Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þú getur fengið hlutdeild í gæfunni sem Guðsríki veitir

Þú getur fengið hlutdeild í gæfunni sem Guðsríki veitir

Þú getur fengið hlutdeild í gæfunni sem Guðsríki veitir

PÁLL postuli talaði reiprennandi nokkur af helstu tungumálum samtíðarinnar. Menntun hans svaraði til háskólamenntunar nú á dögum. Hann naut allra þeirra réttinda og allra þeirra kosta sem fylgdu því að vera rómverskur ríkisborgari. (Postulasagan 21:37-40; 22:3, 28) Hann hefði hæglega getað nýtt sér þetta og orðið ríkur og frægur. En hann gerði það ekki. „Það, sem var mér ávinningur, met ég nú vera tjón sakir Krists,“ sagði hann, „og met það sem sorp, til þess að ég geti áunnið Krist.“ (Filippíbréfið 3:7, 8) Hvers vegna sagði hann þetta?

Áður en Páll snerist til kristinnar trúar hafði hann ofsótt grimmilega þá sem voru „þessa vegar.“ Hann var þá þekktur undir nafninu Sál frá Tarsus. Hann var á leið til Damaskus er hinn upprisni og dýrlegi Jesús vitraðist honum í sýn, og þessi vitrun breytti afstöðu hans. (Postulasagan 9:1-19) Hann leit á þessa lífsreynslu sem óræka sönnun fyrir því að Jesús væri hinn fyrirheitni Messías, Kristur, framtíðarstjórnandi hins fyrirheitna ríkis. Og hann gerbreytti um lífsstefnu eins og sjá má af orðum hans sem vitnað er í hér að framan. Hann iðraðist af því að hann var einlægur og heiðarlegur maður. — Galatabréfið 1:13-16.

Þegar Biblían talar um „að iðrast“ er oft verið að þýða grískt orð sem merkir bókstaflega „að vita eftir á“ og er andheiti þess „að vita fyrir.“ Iðrun felur sem sagt í sér breytingu á hugarfari, viðhorfum eða markmiði. Hún merkir að hafna fyrri lífsstefnu af því að hún er óviðunandi. (Postulasagan 3:19; Opinberunarbókin 2:5) Hinn merkilegi atburður á veginum til Damaskus var ekki aðeins hjartnæmt atvik eða trúarleg reynsla í augum Páls heldur vakti hann til vitundar um það að fyrri lífsstefna væri fánýt, sú lífsstefna sem hann fylgdi meðan hann þekkti ekki Krist. Hann áttaði sig líka á því að hann yrði að breyta um stefnu ef hann vildi njóta góðs af nýfundinni þekkingu sinni á Kristi. — Rómverjabréfið 2:4; Efesusbréfið 4:24.

Gæfurík breyting

Páll hafði áður tilheyrt sértrúarflokki farísea og þekking hans á Guði kom að mestu leyti þaðan. Trú farísea sótti mikið í heimspeki og erfðavenjur manna. Sökum trúarfordóma beindi Páll kröftum sínum og kostgæfni í ranga átt. Hann hélt sig vera að þjóna Guði en var í raun réttri að berjast gegn honum. — Filippíbréfið 3:5, 6.

Páll vissi að hann þurfti að velja eftir að hann fékk nákvæma þekkingu á Kristi og hlutverki hans í fyrirætlun Guðs: Átti hann að vera farísei áfram og halda stöðu sinni og virðingu eða átti hann að breyta um lífsstefnu og fara að gera það sem nauðsynlegt var til að ávinna sér velþóknun Guðs? Sem betur fer tók hann rétta ákvörðun. Hann sagði síðar: „Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir, Gyðingum fyrst, en einnig Grikkjum.“ (Rómverjabréfið 1:16) Páll gerðist kappsamur boðberi fagnaðarerindisins um Krist og Guðsríki.

Mörgum árum síðar sagði hann trúbræðrum sínum: „Ekki tel ég sjálfan mig enn hafa höndlað það. En eitt gjöri ég. Ég gleymi því, sem að baki er, en seilist eftir því, sem framundan er, og keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur kallað oss til fyrir Krist Jesú.“ (Filippíbréfið 3:13, 14) Páll naut góðs af fagnaðarerindinu af því að hann sneri fúslega baki við því sem beindi honum frá Guði og sneri sér af heilum hug að því sem fór saman við fyrirætlun Guðs.

Hvað myndir þú gera?

Kannski er stutt síðan þú heyrðir fagnaðarerindið um ríkið. Höfðar það til þín að fá að lifa að eilífu í fullkominni paradís? Það ætti vissulega að gera það af því að okkur er áskapað að langa til að búa við frið og öryggi. Biblían segir að Guð hafi lagt „eilífðina“ okkur í brjóst. (Prédikarinn 3:11) Okkur er því eðlilegt að bera þá von í brjósti að menn geti einhvern tíma lifað að eilífu í friði og hamingju. Og það er einmitt það sem fagnaðarerindið um ríkið býður upp á.

En ef þú vilt sjá þessa von rætast þarftu að kynna þér fagnaðarerindið vel og rækilega. Páll postuli hvatti menn til að kynna sér „hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“ (Rómverjabréfið 12:2) Þú þarft því að velja, líkt og Páll, eftir að þú hefur aflað þér þekkingar og skilnings.

Hins vegar má vel vera að þú hafir nú þegar ákveðna trú í sambandi við framtíðina. Við munum að Sál hafði sínar eigin hugmyndir um vilja Guðs áður en hann varð Páll postuli. En hví ekki að líta hlutlægt á málið í stað þess að búast við beinni opinberun frá Guði? Spyrðu sjálfan þig hvort þú vitir í raun og veru hver sé vilji Guðs með mannkynið og jörðina. Hvaða sannanir hefurðu fyrir trú þinni? Þola þessar sannanir að þú skoðir þær í ljósi Biblíunnar? Þú hefur engu að tapa með því að rannsaka trúarskoðanir þínar á þennan hátt. Reyndar ættirðu að gera það því að Biblían hvetur: „Prófið allt, haldið því, sem gott er.“ (1. Þessaloníkubréf 5:21) Er það ekki velþóknun Guðs sem skiptir mestu máli þegar öllu er á botninn hvolft? — Jóhannes 17:3; 1. Tímóteusarbréf 2:3, 4.

Kennimenn og trúarleiðtogar lofa stundum eilífu lífi. En loforð þeirra hjálpa okkur ekki að hreppa gæði Guðsríkis nema þau séu byggð á kenningum Biblíunnar. Jesús sagði því í ströngum viðvörunartón í fjallræðunni: „Ekki mun hver sá, sem við mig segir: ‚Herra, herra,‘ ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum.“ — Matteus 7:21.

Taktu eftir áherslunni sem Jesús leggur á það að ‚gera vilja föðurins.‘ Það er forsendan fyrir því að hljóta þá gæfu sem Guðsríki veitir. Með öðrum orðum er ekki víst að Guð hafi velþóknun á því sem virðist guðrækilegt við fyrstu sýn. Jesús hélt reyndar áfram: „Margir munu segja við mig á þeim degi: ‚Herra, herra, höfum vér ekki kennt í þínu nafni, rekið út illa anda í þínu nafni og gjört í þínu nafni mörg kraftaverk?‘ Þá mun ég votta þetta: ‚Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.‘“ (Matteus 7:22, 23) Ljóst er að meginatriðið er það að ganga úr skugga um að við skiljum nákvæmlega hvað fagnaðarerindið um Guðsríki snýst um og fara síðan eftir því. — Matteus 7:24, 25.

Hjálpin er innan seilingar

Vottar Jehóva hafa prédikað fagnaðarerindið um ríki Guðs í meira en 100 ár. Bæði í ræðu og riti hjálpa þeir fólki um heim allan að afla sér nákvæmrar vitneskju um það hvað Guðsríki er, hvaða gæfu það hefur í för með sér og hvað maður þarf að gera til að fá hlutdeild í henni.

Við hvetjum þig til að taka vel á móti þeim boðskap sem vottar Jehóva færa þér. Með því að taka við fagnaðarerindinu og fara eftir því geturðu átt mikla gæfu í vændum — bæði núna og í framtíðinni þegar Guðsríki ræður yfir allri jörðinni. — 1. Tímóteusarbréf 4:8.

Gríptu tækifærið núna því að Guðsríki er á næsta leiti.

[Myndir á blaðsíðu 7]

Vottar Jehóva boða fagnaðarerindið um ríki Guðs, bæði í ræðu og riti.