Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gefðu gaum að dásemdarverkum Guðs

Gefðu gaum að dásemdarverkum Guðs

Gefðu gaum að dásemdarverkum Guðs

„Mörg hefir þú, [Jehóva], Guð minn, gjört dásemdarverk þín og áform þín oss til handa, ekkert kemst í samjöfnuð við þig.“ — SÁLMUR 40:6.

1, 2. Hvaða sannanir höfum við fyrir dásemdarverkum Guðs og hvað ætti það að hvetja okkur til að gera?

AF LESTRI Biblíunnar er auðsætt að Guð vann mörg dásemdarverk forðum daga fyrir þjóð sína, Ísrael. (Jósúabók 3:5; Sálmur 106:7, 21, 22) Þó svo að hann blandi sér ekki í mál mannanna með þeim hætti núna sjáum við ótal sannanir fyrir dásemdarverkum hans í kringum okkur. Við höfum þar af leiðandi ástæðu til að taka undir með sálmaritaranum: „Hversu mörg eru verk þín, [Jehóva], þú gjörðir þau öll með speki, jörðin er full af því, er þú hefir skapað.“ — Sálmur 104:24; 148:1-5.

2 Margir hunsa eða hafna hinum skýru merkjum um framkvæmdir skaparans. (Rómverjabréfið 1:20) Okkur er hins vegar hollt að hugleiða þau og draga ályktanir af þeim um stöðu okkar frammi fyrir honum og skyldur okkar gagnvart honum. Jobsbók, 38. til 41. kafli, er góð hjálp til þess því að þar vakti Jehóva athygli Jobs á vissum þáttum dásemdarverka sinna. Lítum á nokkur athyglisverð mál sem Guð dró fram.

Máttar- og dásemdarverk

3. Um hvað spurði Guð í Jobsbók 38:22, 23, 25-29?

3 Guð spurði Job: „Hefir þú komið til forðabúrs snjávarins og séð forðabúr haglsins, sem ég hefi geymt til tíma neyðarinnar, til orustu- og ófriðardagsins?“ Snjór og hagl tilheyra lífinu í sumum heimshlutum. Guð hélt áfram: „Hver hefir búið til rennu fyrir steypiregnið og veg fyrir eldingarnar til þess að láta rigna yfir mannautt land, yfir eyðimörkina, þar sem enginn býr, til þess að metta auðnir og eyðilönd og láta grængresi spretta? Á regnið föður eða hver hefir getið daggardropana? Af kviði hverrar er ísinn útgenginn, og hrím himinsins — hver fæddi það?“ — Jobsbók 38:22, 23, 25-29.

4-6. Í hvaða skilningi hefur maðurinn ófullkomna þekkingu á snjónum?

4 Í hraðfara þjóðfélagi, þar sem allir eru á ferð og flugi, er gjarnan litið á snjóinn sem hindrun. En mörgum finnst hann yndisauki — hann breytir veröldinni í undraland og býður upp á ýmiss konar afþreyingu. En þekkjum við snjóinn til hlítar; vitum við hvernig hann lítur út? Við vitum auðvitað hvernig snjóskaflar eru útlits; við höfum séð nóg af þeim. En hvað um sjálf snjókornin? Veistu hvernig þau líta út? Hefurðu kannski rannsakað þau þar sem þau myndast?

5 Sumir hafa rannsakað og ljósmyndað snjókorn í áratugi. Eitt snjókorn getur verið samsett úr hundrað fíngerðum ískristöllum sem mynda fögur mynstur í óendanlegri fjölbreytni. Í bókinni Atmosphere (Andrúmsloftið) segir: „Óendanleg fjölbreytni snjókornanna er þjóðsagnakennd, og þó svo að vísindamenn fullyrði að ekkert náttúrulögmál hindri að tvö snjókorn séu eins hafa þau aldrei fundist. Wilson A. Bentley stóð fyrir viðamikilli leit . . . og rannsakaði og ljósmyndaði snjókorn í smásjá í meira en 40 ár án þess að finna nokkurn tíma tvö sem voru nákvæmlega eins.“ En myndi það nokkru breyta um stórkostlega fjölbreytni snjókornanna þótt það tækist í sjaldgæfu tilfelli að finna tvö snjókorn sem virtust vera tvífarar?

6 Þú manst eftir spurningu Guðs: „Hefir þú komið til forðabúrs snjávarins?“ Margir hugsa sér skýin sem forðabúr. Geturðu ímyndað þér sjálfan þig heimsækja þessi forðabúr til að skrásetja snjókornin í óendanlegri fjölbreytni þeirra eða til að rannsaka hvernig þau urðu til? Vísindaleg alfræðibók segir: „Eðli og uppruni ískjarnanna er enn ekki ljós, en þeir eru nauðsynlegir til að vatnsdropar frjósi í skýjunum við um 40 gráðu frost.“ — Sálmur 147:16, 17; Jesaja 55:9, 10.

7. Hversu tæmandi er þekking mannsins á regninu?

7 Og hvað um regnið? Guð spurði Job: „Á regnið föður eða hver hefir getið daggardropana?“ Sama alfræðibók segir: „Hreyfingar andrúmsloftsins eru svo flóknar og innihald vatnsgufu og rykagna svo gríðarlega breytilegt að ógerlegt virðist að setja saman ítarlega og almenna kenningu um myndun skýja og úrkomu.“ Einföldum þetta aðeins: Vísindamenn hafa sett fram ítarlegar kenningar en geta ekki skýrt regnið til fullnustu. En þú veist að skýin skila regni sem vökvar jörðina, viðheldur jurtum og gerir lífið mögulegt og þægilegt.

8. Af hverju eru orð Páls í Postulasögunni 14:17 vel viðeigandi?

8 Geturðu ekki verið sammála niðurstöðu Páls postula? Hann hvatti okkur til að líta á þessi undraverk sem vitnisburð um höfund þeirra. Hann sagði um Jehóva Guð: „Þó hefur hann vitnað um sjálfan sig með velgjörðum sínum. Hann hefur gefið yður regn af himni og uppskerutíðir. Hann hefur veitt yður fæðu og fyllt hjörtu yðar gleði.“ — Postulasagan 14:17; Sálmur 147:8.

9. Hvernig birtist hinn mikli máttur Guðs í dásemdarverkum hans?

9 Það leikur ekki á tveim tungum að höfundur þessara gagnlegu dásemdarverka býr yfir óendanlegri visku og ógurlegum mætti. Lítum á eitt dæmi um hið síðarnefnda — máttinn: Sagt er að það verði þrumuveður um 45.000 sinnum á dag, eða rösklega 16 milljón sinnum á ári. Það þýðir að á þessu augnabliki er þrumuveður á um 2000 stöðum í heiminum. Orkan í hinum flóknu skýjamyndunum eins þrumuveðurs jafngildir að minnsta kosti tíu kjarnasprengjum eins og varpað var í síðari heimsstyrjöldinni. Sumt af þessari orku leysist úr læðingi þegar eldingu slær niður. En auk þess að vera mikilfenglegar stuðla eldingarnar að myndun köfnunarefnissambanda sem auðga jarðveginn og eru náttúrlegur áburður fyrir jurtirnar. Eldingar eru ekki bara orkusýning heldur líka gagnlegar mjög. — Sálmur 104:14, 15.

Hvaða áhrif hefur þetta á þig?

10. Hvernig myndirðu svara spurningunum í Jobsbók 38:33-38?

10 Ímyndaðu þér að þú sért í sporum Jobs og alvaldur Guð sé að spyrja þig. Þú hlýtur að fallast á það að flestir gefa lítinn gaum að dásemdarverkum Guðs. Jehóva spyr okkur spurninganna sem við lesum í Jobsbók 38:33-38: „Þekkir þú lög himinsins eða ákveður þú yfirráð hans yfir jörðunni? Getur þú lyft raust þinni upp til skýsins, svo að vatnaflaumurinn hylji þig? Getur þú sent eldingarnar, svo að þær fari og segi við þig: ‚Hér erum vér!‘ Hver hefir lagt vísdóm í hin dimmu ský eða hver hefir gefið loftsjónunum vit? Hver telur skýin með visku, og vatnsbelgir himinsins — hver hellir úr þeim, þegar moldin rennur saman í kökk og hnausarnir loða hver við annan?“

11, 12. Nefndu dæmi sem sanna að Guð hefur unnið dásemdarverk.

11 Við höfum aðeins drepið á örfá af þeim atriðum sem Elíhú spurði Job um, og nefnt sumt af því sem Jehóva bað Job að svara „eins og maður.“ (Jobsbók 38:3) Við segjum „sumt“ vegna þess að Jehóva vakti athygli á mörgum öðrum þáttum sköpunarverksins í 38. og 39. kafla. Hann minnist til dæmis á stjörnumerki himinsins. Hver þekkir lög þeirra að fullu? (Jobsbók 38:31-33) Hann bendir Job á sum af dýrunum — ljónið og hrafninn, steingeitina og skógarasnann, vísundinn og strútinn og síðan hestinn og örninn. Í rauninni er Guð að spyrja hvort Job hafi gefið þessum ólíku dýrum eðliseinkenni þeirra svo að þau lifi og dafni. Þú hefðir gaman af því að sökkva þér niður í þessa kafla, ekki síst ef þú ert hrifinn af hestum eða öðrum dýrum. — Sálmur 50:10, 11.

12 Þú gætir líka rýnt í kafla 40 og 41 þar sem Jehóva biður Job aftur að svara spurningum um tvær ákveðnar skepnur. Hér mun vera átt við flóðhestinn (kallaður nykur), sem er bæði óhemjustór og sterkur, og hinn ægilega Nílarkrókódíl. Bæði eru undraverð og áhugaverð sköpunarverk. En við skulum nú athuga að hvaða niðurstöðu við ættum að komast.

13. Hvaða áhrif höfðu spurningar Guðs á Job og hvaða áhrif ætti þetta að hafa á okkur?

13 Fertugasti og annar kafli Jobsbókar lýsir þeim áhrifum sem spurningar Guðs höfðu á Job. Job hafði hugsað of mikið um sjálfan sig og aðra. En hann tók við þeirri leiðréttingu, sem fólst í spurningum Guðs, og bætti ráð sitt. „Ég veit, að þú [Jehóva] megnar allt,“ viðurkennir hann, „og engu ráði þínu verður varnað fram að ganga. ‚Hver er sá, sem myrkvar ráðsályktun Guðs í hyggjuleysi?‘ Fyrir því hefi ég talað án þess að skilja, um hluti, sem mér voru of undursamlegir og ég þekkti eigi.“ (Jobsbók 42:2, 3) Eftir að Job hafði gefið gaum að dásemdarverkum Guðs sagði hann að þau væru of undursamleg fyrir sig. Þau sköpunarundur, sem við höfum drepið á, ættu ekki síður að vekja athygli okkar á visku Guðs og mætti. En til hvers? Aðeins til þess að við getum dáðst að ógurlegum mætti hans og visku? Eða ættu áhrifin að vera önnur og meiri?

14. Hvað fannst Davíð um dásemdarverk Guðs?

14 Davíð tjáir sig um þetta í Sálmi 86, en í 19. sálminum segir hann: „Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa. Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.“ (Sálmur 19:2, 3) En Davíð gengur skrefi lengra. Við lesum í Sálmi 86:10, 11: „Þú ert mikill og gjörir furðuverk, þú einn, ó Guð! Vísa mér veg þinn, [Jehóva], lát mig ganga í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.“ Aðdáun Davíðs á skapara allra þessara furðuverka var lotningar- og óttablandin. Ástæðan er augljós. Davíð vildi ekki misþóknast þeim Guði sem gat unnið öll þessi dásemdarverk. Við ættum ekki að vilja það heldur.

15. Af hverju var viðeigandi fyrir Davíð að bera óttablandna lotningu fyrir Guði?

15 Davíð hlýtur að hafa gert sér grein fyrir því að Guð ræður yfir ógnarafli sem hann getur stjórnað og beint gegn hverjum þeim sem verðskuldar vanþóknun hans. Það veit ekki á gott fyrir þá. Guð spurði Job: „Hefir þú komið til forðabúrs snjávarins og séð forðabúr haglsins, sem ég hefi geymt til tíma neyðarinnar, til orustu- og ófriðardagsins?“ Það má svo að orði kveða að Guð geymi snjó, hagl, regn, storma og eldingar í vopnabúri sínu. Og krafturinn í þessum náttúruöflum er hreint ógurlegur! — Jobsbók 38:22, 23.

16, 17. Lýstu ógnarmætti Guðs með dæmi. Hvernig beitti hann slíkum mætti forðum daga?

16 Sennilega manstu vel eftir einhverjum náttúruhamförum af völdum storma, regns eða snjávar. Tökum dæmi: Snemma árs 2000 gekk stormur yfir suðvesturhluta Evrópu. Hann kom jafnvel veðurfræðingum í opna skjöldu. Vindhraðinn fór upp í 200 kílómetra á klukkustund (55 metra á sekúndu), þök rifnuðu af húsum í þúsundatali, háspennumöstur brotnuðu og flutningabílar fuku. Reyndu að sjá þetta fyrir þér: Stormurinn reif upp eða kubbaði sundur um 270 milljónir trjáa, þar af 10.000 í garðinum við Versali rétt utan við París. Milljónir heimila voru án rafmagns. Næstum 100 manns fórust. Og allt gerðist þetta í einu, stuttu ofviðri. Hvílíkt afl!

17 Segja má að stormar séu stjórnlaus náttúrufyrirbæri. En ímyndum okkur hvað gæti gerst ef hinn almáttugi ynni það máttarverk að beita náttúruöflunum markvisst. Hann gerði það á dögum Abrahams sem komst að raun um að dómari alls jarðríkis hafði lagt mat á illsku borganna Sódómu og Gómorru. Svo spilltar voru þær að hrópið yfir þeim steig upp til Guðs, og hann bjó svo um hnútana að allir réttlátir menn gætu flúið hinar dæmdu borgir. Frásagan segir að Jehóva hafi ‚látið rigna brennisteini og eldi af himni‘ yfir þær. Þetta var máttarverk þar sem réttlátir björguðust og þeir fórust sem voru svo illir að þeir áttu sér ekki viðreisnar von. — 1. Mósebók 19:24.

18. Hvaða furðuverk er bent á í 25. kafla Jesajabókar?

18 Síðar felldi Guð dóm yfir borginni Babýlon, en hugsanlegt er að átt sé við hana í 25. kafla Jesajabókar. Guð boðaði að borg yrði að óbyggilegri auðn: „Þú hefir gjört bæi að grjóthrúgu, víggirtar borgir að hruninni rúst. Hallir óvinanna eru eigi framar bæir, þær skulu aldrei verða reistar aftur.“ (Jesaja 25:2) Þeir sem sækja rústir Babýlonar heim geta staðfest að þetta rættist. Var það aðeins söguleg tilviljun að Babýlon var eytt? Nei. Við getum fallist á mat Jesaja á málinu: „[Jehóva], þú ert minn Guð! Ég vil vegsama þig, lofa nafn þitt! Þú hefir framkvæmt furðuverk, löngu ráðin ráð, trúfesti og sannleika.“ — Jesaja 25:1.

Dásemdarverk framtíðarinnar

19, 20. Hvernig á Jesaja 25:6-8 að uppfyllast?

19 Guð uppfyllti þennan spádóm forðum daga og á eftir að vinna dásemdarverk í framtíðinni. Jesaja talar um „furðuverk“ hans, og rétt á eftir finnum við áreiðanlegan spádóm sem á eftir að rætast líkt og spádómurinn um Babýlon. Hvaða ‚furðuverki‘ er heitið þarna? Jesaja 25:6 segir: „[Jehóva] allsherjar mun á þessu fjalli búa öllum þjóðum veislu með krásum, veislu með dreggjavíni, mergjuðum krásum og skírðu dreggjavíni.“

20 Þessi spádómur rætist örugglega í nýja heiminum sem Guð hefur heitið og er rétt framundan. Þá verður mannkynið leyst undan þeim vandamálum sem þjaka svo marga núna. Reyndar er því lofað í spádóminum í Jesaja 25:7, 8 að Guð beiti sköpunarmætti sínum til að vinna eitthvert mesta undraverk sögunnar: „Hann mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi [Jehóva] mun þerra tárin af hverri ásjónu, og svívirðu síns lýðs mun hann burt nema af allri jörðinni, því að [Jehóva] hefir talað það.“ Páll postuli vitnaði síðar í þessa ritningargrein og heimfærði hana á það að Guð reisi hina látnu upp frá dauðum. Hvílíkt dásemdarverk! — 1. Korintubréf 15:51-54.

21. Hvaða dásemdarverk mun Guð vinna í þágu hinna dánu?

21 Það er önnur ástæða fyrir því að sorgartárin hverfa og hún er sú að mennirnir verða læknaðir af líkamlegum meinum sínum. Jesús læknaði marga þegar hann var hér á jörð. Hann gaf blindum sjón, daufum heyrn og bækluðum þrótt. Jóhannes 5:5-9 segir frá því að hann læknaði mann sem hafði verið lamaður í 38 ár. Þeir sem til sáu kölluðu þetta mikið undur. Og það var það. En Jesús sagði þeim að upprisa dauðra yrði enn meira undraverk: „Undrist þetta ekki,“ sagði hann. „Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins.“ — Jóhannes 5:28, 29.

22. Hvernig geta fátækir og þjáðir horft fram veginn með von?

22 Þetta mun örugglega gerast af því að það er Jehóva sem lofar því. Þú mátt vera viss um að árangurinn verður stórkostlegur þegar hann beitir hinum mikla endurnýjunarmætti sínum. Sálmur 72 bendir á hvað hann muni gera fyrir atbeina sonar síns og konungs. Hinir réttlátu munu blómgast. Friðurinn verður yfirgnæfandi. Guð frelsar fátæka og þjáða. Hann lofar: „Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum, í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon [fortíðar], og menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu.“ — Sálmur 72:16.

23. Hvað ættu dásemdarverk Guðs að knýja okkur til að gera?

23 Ljóst er að við höfum ærið tilefni til að gefa gaum að öllum dásemdarverkum Jehóva — því sem hann gerði í fortíðinni, því sem hann er að gera núna og því sem hann mun gera í náinni framtíð. „Lofaður sé [Jehóva], Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk, og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.“ (Sálmur 72:18, 19) Þú ættir að ræða um þetta að staðaldri og af miklum áhuga við ættingja þína og aðra. Við skulum segja frá „dýrð hans meðal þjóðanna, frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða.“ — Sálmur 78:3, 4; 96:3, 4.

Hvert er svarið?

• Hvernig benda spurningarnar, sem lagðar voru fyrir Job, á takmörk mannlegrar þekkingar?

• Hvaða máttarverk Guðs þóttu þér sérstaklega áhugaverð í 37. til 41. kafla Jobsbókar?

• Hvernig er þér innanbrjósts eftir að hafa velt fyrir þér ýmsum af dásemdarverkum Guðs?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 10]

Hvaða ályktun dregurðu af stórkostlegri fjölbreytni snjókornanna og ógnarmætti eldinganna?

[Credit line]

snowcrystals.net

[Myndir á blaðsíðu 13]

Talaðu um dásemdarverk Guðs hvenær sem færi gefst.