Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

‚Orð Jehóva breiddist út‘

‚Orð Jehóva breiddist út‘

‚Orð Jehóva breiddist út‘

„Hann sendir orð sitt til jarðar, boð hans hleypur með hraða.“ — SÁLMUR 147:15.

1, 2. Hvaða verkefni fékk Jesús lærisveinunum og hvað fól það í sér?

EINHVER ótrúlegasti spádómur Biblíunnar stendur í Postulasögunni 1:8. Þar segir Jesús trúum fylgjendum sínum, rétt áður en hann stígur upp til himna: „Þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir . . . allt til endimarka jarðarinnar.“ Þetta var ekkert smáverkefni sem þeir fengu!

2 Þessum fáu lærisveinum, sem heyrðu Jesú segja þetta, hlýtur að hafa óað við því verkefni að boða orð Guðs um allan heim. Hugsaðu þér hvað fólst í því. Þeir myndu þurfa að hjálpa fólki að skilja fagnaðarerindið um ríki Guðs. (Matteus 24:14) Að vitna um Jesú fól í sér að segja öðrum frá kröftugri kenningu hans og skýra fyrir þeim hlutverk hans í tilgangi Jehóva. Það fól einnig í sér að gera menn að lærisveinum og skíra þá. Og þetta átti að gera um allan heim! — Matteus 28:19, 20.

3. Um hvað fullvissaði Jesús fylgjendur sína og hvernig tókst þeim að gera verkefni sínu skil?

3 En Jesús fullvissaði fylgjendur sína um það að heilagur andi yrði með þeim í því starfi sem þeim var falið. Lærisveinum Jesú tókst að gera það sem hann fól þeim, þrátt fyrir umfang verksins og linnulausa og grimmilega mótspyrnu óvina sem vildu þagga niður í þeim. Það er söguleg staðreynd sem ekki verður á móti mælt.

4. Hvernig birtist kærleikur Guðs í boðunar- og kennsluumboðinu?

4 Hin mikla boðun og kennsla um víða veröld var merki um kærleika Guðs til þeirra sem þekktu hann ekki. Hún gaf þeim tækifæri til að eignast samband við Jehóva og hljóta syndafyrirgefningu. (Postulasagan 26:18) Boðunar- og kennsluumboðið bar líka vott um kærleika Guðs til boðberanna sjálfra því að það gaf þeim færi á að tjá honum hollustu sína og náunganum kærleika. (Matteus 22:37-39) Páll postuli mat hina kristnu þjónustu svo mikils að hann kallaði hana „fjársjóð.“ — 2. Korintubréf 4:7.

5. (a) Hvar finnum við heilsteyptustu frásögnina af starfi frumkristinna manna og hvaða vexti segir hún frá? (b) Af hverju er Postulasagan mikilvæg fyrir kristna nútímamenn?

5 Heilsteyptasta frásögnin af boðunarstarfi frumkristinna manna er geymd í Postulasögunni sem lærisveininum Lúkasi var innblásið að skrifa. Hún segir frá ótrúlega hraðri útbreiðslu þekkingarinnar á Guði, og þessi vöxtur minnir á Sálm 147:15 þar sem stendur: „[Jehóva] sendir orð sitt til jarðar, boð hans hleypur með hraða.“ Frumkristnir menn fengu kraft heilags anda, og saga þeirra er bæði hrífandi og þýðingarmikil fyrir okkur. Vottar Jehóva eru önnum kafnir við sömu boðun og kennslu og þeir en í margfalt meiri mæli. Við eigum við sams konar vandamál að glíma og kristnir menn á fyrstu öld. Við styrkjum trúna á stuðning Jehóva með því að ígrunda hvernig hann blessaði frumkristna menn og veitti þeim kraft.

Lærisveinunum fjölgar

6. Hvernig er þrívegis talað um vöxt í Postulasögunni og hvað er átt við?

6 Ein leið til að kynna sér hvernig Postulasagan 1:8 rættist er að líta á setninguna ‚orð Jehóva efldist og breiddist út‘ sem kemur aðeins þrisvar fyrir í Biblíunni með lítils háttar orðalagsmun. Allir staðirnir eru í Postulasögunni. (Postulasagan 1:8; 6:7; 12:24; 19:20) ‚Orð Jehóva‘ eða „orð Guðs,“ sem nefnt er í þessum ritningargreinum, er fagnaðarerindið — hinn hrífandi sannleiksboðskapur, hinn lifandi og kröftugi boðskapur sem breytti lífi þeirra sem tóku við honum. — Hebreabréfið 4:12.

7. Hverju er útbreiðsla orðsins tengd í Postulasögunni 6:7 og hvað gerðist á hvítasunnu árið 33?

7 Postulasagan 6:7 er fyrsti staðurinn þar sem talað er um að orð Guðs hafi eflst og breiðst út. Þar stendur: „Orð Guðs breiddist út, og tala lærisveinanna í Jerúsalem fór stórum vaxandi, einnig snerist mikill fjöldi presta til hlýðni við trúna.“ Þarna er útbreiðsla orðsins tengd fjölgun lærisveinanna. Á hvítasunnu árið 33 hafði heilögum anda verið úthellt yfir um það bil 120 lærsveina sem voru samankomnir í loftstofu. Pétur postuli flutti hvetjandi ræðu og 3000 af áheyrendum hans tóku trú þann dag. Það hlýtur að hafa verið mikill ys og þys þegar þúsundir manna flýttu sér til laugar eða lauga í Jerúsalem eða nágrenni til að láta skírast í nafni Jesú, mannsins sem hafði verið líflátinn sem glæpamaður um 50 dögum áður! — Postulasagan 2:41.

8. Hvernig fjölgaði lærisveinunum eftir hvítasunnu árið 33?

8 En þetta var aðeins upphafið. Trúarleiðtogar Gyðinga reyndu árangurslaust að stöðva boðunarstarfið. Þeim til mikillar skapraunar ‚bætti Jehóva daglega við í lærisveinahópinn þeim er frelsast létu.‘ (Postulasagan 2:47) Innan skamms varð ‚tala karlmanna um fimm þúsundir.‘ Og „enn fleiri urðu þeir, sem trúðu á Drottin, fjöldi karla og kvenna.“ (Postulasagan 4:4; 5:14) Seinna er sagt: „Nú hafði kirkjan [söfnuðurinn] frið um alla Júdeu, Galíleu og Samaríu. Hún byggðist upp og gekk fram í ótta [Jehóva] og óx við styrkingu heilags anda.“ (Postulasagan 9:31) Nokkrum árum síðar, hugsanlega árið 58, er minnst á ‚marga tugi þúsunda sem trú höfðu tekið.‘ (Postulasagan 21:20) Þegar hér var komið sögu höfðu margir af heiðnum uppruna tekið trú.

9. Lýstu frumkristnum mönnum.

9 Þessi mikla fjölgun kom aðallega til af því að nýir snerust til trúar. Trúin var ný en hún var kröftug. Lærisveinarnir voru ekki aðgerðarlausir meðlimir. Þeir höfðu helgað sig Jehóva og orði hans og sumir þeirra höfðu lært sannleikann af grimmilega ofsóttum safnaðarmönnum. (Postulasagan 16:23, 26-33) Þeir sem tóku kristna trú gerðu það að yfirveguðu og rökhugsuðu máli. (Rómverjabréfið 12:1) Þeir voru fræddir um vegi Guðs; sannleikurinn festi rætur í huga þeirra og hjarta. (Hebreabréfið 8:10, 11) Þeir voru reiðubúnir að deyja fyrir það sem þeir trúðu á. — Postulasagan 7:51-60.

10. Hvaða skyldu tókust frumskristnir menn á hendur og hvaða hliðstæðu sjáum við nú á dögum?

10 Þeir sem tóku við hinni kristnu kenningu gerðu sér grein fyrir því að þeim bar að segja öðrum frá sannleikanum. Þetta stuðlaði beinlínis að meiri vexti. Biblíufræðingur segir: „Boðun trúarinnar var ekki álitinn einkaréttur hinna kappsfullu eða opinberlega skipaðra trúboða. Kristniboðið var forréttindi og skylda allra í kirkjunni. . . . Sjálfkrafa framrás hins kristna samfélags reyndist gríðarleg lyftistöng fyrir hreyfinguna allt frá upphafi.“ Síðan bætir hann við: „Kristniboðið var fjörgjafi frumkristninnar.“ Hið sama er að segja um sanna kristni nú á dögum.

Útbreiðsla

11. Hvers konar vexti er lýst í Postulasögunni 12:24 og hvernig átti hann sér stað?

11 Postulasagan 12:24 er annar staðurinn þar sem talað er um að orð Guðs hafi breiðst út: „En orð Guðs efldist og breiddist út,“ stendur þar. Hér er greinilega verið að tala um landfræðilega útbreiðslu. Starfið hélt áfram að dafna þrátt fyrir andstöðu yfirvalda. Heilögum anda var fyrst úthellt í Jerúsalem og orðið breiddist út þaðan með miklum hraða. Lærisveinarnir í Jerúsalem tvístruðust út um Júdeu og Samaríu vegna ofsókna, með þeim afleiðingum að „þeir sem dreifst höfðu, fóru víðs vegar og fluttu fagnaðarerindið.“ (Postulasagan 8:1, 4) Filippus fékk bendingu um að vitna fyrir manni sem flutti boðskapinn til Eþíópíu eftir að hann lét skírast. (Postulasagan 8:26-28, 38, 39) Sannleikurinn festi fljótlega rætur í Lýddu, Saron og Joppe. (Postulasagan 9:35, 42) Páll postuli ferðaðist síðar þúsundir kílómetra á sjó og landi og stofnaði söfnuði víða í Miðjarðarhafslöndum. Pétur postuli fór til Babýlonar. (1. Pétursbréf 5:13) Tæplega 30 árum eftir að heilögum anda var úthellt á hvítasunnunni skrifaði Páll að fagnaðarerindið hefði verið ‚prédikað fyrir öllu sem skapað er undir himninum,‘ og á þar hugsanlega við þann heim sem þá var þekktur. — Kólossubréfið 1:23.

12. Hvernig viðurkenndu andstæðingar kristninnar að orð Guðs hefði breiðst út víða um lönd?

12 Andstæðingar kristninnar viðurkenndu jafnvel að orð Guðs hefði fest rætur út um gervallt Rómaveldi. Til dæmis segir Postulasagan 17:6 frá því að andstæðingar í Þessaloníku í Grikklandi hafi hrópað: „Mennirnir, sem komið hafa allri heimsbyggðinni í uppnám, þeir eru nú komnir hingað.“ Og Plíníus yngri skrifar Trajanusi keisara frá Biþiníu í upphafi annarrar aldar og kvartar yfir útbreiðslu kristninnar: „[Hún] er ekki einskorðuð við borgirnar heldur hefur hún líka sýkt grannþorpin og sveitirnar.“

13. Hvernig endurspeglaði útbreiðsla orðsins kærleika Guðs til mannkyns?

13 Þessi útbreiðsla var merki um djúpan kærleika Jehóva til þeirra manna sem hægt var að endurleysa. Þegar Pétur sá heilagan anda starfa í Kornelíusi, sem var af heiðnu bergi brotinn, sagði hann: „Sannlega skil ég nú, að Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ (Postulasagan 10:34, 35) Já, fagnaðarerindið var og er boðskapur til allra manna, og útbreiðsla orðs Guðs gaf öllum mönnum alls staðar tækifæri til að njóta góðs af kærleika Guðs. Núna á 21. öldinni hefur orð Guðs bókstaflega breiðst út til allra heimshorna.

Viðvarandi vöxtur

14. Hvernig efldist orð Guðs samkvæmt Postulasögunni 19:20 og hverju reyndist það yfirsterkara?

14 Postulasagan 19:20 er þriðji staðurinn þar sem talað er um að orð Guðs hafi eflst og breiðst út: „Þannig breiddist orð [Jehóva] út og efldist í krafti hans.“ Gríska orðið, sem þýtt er „efldist í krafti,“ merkir að „beita krafti.“ Versin á undan greina frá því að fjöldi Efesusmanna hafi tekið trú og að margir, sem stunduðu galdra, hafi brennt bækur sínar í allra augsýn. Þannig reyndist orð Guðs kröftugara en falstrúin. Fagnaðarerindið sigraðist á ýmsum öðrum hindrunum, svo sem ofsóknum. Ekkert gat stöðvað það. Hér sjáum við aftur áberandi hliðstæðu við sanna kristni á okkar tímum.

15. (a) Hvað sagði biblíusagnfræðingur um frumkristna menn? (b) Hverjum þökkuðu lærisveinarnir velgengni sína?

15 Postularnir og aðrir frumkristnir menn boðuðu orð Guðs af miklu kappi. Biblíusagnfræðingur sagði um þá: „Þegar menn hafa viljann til að tala um Drottin finna þeir margar leiðir til þess. Áhugahvöt þessara karla og kvenna orkar sterkar á okkur en aðferðirnar.“ En þessir frumkristnu menn viðurkenndu að velgengni sín í boðunarstarfinu réðist ekki eingöngu af viðleitni sjálfra þeirra. Guð hafði fyrirskipað þeim að vinna þetta verk og þeir höfðu stuðning hans til þess. Hinn andlegi vöxtur er Guði að þakka. Páll postuli viðurkenndi það í bréfinu til safnaðarins í Korintu. Þar segir hann: „Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn. Því að samverkamenn Guðs erum vér.“ — 1. Korintubréf 3:6, 9.

Heilagur andi að verki

16. Hvað sýnir að heilagur andi gaf lærisveinunum kraft til að tala djarfmannlega?

16 Þú manst að Jesús fullvissaði lærisveinana um að heilagur andi myndi eiga þátt í útbreiðslu orðs Guðs og gefa lærisveinunum kraft í boðunarstarfinu. (Postulasagan 1:8) Hvernig gerðist það? Skömmu eftir að heilögum anda var úthellt yfir lærisveinana á hvítasunnunni voru þeir Pétur og Jóhannes kallaðir fyrir æðstaráð Gyðinga, en æðstaráðið var hæstiréttur landsins og dómarar hans báru ábyrgð á aftöku Jesú Krists. Ætli postularnir hafi skolfið af ótta frammi fyrir þessu virðulega og fjandsamlega ráði? Nei, heilagur andi gaf þeim Pétri og Jóhannesi kraft til að tala svo djarfmannlega að andstæðingarnir undruðust og ‚könnuðust við að þeir höfðu verið með Jesú.‘ (Postulasagan 4:8, 13) Stefán vitnaði djarfmannlega fyrir æðstaráðinu í krafti heilags anda. (Postulasagan 6:12; 7:55, 56) Og heilagur andi hafði gefið lærisveinunum kraft til að prédika með djörfung áður en þetta gerðist. Lúkas segir svo frá: „Þegar þeir höfðu beðist fyrir, hrærðist staðurinn, þar sem þeir voru saman komnir, og þeir fylltust allir heilögum anda og töluðu orð Guðs af djörfung.“ — Postulasagan 4:31.

17. Með hvaða öðrum hætti aðstoðaði heilagur andi lærisveinana í starfi þeirra?

17 Jehóva og hinn upprisni Jesús notuðu hinn máttuga heilaga anda til að stýra boðunarstarfinu. (Jóhannes 14:28; 15:26) Þegar andanum var úthellt yfir Kornelíus, ættingja hans og nánustu vini áttaði Pétur sig á því að óumskornir heiðingjar væru líka hæfir til að láta skírast í nafni Jesú Krists. (Postulasagan 10:24, 44-48) Síðar átti andinn stóran þátt í að skipa þá Barnabas og Sál (Pál postula) til trúboðsstarfa og segja til um hvert þeir ættu að fara og hvert ekki. (Postulasagan 13:2, 4; 16:6, 7) Hann leiðbeindi postulunum og öldungunum í Jerúsalem við ákvarðanatöku . (Postulasagan 15:23, 28, 29) Og heilagur andi stýrði útnefningu umsjónarmanna í kristna söfnuðinum. — Postulasagan 20:28.

18. Hvernig sýndu frumkristnir menn kærleika sinn?

18 Heilagur andi starfaði einnig í kristnum mönnum og kallaði fram í fari þeirra eiginleika eins og kærleika. (Galatabréfið 5:22, 23) Kærleikurinn kom lærisveinunum til að deila eigum sínum hver með öðrum. Til dæmis var komið á fót sameiginlegum sjóði eftir hvítasunnu árið 33 til að fullnægja efnislegum þörfum lærisveinanna í Jerúsalem. Biblían segir svo frá: „Eigi var heldur neinn þurfandi meðal þeirra, því að allir landeigendur og húseigendur seldu eign sína, komu með andvirðið og lögðu fyrir fætur postulanna. Og sérhverjum var úthlutað eftir því sem hann hafði þörf til.“ (Postulasagan 4:34, 35) Þessi kærleikur náði ekki aðeins til bræðrafélagsins heldur einnig til annarra, og birtist bæði í boðun fagnaðarerindisins og öðrum góðverkum. (Postulasagan 28:8, 9) Jesús sagði að lærisveinar sínir yrðu þekktir fyrir fórnfúsan kærleika þeirra. (Jóhannes 13:34, 35) Kærleikurinn dró fólk til Guðs og stuðlaði að því að orðið breiddist út á fyrstu öld líkt og nú. — Matteus 5:14, 16.

19. (a) Á hvaða þrjá vegu efldist orð Jehóva á fyrstu öld? (b) Hvað skoðum við í næstu grein?

19 Heilagur andi er nefndur 41 sinni í Postulasögunni. Ljóst er að útbreiðsla og efling sannrar kristni á fyrstu öld var nátengd krafti og leiðsögn heilags anda. Lærisveinunum fjölgaði, orð Guðs breiddist út um víðáttumikið svæði og það bar sigur af þeim trúarbrögðum og þeirri heimspeki sem ríkti þar. Þessi vöxtur fyrstu aldar á sér hliðstæðu meðal votta Jehóva nú á tímum. Í næstu grein fjöllum við um það hve gríðarlega orð Guðs hefur eflst og breiðst út á síðari tímum.

Manstu?

• Hvernig fjölgaði lærisveinunum á fyrstu öld?

• Hvernig breiddist orð Guðs út?

• Hvernig sýndi orð Guðs styrk sinn á fyrstu öld?

• Hvaða hlutverki gegndi heilagur andi í því að efla og útbreiða orð Guðs?

[Spurningar]

[Mynd credit line á blaðsíðu 10]

Efra horn til hægri: Líkan af Jerúsalem frá tímum síðara musterisins. Líkanið stendur við Holyland-hótelið í Jerúsalem.

[Mynd á blaðsíðu 12]

Filippus prédikaði fyrir Eþíópíumanni með þeim árangri að fagnaðarerindið breiddist út.

[Mynd á blaðsíðu 13]

Heilagur andi leiðbeindi postulunum og öldungunum í Jerúsalem.