4:18 hafa ræst í mynd markvissrar, andlegrar uppfræðslu. Þar segir: „Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari fram á hádegi.“ Við erum innilega þakklát fyrir hina markvissu, andlegu fræðslu sem við höfum fengið. Á mótinu í Cedar Point í Ohio árið 1919 var lögð áhersla á ríkið sem Jehóva Guð notar til að helga nafn sitt og réttlæta drottinvald sitt. Við höfum verið frædd svo að við sjáum hvernig Biblían ber vitni, frá upphafi til enda, um þann ásetning Jehóva að láta ríkið, sem sonur hans stjórnar, helga nafn sitt. Í því er fólgin stórfengleg von fyrir alla sem unna réttlætinu. — Matteus 12:18, 21.

9, 10. Hvað skildu menn í sambandi við Guðsríki og tvö andstæð skipulög á þriðja áratugnum, og hvernig hefur það hjálpað okkur?

9 J. F. Rutherford var aðalræðumaðurinn á mótinu í Cedar Point árið 1922. Hann hvatti áheyrendur til að ‚kunngera, kunngera, kunngera konunginn og ríki hans.‘ Fyrsta mars 1925 birtist í Varðturninum grein sem hét „Fæðing þjóðarinnar.“ Þar var athyglinni beint að spádómum sem höfðu sýnt fram á að Guðsríki yrði stofnsett árið 1914. Á þriðja áratugnum skildu menn einnig að til eru tvö andstæð skipulög, skipulag Jehóva og skipulag Satans. Þau eiga í stöðugum átökum og við verðum því aðeins með sigurvegaranum að við séum samstíga skipulagi Jehóva.

10 Hvernig hefur þessi markvissa fræðsla hjálpað okkur? Guðsríki og konungurinn Jesús Kristur eru ekki af heiminum svo að við getum ekki heldur tilheyrt honum. Við sýnum að við stöndum sannleikans megin með því að verða aðgreind frá heiminum. (Jóhannes 17:16; 18:37) Við erum innilega þakklát fyrir að tilheyra ekki skipulagi Satans þegar við horfum upp á hin flóknu vandamál sem þjaka þetta illa heimskerfi. Og það er mikil blessun að búa við andlegt öryggi í skipulagi Jehóva.

11. Hvaða biblíulegt nafn tók fólk Guðs sér árið 1931?

11 Á mótinu í Columbus í Ohio árið 1931 var ritningarstaðurinn í Jesaja 43:10-12 heimfærður á viðeigandi hátt. Biblíunemendurnir tóku sér hið einkennandi nafn vottar Jehóva. Það er mikill heiður fyrir okkur að mega kunngera nafn Guðs svo að aðrir geti ákallað það og bjargast. — Sálmur 83:19; Rómverjabréfið 10:13.

12. Hvað var upplýst um múginn mikla árið 1935?

12 Fyrir fjórða áratuginn var margt af fólki Guðs í nokkurri óvissu um framtíðarvon sína. Sumir bjuggust við að fara til himna en heilluðust af kenningum Biblíunnar um paradís á jörð. Þær spennandi fréttir voru fluttar á mótinu í Washington, D.C., árið 1935 að hinn mikli múgur í 7. kafla Opinberunarbókarinnar ætti sér jarðneska von. Síðan hefur hinum mikla múgi verið safnað af vaxandi krafti. Við erum þakklát fyrir að hinn mikli múgur skuli ekki vera okkur ráðgáta. Sú staðreynd að fólki er safnað hópum saman af alls kyns þjóðum, kynkvíslum og tungum knýr okkur til að greikka sporið með skipulagi Jehóva.

13. Hvaða stórmál var rætt á mótinu í St. Louis árið 1941?

13 Deilan um alheimsyfirráð eða drottinvald ætti að vera mál málanna í hugum allra. Hún var rædd á mótinu í St. Louis í Missouri árið 1941. Þetta er málið sem þarf að útkljá fljótlega og hinn mikli og ógurlegi dagur, er það gerist, nálgast óðum. Árið 1941 var kastljósinu einnig beint að skyldu máli, spurningunni um ráðvendni, en hún gerir okkur kleift að sýna hvar við stöndum hvert og eitt gagnvart drottinvaldi Guðs.

14. Hvað kom fram á alþjóðamótinu árið 1950 í sambandi við höfðingjana í Sálmi 45:17?

14 Á alþjóðamótinu í New York árið 1950 var bent nákvæmlega á hverjir höfðingjarnir í Sálmi 45:17 væru. Spennan lá í loftinu þegar bróðir Frederick Franz fjallaði um þetta efni og útskýrði að höfðingjar nýju jarðarinnar væru á meðal okkar. Andlegt ljós leiftraði fram á þessu móti og mörgum fleiri síðar. (Sálmur 97:11) Við erum innilega þakklát að gata okkar skuli vera „eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari.“

Sækjum fram í þjónustunni

15, 16. (a) Hvernig sóttum við fram í þjónustunni á þriðja og fjórða áratugnum? (b) Hvaða rit hafa reynst lyftistöng fyrir boðunarstarfið á síðustu áratugum?

15 Skipulagið hefur einnig sótt fram í því aðalverkefni okkar að boða Guðsríki og gera menn að lærisveinum. (Matteus 28:19, 20; Markús 13:10) Það hefur lagt ríka áherslu á að við færum út kvíarnar í þjónustunni til að gera þessu verkefni full skil. Árið 1922 voru allir kristnir menn hvattir til að taka þátt í boðunarstarfinu. Bent var á að það væri hlutverk hvers og eins að láta ljós sitt skína og eiga þannig hlutdeild í að bera sannleikanum vitni. (Matteus 5:14-16) Árið 1927 voru gerðar ráðstafanir til að nota sunnudaga til boðunarstarfsins. Frá og með febrúar 1940 mátti sjá votta bjóða Varðturninn og Consolation (nú Vaknið!) í viðskiptahverfum.

16 Árið 1937 kom út bæklingurinn Model Study (Fyrirmyndarnám) þar sem boðberar voru hvattir til að fara í endurheimsóknir til að kenna fólki sannleika Biblíunnar. Á næstu árum var biblíunámi haldið mjög á loft. Bókin „Guð skal reynast sannorður“ kom út árið 1946 og bókin Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs árið 1968, og þær reyndust mikil lyftistöng fyrir þessa starfsgrein. Núna notum við bókina Þekking sem leiðir til eilífs lífs. Að fara yfir þess konar efni með biblíunemendum er góður grundvöllur að því að þeir verði lærisveinar.

Skipulagslegar framfarir

17. Hvernig hefur skipulag Jehóva sótt fram í samræmi við Jesaja 60:17?

17 Í þriðja lagi hafa orðið ýmsar framfarir í skipulagsmálum. Jehóva lofaði samkvæmt Jesaja 60:17: „Ég mun færa þér gull í stað eirs og silfur í stað járns, eir í stað trjáviðar og járn í stað grjóts. Ég gjöri friðinn að valdstjórn þinni og réttlætið að valdsmanni þínum.“ Í samræmi við þennan spádóm hefur umsjónin með boðunarstarfinu og gæsla hjarðarinnar verið bætt.

18, 19. Hvaða skipulagsbreytingar hafa verið gerðar í áranna rás?

18 Árið 1919 voru útnefndir þjónustustjórar í öllum söfnuðum sem óskuðu eftir að taka þátt í boðunarstarfinu, og það reyndist vera mikil driffjöður fyrir starfið á akrinum. Árið 1932 voru lýðræðislegar aðferðir lagðar af í söfnuðunum og hætt að kjósa öldunga og djákna. Önnur tímamót urðu árið 1938 þegar skipun allra þjóna í söfnuðunum var færð nær hinni guðræðislegu aðferð sem notuð var í frumkristna söfnuðinum. (Postulasagan 14:23; 1. Tímóteusarbréf 4:14) Árið 1972 voru umsjónarmenn og safnaðarþjónar skipaðir á sama hátt og gert var meðal frumkristinna manna. Filippíbréfið 1:1 og fleiri ritningarstaðir gefa til kynna að það eigi ekki að vera aðeins einn umsjónarmaður í hverjum söfnuði heldur eigi allir sem uppfylla hæfniskröfurnar að mynda öldungaráð. — Postulasagan 20:28; Efesusbréfið 4:11, 12.

19 Árið 1975 voru skipaðar nefndir innan hins stjórnandi ráðs votta Jehóva til að hafa umsjón með alþjóðastarfi skipulagsins. Deildarnefndir voru skipaðar til að hafa umsjón með starfinu hver á sínu svæði. Síðan þá hefur verið leitast við að einfalda starfið við aðalstöðvar og útibú Varðturnsfélagsins til að hægt sé að beina athyglinni meira að ‚þeim hlutum sem máli skipta.‘ (Filippíbréfið 1:9, 10) Undirhirðar Krists fara með forystuna í boðunarstarfinu og kennslunni í söfnuðinum, auk þess að gæta hjarðar Guðs vel. — 1. Tímóteusarbréf 4:16; Hebreabréfið 13:7, 17; 1. Pétursbréf 5:2, 3.

Forysta Jesú

20. Hvað þurfum við að viðurkenna í sambandi við stöðu Jesú, til að vera samstíga skipulagi Jehóva?

20 Til að vera samstíga framsæknu skipulagi Jehóva þurfum við að viðurkenna að hann hefur sett Jesú Krist ‚höfuð safnaðarins.‘ (Efesusbréfið 5:22, 23, Biblían 1912) Og það er líka eftirtektarvert sem segir í Jesaja 55:4: „Sjá, ég [Jehóva] hefi gjört hann að vitni fyrir þjóðirnar, að höfðingja og stjórnara þjóðanna.“ Jesús kann að fara með forystu. Hann þekkir sauði sína og verk þeirra. Þegar hann kynnti sér ástand safnaðanna sjö í Litlu-Asíu sagði hann fimm sinnum: „Ég þekki verkin þín.“ (Opinberunarbókin 2:2, 19; 3:1, 8, 15) Jesús og Jehóva, faðir hans, þekkja líka þarfir okkar. „Faðir yðar veit, hvers þér þurfið, áður en þér biðjið hann,“ sagði Jesús áður en hann fór með fyrirmyndarbænina. — Matteus 6:8-13.

21. Hvernig birtist forysta Jesú í kristna söfnuðinum?

21 Hvernig birtist forysta Jesú? Meðal annars í starfi kristinna umsjónarmanna, kallaðir „gjafir í mönnum.“ (Efesusbréfið 4:8, NW) Opinberunarbókin 1:16 bendir á að smurðir umsjónarmenn séu í hægri hendi hans, það er að segja undir stjórn hans. Jesús stýrir öldungafyrirkomulaginu sem núna er, hvort sem öldungarnir hafa himneska von eða jarðneska. Eins og fram kemur í greininni á undan útnefnir heilagur andi þá í samræmi við hæfniskröfur Biblíunnar. (1. Tímóteusarbréf 3:1-7; Títusarbréfið 1:5-9) Hópur öldunga í Jerúsalem myndaði stjórnandi ráð fyrstu aldar sem hafði almenna umsjón með söfnuðunum og boðunarstarfinu. Þessu biblíulega fordæmi er fylgt í skipulagi Jehóva enn þann dag í dag.

Vertu samstíga skipulaginu!

22. Hvaða aðstoð veitir hið stjórnandi ráð?

22 Hinum ‚trúa og hyggna þjóni‘ hefur verið falin umsjón með hagsmunum Guðsríkis á jörð, og hið stjórnandi ráð votta Jehóva er fulltrúi þessa þjóns. (Matteus 24:45-47) Hið stjórnandi ráð lætur sér fyrst og fremst annt um andlega fræðslu og forystu kristna safnaðarins. (Postulasagan 6:1-6) En þegar náttúruhamfarir hafa áhrif á bræður og systur biður ráðið einn eða fleiri lögaðila að veita neyðaraðstoð og gera við eða endurbyggja heimili og ríkissali sem hafa orðið fyrir skemmdum. Ef þjónar Guðs einhvers staðar sæta illri meðferð eða ofsóknum eru gerðar ráðstafanir til að uppbyggja þá andlega. Og í „ótíma“ er allt gert sem hægt er til að halda boðunarstarfinu gangandi. — 2. Tímóteusarbréf 4:1, 2.

23, 24. Hvað veitir Jehóva fólki sínu stöðuglega, óháð því sem á daga þess drífur, og í hverju ættum við að vera staðráðin?

23 Jehóva sendir fólki sínu stöðugan straum af andlegri fæðu og nauðsynlegar leiðbeiningar, hvað sem á daga þess drífur. Hann veitir bræðrum í forystustörfum hyggindi og innsæi til að búa sig undir frekari framfarir og fágun í guðræðislegu skipulagi. (5. Mósebók 34:9; Efesusbréfið 1:16, 17) Jehóva sér okkur örugglega fyrir öllu sem við þurfum til að gera boðunar- og kennsluumboði okkar full skil um heim allan. — 2. Tímóteusarbréf 4:5.

24 Við treystum því algerlega að Jehóva yfirgefi aldrei trúfasta þjóna sína heldur leiði þá óhulta gegnum ‚þrenginguna miklu.‘ (Opinberunarbókin 7:9-14; Sálmur 94:14; 2. Pétursbréf 2:9) Við höfum fulla ástæðu til að halda trausti okkar staðfastlega allt til enda. (Hebreabréfið 3:14) Við skulum því vera staðráðin í að vera samstíga skipulagi Jehóva.

Hvert er svarið?

• Hvernig getum við sagt að skipulag Jehóva sæki jafnt og þétt fram?

• Nefndu dæmi um markvissa, andlega uppfræðslu sem fólk Guðs hefur hlotið.

• Hvaða framfarir hafa orðið í sambandi við boðunarstarfið?

• Hvaða tímabærar skipulagsbreytingar hafa átt sér stað meðal þjóna Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 24]

Við getum ekki tíundað öll dásemdarverk Jehóva frekar en Davíð.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Hjörð Guðs hefur notið góðs af tímabærum skipulagsbreytingum.