Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fögnuður þeirra sem ganga í ljósinu

Fögnuður þeirra sem ganga í ljósinu

Fögnuður þeirra sem ganga í ljósinu

„Komið, göngum í ljósi [Jehóva].“ — JESAJA 2:5.

1, 2. (a) Hversu mikilvægt er ljós? (b) Af hverju er það svona alvarlegt mál að myrkur skuli grúfa yfir jörðinni?

JEHÓVA er uppspretta ljóssins. Biblían segir að hann hafi sett „sólina til að lýsa um daga, tunglið og stjörnurnar til að lýsa um nætur.“ (Jeremía 31:35; Sálmur 8:4) Hann skapaði sólina sem er eiginlega óhemjustór kjarnaofn sem sendir út frá sér gífurlega orku, að hluta til í formi ljóss og varma. Agnarlítið brot þessarar orku nær til jarðar sem sólarljós og viðheldur lífinu hér. Án sólarljóssins værum við ekki til og jörðin lífvana.

2 Með hliðsjón af þessu skiljum við hversu alvarlegt það ástand er sem spámaðurinn Jesaja lýsir. Hann segir: „Sjá, myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum.“ (Jesaja 60:2) Hann er auðvitað ekki að tala um bókstaflegt myrkur. Hann er ekki að segja að sól, tungl og stjörnur hætti að skína einn góðan veðurdag. (Sálmur 89:37, 38; 136:7-9) Hann er að tala um andlegt myrkur. En andlegt myrkur er banvænt. Við lifum ekki til lengdar án andlegs ljóss, ekki frekar en við lifum án hins bókstaflega. — Lúkas 1:79.

3. Hvað eiga kristnir menn að gera með hliðsjón af orðum Jesaja?

3 Vert er þó að hafa hugfast að orð Jesaja eru að rætast í fyllri mæli núna en gerðist í Júda fortíðar. Heimurinn er hjúpaður andlegu myrkri nú á dögum. Við slíkt hættuástand er andlega ljósið ákaflega þýðingarmikið. Það er því mikilvægt að kristnir menn hlýði hvatningu Jesú um að ‚láta ljós sitt lýsa meðal mannanna.‘ (Matteus 5:16) Sannkristnir menn geta lýst upp myrkrið svo að auðmjúkir menn sjái og fái tækifæri til að hljóta líf. — Jóhannes 8:12.

Myrkir tímar í Ísrael

4. Hvenær rættust spádómsorð Jesaja fyrst en hvernig var ástandið orðið meðan hann var uppi?

4 Orð Jesaja um myrkrið yfir jörðinni rættust fyrst þegar Júda lá í eyði og landsmenn voru í útlegð í Babýlon. En stór hluti þjóðarinnar var hjúpaður andlegu myrkri löngu fyrr, meðan Jesaja var uppi, og það var kveikja þess að hann hvatti samlanda sína og sagði: „Ættmenn Jakobs, komið, göngum í ljósi [Jehóva].“ — Jesaja 2:5; 5:20.

5, 6. Hvað stuðlaði að myrkrinu á dögum Jesaja?

5 Jesaja spáði í Júda „á dögum Ússía, Jótams, Akasar og Hiskía, konunga í Júda.“ (Jesaja 1:1) Þetta voru miklir ólgutímar. Hræringar voru í stjórnmálum, hræsni í trúmálum, spilling í dómsmálum og fátækir voru kúgaðir. Á hæðum uppi stóðu ölturu falsguða, jafnvel í stjórnartíð konunga eins og Jótams sem voru Guði trúir. Ástandið hríðversnaði þegar ótrúir konungar sátu að völdum. Hinn illi Akas konungur gekk til dæmis svo langt að færa guðinum Mólok börn sín að fórn. Hvílíkt myrkur! — 2. Konungabók 15:32-34; 16:2-4.

6 Og ekki var ástandið bjart í alþjóðamálum. Móab, Edóm og Filistea lágu að landamærum Júda og ógnuðu ríkinu. Ísraelsríkið í norðri var nú yfirlýstur óvinur Júda þótt íbúar ríkjanna tveggja væru náskyldir. Lengra í norðri var Sýrland sem Júda stóð einnig ógn af. Og ekki stafaði minni hætta af Assýríu sem rak harða og grimma útþenslustefnu. Í spádómstíð Jesaja afmáði Assýría Ísrael af landakortinu og eyddi næstum Júda. Um tíma höfðu Assýringar náð undir sig öllum víggirtum borgum í Júda nema Jerúsalem. — Jesaja 1:7, 8; 36:1.

7. Hvaða braut völdu Ísraelsmenn og Júdamenn að ganga og hvernig brást Jehóva við?

7 Sáttmálaþjóð Guðs mátti þola þessar miklu hörmungar vegna óhollustu sinnar. Eins og orðskviðurinn segir höfðu þeir ‚yfirgefið stigu einlægninnar og gengið á vegum myrkursins.‘ (Orðskviðirnir 2:13) En Jehóva yfirgaf þá ekki með öllu þótt hann væri þeim reiður. Hann vakti upp Jesaja og aðra spámenn til að færa andlegt ljós hverjum þeim sem leitaðist enn við að þjóna Jehóva í trúfesti. Það var dýrmætt ljós sem þeir komu með. Það var lífgandi.

Nú er myrkur

8, 9. Hvað stuðlar að myrkrinu í heiminum núna?

8 Það er mjög svipað ástand núna og var á dögum Jesaja. Leiðtogar mannkyns hafa snúið baki við Jehóva og hinum krýnda konungi, Jesú Kristi. (Sálmur 2:2, 3) Trúarleiðtogar kristna heimsins hafa svikið sóknarbörnin. Þeir þykjast þjóna Guði en sannleikurinn er sá að flestir þeirra hampa guðum heimsins — þjóðernishyggju, hernaðarstefnu, auðæfum og frægu fólki — að ekki sé nú minnst á heiðnar kennisetningar.

9 Á einum stað af öðrum hafa trúfélög kristna heimsins blandað sér í stríð, borgaraleg átök, þjóðernishreinsanir og annan hrylling. Og í stað þess að styðja siðferði Biblíunnar látast margar kirkjudeildir annaðhvort ekki sjá siðleysi á borð við saurlifnað og kynvillu eða hreinlega styðja það. Með því að hafna siðferðisreglum Biblíunnar eru sóknarbörnin í kristna heiminum eins og sálmaritarinn lýsti endur fyrir löngu: „Þeir hafa eigi skyn né skilning, þeir ráfa í myrkri.“ (Sálmur 82:5) Kristni heimurinn ráfar um í niðamyrkri líkt og Júdamenn forðum daga. — Opinberunarbókin 8:12.

10. Hvernig skín ljós í myrkri nútímans og hvernig njóta auðmjúkir menn góðs af?

10 Í öllu þessu myrkri lætur Jehóva ljós skína í þágu auðmjúkra manna. Til þess notar hann ‚hinn trúa og hyggna þjón‘ sem ‚skín eins og ljós í heiminum.‘ (Matteus 24:45; Filippíbréfið 2:15) Þjónshópurinn endurskastar andlegu ljósi frá orði Guðs, Biblíunni, og nýtur til þess stuðnings milljóna ‚annarra sauða.‘ (Jóhannes 10:16) Það veitir auðmjúkum von í myrkum heimi, auðveldar þeim að eiga samband við Guð og hjálpar þeim að forðast andlegar tálgryfjur. Þetta er dýrmætt ljós og lífgandi.

‚Ég lofa nafn þitt‘

11. Hvaða upplýsingar veitti Jehóva á dögum Jesaja?

11 Hvers konar leiðsögn veitti Jehóva á þeim myrku tímum sem Jesaja lifði, og í svartnættinu mikla sem lagðist á þjóðina eftir að Babýloníumenn fluttu hana í útlegð? Hann veitti henni siðferðilega leiðsögn og lýsti fyrir fram í smáatriðum hvernig hann myndi láta ásetning sinn með þjóðina ná fram að ganga. Lítum til dæmis á hina hrífandi spádóma í 25. til 27. kafla Jesajabókar. Kaflarnir bera með sér hvernig Jehóva tók á málum á þeim tíma og hvernig hann gerir það á okkar dögum.

12. Hvernig ákallar Jesaja Jehóva?

12 Fyrst lýsir Jesaja yfir: „[Jehóva], þú ert minn Guð! Ég vil vegsama þig, lofa nafn þitt!“ Þetta er fagurt ákall. En hvað kom spámanninum til að bera fram slíka bæn? Í síðari hluta versins kemur fram mikilvæg ástæða fyrir því. Þar stendur: „Þú [Jehóva] hefir framkvæmt furðuverk, löngu ráðin ráð, trúfesti og sannleika.“ — Jesaja 25:1.

13. (a) Hvaða vitneskja styrkti virðingu Jesaja fyrir Jehóva? (b) Hvað getum við lært af Jesaja?

13 Jehóva var búinn að vinna mörg furðuverk í þágu Ísraels þegar Jesaja var uppi og þau höfðu verið skrásett. Jesaja var greinilega kunnugur þessum ritum. Hann vissi til dæmis að Jehóva hafði frelsað þjóðina úr þrælkun í Egyptalandi og bjargað henni undan her faraós í Rauðahafinu. Hann vissi að Jehóva hafði leitt þjóðina um eyðimörkina og inn í fyrirheitna landið. (Sálmur 136:1, 10-26) Sagnaheimildirnar sýndu að Jehóva Guð er trúr og áreiðanlegur. „Ráð“ hans — allt sem hann ætlar sér — koma fram. Þessi vitneskja styrkti Jesaja svo að hann gat haldið áfram að ganga í ljósinu. Þar er hann okkur góð fyrirmynd því að ef við rannsökum orð Guðs vandlega og förum eftir því, þá höldum við okkur líka í ljósinu. — Sálmur 119:105; 2. Korintubréf 4:6.

Borg lögð í eyði

14. Hverju er spáð um borgir og hvaða borg er líklega átt við?

14 Í Jesaja 25:2 er að finna dæmi um ráð Guðs. Þar stendur: „Þú hefir gjört bæi að grjóthrúgu, víggirtar borgir að hruninni rúst. Hallir óvinanna eru eigi framar bæir, þær skulu aldrei verða reistar aftur.“ Hvaða borgir og bæi er verið að tala um? Líklegt er að átt sé við Babýlon því að sá tími kom sannarlega að sú mikla borg varð að grjóthrúgu.

15. Hvaða ‚mikil borg‘ stendur núna og hvað verður um hana?

15 Borgirnar, sem Jesaja nefnir, eiga sér nútímahliðstæðu. Opinberunarbókin talar um ‚borgina miklu sem heldur ríki yfir konungum jarðarinnar.‘ (Opinberunarbókin 17:18) Þessi mikla borg er „Babýlon hin mikla,“ heimsveldi falskra trúarbragða. (Opinberunarbókin 17:5) Kristni heimurinn er þar fremstur í flokki en klerkar hans beita sér af hörku gegn því að fólk Jehóva boði ríki hans. (Matteus 24:14) En Babýlon hinni miklu verður bráðlega eytt líkt og Babýlon fortíðar og verður aldrei reist að nýju.

16, 17. Hvernig hafa óvinir Jehóva vegsamað hann bæði til forna og á síðari tímum?

16 Hverju öðru spáir Jesaja um hina ‚víggirtu borg‘? Hann ávarpar Jehóva og segir: „Harðsnúnar þjóðir [munu] heiðra þig og borgir ofríkisfullra þjóða óttast þig.“ (Jesaja 25:3) Hvernig átti þessi fjandsamlega borg „ofríkisfullra þjóða“ að heiðra Jehóva? Við munum hvernig fór fyrir Nebúkadnesar, valdamesta konungi Babýlonar. Hann varð fyrir reynslu sem sýndi honum fram á veikleika hans, og hann neyddist til að viðurkenna mikilleik og almætti Jehóva. (Daníel 4:34, 35) Þegar Jehóva beitir mætti sínum neyðast óvinir hans jafnvel til að viðurkenna máttarverk hans, þótt tregir séu.

17 Neyddist Babýlon hin mikla nokkurn tíma til að viðurkenna máttarverk Jehóva? Já, smurðir þjónar Jehóva prédikuðu á þrengingatímum meðan fyrri heimsstyrjöldin stóð yfir. Árið 1918 voru þeir hnepptir í andlega ánauð þegar forystumenn Varðturnsfélagsins voru fangelsaðir. Skipulagt boðunarstarf lagðist niður að mestu. En Jehóva endurvakti þá árið 1919 og styrkti þá með anda sínum svo að þeir hófust handa við að boða fagnaðarerindið um alla jörðina eins og þeim hafði verið falið. (Markús 13:10) Þessu var spáð í Opinberunarbókinni. Þar var einnig lýst þeim áhrifum sem það hafði á andstæðingana. Þeir urðu „ótta slegnir og gáfu Guði himinsins dýrðina.“ (Opinberunarbókin 11:3, 7, 11-13) Ekki svo að skilja að þeir tækju allir trú, en þeir neyddust til að viðurkenna máttarverk Jehóva að þessu sinni eins og Jesaja hafði boðað.

„Vörn lítilmagnans“

18, 19. (a) Af hverju hefur andstæðingum ekki tekist að brjóta ráðvendni þjóna Jehóva á bak aftur? (b) Hvernig mun „sigursöngur ofríkismannanna“ hljóðna?

18 Jesaja beinir nú athyglinni að gæsku Jehóva gagnvart þeim sem ganga í ljósinu. Hann ávarpar Guð: „Þú varst vörn lítilmagnans, vörn hins vesala í nauðum hans, skjól í skúrunum, hlíf í hitanum. Þótt andgustur ofríkismannanna sé eins og kuldaskúrir, glaumkæti óvinanna eins og sólarbreiskja í ofþurrki, þá sefar þú sólarbreiskjuna með skugganum af skýinu, og sigursöngur ofríkismannanna hljóðnar.“ — Jesaja 25:4, 5.

19 Frá 1919 hafa trúarlegir og pólitískir harðstjórar reynt með öllum ráðum að brjóta niður ráðvendni þeirra sem tilbiðja Jehóva. Af hverju hafa þeir ekki haft erindi sem erfiði? Af því að Jehóva er skjól og vörn þjóna sinna. Hann veitir þeim svalandi skugga fyrir ofsóknarhitanum og er eins og sterkur skjólveggur fyrir andstöðuskúrum. Við sem göngum í ljósi Guðs hlökkum til þess tíma er „sigursöngur ofríkismannanna hljóðnar.“ Við bíðum óþreyjufull þess dags er óvinir Jehóva hverfa af sjónarsviðinu.

20, 21. Til hvaða veislu býður Jehóva og hvers eðlis verður hún í nýja heiminum?

20 Jehóva lætur ekki við það sitja að vernda þjóna sína heldur sér hann jafnframt fyrir þeim eins og ástríkur faðir. Hann hélt þeim sigurveislu eftir að hann frelsaði þá frá Babýlon hinni miklu árið 1919 og bar fram andlega fæðu í miklu magni. Þessu var spáð í Jesaja 25:6 þar sem við lesum: „[Jehóva] allsherjar mun á þessu fjalli búa öllum þjóðum veislu með krásum, veislu með dreggjavíni, mergjuðum krásum og skírðu dreggjavíni.“ Það er mikil blessun að mega sækja þessa veislu! (Matteus 4:4) ‚Borð Jehóva‘ er hlaðið andlegum krásum. (1. Korintubréf 10:21) Fyrir milligöngu ‚hins trúa og hyggna þjóns‘ er okkur séð fyrir öllu sem við getum hugsanlega þarfnast andlega.

21 Og það er meira um þessa veislu Guðs að segja. Hún minnir okkur á það hve ríkulegt framboð verður af líkamlegri fæðu í nýja heiminum sem Guð hefur heitið. Þá verður ‚veislan með krásunum‘ líka bókstafleg. Engan mun hungra, hvorki líkamlega né andlega. Hvílíkur léttir fyrir trúbræður okkar sem líða vegna ‚hungursins‘ sem er hluti af nærverutákni Jesú. (Matteus 24:3, 7) Orð sálmaritarans eru einkar hughreystandi fyrir þá. Hann söng: „Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum.“ — Sálmur 72:16.

22, 23. (a) Hvað er ‚skýlan‘ eða ‚hjúpurinn‘ sem verður fjarlægður og hvernig verður það gert? (b) Hvernig verður ‚svívirða fólks Jehóva‘ fjarlægð?

22 En líttu á enn fegurra fyrirheit. Jesaja líkir syndinni við „skýlu“ eða „hjúp“ og segir: „Og [Jehóva] mun afmá á þessu fjalli skýlu þá, sem hylur alla lýði, og þann hjúp, sem breiddur er yfir allar þjóðir.“ (Jesaja 25:7) Hugsaðu þér! Synd og dauði, sem hafa hvílt þungt á mannkyninu, heyra sögunni til. Þráum við ekki heitt þann dag þegar andvirði lausnarfórnar Jesú verður beitt að fullu í þágu hlýðinna og trúfastra manna? — Opinberunarbókin 21:3, 4.

23 Spámaðurinn talar um þessa dýrðartíma og lofar okkur: „[Guð] mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi [Jehóva] mun þerra tárin af hverri ásjónu, og svívirðu síns lýðs mun hann burt nema af allri jörðinni, því að [Jehóva] hefir talað það.“ (Jesaja 25:8) Enginn deyr framar af náttúrlegum orsökum eða grætur látinn ástvin. Hvílík breyting! Og hvergi á jörðinni heyrast þær svívirðingar og sá lygaáróður sem Guð og þjónar hans hafa setið undir svo lengi. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva fjarlægir forsprakkann — Satan djöfulinn, föður lyginnar. Og sæði Satans hverfur sömuleiðis. — Jóhannes 8:44.

24. Hvernig bregðast þeir sem ganga í ljósinu við þeim máttarverkum sem Jehóva vinnur í þeirra þágu?

24 Þeir sem ganga í ljósinu hugleiða hvernig Jehóva hefur birt mátt sinn og hrópa fagnandi: „Sjá, þessi er vor Guð, vér vonuðum á hann, að hann mundi frelsa oss. Þessi er [Jehóva], vér vonuðum á hann. Fögnum og gleðjumst yfir hjálpræði hans!“ (Jesaja 25:9) Réttlátt mannkyn hefur bráðlega tilefni til að gleðjast og fagna. Myrkrinu verðu eytt að fullu og trúfastir menn munu baða sig í ljósi Jehóva um alla eilífð. Er til nokkur stórfenglegri von? Nei!

Geturðu útskýrt?

• Af hverju er nauðsynlegt að ganga í ljósinu núna?

• Af hverju lofaði Jesaja nafn Jehóva?

• Af hverju tekst óvinum aldrei að brjóta ráðvendni fólks Guðs á bak aftur?

• Hvaða blessun bíður þeirra sem ganga í ljósinu?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 21]

Júdamenn fórnuðu Mólok börnum.

[Myndir á blaðsíðu 23]

Jesaja þekkti máttarverk Jehóva og lofaði nafn hans fyrir.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Hinir réttlátu baða sig í ljósi Jehóva um eilífð.