Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sönn kristni eflist

Sönn kristni eflist

Sönn kristni eflist

„Þannig breiddist orð [Jehóva] út og efldist í krafti hans.“ — POSTULASAGAN 19:20.

1. Hvernig breiddist kristnin út á fyrstu öld?

FRUMKRISTNIR menn boðuðu orð Guðs með ódrepandi eldmóði, svo var krafti heilags anda fyrir að þakka. Sagnfræðingur segir: „Kristnin breiddist með örskotshraða út um hinn rómverska heim. Árið 100 voru sennilega kristin samfélög í öllum skattlöndunum við Miðjarðarhaf.“

2. Hvernig reyndi Satan að vinna gegn fagnaðarerindinu og hverju var spáð um það?

2 Satan djöfullinn gat ekki þaggað niður í frumkristnum mönnum svo að hann snerist gegn áhrifum fagnaðarerindisins með öðrum aðferðum — fráhvarfi. Jesús hafði spáð þessari framvindu í dæmisögunni um hveitið og illgresið. (Matteus 13:24-30, 36-43) Pétur postuli varaði einnig við því að falskennarar myndu koma upp innan safnaðarins og smeygja inn háskalegum villukenningum. (2. Pétursbréf 2:1-3) Og Páll postuli varaði sérstaklega við fráhvarfi áður en dagur Jehóva kæmi. — 2. Þessaloníkubréf 2:1-3.

3. Hvað gerðist eftir dauða postulanna?

3 Eftir dauða postulanna tóku heiðnar kenningar og heimspeki að skyggja á fagnaðarerindið. Falskennarar afskræmdu og menguðu hinn hreina sannleiksboðskap eins og spáð hafði verið. Sönn kristni hvarf smám saman í skuggann af falskristni. Upp reis klerkastétt sem reyndi að hindra að Biblían kæmist í hendur almennings. Þó svo að þeim fjölgaði sem kölluðu sig kristna var tilbeiðslan ekki hrein. Þessi mengaða kristni breiddist út og breyttist í öfluga stofnun og ráðandi afl í vestrænni menningu, en hún naut hvorki blessunar Guðs né anda hans.

4. Af hverju mistókst Satan að ónýta ásetning Jehóva?

4 En fyrirætlun Satans um að ónýta ásetning Jehóva hlaut að mistakast. Sönn kristni var enn á lífi jafnvel meðan fráhvarfsmyrkrið var sem svartast. Menn afrituðu Biblíuna af ýtrustu nákvæmni þannig að hún hélst óspillt, þó svo að margir, sem þóttust hafa umboð til að kenna hana, rangsneru boðskapnum. Öldum saman voru til hugrakkir menn sem þýddu Biblíuna og útbreiddu hana. Má þar meðal annars nefna þá Híerónýmus og Tyndale. Milljónir manna höfðu kynni af Biblíunni og einhvers konar kristni, þótt spillt væri.

5. Hverju spáði Daníel um ‚þekkinguna‘?

5 Að síðustu tók ‚þekkingin að vaxa‘ eins og spáð var í Daníelsbók. Það gerðist ‚þegar að endalokunum leið,‘ það er að segja á þeim tíma sem við lifum. (Daníel 12:4) Heilagur andi hefur leitt sannleiksunnandi menn um allan heim svo að þeir hafa fengið nákvæma þekkingu á hinum sanna Guði og ásetningi hans. Orð Guðs hefur eflst, þrátt fyrir aldalangt fráhvarf! Nú er fagnaðarerindið boðað alls staðar og fólki er bent á vonina um unaðslegan nýjan heim. (Sálmur 37:11) Við skulum kynna okkur hvernig orð Guðs hefur eflst og útbreiðst á okkar dögum.

Orðið eflist nú á tímum

6. Hvaða sannindi voru Biblíunemendurnir búnir að skilja árið 1914?

6 Fámennur hópur biblíunemenda, sem nú eru kallaðir vottar Jehóva, hreifst mjög af sannleika Biblíunnar síðla á 19. öld. Árið 1914 var Biblían orðin lifandi bók fyrir þeim. Þeir skildu marga hrífandi þætti í sambandi við ásetning Guðs. Þeir voru djúpt snortnir af kærleika hans sem birtist í því að hann sendi son sinn til jarðar og opnaði leiðina til eilífs lífs. Þeir voru búnir að kynnast nafni Jehóva og persónuleika. Og þeir gerðu sér ljóst að „tímar heiðingjanna“ voru liðnir og vissu þar af leiðandi að Guðsríki myndi bráðlega færa mannkyni mikla blessun. (Lúkas 21:24) Þetta voru mikil fagnaðartíðindi! Það þurfti að koma þessum merka sannleika á framfæri við alla menn alls staðar. Mannslíf voru í húfi.

7. Hvernig hefur kraftur Biblíunnar sýnt sig á okkar tímum?

7 Jehóva blessaði þennan fámenna hóp andasmurðra kristinna manna. Núna hafa ríflega sex milljónir manna tileinkað sér sanna kristni. Orð Guðs hefur líka breiðst út um heiminn því að vottar Jehóva starfa í 235 löndum, og sannleikur Biblíunnar er kröftugur því að hann yfirvinnur allar hindranir, jafnt trúarlegar sem aðrar. Boðun fagnaðarerindisins um heim allan er enn ein sönnun þess að Jesús sé nærverandi sem konungur, og þessar sannanir eru óhrekjandi. — Matteus 24:3, 14.

8. Hvað hefur verið sagt um vöxt votta Jehóva?

8 Margir fræðimenn hafa tjáð sig um vöxt og viðgang fólks Jehóva á okkar tímum, ekki ósvipað og sagnfræðingar tjá sig um ótrúlega útbreiðslu kristninnar á fyrstu öld. Tveir bandarískir fræðimenn skrifuðu: „Vottar Jehóva hafa haldið uppi óvenjulegum vaxtarhraða síðastliðin 75 ár . . . og hafa gert það á heimsvísu.“ Austur-afrískt tímarit kallar vottana „eitt af þeim trúfélögum sem er í örustum vexti og mjög virt á heimsmælikvarða fyrir það að fylgja kenningum Biblíunnar í hvívetna.“ Og íhaldssamt kaþólskt tímarit, sem gefið er út í Evrópu, talar um „feikilega fjölgun votta Jehóva.“ Af hverju hefur söfnuðurinn vaxið svona mikið?

Heilagur andi að verki

9. (a) Hver er ein meginástæðan fyrir því afli sem býr í orði Guðs núna? (b) Hvernig dregur Jehóva fólk til sín?

9 Ein meginástæðan fyrir því afli, sem býr í orði Guðs, er sú að andi hans starfar af miklum krafti líkt og á fyrstu öld. Jesús sagði: „Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann.“ (Jóhannes 6:44) Þessi orð gefa til kynna að Guð höfði til réttsinnaðra manna og dragi þá gætilega til sín. Með boðunarstarfi votta sinna dregur hann til sín auðmjúkt og sauðumlíkt fólk sem er kallað „gersemar allra þjóða.“ — Haggaí 2:6, 7.

10. Hvers konar fólk hefur tekið við orði Guðs?

10 Heilagur andi hefur bæði gefið fólki Guðs kraft til að flytja orð hans til ystu endimarka jarðar og hvatt alls konar menn til að taka við fagnaðarerindinu. Þeir sem hafa tekið við orði Guðs eru vissulega af „alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.“ (Opinberunarbókin 5:9; 7:9, 10) Þeir eru bæði meðal ríkra og fátækra, hámenntaðra og ólæsra. Sumir hafa tekið við orðinu á tímum stríðs og grimmilegra ofsókna en aðrir á tímum friðar og velmegunar. Karlar og konur hafa tekið við fagnaðarerindinu undir alls konar stjórnarfari, í alls konar menningarumhverfi, og jafnt í fangabúðum sem konungshöllum.

11. Hvernig starfar andinn í lífi þeirra sem þjóna Guði og hvaða munur er auðsær?

11 Þjónar Guðs búa saman í einingu, þrátt fyrir ótrúlega fjölbreyttan uppruna. (Sálmur 133:1-3) Það er enn eitt merki þess að heilagur andi sé að verki í lífi þeirra sem þjóna Guði. Andi hans er sterkur áhrifavaldur sem gerir þjónum hans kleift að sýna kærleika, gleði, frið, góðvild og aðra aðlaðandi eiginleika. (Galatabréfið 5:22, 23) Við sjáum greinilega það sem Malakí spámaður spáði endur fyrir löngu: „Þá munuð þér . . . sjá þann mismun, sem er á milli réttláts manns og óguðlegs, á milli þess, sem Guði þjónar, og hins, sem ekki þjónar honum.“ — Malakí 3:18.

Orð Guðs sýnir kraft sinn í kostgæfum verkamönnum

12. Hvernig líta vottar Jehóva á trúboðsstarfið og hvaða viðbrögðum búast þeir við?

12 Vottar Jehóva eru ekki óvirkir kirkjugestir heldur taka þeir virkan þátt í trúboðsstarfinu. Þeir bjóða sig fúslega fram, líkt og hinir frumkristnu, og leitast við að hjálpa öðrum að kynnast Jehóva og tilgangi hans. Þeir eru samverkamenn Guðs og safna fleirum til þjónustu hans í samræmi við starfsemi heilags anda. Þannig endurspegla þeir miskunn og kærleika Jehóva í garð vantrúaðra manna. Og þeir gera það þó svo að þeir mæti sinnuleysi, spotti og ofsóknum. Jesús bjó fylgjendur sína undir það að fagnaðarerindið fengi misjafnar viðtökur. Hann sagði: „Þjónn er ekki meiri en herra hans. Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður. Hafi þeir varðveitt orð mitt, munu þeir líka varðveita yðar.“ — Jóhannes 15:20.

13. Hvað hafa vottar Jehóva til að bera sem skortir í kristna heiminum?

13 Við getum ekki annað en verið snortin af því hve margt er líkt með vottum Jehóva nú á dögum og þeim sem tóku kristna trú á fyrstu öld. Og munurinn á vottum Jehóva og kristna heiminum er ekki síður sláandi. Fræðimaður nefnir trúboðsákafa frumkristinna manna en segir svo mæðulega: „Ef ekki verður kúvending í stefnu kirkjunnar og ef ekki verður farið að líta á trúboð sem skyldu allra skírðra kristinna manna og ef það er ekki stutt kristnu líferni sem ber af því besta sem vantrúarmenn geta sýnt af sér, þá er ólíklegt að okkur verði mikið ágengt.“ Vottar Jehóva hafa einmitt til að bera það sem kristna heiminn skortir. Trú þeirra er lifandi og ósvikin og er byggð á biblíusannleika sem þeir finna sig knúna til að segja öllum sem heyra vilja. — 1. Tímóteusarbréf 2:3, 4.

14. Hvernig leit Jesús á þjónustu sína og hvernig hugsa lærisveinar hans nú á tímum?

14 Jesús tók þjónustu sína mjög alvarlega. Hún var helsta hugðarefni hans. Hann sagði Pílatusi: „Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni.“ (Jóhannes 18:37) Fólki Guðs er eins innanbrjósts og Jesú. Sannleikur Biblíunnar býr í hjörtum þess og það leitar leiða til að segja eins mörgum og hægt er frá honum. Stundum eru þeir ótrúlega hugvitssamir.

15. Hvernig hafa sumir verið mjög hugvitssamir við að koma fagnaðarerindinu til fólks?

15 Vottar í Suður-Ameríkuríki störfuðu meðfram einni af þverám Amasonfljótsins til að koma sannleikanum á framfæri við fólk. En árið 1995 kom til óeirða og bann var lagt við siglingum um ána. Vottarnir voru staðráðnir í að sjá áhugasömu fólki fyrir biblíutengdum ritum og ákváðu að fleyta boðskapnum niður eftir ánni. Þeir skrifuðu bréf sem þeir stungu í tómar plastflöskur ásamt tímaritunum Varðturninn og Vaknið! Síðan hentu þeir flöskunum í ána. Þessu héldu þeir áfram í fjögur og hálft ár uns umferð um ána var opnuð óbreyttum borgurum á nýjan leik. Alls staðar með fram ánni þakkaði fólk vottunum fyrir ritin. Kona, sem verið hafði biblíunemandi, faðmaði þá með tárvotum augum og sagði: „Ég hélt að ég myndi aldrei sjá ykkur framar. En þegar flöskurnar með ritunum fóru að berast vissi ég að þið höfðuð ekki gleymt mér!“ Sumir sögðust hafa lesið blöðin aftur og aftur. Sum byggðarlögin voru með „pósthús“ við hringiður í ánni þar sem fljótandi hlutir söfnuðust saman um stundar sakir. Áhugasamir vöndu komur sínar þangað til að kanna hvort borist hefði „póstur“ niður með ánni.

16. Nefndu dæmi um gildi þess að vera tiltækur til starfa.

16 Jehóva Guð og voldugir englar hans stjórna og styðja boðun fagnaðarerindisins. (Opinberunarbókin 14:6) Stundum bjóðast okkur óvænt tækifæri til að gera menn að lærisveinum ef við hreinlega erum tiltæk. Tvær kristnar konur í Naíróbí í Kenía voru nýbúnar að fara í öll hús sem þeim hafði verið úthlutað. Skyndilega kom ung kona til þeirra og sagði með ákafa í röddinni: „Ég hef verið að biðja Guð að láta mig hitta einhverja eins og ykkur.“ Hún sárbændi vottana um að koma þegar í stað heim til sín til að ræða við sig og biblíunámskeið var hafið á heimili hennar samdægurs. Af hverju var konan svona áköf þegar hún talaði við vottana tvo? Hún hafði misst barnið sitt hálfum mánuði áður. Þegar hún kom auga á ungling, sem hélt á smáritinu „Hvaða von er um látna ástvini?“ bað hún hann að gefa sér það en hann neitaði og benti henni á vottana sem hann hafði fengið það hjá. Konan tók skjótum framförum sem auðvelduðu henni að takast á við barnsmissinn.

Kærleikurinn þarf að ríkja

17-19. Hvernig ber lausnargjaldið vott um kærleika Jehóva til mannkyns?

17 Framgangur orðs Guðs um heim allan er nátengdur lausnarfórn Jesú Krists. Boðunarstarfið er, líkt og lausnargjaldið, merki um kærleika Jehóva til allra manna. Jóhannesi postula var innblásið að skrifa: „Svo elskaði Guð [mann]heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ — Jóhannes 3:16.

18 Hugsaðu þér kærleikann sem Jehóva sýndi með því að gefa lausnargjaldið. Um óratíma hafði hann átt náið samband við ástkæran, eingetinn son sinn sem kallaður er „upphaf sköpunar Guðs.“ (Opinberunarbókin 3:14) Jesús ann föður sínum heitt og faðirinn elskaði soninn „fyrir grundvöllun heims.“ (Jóhannes 14:31; 17:24) Jehóva leyfði að þessi elskaði sonur dæi til að mennirnir gætu hlotið eilíft líf. Þetta ber vott um stórkostlegan kærleika til mannkynsins.

19 Jóhannes 3:17 segir: „Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann.“ Hann sendi son sinn í kærleiks- og hjálpræðisför en ekki til að fordæma. Þetta kemur heim og saman við orð Péturs: „[Jehóva] vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.“ — 2. Pétursbréf 3:9.

20. Hvernig tengist hjálpræði boðun fagnaðarerindisins?

20 Jehóva fórnaði miklu til að leggja lagalegan grunn að hjálpræði manna og vill að sem flestir notfæri sér hann. Páll postuli skrifaði: „‚Hver sem ákallar nafn [Jehóva], mun hólpinn verða.‘ En hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki?“ — Rómverjabréfið 10:13, 14.

21. Hvernig ættum við að líta á þau tækifæri sem við höfum til að taka þátt í boðunarstarfinu?

21 Það eru mikil sérréttindi að taka þátt í þeirri boðun og kennslu sem fram fer um heim allan. Þetta er engan veginn auðvelt starf en Jehóva gleðst er hann horfir á fólk sitt lifa í sannleikanum og segja öðrum frá fagnaðarerindinu. Láttu því anda Guðs og kærleikann í hjarta þér fá þig til að taka þátt í þessu starfi, hvernig sem aðstæður þínar eru. Og mundu að það sem við sjáum gerast um heim allan er sannfærandi vitnisburður þess að Jehóva Guð uppfylli bráðlega loforð sitt um að koma á ‚nýjum himni og nýrri jörð þar sem réttlæti býr.‘ — 2. Pétursbréf 3:13.

Manstu?

• Af hverju gat fráhvarfið ekki þaggað niður í boðberum fagnaðarerindisins?

• Hvernig hefur orð Guðs sýnt kraft sinn á okkar dögum?

• Hvernig starfar andi Guðs nú á tímum?

• Hvernig er lausnargjaldið tengt boðun fagnaðarerindisins?

[Spurningar]

[Skýringarmynd á blaðsíðu 16]

(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)

Fjölgun boðbera Guðsríkis á 20. öld

Meðaltal boðbera (í milljónum)

6.0

5.5

5.0

4.5

4.0

3.5

3.0

2.5

2.0

1.5

1.0

0.5

1900 1910 1920 1930 1940 1950 1960 1970 1980 1990 2000

[Myndir á blaðsíðu 15]

HÍERÓNÝMUS

TYNDALE

GUTENBERG

HÚSS

[Rétthafi]

Gutenberg og Húss: Úr bókinni The Story of Liberty, 1878

[Mynd á blaðsíðu 15]

Biblíunemendur boða fagnaðarerindið á þriðja áratugnum.

[Myndir á blaðsíðu 16, 17]

Fólk tekur við fagnaðarerindinu um allan heim.

[Mynd á blaðsíðu 18]

Boðunarstarfið miklar kærleika Jehóva, líkt og lausnarfórn Jesú Krists.