Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Endurreist þjóð Jehóva lofar hann um allan heim

Endurreist þjóð Jehóva lofar hann um allan heim

Endurreist þjóð Jehóva lofar hann um allan heim

„Ég [mun] gefa þjóðunum nýtt, hreint tungumál til að þær ákalli allar nafn Jehóva.“ — SEFANÍA 3:9, NW.

1. Hvers vegna rættust spádómsorðin gegn Júda og öðrum þjóðum?

JEHÓVA innblés Sefanía að flytja kröftugan dómsboðskap gegn Júda og höfuðborginni Jerúsalem. Og spádómsorðin gengu eftir vegna þess að leiðtogarnir og íbúarnir í heild gerðu ekki vilja Jehóva. Grannþjóðir, svo sem Filistar, Móabítar og Ammónítar, fengu líka að kenna á reiði hans vegna hatrammrar andstöðu sinnar gegn fólki hans um aldaraðir. Heimsveldinu Assýríu skyldi tortímt af sömu ástæðu og það yrði aldrei endurreist.

2. Til hverra virðist orðunum í Sefanía 3:8 beint?

2 En það voru til réttsinnaðir menn í Júda til forna. Þeir hlökkuðu til þess að Guð fullnægði dómi yfir hinum óguðlegu og virðist orðum hans beint til þeirra: „Bíðið mín þess vegna — segir [Jehóva], — bíðið þess dags, er ég rís upp sem vottur. Því að það er mitt ásett ráð að safna saman þjóðum og stefna saman konungsríkjum til þess að úthella yfir þá heift minni, allri minni brennandi reiði. Því að fyrir eldi vandlætingar minnar skal allt landið verða eytt.“ — Sefanía 3:8.

„Hreint tungumál“ handa hverjum?

3. Hvaða vonarboðskap er Sefanía blásið í brjóst að flytja?

3 Sefanía flytur dómsboðskap Jehóva en honum er líka blásið í brjóst að boða stórkostlega von til að hvetja og hughreysta trúa þjóna hans. Jehóva Guð segir: „Þá mun ég gefa þjóðunum nýtt, hreint tungumál til að þær ákalli allar nafn Jehóva og þjóni honum hlið við hlið.“ — Sefanía 3:9, NW.

4, 5. (a) Hvað átti að verða um hina ranglátu? (b) Hverjum kæmi það til góða og hvers vegna?

4 En sumum yrði ekki gefið hið hreina tungumál. Um þá segir spádómurinn: „Ég [mun] ryðja burt frá þér þeim, er ofkætast drambsamlega í þér.“ (Sefanía 3:11) Hinum drambsömu, sem lítilsvirtu lög Guðs og ástunduðu ranglæti, yrði burt rýmt. Hverjum kæmi það til góða? Sefanía 3:12, 13 segir: „Ég [Jehóva] mun láta í þér eftir verða auðmjúkan og lítilmótlegan lýð, þeir munu leita sér hælis í nafni [Jehóva]. Leifar Ísraels munu engin rangindi fremja, né heldur tala lygar, og í munni þeirra mun ekki finnast sviksöm tunga. Já, þeir munu vera á beit og leggjast, án þess að nokkur styggi þá.“

5 Trúfastar leifar Júdamanna skyldu njóta góðs af því að hafa fylgt hvatningarorðunum: „Leitið [Jehóva], allir þér hinir auðmjúku í landinu, þér sem breytið eftir hans boðorðum. Ástundið réttlæti, ástundið auðmýkt, vera má að þér verðið faldir á reiðidegi [Jehóva].“ — Sefanía 2:3.

6. Hver var fyrsta uppfylling spádóms Sefanía?

6 Í fyrstu uppfyllingu spádómsins refsaði Guð ótrúum Júdamönnum með því að leyfa babýlonska heimsveldinu að sigra þá og taka til fanga árið 607 f.o.t. Sumum var hlíft, meðal annars Jeremía spámanni, og aðrir voru Jehóva trúir í útlegðinni. Árið 539 f.o.t. féll Babýlon fyrir hendi Meda og Persa undir forystu Kýrusar konungs. Um tveim árum síðar gaf Kýrus út tilskipun þess efnis að leifar Gyðinga mættu snúa heim, og með tíð og tíma var musterið í Jerúsalem endurbyggt og prestastéttin var aftur í aðstöðu til að uppfræða þjóðina í lögmálinu. (Malakí 2:7) Jehóva veitti hinum heimkomnu leifum brautargengi meðan þær voru trúfastar.

7, 8. Við hverja eiga spádómsorðin í Sefanía 3:14-17 og af hverju segirðu það?

7 Sefanía segir um þá sem skyldu njóta góðs af viðreisninni: „Fagna þú, dóttirin Síon, lát gleðilátum, þú Ísrael! Ver kát og gleð þig af öllu hjarta, dóttirin Jerúsalem! [Jehóva] hefir afmáð refsidóma þína, rýmt burt óvini þínum. Konungur Ísraels, [Jehóva], er hjá þér, þú munt eigi framar á neinu illu kenna. Á þeim degi mun sagt verða við Jerúsalem: ‚Óttast ekki, Síon, lát ekki hugfallast! [Jehóva], Guð þinn, er hjá þér, hetjan er sigur veitir. Hann kætist yfir þér með fögnuði, hann þegir í kærleika sínum, hann fagnar yfir þér með gleðisöng.‘“ — Sefanía 3:14-17.

8 Þessi spádómsorð eiga við leifarnar sem safnað var saman úr ánauð Babýlonar og hleypt heim í ættland sitt, eins og fram kemur í Sefanía 3:18-20: „Ég [Jehóva] saman safna þeim, sem hryggir eru út af hátíðarsamkomunni, frá þér voru þeir, smán hvílir á þeim. Sjá, á þeim tíma skal ég eiga erindi við þá, er þig þjáðu. Þá skal ég frelsa hið halta og smala saman því tvístraða, og ég skal gjöra þá fræga og nafnkunna á allri jörðunni. Á þeim tíma skal ég leiða yður heim, og það á þeim tíma, er ég smala yður saman. Því að ég skal gjöra yður nafnkunna og fræga meðal allra þjóða jarðarinnar, þá er ég sný við högum yðar í augsýn yðar, — segir [Jehóva].“

9. Hvernig ávann Jehóva sér nafn í sambandi við Júda?

9 Ímyndaðu þér hve óvinveittum nágrannaþjóðum fólks Guðs hlýtur að hafa brugðið í brún! Júdabúar höfðu verið teknir til fanga af hinni voldugu Babýlon án þess að eygja nokkra von um að sleppa, og land þeirra lá í eyði. Máttarhönd Guðs kom því til leiðar að þeir gátu snúið heim 70 árum síðar en eyðilegging beið óvinaþjóðanna. Jehóva ávann sér mikið nafn með því að frelsa hinar trúföstu leifar. Hann gerði þær ‚frægar og nafnkunnar á allri jörðunni.‘ Endurreisnin var honum til lofs og þeim er báru nafn hans.

Tilbeiðsla Jehóva upphafin

10, 11. Hvenær skyldi meginuppfylling endurreisnarspádómsins eiga sér stað og hvernig vitum við það?

10 Önnur endurreisn átti sér stað á fyrstu öld þegar Jesús Kristur safnaði saman leifum Ísraels til sannrar tilbeiðslu. Þetta var forsmekkur þess sem koma skyldi því að meginendurreisnin var enn ókomin. Spádómur Míka segir: „Það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús [Jehóva] stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu lýðirnir streyma.“ — Míka 4:1.

11 Hvenær átti þetta að eiga sér stað? „Á hinum síðustu dögum,“ segir spádómurinn, já, núna „á síðustu dögum.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Það skyldi eiga sér stað fyrir endalok núverandi heimskerfis meðan þjóðirnar væru enn að tilbiðja falsguði. Míka 4:5 segir: „Allar þjóðirnar ganga hver í nafni síns guðs.“ En hvað um sanna guðsdýrkendur? Míka svarar: „En vér göngum í nafni [Jehóva], Guðs vors, æ og ævinlega.“

12. Hvernig hefur sönn tilbeiðsla verið upphafin á hinum síðustu dögum?

12 Núna á síðustu dögum hefur ‚fjall það, er hús Jehóva stendur á, verið grundvallað á fjallatindi.‘ Hin upphafna, sanna tilbeiðsla á Jehóva hefur verið endurreist og grundvölluð tryggilega og hún gnæfir yfir öll önnur trúarbrögð. „Þangað,“ bætir spádómur Míka við, „munu lýðirnir streyma“ og sannir guðsdýrkendur munu ‚ganga í nafni Jehóva, Guðs síns, æ og ævinlega.‘

13, 14. Hvenær hófust ‚síðustu dagar‘ þessa heims og hvað hefur átt sér stað síðan í tengslum við sanna guðsdýrkun?

13 Uppfylltir biblíuspádómar staðfesta að ‚hinir síðustu dagar‘ þessa heims gengu í garð árið 1914. (Markús 13:4-10) Sagan sýnir að Jehóva byrjaði að safna saman trúföstum leifum smurðra manna til sannrar tilbeiðslu. Þeir höfðu himneska von. Síðan hefur verið safnað saman ‚miklum múgi af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum‘ sem vonast eftir eilífu lífi á jörð. — Opinberunarbókin 7:9.

14 Frá fyrri heimsstyrjöldinni og allt fram á þennan dag hefur tilbeiðsla þeirra sem bera nafn Jehóva eflst til mikilla muna undir handleiðslu hans. Þeim hefur fjölgað úr nokkrum þúsundum í hér um bil sex milljónir í rösklega 91.000 söfnuðum í 235 löndum. Árlega verja þeir vel yfir milljarði klukkustunda til að lofa hann meðal almennings. Ljóst er að það eru vottar Jehóva sem uppfylla spádóm Jesú: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ — Matteus 24:14.

15. Hvernig er Sefanía 2:3 að rætast núna?

15 Sefanía 3:17 segir: „[Jehóva], Guð þinn, er hjá þér, hetjan er sigur veitir.“ Andleg velmegun þjóna Jehóva á hinum síðustu dögum er bein afleiðing þess að hann, alvaldur Guð þeirra, er ‚hjá þeim.‘ Sú var raunin þegar Júda var endurreist árið 537 f.o.t. og sú er einnig raunin núna. Við sjáum hvernig orðin í Sefanía 2:3 eiga sér aðaluppfyllingu á okkar tímum: „Leitið [Jehóva], allir þér hinir auðmjúku í landinu.“ Árið 537 f.o.t. voru þessir „allir“ gyðingaleifarnar sem sneru heim úr útlegðinni í Babýlon. En núna er átt við auðmjúkt fólk af öllum þjóðum jarðar sem bregst vel við boðun fagnaðarerindisins og streymir á „fjall það, er hús [Jehóva] stendur á.“

Sönn tilbeiðsla blómstrar

16. Hvernig er líklegt að óvinir þjóna Jehóva hugsi um velgengni þeirra nú á tímum?

16 Margar af grannþjóðunum féllu í stafi af undrun þegar þjónar Guðs endurreistu sanna tilbeiðslu í heimalandi sínu eftir árið 537 f.o.t., jafnvel þótt endurreisnin væri tiltölulega smá í sniðum. Geturðu ímyndað þér hvað sumir, jafnvel óvinir þjóna Guðs, segja um ótrúlegan vöxt, velgengni og framsókn þeirra nú á tímum? Þeim er vafalaust innanbrjósts eins og faríseunum er sáu mannfólkið flykkjast til Jesú og hrópuðu: „Sjá, allur heimurinn eltir hann.“ — Jóhannes 12:19, Biblían 1912.

17. Hvað sagði bókarhöfundur um votta Jehóva og hvernig hafa þeir eflst?

17 Charles S. Braden segir í bók sinni These Also Believe: „Vottar Jehóva hafa bókstaflega borið vitni um alla jörðina. Það má með sanni segja að enginn trúarhópur í heimi hafi sýnt meiri kostgæfni og þrautseigju við útbreiðslu fagnaðarerindisins um Guðsríki en vottar Jehóva. Þessi hreyfing á eftir að stóreflast.“ Það voru orð að sönnu! Þegar hann skrifaði þetta fyrir 50 árum voru aðeins um 300.000 starfandi vottar í heiminum. Hvað ætli hann segði ef hann vissi að hér um bil 20 sinnum fleiri — rösklega sex milljónir manna — boða fagnaðarerindið núna?

18. Hvað er hið hreina tungumál og hverjum hefur Guð gefið það?

18 Guð lofar fyrir munn spámanns síns: „Þá mun ég gefa þjóðunum nýtt, hreint tungumál til að þær ákalli allar nafn Jehóva og þjóni honum hlið við hlið.“ (Sefanía 3:9, NW) Það eru vottar Jehóva sem ákalla nafn hans á hinum síðustu dögum og þjóna honum „hlið við hlið“ í órjúfanlegu kærleiksbandi. Og það eru þeir sem Jehóva hefur gefið hið hreina tungumál sem er réttur skilningur á sannleikanum um hann og tilgang hans. Aðeins hann veitir þennan skilning og hann gerir það fyrir tilstuðlan heilags anda. (1. Korintubréf 2:10) Hverjum gefur hann anda sinn? Aðeins „þeim, er honum hlýða.“ (Postulasagan 5:32) Eingöngu vottar Jehóva eru fúsir að hlýða Guði í einu og öllu. Þess vegna fá þeir heilagan anda og tala hið hreina tungumál, sannleikann um Jehóva og stórfenglegan tilgang hans. Þeir nota hið hreina tungumál til að lofa hann um allan hnöttinn í miklum og sívaxandi mæli.

19. Hvað er fólgið í því að tala hið hreina tungumál?

19 Að tala hið hreina tungumál felur ekki einasta í sér að trúa sannleikanum og kenna öðrum hann heldur einnig að breyta í samræmi við lög Guðs og meginreglur. Smurðir kristnir menn taka forystuna í að leita Jehóva og tala hið hreina tungumál. Hugsaðu hverju hefur verið komið til leiðar! Hinir smurðu eru orðnir innan við 8700 að tölu en næstum sex milljónir annarra líkja eftir trú þeirra með því að leita Jehóva og tala hið hreina tungumál. Þeir mynda hinn vaxandi mikla múg af öllum þjóðum sem iðkar trú á lausnarfórn Jesú, þjónar í jarðneskum forgörðum hins andlega musteris Guðs og lifir af ‚þrenginguna miklu‘ sem brátt dynur yfir þennan rangláta heim. — Opinberunarbókin 7:9, 14, 15.

20. Hvað bíður trúfastra smurðra manna og múgsins mikla?

20 Múgurinn mikli fær að ganga inn í réttlátan nýjan heim Guðs. (2. Pétursbréf 3:13) Jesús Kristur myndar hið nýja stjórnvald jarðar ásamt hinum 144.000 smurðu sem hafa verið reistir upp til lífs á himnum til að vera meðkonungar hans og prestar. (Rómverjabréfið 8:16, 17; Opinberunarbókin 7:4; 20:6) Þeir sem komast lífs af úr þrengingunni miklu munu vinna við að gera jörðina að paradís og tala áfram hið hreina tungumál frá Guði. Orðin í Jesaja 54:13,14 eiga í meginatriðum við þá: „Allir synir þínir [og að sjálfsögðu dætur] eru lærisveinar [Jehóva] og njóta mikils friðar. Fyrir réttlæti munt þú stöðug standa.“

Mesta kennslustarf sögunnar

21, 22. (a) Hverjir þurfa að fá kennslu í hinu hreina tungumáli samkvæmt Postulasögunni 24:15? (b) Hvaða óviðjafnanlegt kennslustarf verður framkvæmt á jörðinni undir stjórn Guðsríkis?

21 Postulasagan 24:15 minnist á mjög fjölmennan hóp sem fær tækifæri til að læra hið hreina tungumál í nýja heiminum. Þar segir: „Upp [munu] rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ Milljarðar manna hafa lifað og dáið í aldanna rás án þess að búa yfir nákvæmri þekkingu á Jehóva. Hann ætlar að reisa þá skipulega aftur til lífs. Þessir upprisnu menn þurfa að fá kennslu í hinu hreina tungumáli.

22 Það verður einstakt að mega taka þátt í þessu mikla kennslustarfi. Þetta verður mesta fræðslustarf sögunnar og fer að öllu leyti fram undir kærleiksstjórn Jesú Krists, konungs Guðsríkis. Þegar fram líða stundir fær mannkynið að sjá orðin í Jesaja 11:9 rætast: „Jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“

23. Hvers vegna eru það mikil sérréttindi að vera fólk Jehóva?

23 Það er mikil blessun núna á síðustu dögum að geta búið sig undir þennan stórkostlega tíma þegar þekkingin á Jehóva fyllir alla jörðina. Og það eru mikil forréttindi að vera fólk Guðs og kynnast af eigin raun uppfyllingu spádómsorðanna í Sefanía 3:20. Þar lofar Jehóva: „Ég skal gjöra yður nafnkunna og fræga meðal allra þjóða jarðarinnar.“

Hvert er svarið?

• Hvernig hefur endurreisnarspádómur Sefanía uppfyllst þrívegis?

• Hvernig hefur sönn tilbeiðsla dafnað á hinum síðustu dögum?

• Hvaða umfangsmikið kennslustarf mun fara fram í nýja heiminum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 26]

Fólk Jehóva sneri heim til að endurreisa hreina tilbeiðslu. Skilurðu þýðingu þess á okkar tímum?

[Myndir á blaðsíðu 28]

Vottar Jehóva tala hið ‚hreina tungumál‘ og flytja fólki þannig huggunarboðskap Biblíunnar.