Hugrakkir og ráðvandir í ofsóknum nasista
Standið stöðugir, fullkomnir og fullvissir
Hugrakkir og ráðvandir í ofsóknum nasista
„VERTU vitur, sonur minn, og gleð hjarta mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.“ (Orðskviðirnir 27:11) Þessi hlýlega hvatning bendir á það að viti bornar sköpunarverur Jehóva geta glatt hjarta hans með trúfesti sinni og hollustu. (Sefanía 3:17) En Satan, smánarinn, er ráðinn í að brjóta á bak aftur ráðvendni þeirra sem þjóna Jehóva. — Jobsbók 1:9-11.
Satan var úthýst af himnum snemma á 20. öld og umsvif hans takmörkuð við nágrenni jarðar. Síðan þá hefur hann barist gegn fólki Jehóva af sérstaklega mikilli heift. (Opinberunarbókin 12:10, 12) Sannkristnir menn hafa engu að síður reynst „stöðugir, fullkomnir og fullvissir“ og verið ráðvandir Guði. (Kólossubréfið 4:12) Við skulum líta stuttlega á einstakt dæmi um slíka ráðvendni — votta Jehóva í Þýskalandi fyrir og í síðari heimsstyrjöldinni.
Ötult starf vottanna varð kveikja ofsókna
Vottar Jehóva voru kallaðir Bibelforscher eða Biblíunemendur í Þýskalandi á þeim tíma. Á þriðja og fjórða áratugnum dreifðu þeir miklu af biblíufræðsluritum meðal almennings. Á árabilinu 1919 til 1933 skildu þeir eftir að meðaltali átta bækur, bæklinga eða tímarit hjá hverri fjölskyldu í Þýskalandi.
Smurðir fylgjendur Krists voru óvíða fjölmennari en í Þýskalandi. Árið 1933 tók alls 83.941 þátt í kvöldmáltíð Drottins í heiminum. Þar af bjó næstum þriðjungur í Þýskalandi. En átakanlegar prófraunir biðu þýsku vottanna. (Opinberunarbókin 12:17; 14:12) Fyrst voru þeir reknir úr vinnu og skóla og gerð skyndileit á heimilum þeirra, en svo tóku við misþyrmingar, handtökur og fangelsisvist. (1. mynd) Á árunum fyrir síðari heimsstyrjöldina voru vottar Jehóva 5 til 10 prósent allra fanga í fangabúðunum.
Ástæðan fyrir ofsóknum nasista á hendur vottunum
En af hverju réðst nasistastjórnin á votta Jehóva af slíkum ofsa og grimmd? Ian Kershaw, prófessor í sagnfræði, segir í bókinni Hitler — 1889-1936: Hubris, að vottarnir hafi verið ofsóttir vegna þess að þeir neituðu að „láta undan kröfu nasistaríkisins um algera hollustu.“
Bókin Betrayal — German Churches and the Holocaust, í ritstjórn Roberts P. Ericksens, prófessors í sagnfræði, og Susannah Heschel, prófessors í gyðingafræðum, bendir á að vottarnir hafi „neitað að taka þátt í ofbeldi og beitingu
hervalds. . . . Vottarnir trúðu á hlutleysi í stjórnmálum sem þýddi að þeir vildu hvorki greiða Hitler atkvæði sitt né heilsa með hitlerskveðju.“ Í bókinni er bent á að með þessu hafi vottarnir kallað yfir sig reiði nasista og sett sig í bráða hættu því að „þjóðernissósíalisminn umbar ekki slíka neitun.“Mótmæli úr öllum áttum og allsherjarárás
Joseph F. Rutherford var í forystusveit votta Jehóva á þeim tíma og hinn 9. febrúar 1934 gerði hann út sérstakan sendiboða með mótælabréf gegn umburðarleysi nasista. (2. mynd) Vottar Jehóva í 50 löndum, þar á meðal Þýskalandi, sendu Hitler um 20.000 bréf og símskeyti hinn 7. október 1934 og mótmæltu meðferð hans á vottunum.
Viðbrögð nasista voru þau að herða ofsóknirnar. Hinn 1. apríl 1935 var lagt allsherjarbann við starfi vottanna í Þýskalandi. Og 28. ágúst 1936 gerði Gestapó öflugt átak í von um að uppræta þá. En vottarnir „héldu áfram að dreifa bæklingum og viðhalda trú sinni á annan hátt,“ að sögn bókarinnar Betrayal — German Churches and the Holocaust.
Svo dæmi sé tekið dreifðu vottarnir yfirlýsingu um hina hrottalegu meðferð, sem þeir sættu, fyrir framan nefið á Gestapó hinn 12. desember 1936. Um 3500 vottar tóku þátt í dreifingunni og upplag yfirlýsingarinnar skipti tugum þúsunda eintaka. Varðturninn sagði um þetta átak: „Þetta var mikill sigur sem var eins og hnífsstunga fyrir óvininn og gladdi trúa verkamenn Guðs ólýsanlega.“ — Rómverjabréfið 9:17.
Vottarnir standast ofsóknirnar
Nasistar héldu áfram leit sinni að vottum Jehóva. Árið 1939 höfðu sex þúsund vottar verið fangelsaðir og þúsundir höfðu verið sendar í fangabúðir. (3. mynd) Hvernig var staðan í lok síðari heimsstyrjaldar? Af þeim vottum, sem hnepptir voru í fangelsi eða fangabúðir, dóu um 2000. Þar af voru rúmlega 250 teknir af lífi. En Ericksen og Heschel skrifa að „vottar Jehóva hafi að langmestu leyti varðveitt trúna þrátt fyrir erfiðleikana.“ Þegar hitlersstjórnin féll komu rúmlega þúsund vottar úr fangabúðunum, vitandi að þeir höfðu sigrað. — 4. mynd; Postulasagan 5:38, 39; Rómverjabréfið 8:35-37.
Hvaðan kom þjónum Jehóva styrkur til að standast ofsóknirnar? Adolphe Arnold, sem komst lifandi úr fangabúðunum, segir: „Jehóva sér mann jafnvel þegar mátturinn er minnstur, hann veit hvað maður er að ganga í gegnum og hann gefur manni þann styrk sem þarf til að halda út og vera trúfastur. Hönd hans hefur ekki reynst stutt.“
Orð spámannsins Sefanía eiga vel við þessa trúföstu kristnu menn. Hann sagði: „[Jehóva], Guð þinn, er hjá þér, hetjan er sigur veitir. Hann kætist yfir þér með fögnuði, hann þegir í kærleika sínum, hann fagnar yfir þér með gleðisöng.“ (Sefanía 3:17) Megi allir þeir sem tilbiðja hinn sanna Guð núna líkja eftir dyggum vottum hans sem voru ráðvandir í ofsóknum nasista, og megi þeir gleðja hjarta hans á sama hátt. — Filippíbréfið 1:12-14.
[Mynd credit line á blaðsíðu 30]
Państwowe Muzeum Oświȩcim-Brzezinka, með góðfúslegu leyfi USHMM Photo Archives.