Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Indland — „sundurleitt en sameinað“

Indland — „sundurleitt en sameinað“

Indland — „sundurleitt en sameinað“

ALGENGT er að gripið sé til orðanna „sundurleit en sameinuð“ til að lýsa sameiningu indversku þjóðarinnar. Það er ekki hlaupið að því að ná fram einingu meðal þeirra sem byggja þetta víðáttumikla land, því að menning, tungumál, trú, uppruni, klæðaburður og mataræði er afar ólíkt. En þessi eining hefur náðst við útibú votta Jehóva á Indlandi (kallað Betel), þó svo að sjálfboðaliðarnir, sem vinna þar, komi frá mörgum ríkjum og sambandssvæðum landsins og tali ólík tungumál.

• Rajrani er ung kona frá Punjab sem er lengst í norðvesturhluta landsins. Þegar hún var í skóla fór ein af bekkjarsystrum hennar að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva. Stúlkan reyndi að vekja áhuga Rajrani á Biblíunni. Enskukunnátta stúlkunnar var takmörkuð og Varðturninn var ekki til á púnjabí á þeim tíma, svo að hún fékk Rajrani til að hjálpa sér að þýða efnið. Það sem Rajrani las í Varðturninum hafði svo djúpstæð áhrif á hana að hún vígðist Jehóva að lokum, þrátt fyrir andstöðu foreldra sinna. Núna starfar hún við Betel á Indlandi við það sama og opnaði augu hennar fyrir sannleikanum. Hún vinnur við að þýða biblíutengd rit á púnjabí.

• Bijoe er frá suðvesturríkinu Kerala. Honum var vikið úr framhaldsskóla fyrir að taka ekki þátt í þjóðernislegum athöfnum. Eftir langdregin réttarhöld, sem lauk með tímamótasigri hreinnar tilbeiðslu, tók hann aftur upp þráðinn í námi sínu. * Síðan hóf hann háskólanám en felldi sig illa við hið siðlausa andrúmsloft þar og hætti námi eftir fyrstu önnina. Hann hefur starfað á Betel í tíu ár og segist hafa haft meira gagn af því að tilheyra hinni fjölbreyttu en sameinuðu Betelfjölskyldu heldur en hann hefði haft af háskólanámi.

• Norma og Lily eru báðar komnar yfir sjötugt og hafa verið ekkjur í allmörg ár. Báðar eiga að baki meira en 40 ára þjónustu í fullu starfi. Lily hefur starfað á Betel í hér um bil 20 ár við þýðingar á tamíl. Norma kom á Betel fyrir 13 árum eftir að hún missti eiginmann sinn. Þær eru iðnar og samviskusamar, hafa jákvæð áhrif á einingu Betelfjölskyldunnar og eru öðrum góð fyrirmynd. Þær hafa yndi af því að taka á móti gestum og njóta þess að vera með hinum yngri í Betelfjölskyldunni og deila með þeim reynslu sinni af áratugalöngu og ánægjulegu starfi. Og unga fólkið endurgeldur þeim með því að bjóða þeim í heimsókn og rétta þeim hjálparhönd eftir þörfum. Þetta er mjög til fyrirmyndar.

Þessir sjálfboðaliðar á Betelheimilinu á Indlandi hafa sigrast á þeim mismun sem er víða kveikja átaka og sundurlyndis. Þeir þjóna öðrum í sameingu og hafa yndi af. — Sálmur 133:1.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Sjá Varðturninn (enska útgáfu) 1. nóvember 1987, bls. 21.

[Mynd credit line á blaðsíðu 31]

Bakgrunnur: Mountain High Maps® Copyright © 1997 Digital Wisdom, Inc.