Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað er fagnaðarerindið um ríkið?

Hvað er fagnaðarerindið um ríkið?

Hvað er fagnaðarerindið um ríkið?

Rúmlega sex milljónir manna á öllum aldri töluðu um það í 1.171.270.425 klukkustundir í 235 löndum á síðasta ári. Auk þess dreifðu þeir meðal almennings ríflega 700 milljónum eintaka af ýmiss konar ritum til að kynna það og skýra. Og þeir dreifðu líka myndböndum og hljóðsnældum í þúsundatali til að koma því á framfæri. Hvaða „það“ er þetta?

„ÞAГ er fagnaðarerindið um ríki Guðs. „Þetta fagnaðarerindi um ríkið“ hefur aldrei í sögu mannkyns verið boðað jafnvíða og af jafnmiklum krafti sem nú. — Matteus 24:14.

Einungis sjálfboðaliðar taka þátt í að boða það og kenna um allan heim. Fljótt á litið virðast þeir kannski hafa litla burði til þess. Hverju geta þeir þá þakkað hugrekki sitt og góðan árangur? Ekki síst þeim krafti sem býr í fagnaðarerindinu, en fagnaðarerindið fjallar um mikla gæfu sem mannkynið á í vændum — hamingju, fjárhagsöryggi, góða stjórn, frið, öryggi og það sem fæstir voga sér ekki einu sinni að hugsa um — eilíft líf! En fólk þráir þetta, svo að hér er um að ræða mikil gleðitíðindi fyrir þá sem eru að leita að inntaki og tilgangi lífsins. Og þú getur fengið hlutdeild í þessari gæfu og meira til ef þú tekur við fagnaðarerindinu um ríkið sem þér er boðað.

Hvað er Guðsríki?

En hvað er þetta Guðsríki sem verið er að boða? Þetta er ríkið sem milljónir hafa lært að biðja um með hinum kunnuglegu orðum: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ — Matteus 6:9, 10.

Hebreski spámaðurinn Daníel talaði um þetta ríki fyrir rösklega 2500 árum er hann skrifaði: „Guð himnanna [mun] hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.“ — Daníel 2:44.

Fagnaðarerindið fjallar því um ríki eða stjórn í höndum Guðs, og þessi stjórn hefur það verkefni með höndum að uppræta alla illsku og stjórna síðan allri jörðinni í friði. Hún er verkfæri Guðs til að hrinda í framkvæmd upphaflegum tilgangi hans með mannkynið og jörðina. — 1. Mósebók 1:28.

„Himnaríki er í nánd“

Fagnaðarerindið um ríkið var fyrst boðað meðal almennings fyrir nálega 2000 árum. Þar var að verki kostgæfinn maður sem vakti mikla athygli, bæði sökum útlits og hátta. Þetta var Jóhannes skírari, sonur gyðingaprestsins Sakaríasar og konu hans, Elísabetar. Jóhannes klæddist fötum úr úlfaldahári og var með leðurbelti um lendar sér, svipað og Elía spámaður sem var táknmynd um hann. En það var boðskapurinn sem vakti athygli margra. „Gjörið iðrun,“ sagði hann, „himnaríki er í nánd.“ — Matteus 3:1-6.

Áheyrendur Jóhannesar voru Gyðingar sem játuðu trú á hinn sanna Guð, Jehóva. Þjóðin hafði tekið við lagasáttmálanum fyrir milligöngu Móse um 1500 árum áður. Í Jerúsalem stóð enn mikilfenglegt musteri þar sem færðar voru fórnir í samræmi við lögmálið. Gyðingar þóttust vissir um að tilbeiðsla þeirra væri rétt í augum Guðs.

En þegar menn hlýddu á Jóhannes rann upp fyrir sumum að trú þeirra var ekki eins og þeir héldu. Grísk menning og heimspeki hafði síast inn í trúarkenningar Gyðinga. Erfðavenjur og mannakenningar voru búnar að spilla lögmálinu, sem Guð hafði gefið þjóðinni fyrir milligöngu Móse, eða ónýta það. (Matteus 15:6) Harðbrjósta og miskunnarlausir trúarleiðtogar höfðu leitt þjóðina á villigötur svo að fæstir tilbáðu Guð á réttan hátt. (Jakobsbréfið 1:27) Þjóðin þurfti að iðrast synda sinna gegn Guði og lagasáttmálanum.

Margir Gyðingar bjuggust við að hinn fyrirheitni Messías, Kristur, kæmi fram um þessar mundir og veltu fyrir sér „hvort Jóhannes kynni að vera Kristur.“ En Jóhannes kvaðst ekki vera Kristur. Hann benti þeim á annan mann og sagðist ekki „verður að leysa skóþveng hans.“ (Lúkas 3:15, 16) Jóhannes kynnti Jesú fyrir lærisveinum sínum með þessum orðum: „Sjá, Guðs lamb, sem ber synd heimsins.“ — Jóhannes 1:29.

Þetta var sannkallað fagnaðarerindi því að Jóhannes var eiginlega að benda öllum mönnum á leiðina til lífs og hamingju — á Jesú sem átti að fjarlægja synd heimsins. Allir menn eru afkomendur Adams og Evu og fæðast þar af leiðandi undir harðstjórn syndar og dauða. Rómverjabréfið 5:19 segir um það: „Eins og hinir mörgu urðu að syndurum fyrir óhlýðni hins eina manns [Adams], þannig mun hlýðni hins eina [Jesú] réttlæta hina mörgu.“ Jesús átti að ‚bera‘ syndir heimsins eins og fórnarlamb og snúa við hinu dapurlega ástandi í mannheimi. „Laun syndarinnar er dauði,“ segir Biblían, „en náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum.“ — Rómverjabréfið 6:23.

Jesús var fullkominn — og reyndar mesta mikilmenni sem lifað hefur — og hann tók að boða mönnum fagnaðarerindið. Frásögnin í Markúsarguðspjalli 1:14, 15 segir: „Þegar Jóhannes hafði verið tekinn höndum, kom Jesús til Galíleu og prédikaði fagnaðarerindi Guðs og sagði: ‚Tíminn er fullnaður og Guðs ríki í nánd. Gjörið iðrun og trúið fagnaðarerindinu.‘“

Þeir sem tóku við boðskap Jesú og iðkuðu trú á fagnaðarerindið uppskáru mikla blessun. Jóhannes 1:12 segir: „Öllum þeim, sem tóku við honum [Jesú], gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.“ Sem börn Guðs áttu þeir eilíft líf í vændum. — 1. Jóhannesarbréf 2:25.

En það voru ekki aðeins fyrstu aldar menn sem áttu að fá að heyra fagnaðarerindið. Eins og fram hefur komið er fagnaðarerindið boðað og kennt um alla jörðina núna. Blessunin stendur því enn þá til boða. Hvað þarftu að gera til að fá hluteild í henni? Greinin á eftir upplýsir það.