Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hjálpræði þeirra sem velja ljósið

Hjálpræði þeirra sem velja ljósið

Hjálpræði þeirra sem velja ljósið

„[Jehóva] er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast?“ — SÁLMUR 27:1.

1. Hvaða ráðstafanir gerir Jehóva til að viðhalda lífinu?

JEHÓVA er uppspretta sólarljóssins sem allt líf á jörðinni er háð. (1. Mósebók 1:2, 14) Hann er líka skapari andlegs ljóss sem bægir burt hinu banvæna myrkri í heimi Satans. (Jesaja 60:2; 2. Korintubréf 4:6; Efesusbréfið 5:8-11; 6:12) Þeir sem velja ljósið geta tekið undir með sálmaritaranum: „[Jehóva] er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast?“ (Sálmur 27:1a) En þeir sem velja myrkrið eiga ekkert annað en óhagstæðan dóm í vændum, eins og á dögum Jesú. — Jóhannes 1:9-11; 3:19-21, 36.

2. Hvernig fór fyrir þeim sem höfnuðu ljósi Jehóva til forna og þeim sem hlýddu á orð hans?

2 Sáttmálaþjóð Jehóva hafnaði ljósinu að langmestu leyti á dögum Jesaja. Fyrir vikið var norðurríkinu Ísrael eytt sem þjóð. Og árið 607 f.o.t. var Jerúsalem lögð í rúst ásamt musterinu og Júdamenn fluttir í útlegð. En orð Jehóva styrkti þá sem hlýddu á það til að standast fráhvarf samtíðarinnar. Jehóva lofaði því að þeir sem hlýddu á hann skyldu halda lífi árið 607 f.o.t. (Jeremía 21:8, 9) Við sem elskum ljósið getum lært margt af því sem gerðist á þeim tíma. — Efesusbréfið 5:5.

Hamingja þeirra sem eru í ljósinu

3. Hverjum getum við treyst, hvaða ‚réttlátan lýð‘ elskum við og hvaða „rammgerva borg“ á þessi „lýður“?

3 „Vér eigum rammgerva borg. Hjálpræði sitt gjörir [Guð] að múrum og varnarvirki. Látið upp hliðin, svo að réttlátur lýður megi inn ganga, sá er trúnaðinn varðveitir.“ (Jesaja 26:1, 2) Þetta eru fagnandi orð fólks sem treysti á Jehóva. Trúfastir Gyðingar á dögum Jesaja treystu á Jehóva en ekki á falsguði samlanda sinna. Við berum sama traust til hans. Við elskum „Ísrael Guðs“ sem er „réttlátur lýður“ Jehóva. (Galatabréfið 6:16; Matteus 21:43) Og Jehóva elskar þennan lýð vegna trúfesti hans. Með blessun hans býr Ísrael Guðs óhultur innan skipulags sem líkt er við „rammgerva borg.“

4. Hvaða hugarfar ættum við að tileinka okkur?

4 Þeim sem búa í þessari „borg“ er fullljóst að Jehóva blessar ‚stöðugt hugarfar. Hann veitir ævarandi frið, því að þeir treysta á hann.‘ Jehóva styður þá sem treysta honum og fylgja réttlátum meginreglum hans. Trúfastir menn í Júda hlýddu hvatningu Jesaja: „Treystið [Jehóva] æ og ætíð, því að [Jah, Jehóva] er eilíft bjarg.“ (Jesaja 26:3, 4; Sálmur 9:11; 37:3; Orðskviðirnir 3:5) Þeir sem eru þannig þenkjandi líta á ‚Jah Jehóva‘ sem eina bjargfasta öryggið og njóta ‚ævarandi friðar‘ sem hann gefur. — Filippíbréfið 1:2; 4:6, 7.

Óvinir Guðs auðmýktir

5, 6. (a) Hvernig var Babýlon fortíðar auðmýkt? (b) Hvernig var ‚Babýlon hin mikla‘ auðmýkt?

5 Hvað þá ef þeir sem treysta á Jehóva lenda í þrengingum? Það er ekkert að óttast. Jehóva leyfir þrengingar um tíma en tekur svo fyrir þær og dæmir þá sem valda þeim. (2. Þessaloníkubréf 1:4-7; 2. Tímóteusarbréf 1:8-10) Lítum á ‚háreistu borgina‘ sem dæmi. Jesaja segir: „[Jehóva] niðurlægir þá, sem byggja á hæðum. Háreistu borginni steypir hann niður, hann steypir henni til jarðar og leggur hana í duftið. Fætur troða hana niður, fætur fátækra, iljar umkomulausra.“ (Jesaja 26:5, 6) Hugsanlegt er að borgin sé Babýlon. Óneitanlega þjáði hún fólk Guðs. En hvað varð um hana? Hún féll fyrir Medum og Persum árið 539 f.o.t. Mikil niðurlæging það!

6 Í nútímauppfyllingu lýsa orð Jesaja því hvernig farið hefur fyrir ‚Babýlon hinni miklu‘ frá og með 1919. Þá var þessi háreista borg auðmýkt og hún féll er hún neyddist til að sleppa fólki Jehóva úr andlegri ánauð. (Opinberunarbókin 14:8) Og enn meiri var auðmýkingin þegar þessi fámenni hópur kristinna manna traðkaði á fyrrverandi fangara sínum. Árið 1922 tóku þeir að boða opinberlega endalok kristna heimsins. Þeir fluttu básúnuboðskap englanna fjögurra í Opinberunarbókinni 8:7-12 og veiin þrjú sem boðuð voru í Opinberunarbókinni 9:1–11:15.

„Vegur hins réttláta er sléttur“

7. Hvaða leiðsögn fá þeir sem leita í ljósið frá Jehóva, hvern vona þeir á og hvað þykir þeim vænt um?

7 Jehóva veitir þeim hjálpræði sem leita í ljósið frá honum og leiðir þá eins og Jesaja segir: „Vegur hins réttláta er sléttur, götu hins réttláta ryður þú. Já, á vegi dóma þinna, [Jehóva], væntum vér þín; þitt nafn og þína minning þráir sála vor.“ (Jesaja 26:7, 8) Jehóva er réttlátur Guð. Þeir sem tilbiðja hann verða að halda réttlát boð hans og hann leiðir þá og greiðir götu þeirra. Með því að fylgja leiðsögn hans sýna auðmjúkir menn að þeir vona á hann og þykir ákaflega vænt um nafn hans sem kallað er „minning“ hans. — 2. Mósebók 3:15, NW.

8. Hvaða hugarfar sýndi Jesaja sem er gott til eftirbreytni?

8 Jesaja þótti ákaflega vænt um nafn Jehóva eins og glöggt má sjá af orðum hans: „Af hjarta þrái ég þig á næturnar, já, með andanum í brjósti mínu skima ég eftir þér. Þegar dómar þínir birtast á jörðu, þá læra byggjendur jarðríkis réttlæti.“ (Jesaja 26:9) Jesaja þráði Jehóva „af hjarta.“ Sjáðu spámanninn fyrir þér þar sem hann notar hljóðar næturstundir til bæna, til að tjá Jehóva innstu hugsanir sínar og leita leiðsagnar hans. Hann er okkur góð fyrirmynd. Og Jesaja lærði réttlæti af dómum Jehóva sem minnir á að við þurfum að vera árvökur öllum stundum og vakandi fyrir ábendingum um vilja hans.

Sumir kjósa myrkrið

9, 10. Hvaða góðverk vann Jehóva fyrir ótrúa þjóð sína en hvernig brást hún við?

9 Jehóva sýndi Júda mikla ástúð og umhyggju en því miður kunnu ekki allir að meta hana. Oft kaus fjöldinn frekar uppreisn og fráhvarf en sannleiksljós Jehóva. „Sé hinum óguðlegu sýnd vægð, læra þeir eigi réttlæti,“ sagði Jesaja. „Þá fremja þeir órétt í því landi, þar sem réttlæti skal ríkja, og gefa ekki gætur að hátign [Jehóva].“ — Jesaja 26:10.

10 Þegar hönd Jehóva varði Júdamenn gegn óvinum þeirra á dögum Jesaja vildi fjöldinn ekki viðurkenna það. Þjóðin var vanþakklát þegar hann blessaði hana með friði. Þess vegna gaf hann hana á vald ‚annarra drottna‘ og lét að lokum flytja Júdamenn í útlegð til Babýlonar árið 607 f.o.t. (Jesaja 26:11-13) Leifar þjóðarinnar sneru þó heim að lokum eftir þessa ögun.

11, 12. (a) Hvaða framtíð áttu fangarar Júdamanna? (b) Hvaða framtíð blasti við fyrrverandi föngurum smurðra þjóna Jehóva árið 1919?

11 Hvað um fangara Júdamanna? Jesaja svarar með spádómlegum orðum: „Dauðir lifna ekki, vofur rísa ekki upp [„þeir eru máttvana í dauðanum og rísa ekki upp,“ NW]. Þú vitjaðir þeirra og eyddir þeim og afmáðir alla minningu um þá.“ (Jesaja 26:14) Babýlon á sér enga framtíð eftir fall sitt árið 539 f.o.t. Síðar á borgin að líða endanlega undir lok. Hún verður „máttvana í dauðanum“ og hið mikla heimsveldi aðeins liðin saga. Hvílík viðvörun til þeirra sem binda vonir sínar við valdamenn þessa heims.

12 Sumt í þessum spádómi rættist þegar Guð leyfði að smurðir þjónar sínir væru hnepptir í andlega ánauð árið 1918 og þegar hann frelsaði þá síðan árið 1919. Framtíð fyrrverandi fangara þeirra, einkum kristna heimsins, var ekki björt eftir það. En fólk Jehóva átti mikla blessun í vændum.

„Þú hefir gjört þjóðina stóra“

13, 14. Hvaða blessunar hafa smurðir þjónar Jehóva notið frá 1919?

13 Guð blessaði iðrunarhug smurðra þjóna sinna árið 1919 og veitti þeim aukningu. Fyrst var safnað saman þeim sem eftir voru af Ísrael Guðs og síðan var byrjað að safna ‚miklum múgi‘ af ‚öðrum sauðum.‘ (Opinberunarbókin 7:9; Jóhannes 10:16) Þessi blessun var boðuð í spádómi Jesaja: „Þú hefir gjört þjóðina stóra, [Jehóva], þú hefir gjört þjóðina stóra, þú hefir gjört þig dýrlegan, þú hefir fært út öll takmörk landsins. [Jehóva], í neyðinni leituðu þeir þín, þeir stundu upp andvörpum, er þú hirtir þá.“ — Jesaja 26:15, 16.

14 Landamæri Ísraels Guðs hafa verið færð út svo að hann nær um alla jörðina, og mikill múgur — um sex milljónir manna — tekur dyggan þátt í boðun fagnaðarerindisins. (Matteus 24:14) Þetta er mikil blessun frá Jehóva og nafni hans til lofs. Nafn hans heyrist nefnt í 235 löndum sem er mikilfengleg uppfylling þessa fyrirheits.

15. Hvaða táknræn upprisa átti sér stað árið 1919?

15 Júdamenn þurftu á hjálp Jehóva að halda til að losna úr ánauðinni í Babýlon. Þeir gátu það ekki af eigin rammleik. (Jesaja 26:17, 18) Frelsun Ísraels Guðs árið 1919 var með sama hætti sönnun fyrir stuðningi Jehóva. Hún gat ekki átt sér stað án hjálpar hans. Og ástandsbreytingin var svo óvænt að Jesaja líkir henni við upprisu: „Menn þínir, sem dánir eru, skulu lifna, lík þeirra rísa upp. Vaknið og hefjið fagnaðarsöng, þér sem búið í duftinu, því að döggin þín er dögg ljóssins, og jörðin skal fæða þá, sem dauðir eru.“ (Jesaja 26:19; Opinberunarbókin 11:7-11) Það var eins og hinir dauðu fæddust á ný og tækju aftur til starfa.

Vernd á hættutímum

16, 17. (a) Hvað þurftu Gyðingar að gera árið 539 f.o.t. til að komast af þegar Babýlon féll? (b) Hvað tákna ‚herbergin‘ líklega og hvernig eru þau okkur til gagns?

16 Þjónar Jehóva þarfnast alltaf verndar hans. En bráðlega mun hann rétta út hönd sína í síðasta sinn gegn heimi Satans og þá þarfnast tilbiðjendur hans hjálpar sem aldrei fyrr. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Jehóva talar í viðvörunartón um þessa hættutíma: „Gakk þú, þjóð mín, inn í herbergi þitt og lyk aftur dyrunum á eftir þér. Fel þig skamma hríð, uns reiðin er liðin hjá. Því sjá, [Jehóva] gengur út frá aðseturstað sínum til þess að hegna íbúum jarðarinnar fyrir misgjörðir þeirra. Jörðin mun birtast láta blóðið, sem á henni hefir verið úthellt, og hún mun ekki lengur hylja þá, sem á henni hafa myrtir verið.“ (Jesaja 26:20, 21; Sefanía 1:14) Þessi viðvörun var ábending til Gyðinga um það hvernig þeir gætu haldið lífi þegar Babýlon félli árið 539 f.o.t. Þeir sem sinntu henni héldu sig innan dyra, óhultir fyrir innrásarhermönnum á götum úti.

17 ‚Herbergin‘ í spádóminum tákna líklega söfnuði þjóna Jehóva sem skipta tugþúsundum um heim allan. Þar eru þjónar Guðs óhultir meðal bræðra sinna og njóta kærleiksumsjónar öldunganna. (Jesaja 32:1, 2; Hebreabréfið 10:24, 25) Og þessi vernd er mikilvæg, ekki síst þegar á það er litið hversu stutt er í endalok þessa heimskerfis þegar björgun verður undir hlýðni komin. — Sefanía 2:3.

18. Hvernig mun Jehóva bráðlega „bana sjóskrímslinu“?

18 Jesaja spáir um þann tíma: „Á þeim degi mun [Jehóva] með hinu harða, mikla og sterka sverði sínu hegna Levjatan, hinum flughraða dreka, Levjatan, hinum bugðótta dreka, og bana sjóskrímslinu.“ (Jesaja 27:1) Hver er „Levjatan“ nútímans? Það er augljóslega átt við ‚hinn gamla höggorm,‘ Satan sjálfan, og hið illa heimskerfi sem hann beitir í stríði sínu gegn Ísrael Guðs. (Opinberunarbókin 12:9, 10, 17; 13:14, 16, 17) Levjatan missti tökin á fólki Guðs árið 1919 og verður tekinn alveg úr umferð síðar. (Opinberunarbókin 19:19-21; 20:1-3, 10) Þannig mun Jehóva „bana sjóskrímslinu.“ Ekkert sem Levjatan beitir gegn fólki Jehóva reynist sigurvænlegt til langframa. (Jesaja 54:17) Það er hughreystandi til að vita.

‚Yndislegur víngarður‘

19. Hvernig eru leifar Ísraels Guðs á vegi staddar núna?

19 Höfum við ekki ærna ástæðu til að fagna öllu þessu ljósi frá Jehóva? Jú, svo sannarlega! Jesaja lýsir fögnuði fólks Jehóva fagurlega og skrifar: „Á þeim degi skuluð þér kveða um hinn yndislega víngarð: Ég, [Jehóva], er vörður hans, ég vökva hann á hverri stundu. Ég gæti hans nótt og dag, til þess að enginn vinni þar spell.“ (Jesaja 27:2, 3) Jehóva hefur annast „víngarð“ sinn, leifar Ísraels Guðs, og ötula félaga þeirra. (Jóhannes 15:1-8) Það hefur borið ávöxt sem er nafni hans til heiðurs og þjónum hans á jörðinni til mikillar gleði.

20. Hvernig verndar Jehóva kristna söfnuðinn?

20 Við getum fagnað því að Jehóva hefur látið af reiði sinni í garð smurðra þjóna sinna, en hennar vegna leyfði hann að þeir væru hnepptir í andlega ánauð árið 1918. Hann segir sjálfur: „Mér er ekki reiði í hug, en finni ég þyrna og þistla ræðst ég á þá og brenni þá til ösku — nema menn leiti hælis hjá mér og gjöri frið við mig, gjöri frið við mig.“ (Jesaja 27:4, 5) Jehóva ræðst á og brennir til ösku öll illgresisáhrif sem gætu spillt vínviðnum, til að tryggja að hann haldi áfram að gefa af sér gnægð af ‚yndislegu víni.‘ Enginn skyldi því voga sér að ógna velferð kristna safnaðarins. Allir ættu að ‚leita hælis hjá Jehóva‘ og leita hylli hans og verndar. Þannig gerum við frið við Guð sem er svo mikilvægt að Jesaja tvítekur það. — Sálmur 85:2, 3, 9; Rómverjabréfið 5:1.

21. Hvernig hefur landið fyllst „ávöxtum“?

21 Blessunin heldur áfram: „Á komandi tímum mun Jakob festa rætur, Ísrael blómgast og frjóvgast, og þeir munu fylla jarðarkringluna með ávöxtum.“ (Jesaja 27:6) Þetta vers hefur verið að rætast síðan 1919 og ber fagurt vitni um mátt Jehóva. Smurðir kristnir menn hafa fyllt jörðina nærandi andlegri fæðu eða „ávöxtum.“ Þeir fylgja háleitum hegðunarreglum Guðs í spilltum heimi. Og Guð heldur áfram að láta þeim fjölga þannig að félagar þeirra af hópi ‚annarra sauða,‘ sem skipta milljónum, „þjóna honum dag og nótt í musteri hans.“ (Opinberunarbókin 7:15) Missum aldrei sjónar á því hvílík sérréttindi það eru að neyta ‚ávaxtanna‘ og gefa öðrum af þeim.

22. Hvaða blessun bíður þeirra sem taka við ljósinu?

22 Erum við ekki þakklát fyrir hið andlega ljós sem Jehóva varpar á þjóna sína á þessum örlagatímum þegar myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum? (Jesaja 60:2; Rómverjabréfið 2:19; 13:12) Þetta ljós hefur í för með sér hugarró og gleði núna og hvorki meira né minna en eilíft líf í framtíðinni. Við sem elskum ljósið höfum því ærna ástæðu til að taka undir með sálmaritaranum og syngja Jehóva lof: „[Jehóva] er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast? Vona á [Jehóva], ver öruggur og hugrakkur, já, vona á [Jehóva].“ — Sálmur 27:1b, 14.

Manstu?

• Hvaða framtíð bíður þeirra sem kúga fólk Jehóva?

• Hvaða aukningu er spáð í Jesajabók?

• Í hvaða „herbergi“ eigum við að dvelja og af hverju?

• Hvers vegna er hagur þjóna Jehóva honum til lofs?

[Spurningar]

[Rammi á blaðsíðu 30]

NÝ BÓK

Flest af því, sem fjallað er um í þessum tveim námsgreinum, kom fram í ræðu á landsmótinu árið 2000. Í lok ræðunnar var tilkynnt að út væri komin ný bók sem heitir: Spádómur Jesaja — ljós handa öllu mannkyni. Bókin er 416 blaðsíður og fjallar vers fyrir vers um fyrstu 40 kafla Jesajabókar.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Engir nema hinir réttlátu fá að búa í ‚rammgerri borg‘ Jehóva, skipulagi hans.

[Mynd á blaðsíðu 27]

Jesaja leitaði Jehóva „á næturnar.“

[Mynd á blaðsíðu 29]

Jehóva verndar „víngarð“ sinn og gerir hann frjósaman.